11.11.2012

Línur lagðar í fyrsta prófkjöri sjálfstæðismanna

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, vann sigur í prófkjöri sjálfstæðismanna í suðvesturkjördæmi laugardaginn 10. nóvember, fékk 55,5% atkvæða ef auðir seðlar og ógildir eru ekki taldir með en 54% ef þeir eru meðtaldir. Bjarni leiðir lista flokksins í kjördæminu í komandi þingkosningum. Hann áttar sig á að árangurinn hefði mátt vera betri eins og hann sagði við fréttastofu ríkisútvarpsins í hádegi sunnudaginn 11. nóvember.

Í því felst sjálfsblekking telji sjálfstæðismenn sig ekki þurfa að líta í eigin barm eftir þetta prófkjör. Þá er ekki vísað til þess sem Bjarni lýsti með þessum orðum í útvarpsfréttum:  „Það sem mér finnst standa upp úr fyrir okkur sjálfstæðismenn hér í kjördæminu er að við fáum út úr þessu prófkjöri mjög flottan lista sem er sigurstranglegur fyrir kosningarnar næsta vor.“ Undir þessi orð skal tekið. Aðra þætti ber hins vegar skoða.

Bjarni sagði stuðninginn „algerlega fullnægjandi fyrir sig til að halda áfram ótrauður sem leiðtogi flokksins í Suðvesturkjördæmi“ og bætti við orðrétt:

„Það dylst auðvitað engum að það var mér sótt hér í þessu kjördæmi bæði innan og utan flokks. Tveir frambjóðendur sóttust eftir fyrsta sætinu og þeir fengu einhver atkvæði og það hlaut að dragast frá þeim atkvæðafjölda sem kom þá til mín en engu að síður er þetta yfirburðasigur fyrir mig í fyrsta sætið.“

Frambjóðendurnir tveir sem Bjarni nefnir til sögunnar eru Ragnar Önundarson sem bauð sig beinlínis fram gegn Bjarna með ásökunum um að hann hefði sem stjórnmálamaður blandað stjórnmálum og viðskiptum saman á óviðunandi hátt. Ragnar hafði ekki erindi sem erfiði og komst ekki í hóp eins af sjö efstu (16 frambjóðendur tóku þátt) í prófkjörinu. Ragnar hélt illa á málstað sínum í aðdraganda prófkjörsins.

Hinn frambjóðandinn í 1. sætið var Vilhjálmur Bjarnason sem stillti sér hins vegar ekki upp gegn Bjarna á sama hátt og Ragnar heldur bað um stuðning í 1. til 6. sæti. Vilhjálmur hlaut 4. sæti og getur mjög vel við það unað, fyrir ofan hann eru þingmennirnir þrír sem buðu sig fram til endurkjörs í kjördæminu. Bjarni hlaut alls 2.728 atkv. í 1. sætið en Vilhjálmur 658 og Ragnheiður Ríkharðsdóttir sem hlaut 2. sætið í prófkjörinu eins og hún vildi fékk 421 atkv. í 1. sætið.

Þessar tölur gefa til kynna að skipulega hafi menn tekið höndum saman um að styðja ekki Bjarna í þetta sæti heldur kjósa annan. Bjarni háði kosningabaráttu sína með almennri skírskotun til kjósenda og nýtti sér aðgang að flokksmönnum í gegnum póstlista sjálfstæðismanna. Hann sendi sem flokksformaður nokkur tölvubréf til allra á listanum í aðdraganda prófkjörsins. Bjarni opnaði hins vegar ekki kosningaskrifstofu frekar en flokksformenn á undan honum hafa gert í prófkjörum.  Stundum hefur mátt greina að þeir hafi talið fyrir neðan virðingu sína að höfða til kjósenda á þann hátt. Vilhjálmur Bjarnason opnaði ekki heldur kosningaskrifstofu en hafði greinilega annars konar samskipti við kjósendur í aðdraganda kosninganna.

Þarna er um misskilning að ræða. Frambjóðendum er ekki síður en kjósendum gagn að því að opnaðar séu skrifstofur í nafni frambjóðenda í aðdraganda prófkjörskosninga til að skapa bein tengsl við kjósendur og gefa þeim færi á að hitta frambjóðandann annars staðar en á formlegum fundum.

Annars staðar hef ég vakið máls á að kostnaður við prófkjör hafi farið úr böndunum í hinu síðasta sem efnt var til í Sjálfstæðisflokknum fyrir hrun. Í prófkjörinu fyrir kosningarnar 2007 varði einn frambjóðandi að minnsta kosti 25 milljónum króna til að ná markmiði sínu. Hvað sem segja má um svo háar fjárhæðir dugðu þær til að draga miklu meiri athygli að prófkjörum en nú gerist og kölluðu fleiri kjósendur inn í kjörklefana en ella hefði verið.

Þetta snertir einmitt síðari þátturinn sem ætti að vekja mennt til umhugsunar innan Sjálfstæðisflokksins eftir prófkjörið í suðvesturkjördæmi en þátttakan í því var 33%. Hún er of lítil. Við núverandi aðstæður hefði átt að leggja megináherslu á mikla og víðtæka þátttöku í prófkjörinu. Þar hefði flokksskrifstofan í Valhöll átt að ganga fram fyrir skjöldu og knýja á um að fólk nýtti sér rétt sinn til að velja frambjóðendur.  Um leið og lagðar eru hömlur á útgjöld einstakra frambjóðenda vegna prófkjara verða flokkarnir að líta í eigin barm vilji þeir vekja áhuga kjósenda og kalla á þá á kjörstað.

Af hálfu flokksskrifstofunnar sýnist ekkert gert til að skapa áhuga á flokknum í tengslum við prófkjörið eða umræður um stöðu hans eftir það. Vefsíða flokksins er tilvalið tæki til að miðla upplýsingum sem skapa umræður. Má þar nefna tölur um fjölda kjósenda í samanburði við það sem áður hefur verið. Sé rétt munað voru kosningatölur í öllum prófkjörum á sínum tíma á vefsíðu flokksins. Erfitt er að átta sig á hvaða tilgangi þjónar að þurrka út slíkar upplýsingar.  Standi einhverjum nærri að upplýsingum um þetta efni til haga á þann veg að áhugasamir geti nýtt sér þær til fróðleiks og athugana er það Sjálfstæðisflokknum.

Margir hafa örugglega áhuga á að greina úrslitin á grundvelli talna sem hljóta að vera til í skjölum flokksins og á að setja á netið. Engrar viðleitni gætir af flokksins hálfu til að ýta undir slíkar umræður. Á vefsíðu flokksins er meira að segja ekki unnt að sjá hvað Ragnar Önundarson fékk mörg atkvæði í 1. sæti á listanum.

Í fyrrnefndu viðtali við fréttastofu ríkisútvarpsins sagði Bjarni Benediktsson sunnudaginn 11. nóvember:

 „Framtíð formanns Sjálfstæðisflokksins ræðst á landsfundi og það var ekki haldinn landsfundur í gær heldur var prófkjör hérna í mínu kjördæmi þar sem ég sigraði og ég hyggst halda ótrauður áfram mínum verkum til þess að vinna stefnu flokksins fylgi.“

Þetta er sjálfsögðu rétt. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins verður haldinn undir lok febrúar 2013. Þá verða um tveir mánuðir til þingkosninga og óþol flokksmanna orðið meira en nú til að koma Samfylkingu og vinstri-grænum frá völdum. Við mat á leiðum og aðferðum til þess munu menn taka mið af andstöðu flokksins, einkum þingflokksins, við ríkisstjórnina á kjörtímabilinu, þann kost sem er í boði er innan flokksins að loknum prófkjörum og skipan framboðslista í einstökum kjördæmum auk trúverðugleika stefnunnar sem forystumenn leggja fyrir landsfundinn í ræðum sínum og tillögum að ályktunum.