13.1.2013

ESB-vandi Breta víti til að varast


Full ástæða er fyrir okkur Íslendinga að fylgjast náið með umræðum í Bretlandi um aðild Breta að Evrópusambandinu (ESB). Deilurnar hljóta að leiða til þess að lokum að Bretar skapi sé aðra stöðu innan sambandsins en þeir hafa nú. Spurningin er ekki hvort heldur hvernig og hvenær það verður.

Pólitíska staðan í Bretlandi er svipuð og hér á landi að því leyti að innan stjórnmálaflokkanna eru skiptar skoðanir um afstöðuna til ESB. Umræðurnar draga fram þennan ágreining og nú berast fréttir um að nokkrir kunnir stjórnmálamenn sem hafa látið af forystuhlutverki innan flokka sinna hafi tekið höndum saman í þágu ESB-málstaðarins í þverpólitískum samtökum.

Í nýjasta hefti vikublaðsins The Spectator segir blaðamaðurinn James Forsyth að yfirgefi Bretland ESB muni sagnfræðingar segja að brottförin hafi hafist 30. júní 2012 þegar David Cameron forsætisráðherra birti grein í Sunday Telegraph. Ráðgjafar hans hafi talið skynsamlegt að taka saman slíka grein til að slá á umræður sem urðu eftir að ráðherrann hafði talað af nokkru gáleysi á blaðamannafundi í Brussel. Nauðsynlegt hafi verið að setja orð hans þar í rétt samhengi. Hópur manna hafi lagt til efni í greinina. Þar stóð: „Í mínum huga geta orðin „Evrópa“ og „þjóðaratkvæðagreiðsla“ átt samleið.“

Menn tóku strax að velta fyrir sér hvað í þessum orðum fælist. Ráðgjafar forsætisráðherrans sögðu fyrirspyrjendum að taka því róleg, Cameron mundi skýra frá því haustið 2012. Þar með hófst biðin eftir „stóru Evrópuræðu“ Camerons. Ákveðið var að hann flytti hana ekki á flokksþingi íhaldsmanna haustið 2012, þingið ætti ekki að snúast um ESB-ágreining. Ræðan hefur ekki enn verið flutt en nú er sagt að það verði gert í Hollandi þriðjudaginn 22. janúar.

Við Íslendingar eigum því ekki að venjast að mynduð sé jafnmikil spenna vegna ræðu sem stjórnmálamaður flytur og gert hefur verið í tilefni af væntanlegri Evrópuræðu Camerons. Ed Miliband, leiðtogi Verkamannaflokksins, sagði í BBC í dag, sunnudaginn 13. janúar: „Mér sýnist David Cameron hafa farið inn á ótrúlega hættulega braut. Hann gengur í raun í svefni að dyrunum út úr ESB.“

Talið er víst að forsætisráðherrann boði í ræðunni að í stefnuskrá sinni fyrir næstu þingkosningar í Bretlandi muni Íhaldsflokkurinn skuldbinda sig til að nýta sér væntanlega endurskoðun á sáttmálum ESB vegna nýrra stjórnarhátta á evru-svæðinu til að endurheimta vald frá Brussel til Bretlands. Hinir nýju ESB-aðildarskilmálar Bretlands yrðu síðan bornir undir bresku þjóðina í atkvæðagreiðslu.

Miliband gerði lítið úr aðferðafræði forsætisráðherrans og sagði:

„Síst af öllum eigum við að hefja nú tal um að nauðsynlegt sé á þessari stundu að ákveða að einhvern tíma eftir fimm, sex, sjö ár skulum við segja já eða nei við ESB-aðild. Eins og Michael Heseltine [íhaldsmaður] sagði réttilega í gær er þar um að ræða þjóðaratkvæðagreiðslu um viðræður sem hafa ekki hafist sem standa munu í óvissan tíma og enginn veit hvernig lyktar.

Í því felst ótrúleg áhætta. Við vitum hvers vegna mál þróast á þennan veg hjá David Cameron. Hann er hræddur við ógnina frá UKIP [flokki ESB-andstæðinga] og hann hefur áhyggjur af stöðunni innan eigin flokks. Þetta er röng aðferð. Þetta er ekki í samræmi við þjóðarhagsmuni.“

Miliband sagði að stjórn Camerons hefði lögfest að ekki mætti framselja meira vald til ESB án þjóðaratkvæðagreiðlsu í Bretlandi. Miliband mundi fara að þeim lögum en hann mundi ekki efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um að endurheimta vald sem framselt hefði verið til Brussel.

Í The Guardian segir að þessi afstaða Milibands sé reist á miklum umræðum innan Verkamannaflokksins um hvernig bregðast eigi við ræðu forsætisráðherrans. Forystusveit flokksins hafi ákveðið að hafna ekki alfarið þjóðaratkvæðagreiðslu en hún yrði ekki um áform forsætisráðherrans um hluti sem væru óræddir enda væri tillaga hans um þá atkvæðagreiðslu aðeins flutt til að breiða yfir ágreining innan Íhaldsflokksins.

Umræður hafa orðið um hvort áform Camerons um þjóðaratkvæðagreiðslu eftir að samið hafi verið um endurheimt valds frá Brussel vegna breytinga á sáttmálum ESB í þágu evru-svæðisins hafi runnið út í sandinn. Angela Merkel Þýskalandskanslari hafi ekki áhuga á að þrýsta á slíkar breytingar í þágu evrunnar, að minnsta kosti ekki fyrir þingkosningar í Þýskalandi í september 2013.

Hvað sem líður afstöðu Merkel vegna tímasetninga í pólitískri baráttu hennar á heimavelli breytir það hvorki né leysir vanda Camerons. Hann á rætur að rekja til mikillar óánægju meðal Breta og sérstaklega innan hans eigin flokks með ESB-aðildina. Að forystusveit breskra stjórnmálamanna geti hundsað það viðhorf er ósennilegt þótt Ed Miliband láti eins og svo sé.

Ný könnun á vegum Com Res sem birtist í blaðinu The Sunday People 13. janúar sýnir að 63% kjósenda vilja fá að segja álit sitt um hvort Bretland sé áfram í ESB eða ekki. Um 33% segjast ætla að greiða atkvæði á móti aðild – 75% kjósenda UKIP, 27% íhaldsmanna, 25% verkamannaflokksmanna og 17% frjálslyndra. Fleiri 42% segjast andvíg úrsögn úr ESB.

Óvíst er að David Cameron boði að væntanleg þjóðaratkvæðagreiðsla verði um já eða nei gagnvart ESB-aðild. Líklegt er talið að spurningin verði ekki svo afdráttarlaus fái hann ráðið henni.

Hvaða lærdóm getum við Íslendingar dregið af þessum umræðum í Bretlandi? Einkum þann að stjórnmálamenn verða að hafa víðtækt þjóðarumboð þegar þeir gæta hagsmuna einstakra ríkja gagnvart ESB. Sé þetta umboð ekki fyrir hendi ríkir ófriður innan lands og hann setur svip á samstarfið við aðrar þjóðir.

Ágreiningur er um aðild Breta að ESB 40 árum frá inngöngu þeirra. Til að skapa frið um málið eru allir flokkar sammála um að efnt skuli til þjóðaratkvæðagreiðslu þótt þeir deili um hvað skuli kosið.

Hér hefur verið rætt um aðild að ESB með hléum síðan 1995 þegar Alþýðuflokkurinn barðist fyrir henni fyrir þingkosningar. Hann gerði það hins vegar ekki í kosningunum 1999. Allir flokkar eru sammála um að aðild komi ekki til greina nema þjóðin samþykki hana í þjóðaratkvæðagreiðslu. Deilt er um hvort kosið skuli einu sinni eða tvisvar. Það er hvort kosið skuli um aðildarumsóknina sjálfa eða aðeins um niðurstöðu viðræðnanna.

Vandi Breta er miklu flóknari en okkar af því að þeir eru í ESB. Bretar gengu í ESB 1. janúar 1973 án þjóðaratkvæðagreiðslu undir forystu Edwards Heaths, forsætisráðherra Íhaldsflokksins.  Fyrir þingkosningar 1974 boðaði Harold Wilson og Verkamannaflokkurinn að ynni flokkurinn kosningarnar myndi samið um ný kjör fyrir Breta og síðan efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta gekk eftir árið 1975 þegar 67% lýstu stuðningi við aðild en kosningaþátttaka var 65%. Þetta var fyrsta þjóðaratkvæðagreiðslan sem efnt var til í öllu Stóra-Bretlandi. Árið 2011 var í annað sinn efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu í Stóra-Bretlandi og snerist hún um breytingar á kosningakerfinu en tillögur í þá átt voru felldar.

Aðild að ESB komst á dagskrá hér á landi að nýju vorið 2009 undir forystu Samfylkingarinnar með stuðningi vinstri grænna (VG). Markmiðið var að á skömmum tíma yrði unnt að semja um aðild í því skyni að taka upp evru krafist yrði sérlausna fyrir landbúnað og sjávarútveg. Ætlunin var að spurning um aðild yrði lögð undir þjóðaratkvæði fyrir þingkosningarnar í apríl 2013.

Ekkert af þessu hefur gengið eftir. Evran er jafnvel lengra undan nú en árið 2009 þegar litið er til þess að gjaldeyrishöft eru orðin þungamiðja í efnahagsstjórninni. Engin vilyrði hafa fengist fyrir sérlausnum í landbúnaði eða sjávarútvegi. Ríkisstjórnin ræður ekki við að móta viðræðuafstöðu í landbúnaðarmálum. ESB hefur ekki einu sinni skilað svonefndri rýniskýrslu um sjávarútvegsmálin og beitir aðferð sem er alkunn til að tefja mál af hálfu ESB: Framkvæmdastjórn ESB segir tæknileg atriði ráða hægferðinni.

Naumur meirihluti var á þingi gegn tillögu sumarið 2009 um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu og spyrja þjóðina hvort hún vildi sækja um aðild að ESB. Umboð til aðildar er á veikum grunni og annar umbjóðandinn, VG, hefur sagt að hann hafi veitt umboðið til að fella niðurstöðuna, hann vilji ekki ESB-aðild.

Hér eins og Bretlandi er ágreiningur innan allra stjórnmálaflokka um ESB-málið. Hafi mönnum þótt skorta rök fyrir því sumarið 2009 að spyrja þjóðina álits á ESB-umsókn af að um óþekkt mál væri að ræða stenst ekki tæpum fjórum árum síðar að beita sömu röksemd. Þjóðin, stjórnmálamenn og embættismenn hafa orðið margs vísari um innviði ESB og eðli aðildarviðræðnanna. Þá er miklu meiri óvissa um framtíðarskipan mála innan ESB nú en fyrir fjórum árum.

Í Bretlandi bíða menn eftir að forsætisráðherrann leggi ESB-spilin á borðið. Hér hefur Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra aldrei lagt neitt á borðið vegna ESB. Enginn veit um hennar skoðun á viðkvæmum álitaefnum. Enginn gerir lengur kröfu til þess að hún lýsi skoðun sinni á ESB-málum frekar en öðrum málum. Hún bíður þess eins að hætta og þjóðin einnig að hún hætti.

Til að forðast sambærilegt öngþveiti og ríkir í breskum stjórnmálum vegna ESB-aðildar á að staldra við hér á landi, gera hlé á aðildarviðræðunum, fá aðila utan stjórnkerfisins með þekkingu á ESB-málum til að semja hvítbók um stöðu málsins og kosti í stöðunni, leggja málið síðan fram til umræðu á þingi, sé þar áhugi á að halda viðræðum áfram verði það ekki gert án þess að leita álits þjóðarinnar í sérstakri atkvæðagreiðslu.

ESB-vandi Breta er víti til að varast – enn er ekki of seint að læra af þessum vandræðum.