11.10.2012

Kosningaspenna magnast í Bandaríkjunum

Stór hluti frétta um bandarísku forsetakosningarnar snýst um getu frambjóðenda til að afla fjár til að standa straum af kostnaði við baráttuna. Reglur hafa verið settar vegna þessa en þær eru jafnan með því sniði að í raun geta frambjóðendur safnað því fé sem þeir þarfnast. Miðvikudaginn 10. október sagði The New York Times frá því að Barack Obama forseti, frambjóðandi demókrata, ætlaði ekki að gefa sér meiri tíma í fjársafnanir. Hann ætlaði þess í stað að einbeita sér að háttvirtum kjósendum og leitast við að auka fylgi sitt meðal þeirra, ekki veitti af eftir hrakfarir hans í kappræðunum við Mitt Romney, frambjóðanda repbúlíkana, viku fyrr.

Ég hitti stuðningsmann Obama í matsal stúdenta í garði Yale-háskóla og átti hann ekki nógu sterk orð til að lýsa vonbrigðum sínum með frammistöðu síns manns í kappræðunum. Hann. hefði í raun veri verri en ömurlegur og svo gjörsamlega gengið fram af sér með látæði sínu og tali að hann hefði spurt sig: Hefur maðurinn engan áhuga á þessu lengur? Þá sagði hann einnig að Romney hefði komið „forsetalega“ fyrir sjónir þegar hann flutti ræðu sína um utanríkis- og öryggismál mánudaginn 8. október. Lauk blessaður maðurinn ræðu sinni með því að spyrja hvort hann gæti fengið hæli á Íslandi ef Romney sigraði

Sé þetta viðhorf dæmigert fyrir andann í stuðningsmönnum Obama kemur ekki á óvart að kannanir sýni ótrúlega fylgisaukningu Romneys, 12 stiga sveiflu undanfarna daga samkvæmt könnun sem birt var mánudaginn 8. október, það er með 4 prósentustiga forskot á forsetann. Eins og jafnan gerist þegar illa gengur hjá frambjóðanda taka að berast fréttir úr herbúðum hans um ágreining og óeiningu og miðvikudaginn 10. október bárust fréttir af þeim toga úr kosningastjórn Obama.

The Wall Street Journal (WSJ) birti þriðjudaginn 9. október langa grein þar sem sagt er frá sinnaskiptum innan fjármálafyrirtækisins Goldmans Sachs í garð Obama. Stjórnendur og starfsmenn fyrirtækisins hafi verið meðal öflugustu stuðningsmanna hans í kosningabaráttunni 2008 og lagt honum meira fjárhagslegt lið en nokkuð annað bandarískt stórfyrirtæki. Að þessu sinni hafi hins vegar ekkert fyrirtæki lagt sig meira fram um að vinna gegn honum.

Árið 2008 gáfu starfsmenn Goldmans meira en 1 milljón dollara til kosningabaráttu Obama nú hafa þeir gefið 136 þúsund dollara eða lægri fjárhæð en safnað hefur verið í þágu forsetans meðal starfsmanna bandaríska utanríkisráðuneytisins. Innan Goldmans segja menn ástæðuna ráðstafanir Obama-stjórnarinnar gegn fyrirtækinu og persónulegar árásir forsetans á stjórnendur þess.

Nú hefur Romney fengið 900.000 dollara stuðning frá starfsmönnum Goldmans og þeir hafa auk þess lagt 900.000 dollara í sérstakan sjóð sem styður málstað Romneys.

WSJ segir að í kosningunum 2008 hafi fjármálafyrirtæki lagt Obama til 43 milljónir dollara en nú 12 milljónir, Romney hafi að þessu sinni fengið tvisvar sinnum meira en Obama frá fjármálafyrirtækjum og séu þau stærsti einstaki peningalegi stuðningshópur hans.

Miðað við tölur sem WSJ birti 9. október höfðu demókratar aflað 742 milljóna dollara vegna forsetakosninganna en repúblíkanar 638 milljóna dala. Romney fær meira frá þeim sem leggja fram fé til stuðnings ákveðnum málstað en Obama en verkalýðsfélög jafna þann mun með fjárframlögum sínum til demókrata.

Center for Responsible Politics tók árið 1989 að safna upplýsingum um fjárstuðning starfsmanna einstakra fyrirtækja við stjórnmálaflokka í Bandaríkjunum. Síðan þá hafa starfsmenn Goldmans gefið 22,4 milljónir dollara til demókrata og frambjóðenda þeirra. Er þetta hæsta fjárhæð sem starfsmenn nokkurs fyrirtækis hafa látið renna til flokksins og jafnast aðeins á við það fé sem hann fær frá verkalýðsfélögum. AFL-CIO hefur látið 18,5 m dolllara renna til flokksins og samtök starfsmanna í bílaiðnaði, United Auto Workers, 27,5 m dollara. American Federation of State, County and Muncicipal Employees, bandalag starfsmanna ríkis, héraða og sveitarfélaga, er stærsti einstaki stuðningsaðili flokks demókrata með 45 milljónum dollara á þessu tímabili að sögn WSJ.

Hér skal ekki rakin lýsing WSJ á sinnaskiptunum innan Goldman Sachs í garð demókrata á kjörtímabilinu sem er að líða. Blaðið segir að kornið sem fyllti mælinn hjá mörgum starfsmönnum fyrirtækisins hafi verið ræða sem Obama flutti árið 2010 á árshátið fjölmiðlamanna sem hafa það verkefni að fylgjast með forsetanum. Venja er að forsetinn flytji þar ræðu í gamansömum dúr. Að þessu sinni vísaði Obama til rannsóknar á vegum fjármálaeftirlits Bandaríkjanna  sem leiddi til  þess að Goldman samþykkti að greiða 550 milljón dollara í sekt. Forsetinn sagði: „Allir brandararnir í kvöld eru fluttir ykkur á kostnað vina okkar hjá Goldman Sachs. Þið getið því verið áhyggjulaus – þeir græða hvort sem þið hlægið eða ekki.“

Í kvöld fimmtudaginn 11. október verða kappræður varaforsetaefnanna Joe Bidens (D) og Pauls Ryans (R), Demókratinn sem ég hitti í mötuneyti stúdentagarðsins batt vonir við að Biden tækist að rétta hlut flokks síns eftir áfallið vegna þess hve Obama stóð sig illa. Hann hafði ekki fögur orð um Ryan, sagði hann montrass sem hugsaði ekki um annað en sjálfan sig.

Ef til vill hef ég tækifæri til að fylgjast með kappræðunum eða hluta þeirra hér í Newton , útborg Boston. Í götunni þar sem við búum er skilti til stuðnings Elizabeth Warren (D) í öldungadeildina og skammt þar frá annað skilti til stuðnings Joe Kennedy í fulltrúadeildina. Hann er barnabarn Roberts Kennedys, dómsmálaráðherra og bróður Jacks forseta.

Pólitíkin setur því nokkurn svip sinn á umhverfið hér enda innan við mánuður til kosninganna.