20.8.2012

Ögmundur á röngu róli - Skúli og ESB-karpið

Ögmundur á röngu róli

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ætlar að flytja í þriðja sinn sem ráðherra frumvarp til laga um bann við auglýsingum á áfengi á næsta þingi ef marka má fréttir. Lög landsins banna slíkar auglýsingar á hinn bóginn telur ráðherrann glufu í lögunum og er ætlunin að loka henni með hinu nýja frumvarpi. „Með frumvarpinu er stefnt að því að gera núgildandi bann við áfengisauglýsingum bæði skýrara og skilvirkara,“ segir í upphafi greinargerðar með því.

Í október 2008 féll dómur í hæstarétti sem snerti túlkun á 20. grein áfengislaganna og fólst í honum 1 milljón kr. sekt vegna birtingar fjögurra áfengisauglýsinga í Blaðinu 2005. Þrátt fyrir varnir með tilvísun í stjórnarskrána og skuldbindingar okkar í EES taldi Hæstiréttur að 20. gr. áfengislaga, nr. 75, frá júní 1998, hefði verið brotin með þessum auglýsingum.

Dómurinn sýnir að 20. gr. áfengislaganna er „virk“ að mati hæstaréttar og hann felur í sér leiðsögn fyrir lögreglu og ákæruvald vegna slíkra brota.

18. febrúar 2004 féllu þessi orð í ræðu minni á þingi:

„Loks er spurt: ,,Telur ráðherra samræmi milli þess hvernig framfylgt er umræddum lagaákvæðum um áfengisauglýsingar annars vegar og lagaákvæðum um bann við tóbaksauglýsingum (7. gr. laga nr. 6/2002, um tóbaksvarnir) hins vegar?``

7. gr. tóbaksvarnalaga um bann við auglýsingum á tóbaki er ekki að öllu leyti sambærileg 20. gr. áfengislaga. Í áfengislögum er að finna heimild í 3. mgr. 20. gr. til handa framleiðanda sem, auk áfengis, framleiðir aðrar drykkjarvörur til að nota firmanafn eða merki í tengslum við auglýsingu þeirra drykkja enda megi augljóst vera að um óáfenga drykki sé að ræða í skilningi laganna og ekki vísað til hinnar áfengu framleiðslu.

Ekki eru til svo ég viti, virðulegi forseti, tóbakslausar sígarettur samanber hins vegar t.d. bjór sem telst óáfengur og því er ekki unnt að bera auglýsingar þessara vara saman. Af þessari ástæðu hef ég ekki sérstaklega leitt hugann að því hvort samræmi sé milli þess hvernig þessum lagaákvæðum er framfylgt.“

Í greinargerð með frumvarpi innanríkisráðherra segir: „Rétt er þó talið, með vísan til meðalhófs, að unnt sé að nota firmamerki á þá vöru sem er óáfeng.“

Ráðherra vísar til Noregs í greinargerð sinni fyrir frumvarpinu. Innanríkisráðherra er almennt á villigötum i þessu máli. Enn einu sinni ræður hættulegur kvilli meðal VG-manna og Samfylkingarfólks, pólitísk rétthugsun í andstöðu við heilbrigða skynsemi. Í stað þess að fara þá leið sem Ögmundur vill fara á að huga að tillögum sem Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, flutti á sínum tíma telji menn núgildandi lög ekki duga eftir túlkun hæstaréttar á þeim.

Hinn hættulegi kvilli sem herjar á VG og Samfylkinguna birtist í fleiru en þessu frumvarpi.

Strax eftir að Samfylking og VG mynduðu meirihluta á alþingi vorið 2009 lögfestu flokkarnir svonefnda  „sænska leið“ í vændismálum. Þegar fyrir liggja rökstudd álit sérfræðinga um að þessi leið auki vanda vændiskvenna hrópar Feministafélag Íslands að um pólitískar ofsóknir sé að ræða. Ekkert er pólitískara í þessu máli en „sænska leiðin“, fædd hjá sænskum jafnaðarmönnum. Þeir hafa unnið að því að afla henni fylgis utan Svíþjóðar á pólitískum forsendum. Nú er meðal annars sótt fast að dönskum og frönskum sósíalistum að samþykkja „sænsku leiðina“. Frekari pólitískar umræður um leiðina verða aðeins til að gagnrýni á hana eykst.

Þriðja málið sem ástæða er til að nefna í sömu andrá og hin tvö fyrri er afstaða innanríkisráðherra til hælisleitenda og ólöglegra innflytjenda til landsins. Í hádegisfréttum ríkisútvarpsins sunnudaginn 19. ágúst var rætt við Þorstein Gunnarsson, staðgengil forstjóra útlendingastofnunar, sem sagði að 21 af 65 hælisleitendum á þessu ári hefði komið hingað til lands í júlí 2012. Mánuðurinn hefði verið annasamur og umsóknir fleiri en í þeim mánuði í langan tíma. Hælisbeiðnir allt árið í fyrra voru 76 og ljóst að málin yrðu mun fleiri í ár.

Um 100 hælisleitendur bíða enn eftir afgreiðslu sinna mála.

Á því er enginn vafi að afstaða innanríkisráðherra, VG og Samfylkingar hefur stuðlað að fjölgun ólöglegra innflytjenda. Þetta er að sjálfsögðu pólitískt mál eins og hin tvö fyrri. Er ástæðulaust með öllu að sópa þessum málum undir teppið í nafni pólitískrar rétthugsunar eða af hræðslu við að ræða þau. Ögmundur Jónasson boðar að hann ætli að flytja frumvarp til breytinga á útlendingalögum í samræmi við pólitíska skoðun sína á málinu. Það er fráleitt að ráðherrann hafi einn rétt til flokkspólitískrar skoðunar á málinu.

Vandinn í umræðum um öll þessi mál er hinn sami: Talsmenn breytinganna sem að ofan er lýst neita allir að taka mið af staðreyndum. Þeir telja sig vita betur en þær sýna og séu dregnar ályktanir af þeim stjórnist menn af pólitísku ofstæki!

Hið sama má segja um málflutning stjórnarflokkanna í ESB-málinu. Þótt níu af 12 þingmönnum VG hafi lýst efasemdum um að rétt sé á málinu haldið, endurmeta beri stöðuna, allt ferlið hafi dregist á langinn og ESB sé að taka á sig aðra mynd en ætla mátti sumarið 2009 heldur strandkafteinninn í brú ríkisstjórnarinnar áfram eins og ekkert hafi í skorist, yfirmennirnir séu að vísu í „panik“ en það skipti engu. Annar stýrimaður hótar einfaldlega að afmunstra þá sem vara við strandi.

Skúli og ESB-karpið

Skúli Helgason, þingmaður Samfylkingarinnar, skrifaði grein á dv.is í anda Jóhönnu og Össurar laugardaginn 18. ágúst undir fyrirsögninni „Höldum okkar striki“. Það er með öðrum ástæðulaust að meta stöðuna að nýju miðað við alla váboðana. Í greininni er þessi lykilsetning sem gengur eins og rauður þráður í öllum málflutningi ESB-aðildarsinna:

„Það besta við aðildarferlið er að með því að leiða það til lykta fáum við loksins eftir áratuga karp efnislegar forsendur til að taka afstöðu til aðildar út frá raunverulegum staðreyndum en ekki hindurvitnum, tröllasögum eða hallelújasöng.“

Hverjir hafa staðið fyrir þessu „karpi“? Árið 1995 lagði Alþýðuflokkurinn til fyrir kosningar að sótt yrði um aðild að ESB. Flokkurinn fékk slæma útreið og datt úr ríkisstjórn meðal annars vegna þessarar stefnu sem ekki var í kosningastefnuskrá hans í þingkosningum 1999. Sighvatur Björgvinsson, þáverandi flokksformaður, sagði reynsluna frá 1995 slæma og ástæðulaust að endurtaka hinn misheppnaða ESB-leik. Í þingkosningum árið 2003 var Samfylkingin komin til sögunnar og spyrti sig við Baug og aðra í viðskiptalífinu sem töldu sig eiga um sárt að binda vegna Davíðs Oddssonar og Sjálfstæðisflokksins. ESB-mál bar ekki hátt í kosningunum 2003 og raunar ekki heldur 2007 en eftir hrun bankanna haustið 2008 setti Samfylkingin málið á oddinn gagnvart Sjálfstæðisflokknum sem að athuguðu máli hafnaði boðinu um ESB-dansinn. Eftir það sneri Samfylkingin sér til vinstri-grænna (VG), þeir reyndust tilkippilegir þótt þeir segðust andvígir ESB-aðild. Nú sjá allir innan lands og utan að lengra verður ekki haldið á sömu braut þótt Samfylkingin vilji halda sínu striki til að „til að taka afstöðu til aðildar út frá raunverulegum staðreyndum en ekki hindurvitnum, tröllasögum eða hallelújasöng,“ segir þingmaður Samfylkingarinnar þetta sé hið „besta við aðildarferlið“.

Að annað eins skuli borið á borð eftir þriggja ára viðræður við ESB af þingmanni flokks sem ætlaði að móta samningsmarkmið, hefur ekki gert það en berst samt fyrir aðild, er líklega skrifað í þeirri trú að einhverjir Íslendingar gleðjist við lesturinn, hoppi hæð sína af fögnuði og hrópi: „Þeir vita sko hvað þeir vilja þessir Samfylkingarmenn!“

Í þessu tali um að nauðsynlegt sé að ljúka ESB-„karpi“ sem stofnað er til af Samfylkingunni, af því að hana vantaði samnefnara fyrir þá sundurlausu hjörð sem að henni stendur, má greina fyrirheit um að flokkurinn ætli ekki að hreyfa ESB-málum oftar fái hann að horfa á einhverja ESB-niðurstöðu eða lokatilboð ESB eins og Štefan Füle, stækkunarstjóri ESB, hefur sagt. Hver trúir því að ESB-mál verði ekki áfram deiluefni á vettvangi íslenskra stjórnmála ef til aðildar kæmi? Munurinn verður hins vegar sá að yrði gengið til aðildar yrðu Íslendingar lokaðir innan ESB-sáttmálagjörðarinnar og í sömu klípu og ESB-þjóðirnar eru nú þar sem allt logar í illdeilum og óttinn við klofning magnast dag frá degi.

Hér hefur ekki verið neitt „áratuga karp“ um ESB-aðild. Nokkrir menn hafa að vísu áratugum saman verið sannfærðir um að Ísland ætti heima í ESB, þeir voru ekkert að karpa um þá skoðun við aðra, þeir vissu að hún ætti ekki hljómgrunn. Það er Samfylkingin sem hefur stofnað til ófriðarins um ESB í íslenskum stjórnmálum. Skynsamlegasta leiðin til að kveða niður „karpið“ er að ýta henni til hliðar svo að hún sjái að sér eins og Alþýðuflokkurinn gerði milli kosninganna 1995 og 1999.