28.1.2013

Fólkið tók völdin – EFTA-dómarar sýknuðu Íslendinga



Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) sendi ríkisstjórn Íslands 26. maí 2010 og skyldi svara því innan tveggja mánaða. Ríkisstjórnin fékk sex nýjan vikna frest. Henni bar því að svara í byrjun september 2010. Málið var á þessum tíma í höndum Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra.

Þegar málið var á þessu stigi komu fram sjónarmið  Evrópuvaktinni um að í stað þess að svara ESA efnislega ætti ríkisstjórnin að krefjast þess að ESA félli frá málinu, stofnunin væri ófær um að fjalla um málið. Per Sanderud, þáv. forseti ESA, hefði gert hana vanhæfa með glannalegum yfirlýsingum sínum, þegar fagnað var 50 ára afmæli EFTA á fundi hér á landi sumarið 2010. Hann hótaði þá málsókn fyrir EFTA-dómstólnum og gaf til kynna að ESA sigraði alltaf þegar það færi með mál fyrir dómstólinn.

Jafna má ESA við dómstól, einskonar undirrétt EFTA-dómstólsins. Gæfi forseti undirréttar opinberar yfirlýsingar við meðferð máls þess efnis, að málsaðili skyldi bara prófa að skjóta málinu síðar til æðri réttar, hann myndi örugglega tapa því, þætti ekki öflug hagsmuna- eða réttindagæsla að sætta sig þegjandi við slíka stöðu. Það gerði ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Hún andmælti ekki hótunum Sanderuds.

Þáverandi ESA-forseti stakk upp í Össur Skarphéðinsson á EFTA-afmælinu með því að líkja málflutningi hans við lítið eldgos. Össur sagði á blaðamannafundi í Brussel, að málið væri ekki á sinni könnu heldur fjármálaráðherrans. Þetta var á sama blaðamannafundi og hlegið var að Össuri fyrir ofurtrú hans á evrunni. Össur gekk ekki af hörku gegn Sanderud í höfuðstöðvum ESB í Brussel af því að hann vissi að framkvæmdastjórn ESB var sömu skoðunar og ESA. Þessar tvær stofnanir starfa náið saman. ESA hefði aldrei gengið fram í Icesave málinu á þann hátt sem stofnunin hefur gert án samráðs við framkvæmdastjórn ESB.

Eftir að ESA birti áminningarbréf sitt 26. maí 2010 skutu allar stofnanir Evrópusambandsins sér á bakvið það við ákvarðanir um aðildarumsókn Íslands. Þetta gerðu lykilstofnanir sambandsins: leiðtogaráðið, utanríkisráðherraráðið, ESB-þingið og framkvæmdastjórn ESB. Hvarvetna var lýst stuðningi við lögfræðilega niðurstöðu ESA um innlánsábyrgðarskyldu allra Íslendinga vegna sparifjáreigenda í Bretlandi og Hollandi. Leysa yrði málið með því að Íslendingar semdu við Breta og Hollendinga um skuldina, áður en efnislegar aðildarviðræður hefjist. Utanríkisráðherrann leiddi ESB-viðræðurnar þá eins og hann gerir enn í dag. Hann sagði þó blákalt á blaðamannafundi í Brussel, að Icesave-málið væri ekki á sinni könnu. Í ESB-viðræðuafstöðu Íslands er ekki minnst einu orði á Icesave-málið.

Hér á þessum stað var sagt að áminningarbréf ESA hefði þann eina kost, að nú væri tekist á um lögfræðilega hlið Icesave-málsins. Tilefnið bæri að nýta til þrautar.

ESA og ESB hengdu hatt sinn á, að ágalli hefði verið á innleiðingu tilskipunar ESB um innlánstryggingar hér á landi. Þegar nánar var um þetta spurt, mátti helst skilja framkvæmdastjórn ESB á þann veg, að ágallinn væri sá, að bankakerfið hefði orðið stærra en innlánstryggingakerfið.

Þessi röksemdarfærsla ESA og ESB hlaut ekki náð fyrir EFTA-dómstólnum. Íslendingar stóðu rétt að innleiðingu og framkvæmd EES-reglanna á því sem um var deilt.

Dómarar þar telja sig eiga hlut að mótun Evrópuréttar ekki síður en ESB-dómstóllinn. Oft er gefið til kynna að dómarar við evrópsku dómstólana í Luxemborg, EFTA-dómstólinn og ESB-dómstólinn, taki ríkt tillit hver til annars. Ef EFTA-dómararnir hefðu talið ríkjum og skattgreiðendum þeirra skylt að ábyrgjast allar innistæður í bönkum hefði það getað velt stóru hlassi. Hver áhrif sýknunnar á þróun EES/ESB-réttar verða.

ESB-ríkin og sérstaklega evru-ríkin hafa keppst við að skera á tengsl milli ríkissjóða einstakra ríkja og bankakerfa. Skuldir spænska ríkisins fóru upp fyrir öll mörk þegar það varð að fjámagna banka á barmi gjaldþrots. Eftir það ruku menn upp til handa á fóta á evru-svæðinu til að setja fleyg á milli ríkisábyrgðar og einkabankastarfsemi. Nú er stefnt að sérstöku bankasambandi undir eftirliti á vegum Seðlabanka Evrópu.l

Spyrja má hvort EFTA-dómstóllin hafi komist að niðurstöðu sem sýnir að þetta óðagot til breytinga á regluverkinu innan evru-svæðisins og ESB sé óþarft, skattgreiðendum beri engin skylda til að axla skuldir gjaldþrota banka.

Óttinn við ESA og EFTA-dómstólinn

Þegar við blasti í upphafi árs 2010 að Icesave-samningum frá árinu 2009 yrði hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu leitaði Steingrímur J. samstarfs við stjórnarandstöðuna. Allir flokkar skipuðu þá menn í samninganefnd um Icesave-málið við Breta og Hollendinga og náðist samkomulag á fundi í London 8. desember 2010 um samkomulag sem kallað er Icesave III eða er kennt við formann íslensku viðræðunefndarinnar Lee Buchheit, lögmann í New York.

Í skjóli þess að frá ársbyrjun 2010 hefði verið leitað nýrra leiða til að semja við Hollendinga og Breta lét Steingrímur J. Sigfússon undir höfuð leggjast að svara áminningarbréfi ESA frá 26. maí 2010. Hann taldi að samningar mundu gera áminningarbréfið marklaust enda bæri fremur að líta á það sem svipu en raunverulega hótun um aðgerðir.

Steingrímur J. lagði fram frumvarp til staðfestingar á Icesave III 16. desember 2010 og sagði þá í þingræðu að talið væri að kostnaður sem félli á ríkissjóð vegna samkomulagsins yrði innan við 50 milljarðar kr., þ.e. rúm 3% af landsframleiðslu. Þessi niðurstaða fæli í sér að eingöngu vaxtakostnaður félli á ríkissjóð. Miðað við þáv. forsendur um heimtur eigna þrotabúsins hefði kostnaður við fyrri samning, metinn á sama hátt, numið um 180 milljörðum kr. eða um 162 milljörðum kr. að teknu tilliti til eigna tryggingarsjóðsins, sagði Steingrímur J. í þinginu en hann bar pólitíska ábyrgð á fyrri samningnum eins og hinum síðari.

Steingrímur J. rökstuddi 16. desember 2010 nauðsyn þess að gera samning með þeim orðum að miklu skipti að losna undan áminningu ESA og hugsanlegri stefnu fyrir EFTA-dómstólinn. Hann sagði á alþingi:

„Ef samningar takast ekki um lausn málsins má búast við að það mál [áminningarmálið] haldi áfram með útgáfu rökstudds álits og eftir atvikum málshöfðun fyrir EFTA-dómstólnum, en búast má við að málarekstur þar gæti tekið a.m.k. ár.

Ef niðurstaða ESA yrði staðfest þar er ljóst að samningsstaða Íslands yrði alvarlega löskuð. Áfellisdómur EFTA-dómstólsins hefði ekki aðeins alvarlegar lagalegar og pólitískar afleiðingar fyrir Ísland, rekstur EES-samningsins og aðgang að mörkuðum í Evrópu. Með áfellisdómi væri einnig rutt úr vegi einni mikilvægustu ástæðunni fyrir því að við höfum með nokkrum rétti getað haldið því fram í viðræðunum að lagaleg óvissa um greiðsluskyldu ætti að leiða til betri kjara fyrir okkur. Að henni frátalinni væri a.m.k. fátt sem virtist geta mælt með því að Bretar og Hollendingar ættu að semja við okkur á betri kjörum en samdist um í júní og október á síðasta ári.“

Þarna segir Steingrímur J. að betra sé að semja um allt að 50 milljarða krónu greiðslur til Hollendinga og Breta úr ríkissjóði vegna Icesave en að eiga yfir höfði sér málarekstur fyrir EFTA-dómstólnum. Hann óttast að málstaður Íslands verði undir hjá dómstólnum, ef til vill vegna hótana og stóryrða þáv. forseta ESA. Meginrök fjármálaráðherra fyrir samningi í desember 2010 voru að lagaleg óvissa um hvort Íslendingum bæri að fara að kröfum Hollendinga og Breta væri besta vopnið í viðræðum við fulltrúa þessara þjóða! Sú óvissa hefði lækkað vaxtakröfur úr 180 milljörðum króna í endurbættum Svavars-Icesave-samningi frá 2009 í 50 milljarða króna og ekki mætti fórna óvissunni með því að láta á hana reyna fyrir EFTA-dómstólnum.

Steingrímur J. sagði í þessari ræðu:

„Einhvern veginn mun því nú alltaf ljúka [Icesave-málinu] þannig að þetta mál fái niðurstöðu af Íslands hálfu, það þarf að gerast og ég held að það væri góð gjöf til þjóðarinnar ef við gætum í heimi stjórnmálanna sameinast um að klára þetta á þann hátt sem við teldum áhættuminnstan og hagstæðastan fyrir Ísland miðað við vandað mat á öllum okkar aðstæðum.“

Fjármálaráðherra taldi með öðrum orðum Icesave III samninginn fullnægja kröfum sínum um áhættuminnstu og hagstæðustu leiðina fyrir Ísland. Ólafur Ragnar Grímsson neitaði að rita undir lögin um Icesave III eins og fyrri samninga og fóru þau í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Til hennar var boðað 9. apríl 2011. Tveimur dögum fyrir atkvæðagreiðsluna, 7. apríl 2011, var efnt til fundar um Icesave-málið í Háskóla Íslands. Þar talaði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og sagði meðal annars:

„Menn verða að hafa kjark til að horfast í augu við þær efnahagslegu afleiðingar sem blasa við ef ekki tekst að ljúka Icesave deilunni með sátt nú um helgina. Lausn deilunnar skiptir samfélagið gríðarlega miklu máli.

Þá fyrst getur ríkissjóður sótt sér fjármögnun á erlendan vettvang. Þá fyrst getur Seðlabankinn vænst þess að gjaldeyrishöftum verði aflétt á eðlilegum hraða. Þá fyrst sjá menn fyrir endann á fjármögnun Búðarhálsvirkjunar og þær 80 milljarða framkvæmdir sem hanga á þeirri spýtu verða að veruleika.“

Þótt þjóðin hafi hafnað Icesave III hinn 9. apríl 2011 hefur Jóhanna státað sig af endurreisn og að tekist hafi að fjármagna ríkissjóð og meira að segja ráðast í Búðarhálsvirkjun. Þetta var einfaldlega allt ómerkilegur hræðsluáróður. Jóhanna og Samfylkingin hafa ríghaldið í gjaldeyrishöftin og segja nú að þau verði ekki unnt að afnema án aðildar að ESB. Það er álíka mikil innistæða fyrir því og hræðsluáróðrinum vegna Icesave. Í þessu sama ávarpi 7. apríl 2011 sagði Jóhanna:

„Lee Bucheit hefur sagt margt athyglisvert um Icesave málið enda þaulreyndur alþjóðlegur sérfræðingur í erfiðum samningamálum. Hann hefur sagt að ekki verði lengra komist við samningaborðið í þessu máli. Valið standi því um fyrirliggjandi samning eða dómsstólaleiðina sem gæti haft skelfilegar afleiðingar fyrir Ísland eins og hann orðaði það. Ef Lee Buchheit fengi að kjósa myndi hann segja Já. Ég er sammála Lee Bucheit í öllum þessum atriðum því JÁ er leiðin áfram.“

Því má velta fyrir sér hvað Lee Bucheit segi núna en Jóhanna Sigurðardóttir segist himinlifandi yfir að EFTA-dómstóllinn hafi fjallað um málið og sýknað Ísland!

Hinn 10. apríl 2011, daginn eftir að 60% þjóðarinnar sagði nein við Icesave III sendi ríkisstjórn Jóhönnu frá sér tilkynningu þar sem sagði:

„Að fenginni þessari niðurstöðu munu stjórnvöld svara áminningarbréfi frá Eftirlitstofnun EFTA frá 26. maí sl., að höfðu samráði við utanríkismálanefnd Alþingis. Af hálfu íslenskra stjórnvalda verður lögð áhersla á að meðferð málsins verði hraðað eins og kostur er þar sem óvissa um lyktir málsins er engum í hag.“

Stefna og málflutningur

Hinn 20. desember 2011 var utanríkisráðherra Íslands birt stefna Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) í samningsbrotamáli um ábyrgð á lágmarkstryggingu á Icesave-reikningunum. Samkvæmt starfsreglum EFTA-dómstólsins fengu stjórnvöld mánuði til að skila greinargerð í málinu, þ.e. til 20. febrúar 2012.

Hinn 10. janúar 2012 fól utanríkisráðherra að undangengnu samráði við utanríkismálanefnd Tim Ward QC til að vera aðalmálflytjandi fyrir EFTA-dómstólnum í Icesave-málinu. Hinn 31. janúar var kynnt teymi til starfa með Tim Ward:

• Kristján Andri Stefánsson sendiherra, utanríkisráðuneytinu

• Þóra M. Hjaltested skrifstofustjóri, efnahags- og viðskiptaráðuneytinu

• Jóhannes Karl Sveinsson hrl.

• Einar Karl Hallvarðsson hrl., ríkislögmaður

• Kristín Haraldsdóttir forstöðumaður Auðlindaréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík, fv. aðstoðarmaður dómara við EFTA-dómstólinn

• Reimar Pétursson hrl.

Teyminu var meðal annars tryggður aðgangur að eftirtöldum aðilum sem þekkja til málavaxta og eru tilbúnir til verka með stuttum fyrirvara:

• Dr. Miguel Poiares Maduro, prófessor við Flórens-háskóla, gestaprófessor við Yale-háskóla, fv. aðallögsögumaður við Evrópudómstólinn (advocate-general)

• Stefán Már Stefánsson prófessor emeritus, fv. varadómari við EFTA-dómstólinn

• Dóra Guðmundsdóttir fv. aðstoðarmaður dómara við EFTA-dómstólinn og fv. varadómari við EFTA-dómstólinn

Jafnframt var leitað til Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um að leggja til ýmsa útreikninga og tölfræðileg gögn og annaðist Sveinn Agnarsson forstöðumaður stofnunarinnar það fyrir hennar hönd.

Íslensk stjórnvöld sendu greinargerð sína til EFTA-dómstólsins 9. mars 2012. Um miðjan apríl 2012 gerðist framkvæmdastjórn ESB aðili að málinu gegn Íslandi við hlið ESA með svonefndri meðalgöngu.

Hinn 15. maí 2012 rann út frestur til að skila skriflegum athugasemdum til EFTA-dómstólsins í Icesave-málinu. Fjögur ríki skiluðu athugasemdum til EFTA-dómstólsins: Bretland, Holland, Liechtenstein og Noregur. Noregur og Liechtenstein tóku undir sjónarmið Íslands um að ríkisábyrgð á innstæðutryggingum yrði ekki byggð á tilskipun um innstæðutryggingar án þess að það kæmi skýrt fram í tilskipuninni sjálfri.

Bretland og Holland töldu hins vegar, eins og Eftirlitsstofnun EFTA, að stjórnvöldum bæri samkvæmt tilskipuninnni að sjá til þess að innstæðutryggingakerfin skiluðu þeim árangri sem að væri stefnt. Jafnframt töldu þau að málsástæður Íslands um óviðráðanlegar aðstæður hér í kjölfar bankahrunsins eigi ekki við.

Enginn umsagnaraðila vék að málsástæðum Eftirlitsstofnunar EFTA um meinta mismunun innstæðueigenda.

Hinn 24. maí 2012 var tilkynnt að munnlegur málflutningur í málinu gegn Íslandi yrði fyrir EFTA-dómstólnum í Luxemborg hinn 18. september 2012 og gekk það eftir. Dómur var síðan felldur 28. janúar 2013 og Ísland sýknað af öllum kröfum ESA og var stofnunin dæmd til að greiða málskostnað sem túlkað var á þann veg af hálfu Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra og Steingríms J. Sigfússonar, atvinnu- og nýsköpunarráðherra, að sannaði enn frekar hve góðan málstað Ísland hefði haft að verja.

Ekki leita að sökudólgum

Í apríl 2010 tveimur dögum fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu sagði Jóhanna Sigurðardóttir að höfnun á Icesave III og svonefnd dómstólaleið gæti haft „skelfilegar afleiðingar“ fyrir Ísland. Hún sagði við fréttamenn í hádegi mánudags 28. janúar 2013 að hún hefði alltaf verið „mjög trúuð á málstað Íslands“.

Hvernig þetta kemur heim og saman er vandséð. Rökin sem ráðherrar í ríkisstjórn Jóhönnu notuðu gegn því að tekist yrði á við ESA frammi fyrir EFTA-dómstólnum voru mörg og fjölbreytileg. Að lokum neyddist ríkisstjórnin til að svara áminningarbréfi ESA og stíga þar með skrefið inn í EFTA-dómstólinn eftir að þjóðin hafði tvisvar sinnum rekið hana til þess í atkvæðagreiðslu.

Jóhanna Sigurðardóttir og ríkisstjórnin höfðu ekkert frumkvæði að þeirri leið sem að lokum dugði málstað Íslands best. Almannasamtök, InDefence og Advice, sem þrýstu á Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, tóku völdin af getulausri ríkisstjórn. Forseti varð við kröfu um að þjóðin fengi að eiga síðasta orðið um lögin. Ráherrar vor reknir í skammarkrókinn.

Það er í samræmi við annað hjá þessari dæmalausu ríkisstjórn og málsvörum hennar að nú skuli látið eins og hún standi með pálmann í höndunum eftir sýknu fyrir EFTA-dómstólnum.

Meirihlutinn sem stendur að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur stóð að því með hjálparkokkum að draga Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrir landsdóm. Steingrímur J. Sigfússon greiddi „með sorg í hjarta“ atkvæði með ákæru, hún væri óhjákvæmileg vegna alls þess sem gerðist 2008. Ákæran reyndist marklaus þegar á reyndi.

Jóhanna Sigurðardóttir hefur ef til vill verið með eigin hag og Steingrím J. í huga þegar hún sagði við fréttamenn um hádegi 28. janúar að menn ættu að fagna niðurstöðu EFTA-dómstólsins „en ekki vera að leita að sökudólgum“. Landsdómsliðið að baki Jóhönnu á alþingi er aldrei sjálfu sér samkvæmt, hún og Steingrímur J. draga líklega andann léttar vegna þess. Skömm þeirra vegna Icesave-málsins mun þó lifa og verða áminning um skelfilega framgöngu gagnvart öðrum þjóðum.

Málinu er ekki lokið. Hið besta sem Hollendingar og Bretar gætu gert yrði að nota það til að bregða fæti fyrir framhald ESB-aðildarviðræðnanna. Úr því að málstaður þeirra, ESA og framkvæmdastjórnar ESB varð undir í EFTA-dómstólnum ættu þeir að hefna sín í aðildarviðræðunum. Það félli vel hótunarstefnunni sem ESB hefur mótað vegna makrílmálsins.

Hin raunverulega og árangursríka valdataka fólksins eftir hrun fólst ekki í skarkala og ólátum á Austurvelli þar til Jóhanna og Steingrímur J. tóku að stjórna landinu. Hún fólst í því að tvisvar var gengið til lýðræðislegrar þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-samninga og tvisvar var stefnu ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms J. hafnað. Þetta ætti að auka trú á lýðræðislega stjórnarhætti og sanna haldleysi þess að ráðast að kjörnum fulltrúum með pottum og pönnum. Hið dapurlega er að Jóhanna og Steingrímur J. sitja sem fastast og láta nú eins og þau hafi stuðlað að farsælli lausn Icesave-málsins – hún fannst þrátt fyrir þau.