25.11.2012

Vígreifir sjálfstæðismenn - VG í kreppu

Hanna Birna Kristjánsdóttir var ótvíræður sigurvegari prófkjörs sjálfstæðismanna í Reykjavík 24. nóvember 2012, hlaut efsta sætið með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða, eða 74%  miðað við gild atkvæði. Alls voru gild atkvæði 7.322 talsins og 224 auð og ógild.  Hanna Birna hlaut 5.438 atkvæði.

Forval var hjá VG í SV-kjördæmi. Ögmundur Jónasson fékk 53% atkvæða 261 atkvæði af 487.  Einnig var forval hjá VG í Reykjavík. Þar hlaut Katrín Jakobsdóttir „afgerandi kosningu“ er sagt með 547 atkvæðum. Hlutfallstala hennar er ekki birt en tæplega 700 manns tóku þátt í forvali VG í Reykjavík.

Sjálfstæðismenn gengu til prófkjörs í SV-kjördæmi laugardaginn 10. nóvember.
Alls voru greidd 5070 atkvæði í prófkjörinu. Bjarni Benediktsson - 2728 atkvæði í 1. sæti eða álíka hlutfall og Ögmundur meðal fylgismanna VG.

Áður en frekar verður rætt um niðurstöðurnar er ástæða til að vekja athygli á þessum tölum. Innan við 10% af þeim sem tóku þátt í prófkjörum sjálfstæðismanna komu að því að velja lista VG í stærstu kjördæmum landsins. Atkvæðamagnið á bak við Katrínu og Ögmund er um og innan við 10% af því sem stendur að baki Hönnu Birnu annars vegar í Reykjavík og Bjarna hins vegar í SV-kjördæmi.

Fréttamenn ríkisútvarpsins ganga gjarnan á milli frambjóðenda og spyrja þá hvort niðurstaða í prófkjörinu hafi verið „áfall“ fyrir þá. Þegar Bjarni Benediktsson svaraði spurningu fréttamannsins með orðinu „vonbrigði“ var kallað á Gunnar Helga Kristinsson stjórnmálafræðiprófessor sem sagði að víst væri þetta áfall fyrir Bjarna.

VG í kreppu

Eftir að Björn Valur Gíslason sem vildi fá 1. sætið í forvali VG í Reykjavík féll í 7. sæti spurði fréttamaður ríkisútvarpsins hvort úrslitin væru ekki áfall fyrir hann „vonbrigði“ svaraði Björn Valur. Verður Gunnar Helgi kallaður á vettvang til að úrskurða? Hvernig væri að spyrja hann hvort ekki væri áfall fyrir VG hve áhugi á þátttöku í forvalinu er lítill? Þetta er jú flokkur hins digurbarkalega Steingríms J. sem segist hafa bjargað Íslandi. Páll Vilhjálmsson sagði á vefsíðu sinni að fáir kjósendur VG í Reykjavík sýndu að aðeins fjölskyldur frambjóðenda hefðu farið á kjörstað – Björn Valur væri að norðan.

Forvalið hjá VG gefur Steingrími J. ekki byr í seglin. Hann hefur siglt flokknum í strand. Svavar Gestsson, einn helsti stjórnmálaráðgjafi Steingríms J. og trúnaðarmaður hans í Icesave-deilunni, harmar að VG hafi komið til sögunnar, það hefði átt að sameina alla vinstrimenn í Samfylkingunni. Er of seint að gera það fyrir kosningar? Hópurinn skiptir í raun engu eins og tölurnar úr forvalinu sýna.  Er ekki skynsamlegra að ganga formlega í björg Samfylkingarinnar og fá eitthvað í staðinn en að VG deyi drottni sínum í höndunum á Steingrími J.?

Vígreifir sjálfstæðismenn

Sjálfstæðismenn eru vígreifir eftir prófkjörið í Reykjavík. Hanna Birna nýtur óskoraðs trausts. Brynjar Níelsson er nýr maður og mun skipa annað sæti á lista undir forystu Illuga Gunnarsson í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu. Pétur H. Blöndal verður í öðru sæti á lista með Hönnu Birnu. Pétur sýndi enn að hann höfðar á sterkan hátt til kjósenda flokksins. Hann getur mjög vel við úrslitin unað ekki síður en Hanna Birna og Brynjar. Báðir listar sjálfstæðismanna í Reykjavík verða því skipaðir nýju fólki í efstu sætunum. Í þessu felst mikilvæg og söguleg endurnýjun sem minnir á það sem gerðist í prófkjöri haustið 1990 vegna þingkosninganna 1991. Þá var lagður grunnur að endurnýjun í þingflokki sjálfstæðismanna og forystu flokksins.

Sjálfstæðismenn í NV-kjördæmi efndu til þings í Borgarnesi laugardaginn 24. nóvember og ákváðu lista sinn. Einar K. Guðfinnsson, reynslumikill og farsæll þingmaður sjálfstæðismanna, hlaut þar einróma kjör í 1. sæti. Nýliði, Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands, var kjörinn í 2. annað sæti. Að fá Harald til liðs við flokkinn skiptir miklu í kjördæmi sem nær yfir svæðið frá Hvalfirði um Vestfirði til Skagafjarðar. Haraldur hefur staðið sig mjög vel sem forystumaður bænda og leitt málefnalega baráttu þeirra fyrir hagsmunum íslensks landbúnaðar og allrar byggðar í landinu vegna ESB-aðildarumsóknarinnar. Hann hefur átt mikinn þátt í að afhjúpa blekkingar og þöggun utanríkisráðherra og manna hans í ESB-málinu. Listinn er öflugur og líklegt að Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, frá Tálknafirði, í þriðja sæti hans, nái kjöri á þing.

Guðlaugur Þór og Illugi

Einn þeirra frambjóðenda sem lagði hvað mest undir í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík var Guðlaugur Þór Þórðarson. Hann var kynntur til sögunnar sem sérstakur fulltrúi „grasrótarinnar“, frásagnir af framgöngu hans innan flokksins væru aðför að „grasrót“ flokksins. Með þessu var leitast við að breyta vanda Guðlaugs Þórs sjálfs í vanda Sjálfstæðisflokksins. Fyrir prófkjörið vegna þingkosninganna 2009 sagði á vefsíðu Guðlaugs Þórs:

„... .Guðlaugur Þór hefur lýst þeirri skoðun sinni að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi og eigi að horfast í augu við ábyrgð sína á þeirri efnahagskreppu sem þjóðin stendur frammi fyrir. Flokknum beri að læra af mistökunum og á grundvelli þess að útfæra haldbærar úrlausnir til nýrrar sóknar.“

Í þessu felst hin sama skoðun og setti svip sinn á kosningabaráttu Guðlaugs Þórs að þessu sinni, að ekki eigi að horfa til einstaklinga og gjörða þeirra þegar menn leggja mat á frambjóðendur heldur sé það Sjálfstæðisflokkurinn sjálfur sem sé settur undir mæliker. Þessi skoðun stenst ekki og í raun furðulegt að frambjóðendur í nafni flokksins skuli halda slíku fram. Sjálfstæðisflokkurinn er meira virði en hagsmunir einstaklinga sem vilja komast til valda í nafni hans. Úrslitin í prófkjörinu staðfesta þessa skoðun,

Fjölmennastir í hópi kjósenda Sjálfstæðisflokksins eru þeir sem uppskera í samræmi við eigið vinnuframlag, sýna ráðdeild og sparsemi, gjarnan einyrkjar, til dæmis iðnaðarmenn. Þetta fólk vill ekki að flokki þess sé kennt um þegar nokkrir einstaklingar fóru ránshendi um þjóðfélagið. Skoðunin sem Guðlaugur Þór lýsti fyrir prófkjörið er ekki bundin við hann, hún er lífsseig meðal andstæðinga flokksins, hún ræður gjarnan þegar lagt er mat á hann í ríkisútvarpinu, á Stöð 2 og í Fréttablaðinu.

Styrmir Gunnarsson segir á Evrópuvaktinni að úrslitin í Reykjavík séu „umhugsunarefni fyrir þingmennina Illuga Gunnarsson og Guðlaug Þór Þórðarson. Illugi nær að vísu kosningu í annað sæti en atkvæðamagn hans í fyrstu tvö sætin er ábending um pólitískan veikleika, sem hann hlýtur að taka til skoðunar“.

Í prófkjörinu 2009 hlaut Illugi Gunnarsson fyrsta sæti í Reykjavík með 4.332 atkvæðum, nú hlaut hann 2.659 atkv, í 1. til 2. sæti. Árið 2009 hlaut Guðlaugur Þór 2. sæti með 2.868 atkv. nú hlaut hann 3.503 atkv. í 1. til 5. sætið. Til samanburðar má geta þess að árið 2009 hlaut Birgir Ármannsson 2.513 atkv. í 1. til 6. sæti en nú fékk hann 3.196 í þessi sæti. Fylgi Birgis hefur aukist en hinna tveggja þingmannanna minnkað. Ábending Styrmis um þá Illuga og Guðlaug Þór á því fullan rétt á sér og einnig orð hans um Birgi þegar hann lýsir honum sem einum „málefnalegasta“ þingmanni Sjálfstæðisflokksins og „sennilega sterkasta greinanda á stöðu þjóðmála“ sem nú sitji á alþingi.

Jón Magnússon hrl. tekur ekki undir að úrslitin séu „meiri háttar áfall“ fyrir Illuga og Guðlaug Þór. Sjá hér.

Athygli vakti að einn frambjóðenda meðal sjálfstæðismanna, Guðjón Sigurbjartsson, kynnti sig til leiks sem talsmann þeirra sem vilja að samið verði við ESB í aðildarviðræðunum. Hann komst ekki á listann yfir 10 efstu í prófkjörinu.

Jakob F. Ásgeirsson, rithöfundur og ritstjóri Þjóðmála, átti skilið að hljóta meiri stuðning í prófkjörinu. Þar fer heilsteyptur hugsjónamaður sem hefur verið ódeigur að lýsa skoðunum sínum í anda hinnar klassísku sjálfstæðisstefnu. Sú rödd á erindi innan flokksins og einnig á alþingi.

Breyting á alþingi

Með vísan til þeirra ákvarðana sem einstakir þingmenn hafa tekið og ákvarðana við skipan lista á vegum flokkanna til þessa er ljóst að 20 til 22 þingmenn sem nú sitja á þingi verði að líkindum utan þings eftir kosningar.

Miðað við lítinn áhuga á VG í Reykjavík er ólíklegt að Álfheiður Ingadóttir nái endurkjöri og Björn Valur Gíslason er úti í kuldanum. Að Pírataflokkur undir formennsku Birgittu Jónsdóttur nái að koma henni á þing er ekki sennilegt. Þór Saari og Margrét Tryggvadóttir eiga tæplega afturkvæmt á alþingi. Jónína Rós í þriðja sæti Samfylkingar í NA-kjördæmi nær varla endurkjöri og Sigmunur Ernir Rúnarsson er fallinn. Mörður Árnason og Lúðvík Geirsson eru í mjög tæpri stöðu á listum Samfylkingarinnar. Þá er spurning hvernig Bjartri framtíð vegnar undir forystu Guðmundar Steingrímssonar og Róberts Marshalls. Lilja Mósesdóttir verður ekki á næsta þingi.

Þessir þingmenn gefa ekki kost á sér: Ásbjörn Óttarsson, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Birkir Jón Jónsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Jóhanna Sigurðardóttir, Ólöf Nordal,  Siv Friðleifsdóttir, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Þráinn Bertelsson og Þuríður Backman.

Framsóknarmenn eiga enn eftir að ákveða flesta framboðslista hjá sér. Sjálfstæðismenn hafa ekki ákveðið lista í NA-kjördæmi og Suðurkjördæmi. VG á óákveðna lista í NV-kjördæmi og NA-kjördæmi. Samfylkingin hefur ekki ákveðið lista í NV-kjördæmi.

Þegar litið er yfir dæmið í heild kemur Sjálfstæðisflokkurinn best frá ákvörðunum um val á framboðslista til þessa, flestir sýna áhuga á að taka þátt í prófkjörum flokksins og þar verður marktæk endurnýjun sem minnir á það sem gerðist í kosningunum 1991. Þá gerðist það í aðdraganda kosninga að á landsfundi urðu átök um formann og Davíð Oddsson sigraði Þorstein Pálsson og varð síðan forsætisráðherra. Landsfundarmenn vildu að sem sigurstranglegastur foringi leiddi þá. Landsfundurinn var ekki aðeins sögulegur vegna þessa heldur einnig hins að þar sannaðist að ekki væri tekin óbærileg áhætta með svo róttækri uppstokkun við upphaf lokasennu í kosningabaráttu.

Sjálfstæðiflokkurinn býr við róttækasta flokksskipulag allra íslenskra stjórnmálaflokka. Á landsfundi getur allt gerst í formannskjöri því að allir eru í raun kjörgengir, enginn framboðsfrestur er heldur ráða atkvæðin sem fulltrúarnir láta í kjörkassann.