11.5.2013

Unnið úr kosningaúrslitum - ítala í Almenninga

Úrslit þingkosninga - stjórnarmyndun

Þingkosningarnar 27. apríl fóru eins og við var að búast, stjórnarflokkarnir guldu afhroð, töpuðum tæpum 28% atkvæða í kosningum (Samfylking 16,9% og VG 10,8%) og 18 þingmönnum (Samfylking 11 og VG 7). Jóhanna Sigurðardóttir, fráfarandi forsætisráðherra, sagðist ekkert botna í þessu en Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG á kjörtímabilinu, talaði um varnarsigur VG. Með orðum sínum vitnaði Steingrímur J. til þess að um sama leyti og hann sá sér þann kost vænstan að láta af flokksformennsku ræddu menn að kannski færi VG niður fyrir 5% mörkin, ættu engan mann á nýju þingi, þeir fá þó 7 (10,9% atkv.) og Samfylkingin 9 (12,9% atkv.).

Þetta er ótrúleg sveifla í fylgi frá stjórnarflokkum eftir fjögurra ára valdaferil. Hún ber þess merki að einhvers staðar á leiðinni hafi samband stjórnarherranna við umhverfi sitt rofnað, þeir hafi látið stjórnast af þrá eftir völdum frekar en raunsæju mati á eigin stöðu og umboði. Það kvarnaðist úr þingflokki VG á vegferðinni, einkum vegna hollustu flokksforystunnar við ESB-umsóknina. Í ágúst 2012 ætluðu þeir þingmenn sem eftir sátu í flokknum að breyta um stefnu og gagnrýna ESB-ferlið en Steingrímur J. ljáði ekki máls á neinum slíkum undanslætti.

Hér skal því haldið fram að gagnrýni meðal ýmissa þingmanna VG á ESB-aðlögunina hafi orðið til þess að flokkurinn stóð betur að vígi gagnvart kjósendum en Samfylkingin. Að tapa um 17% atkvæða í kosningum er kollrak eða „hamfarir“ eins og Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra og arkitekt ósigursins, orðaði það um miðnætti á kosninganóttinni.

Meginskilin milli Samfylkingar og annarra flokka er að finna í afstöðunni til Evrópusambandsins. Flokkurinn hefur boðað ESB-aðild sem upphaf alls þess sem Íslendingar þarfnist til að ná sér á strik efnahagslega. Hann hefur einnig talið að eina leiðin til að losna við gjaldeyrishöftin sé að gerast aðili að ESB.

Falli eitthvað eitt mál dautt til jarðar með hruni Samfylkingarinnar er það ESB-aðlögunarmálið. Ný ríkisstjórn þarf sem allra fyrst að losna við það lík úr lestinni og snúa sér að raunhæfari viðfangsefnum til bjargar land og þjóð.

Á landsvísu bætti Framsóknarflokkurinn við sig 9,6%, Sjálfstæðisflokkur bætti við sig 3%, 

Nýju flokkarnir tveir, Björt framtíð og Píratar fengu samtals 13,3%, sá fyrrnefndi 8,2% og sá síðarnefndi 5,1%.

Sjálfstæðisflokkur er stærsti flokkur landsins, fékk 26,7% atkvæða og 19 þingmenn. Framsóknarflokkurinn er næst stærstur með 24,4% og 19 þingmenn. Samfylkingin fékk 12,9% atkvæða og níu þingmenn, VG með 10,8% og sjö þingsæti, Björt framtíð 8,4% sex þingmenn og Píratar fengu 5,1% og þrjá þingmenn.

Allir stjórnarandstæðingar hljóta að fagna þessari niðurstöðu. Útreið ríkisstjórnarinnar er hrikaleg, öll fyrirstaða í hennar þágu brast. Hún er hin eina og sanna hrunstjórn Íslandssögunnar.

Í kortunum er að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur myndi ríkisstjórn. Ég taldi strax eftir kosningar að formenn flokkanna ættu að tilkynna forseta Íslands áform sín um stjórnarsamstarf strax mánudaginn 29. apríl. Þeir gerðu það ekki en 30. apríl fékk Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, umboð til myndunar ríkisstjórnar. Þeir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafa rætt saman í um það bil viku. Það ætti að fara að draga til tíðinda. Hvorugur flokksformannanna getur glutrað niður tækifærinu til að sýna að þeir geti gert betur en Jóhanna og Steingrímur J.

Í fréttum ríkisútvarpsins í dag (11. maí) var sagt frá ræðu Bjarna Benediktssonar þar sem hann taldi að niðurstaða lægi fyrir eftir nokkra sólarhringa í viðræðum hans við Sigmund Davíð. Bjarni taldi að gera ætti breytingar á skipan ráðuneyta, skipta velferðarráðuneytinu, breyta umfangi innanríkisráðuneytis og einnig innan atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis.  Þetta eru skref í rétta átt frá skemmdarverkinu sem Jóhanna Sigurðardóttir hefur unnið innan stjórnarráðsins.

Skógræktinni ber að girða Þórsmörk

Í ágúst 2012 sagði ég hér í pistli frá deilum vegna fjárbeitar í Almenningum.  Afréttareigendur á Almenningum, bændur undir Eyjafjöllum, höfðu með leyfi sveitarstjórnar Rangárþings eystra ákveðið að nýta Almenninga til beitar fyrir takmarkaðan fjölda fjár miðað við beitarþol. Þá brá svo við að Landgræðsla ríkisins og Skógrækt ríkisins snerust gegn rétti bænda og látið var í veðri vaka að ráðstöfun þeirra ógnaði sjálfri Þórsmörk.

Sveitarstjórnin hafði sett það skilyrði fyrir leyfi sínu að um ítölu yrði að ræða, það er að fjöldi fjár á beitarlandinu yrði takmarkaður við gróðurþol.  Ítölunefnd skilaði áliti í mars 2013, hún klofnaði í afstöðu sinni. Tveir af þremur nefndarmönnum vildu heimila takmarkaða sumarbeit á Almenningum. Þangað mætti flytja í upphafi 50 tvílembur með lömbum sínum eða alls 150 kindur, síðan fjölga þeim  í 130 tvílembur eftir átta ár. Fulltrúi Landgræðslu ríkisins varð undir í nefndinni. Lagði hann til að engin beit yrði leyfð.

Í Morgunblaðinu í dag, 11. maí, er sagt frá ákvörðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis um að skipa yfirítölunefnd.  Hefur slík nefnd aldrei fyrr verið skipuð. Að hún komi nú fyrst til sögunnar sýnir hver hörð þessi deila er. Í frétt Morgunblaðsins segir:

„Sex aðilar kröfðust yfirítölumats eins og heimilt er að láta gera en ekki hefur reynt á fyrr. Þar á meðal voru þrjár opinberar stofnanir, Landgræðslan, Skógræktin og Landbúnaðarháskólinn, auk einstaklinga og náttúruverndarsamtaka. Afréttarfélagið mótmælti því að þeir ættu aðild að málinu. Í úrskurði sínum túlkaði ráðuneytið stjórnsýslulög þannig að þeir einir gætu átt aðild að máli sem hefðu einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta auk þess sem stjórnvöld hefðu almennt ekki heimild til að kæra ákvarðanir annarra stjórnvalda til æðra stjórnvalds.

Því var kröfum annarra en Skógræktar ríkisins ýtt út af borðinu. Byggist aðkoma Skógræktarinnar, samkvæmt úrskurði ráðuneytisins, eingöngu á því að hún hefur umráð yfir Þórsmörk og gat fært rök fyrir því að ágangur fjár frá Almenningum muni valda ánauð og skaða í Þórsmörk. Nauðsynlegt sé því að leggja í kostnað við girðingu á milli afréttanna. Skógræktin telur að slík girðing muni kosta að minnsta kosti 10 milljónir og 2 milljónir þyrfti árlega til að halda henni við og smala Þórsmörk þar sem ekki verði hægt að koma fyrir fjárheldri girðingu vegna erfiðra aðstæðna.“

 

Ég staldraði við málsástæður skógræktarinnar. Hún á ekki Þórsmörk en er talin hafa sérstakra hagsmuna að gæta af því að hún þurfi að girða verði fé beitt í Almenningum.

Í forsendum hæstaréttar í þjóðlendudómi nr. 22/2007 segir meðal annars:

 „Samkvæmt fjallskilareglugerð fyrir Rangárvallasýslu nr. 58/1894 hafði hreppsnefnd Fljótshlíðarhrepps meðal annars umsjón með fjallskilum, réttahöldum og grenjaleitum á Þórsmörk, en samkvæmt fjallskilareglugerð nr. 72/1921 féllu þessi verk í hlut hreppsnefnda Fljótshlíðarhrepps og Vestur-Eyjafjallahrepps. Í gerðabók fasteignamatsnefndar frá 1916 sagði að allar jarðir í Fljótshlíð að undanskildum Breiðabólstaðarjörðum og Austur-Torfastöðum ættu „skógarítak á Þórsmörk, 1 hest á ári fyrir hver 5 hundr. forn, og einnar kindar beit eftir sömu reglu. Þetta er hálf beit á Þórsmörk. Hinn helmingur beitarinnar tilheyrir Oddaprestakalli og er hann nú leigður Inn-Hlíðarmönnum (Fljótsdalur – Hlíðarendi).“ Árið 1920 lýstu landeigendur og ábúendur jarða í Fljótshlíð því yfir að þeir vildu gefa eftir beitarréttinn í Þórsmörk gegn því að landstjórnin girti skóginn þar með fjárheldri girðingu og séð yrði um smölun að hausti. Sóknarpresturinn í Odda féllst á þetta sem „umráðamaður hálfrar Þórsmerkur er liggur undir Oddakirkju, að því er beit snertir“. Samningur var gerður á milli landeigenda og Skógræktar ríkisins 1927 um að hún tæki að sér friðun og umsjón svæðisins, en þar var gert ráð fyrir að bændur eða eigendur jarða misstu með þessu rétt til annarra landnytja á svæðinu en skógarhöggs. Þá er þess að geta að í málinu liggja fyrir lýsingar frá 1953 á skógarítökum kirknanna á Eyvindarhólum, Ásólfsskála, Stóra-Dal og Breiðabólstað í Þórsmörk.“

Þarna fer ekkert á milli mála. Skógrækt ríkisins fékk afnot af Þórsmörk með því skilyrði að hún tæki að sér friðun og umsjón svæðisins.  Almenningar eru ekki hluti Þórsmerkur heldur afréttarland bænda undir Eyjafjöllum eins og hæstiréttur staðfesti í dómi um þjóðlendumál árið 2007.

Í samningi Fljótshlíðinga við Skógrækt ríkisins var lögð sú skylda á hana að girða af Þórsmörkina til varnar ágangi búfjár.  Skógræktin ákvað einhliða árið 1990 að taka niður girðinguna og skildi hún „við upprúllaðar girðingar og girðingarleifar í hirðuleysi inn í Þórsmörk og er svo enn eftir rúm 20 ár,“ sagði í yfirlýsingu stjórnar afréttareigenda á Almenningum í ágúst 2012.

Í grein sem Hákon Bjarnason skógræktarstjóri ritaði í Morgunblaðið 17. ágúst 1934 sagði hann að girðingin sem sett hafi verið upp í Þórsmörk 1928 eða 1929 hafi sætt gagnrýni af ýmsum sem töldu hana vitleysu. Hákon segir:

„Einkanlega töldu sumir bændur þetta óráð, enda mistu þeir margir mikið og gott land sem töluvert mátti beita að vetrarlagi. Og einstaka menn líta girðinguna þar óhýru auga enn í dag. En það gat ekki dulist neinum, sem fór um Mörkina, áður en útigangur hætti þar, að henni var mikil hætta búin af uppblæstri. Þess hefði ekki verið langt að bíða að þessi einkennilegi og fagri staður bljesi allur upp og þar hefði orðið auðn ein eftir eins og á Almenningi sem liggur fast að Þórsmörk, en hinum megin Þröngár. Á Almenningi má sjá leifar af bæ Steinfinns landnámsmanns og 3 fornmannadysjar, sem komið hafa fram við uppblástur síðustu ára. En Almenningur og löndin þar upp af eru afrjett Fjallamanna og því er farið svo fyrir þeim eins og raun er á orðin.

Þótt útigangur sje nú horfinn af Þórsmörk er þó altaf töluverð sumarbeit þar sakir þess að ýmsu hættir til þess að skilja hliðin eftir opin og þess eru dæmi að smalar hafi rifið girðinguna á löngu svæði, svo að fje eigi hægar með að rása inn á Mörkina. Slíkur óþokkaskapur er refsiverður, en það er þó ekki með lagavöndum sem græða á sár landsins og vernda skógana og jeg býst við, að hvorki þessir smalar nje aðrir menn vildu verða til þess að auka beitina á Þórsmörk ef augu þeirra upp lykjust fyrir öllu því gróanda lífi, sem þar hefir vaxið upp síðan útigangurinn hætti. Haldist friðunin á Þórsmörk er enginn vafi á, að Mörkin grær upp á fáum árum og síðar eiga Fagriskógur og aðrar skóglausar brekkur undir Eyjafjallajökli eftir að skrýðast skógi að nýju.“

Þessi orð féllu árið 1934. Hinn mikli munur nú og á þeim tíma sem Hákon Bjarnason ritaði grein sína er sá að Skógrækt ríkisins hefur ekki haldið við girðingunni til verndar Þórsmörk. Nú telur ráðuneyti það skapa Skógrækt ríkisins rétt til að kæra niðurstöðu ítölunefndar til yfirítölunefndar að komi til beitar í Almenningum þurfi skógræktin að sjá til þess að Þórsmörk sé girt.  Er ekki eitthvað bogið við hina opinberu röksemdafærslu?