16.12.2012

Klaustur og klerkar í jólabókum

Tvær bækur koma út nú fyrir jólin sem snúa að kaþólsku kirkjunni og Íslandi. Annars vegar segir Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur okkur frá uppgreftri undir hennar stjórn á klaustrinu að Skriðu í Fljótsdal og hins vegar segir Gunnar F. Guðmundsson okkur frá Nonna, Pater Jóni Sveinssyni, íslenskum Jesúítamunki.

Klaustrið að Skriðu tók til starfa 1493 og hvarf úr sögunni 60 árum síðar með siðaskiptunum. Á þessum árum gegndi klaustrið mikilvægu hlutverki sem spítali en um 300 grafir eru í kirkjugarði klaustursins og líkamsleifar margra bera með sé að þeir hafi verið alvarlega veikir. Í bók sinni segir Steinunn ekki aðeins frá hinum merku rannsóknum sem hún og samstarfsfólk hennar stundaði að Skriðu í um það bil áratug heldur er þar lýst stöðu klaustra á landinu allt frá 1133 þegar hið fyrsta þeirra var stofnað að Þingeyrum í Húnavatnssýslu.

Jón Ögmundsson, biskup á Hólum, stofnaði klaustrið að Þingeyrum eftir að hann sneri til landsins frá Róm og þar var vagga íslenskrar sagnaritunar. Jón Ögmundsson flutti menningu úr klaustrum Ítalíu hingað til lands og lagði grunn að ritun sagna á íslensku. Að Þingeyrum starfaði klaustur í um 400 ár.

Sagan af munkunum á Þingeyrum sem unnu við skriftir hefur skilið þá hugmynd eftir í þjóðarvitundinni að innan klausturveggjanna hafi menn lifað í einangrun og látið sig litlu varða sem gerðist í nágrenni þeirra. Rannsókn Steinunnar og samstarfsfólks hennar að Skriðu kollvarpar þessari hugmynd. Klaustrið að Skriðu lá í þjóðleið og gegndi gífurlega miklu samfélagslegu hlutverki. Sömu sögu er áreiðanlega að segja um klaustrið að Þingeyrum og annars staðar á landinu.

Siðaskiptin einkenndust að nokkru af ofbeldi eins og aftaka Jóns Arasonar, síðasta kaþólska biskupsins, og sona hans í Skálholti 7. nóvember 1550 sýnir. Eignir kirkjunnar voru lagðar undir konung og síðan var markvisst unnið að útþurrkun á áhrifum kaþólsku kirkjunnar. Enginn veit um endalok starfsins að Skriðu en það sem gerir staðinn einstæðan til fornleifarannsókna er að klaustrið reis fjarri bænum  og þar hefur 1500 fermetra svæði beðið óhreyft eftir rannsókninni.

Ég ræði við Steinunni Kristjánsdóttur í þætti mínum á ÍNN sem er á dagskrá mánudaginn 17. desember kl. 20.30

Sagan af Nonna hefst þegar kaþólska kirkjan tekur að þreifa fyrir sér að nýju á Íslandi um miðja 19. öldina. Hingað eru sendir tveir kaþólskir prestar sem ekki er alls staðar tekið fagnandi og fara úr einum stað í annan þar til þeir eignast Landakot sem þá var utan þéttbýlis í Reykjavík.

Jesúítar, munkaregla sem var skipulögð eins og baráttusveit, ákvað að láta að sér kveða á norðurhjara Evrópu þar sem mótmælendur réðu lögum og lofum. Liður í hernaðaráætlun þeirra var að kalla inn í raðir sínar drengi frá norðurhjaralöndum og þjálfa þá til trúboðs. Tveir þekktust boð um að halda til Evrópu héðan, Gunnar Einarsson og Jón Sveinsson þá 12 ára. Þeir áttu að fara til Frakklands en urðu innlyksa í Kaupmannahöfn vegna stríðsins milli Frakka og Þjóðverja 1870.

Frá því að Jón Sveinsson hélt utan 1870 kom hann aðeins tvisvar til landsins (1894 og 1930) þar til hann andaðist í Köln 1944. Bók Gunnars F. Guðmundssonar segir einstæða sögu þessa manns sem á fjórða áratugnum varð frægastur Íslendinga. Jón varð aldrei trúboði á Íslandi en Ísland og dvöl hans hér til 12 ára aldurs varð kjarninn í bókum hans og trúboði. Hann flutti milli 4.000 og 5.000 fyrirlestra á vegum Jesúíta og lýsti hvers vegna hann snerist til kaþólskrar trúar.

Herbragð Jesúíta gagnvart Íslandi skilaði árangri fyrir reglu þeirra og kaþólsku kirkjuna. Nonni varð öflugur trúboði. Jóhannes Gunnarsson, sonur Gunnars sem fór utan samtíma Nonna, varð fyrsti og til þessa eini íslenski, kaþólski biskupinn frá siðaskiptum.

4. júlí 1896 komu nunnur til landsins í fyrsta skipti síðan fyrir siðaskipti. Þær voru fjórar og settust hér að til að annast hjúkrun og vitja sjúkra. Þetta var upphaf starfs St. Jósefssystra í Reykjavík og Hafnarfirði. Um aðdraganda komu þeirra sagði í Morgunblaðinu 14. janúar 2001í tilefni af brottför þeirra frá landinu:

„Í heimsókn til Íslands árið 1894 kannaði hann [Jón Sveinsson] ítarlega þarfir landsmanna og safnaði í kjölfar þess fé erlendis í þeim tilgangi að byggja kaþólskan spítala fyrir holdsveika, en féð var síðan notað sem hluti af stofnkostnaði St. Jósefsspítalans í Reykjavík. Fyrstu systurnar af þessari reglu heilags Jósefs af Chambéry stigu á land í Reykjavík af gufuskipinu Láru, 25. júlí árið 1896, níu mánuðum eftir að kaþólsk trúboðsstöð var enduropnuð í Reykjavík. Þær voru fjórar talsins. Þetta voru systir María Ephrem, príorinna, frönsk, og systir María Justine, af frönskum ættum en dönskfædd, báðar lærðar hjúkrunarkonur og jafnframt þær fyrstu til að hefja störf hér á landi, en hinar tvær voru danskar, systir María Thekla, leiksystir, og systir María Clementia, en hún stundaði kennslustörf. Systurnar hófu þegar aðhlynningu sjúkra og fátækra ásamt kennslu barna við þröngar aðstæður en óbugandi kærleik og bjartsýni; settu á laggirnar þrjú sjúkrahús og jafnmarga skóla og urðu allatkvæðamiklir brautryðjendur á þeim vettvangi. Um það leyti voru Íslendingar ríflega 75.000 talsins.“

Karmelklaustur kom til sögunnar á Íslandi árið 1937 og starfar enn í Hafnarfirði. Þar eru nú nunnur frá Póllandi. Héraðsráð Montfortaine-reglunnar í Hollandi gaf Karmelsystrum án endurgjalds 10.000 fermetra land undir klaustrið. Í skjalasafni reglunnar frá 24. september 1937 er bréf um þennan gjafagjörning. Upphaflega voru nunnurnar hollenskar en þær hurfu héðan árið 1983. Á vefsíðunni karmel.is má lesa:

Í Elblag í norður Póllandi „er staðsett klaustur og var þangað mikil aðsókn árið 1983. Klaustrið í Elblag hýsti þá 34 nunnur sem flestar voru ungar. 2. ágúst 1983 kom til þessa klausturs í heimsókn, Josef Glemp kardínáli og spurði hvort þær nunnur sem í klaustrinu í Elblag voru væru tilbúnar til að halda áfram starfsemi Karmelklaustursins í Hafnarfirði. Spurningin kom á óvart en nunnurnar í Elblag slógu til og hófu strax undirbúning.

19. mars 1984 rann svo stóra stundin upp. 16 nunnur héldu til Íslands frá Póllandi. Þær yfirgáfu heimaland sitt til að biðja fyrir íslendingum í nýju og framandi landi í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði.“

Frú Vigdís Finnbogadóttir, forseti Íslands, heimsótti nunnurnar í klaustrið í ágúst 1984 og bauð þær velkomnar til Íslands þar sem þær hafa dvalist síðan landi og þjóð til blessunar. Hér eru einnig nunnur frá öðrum reglum og í Reyðarfirði stofnuðu Kapúsína-munkar klaustur árið 2007, fyrsta munkaklaustrið frá siðaskiptum.

Fimmtudaginn 20. desember klukkan 21.30 ræði ég við Helgu Birgisdóttur doktorsnema í bókaþætti á ÍNN um bók Gunnar Þ. Guðmundssonar um Nonna.

Þriðja bókin sem ég kynni á ÍNN í vikunni er eftir Sigurjón Magnússon rithöfund, skáldasagan Endimörk heimsins. Þar segir Sigurjón frá drápinu á Nikulási Rússakeisara og fjölskyldu hans árið 1918. Bókin er vel skrifuð og vönduð að allri gerð. Við Sigurjón tölum saman miðvikudaginn 19. desember klukkan 20.00.

Allar eru þessar bækur tilnefndar til íslensku bókmenntaverðlaunanna og einnig fjórða bókin sem ég hef kynnt á ÍNN að þessu sinni: Upp með fánann! eftir Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðing en við hann ræddi ég mánudaginn 10. desember eins og sjá má hér.