7.8.2012

Þórsmörk og Almenningar – tvískinnungur í ráðningarmálum


 

Í forsendum hæstaréttar í þjóðlendudómi nr. 22/2007 segir meðal annars:

 „Samkvæmt fjallskilareglugerð fyrir Rangárvallasýslu nr. 58/1894 hafði hreppsnefnd Fljótshlíðarhrepps meðal annars umsjón með fjallskilum, réttahöldum og grenjaleitum á Þórsmörk, en samkvæmt fjallskilareglugerð nr. 72/1921 féllu þessi verk í hlut hreppsnefnda Fljótshlíðarhrepps og Vestur-Eyjafjallahrepps. Í gerðabók fasteignamatsnefndar frá 1916 sagði að allar jarðir í Fljótshlíð að undanskildum Breiðabólstaðarjörðum og Austur-Torfastöðum ættu „skógarítak á Þórsmörk, 1 hest á ári fyrir hver 5 hundr. forn, og einnar kindar beit eftir sömu reglu. Þetta er hálf beit á Þórsmörk. Hinn helmingur beitarinnar tilheyrir Oddaprestakalli og er hann nú leigður Inn-Hlíðarmönnum (Fljótsdalur – Hlíðarendi).“ Árið 1920 lýstu landeigendur og ábúendur jarða í Fljótshlíð því yfir að þeir vildu gefa eftir beitarréttinn í Þórsmörk gegn því að landstjórnin girti skóginn þar með fjárheldri girðingu og séð yrði um smölun að hausti. Sóknarpresturinn í Odda féllst á þetta sem „umráðamaður hálfrar Þórsmerkur er liggur undir Oddakirkju, að því er beit snertir“. Samningur var gerður á milli landeigenda og Skógræktar ríkisins 1927 um að hún tæki að sér friðun og umsjón svæðisins, en þar var gert ráð fyrir að bændur eða eigendur jarða misstu með þessu rétt til annarra landnytja á svæðinu en skógarhöggs. Þá er þess að geta að í málinu liggja fyrir lýsingar frá 1953 á skógarítökum kirknanna á Eyvindarhólum, Ásólfsskála, Stóra-Dal og Breiðabólstað í Þórsmörk.“

 

Þetta er gott að hafa í huga þegar rætt er um Almenninga sem eru ekki hluti Þórsmerkur heldur afréttarland bænda undir Eyjafjöllum eins og hæstiréttur staðfesti í dómi um þjóðlendumál árið 2007.

Afréttareigendur á Almenningum, bændur undir Eyjafjöllum, nágrannar Fljótshlíðinga handan Markarfljóts hafa með leyfi sveitarstjórnar Rangárþings eystra ákveðið að nýta Almenninga til beitar fyrir takmarkaðan fjölda fjár miðað við beitarþol. Þá bregður svo við að Landgræðsla ríkisins og Skógrækt ríkisins snúast gegn rétti bænda og látið er í veðri vaka að ráðstöfun þeirra ógni sjálfri Þórsmörk. Hefur bændunum verið líkt við hryðjuverkamenn af opinberum embættismanni.

Stjórn félags afréttareigenda á Almenningum sendi frá sér yfirlýsingu sunnudaginn 5. ágúst og skýrði málstað sinn. Þar segir að bændur undir Eyjafjöllum sem rekið hefðu fé inn á Almenninga hefðu árið 1989 tekið ákvörðun um að friða það landsvæði fyrir beit og hafið þar uppgræðslu á eigin kostnað og með styrk Landgræðslu ríkisins og fleiri aðila,. Þetta hafi verið gert í samræmi við samning við Landgræðslu ríkisins. Bændurnir sögðu samningnum upp árið 2000 en héldu áfram landgræðslu án þess að beita á Almenningum.

Árið 2009 tilkynntu bændur til Skógræktar ríkisins, héraðsnefndar vegna gróðurverndarnefndar, sveitarstjórnar og landgræðslunnar að þeir hygðust hefja upprekstur fjár inn á Almenninga.

Að beiðni frestuðu bændur upprekstri árið 2010 vegna goss í Eyjafjallajökli. Árið 2011 frestuðu bændur enn upprekstri skv. beiðni og féllust á að taka þátt í úttekt gróðurs með tilliti til beitarþols.

Í samningi Fljótshlíðinga við Skógrækt ríkisins var lögð sú skylda á hana að girða af Þórsmörkina til varnar ágangi búfjár.  Skógræktin ákvað einhliða árið 1990 að taka niður girðinguna og skildi hún „við upprúllaðar girðingar og girðingarleifar í hirðuleysi inn í Þórsmörk og er svo enn eftir rúm 20 ár,“ segir í yfirlýsingu stjórnar afréttareigenda á Almenningum. Þar kemur einnig fram að gróður á Almenningum sé svipaður því sem er á afrétti Fljótshlíðinga. Ég hef farið um hann og veit að þar er gróður meiri en fé getur ógnað.

Skilji ég deilur skógræktarinnar og landgræðslunnar við bændur undir Eyjafjöllum rétt vegna Almenninga rétt er hið eina sem bændur að hafa gert og kann að mega gagnrýna með málefnalegum rökum að þeir settu 25 kindur á Almenninga áður en gerð var ítala að kröfu sveitarstjórnar Rangárþings eystra.

Í grein sem Hákon Bjarnason skógræktarstjóri ritaði í Morgunblaðið 17. ágúst 1934 sagði hann að girðingin sem sett hafi verið upp í Þórsmörk 1928 eða 1929 hafi sætt gagnrýni af ýmsum sem töldu hana vitleysu. Hákon segir:

„Einkanlega töldu sumir bændur þetta óráð, enda mistu þeir margir mikið og gott land sem töluvert mátti beita að vetrarlagi. Og einstaka menn líta girðinguna þar óhýru auga enn í dag. En það gat ekki dulist neinum, sem fór um Mörkina, áður en útigangur hætti þar, að henni var mikil hætta búin af uppblæstri. Þess hefði ekki verið langt að bíða að þessi einkennilegi og fagri staður bljesi allur upp og þar hefði orðið auðn ein eftir eins og á Almenningi sem liggur fast að Þórsmörk, en hinum megin Þröngár. Á Almenningi má sjá leifar af bæ Steinfinns landnámsmanns og 3 fornmannadysjar, sem komið hafa fram við uppblástur síðustu ára. En Almenningur og löndin þar upp af eru afrjett Fjallamanna og því er farið svo fyrir þeim eins og raun er á orðin.

Þótt útigangur sje nú horfinn af Þórsmörk er þó altaf töluverð sumarbeit þar sakir þess að ýmsu hættir til þess að skilja hliðin eftir opin og þess eru dæmi að smalar hafi rifið girðinguna á löngu svæði, svo að fje eigi hægar með að rása inn á Mörkina. Slíkur óþokkaskapur er refsiverður, en það er þó ekki með lagavöndum sem græða á sár landsins og vernda skógana og jeg býst við, að hvorki þessir smalar nje aðrir menn vildu verða til þess að auka beitina á Þórsmörk ef augu þeirra upp lykjust fyrir öllu því gróanda lífi, sem þar hefir vaxið upp síðan útigangurinn hætti. Haldist friðunin á Þórsmörk er enginn vafi á, að Mörkin grær upp á fáum árum og síðar eiga Fagriskógur og aðrar skóglausar brekkur undir Eyjafjallajökli eftir að skrýðast skógi að nýju.“

Þessi orð féllu árið 1934. Spádómurinn um áhrif friðunar Þórsmerkur hefur ræst og engum bónda dettur nú í hug að líta á hana sem beitarland. Almenningar gegna hins vegar enn sama hlutverki og þeir gerðu. Bændur gripu til þess ráðs að græða þá. Nú telja þeir sér heimilt með leyfi sveitarstjórnar að hleypa þangað fáeinum kindum að nýju.

Hinn mikli munur nú og á þeim tíma sem Hákon Bjarnason ritaði grein sína er sá að Skógrækt ríkisins hefur ekki haldið við girðingunni til verndar Þórsmörk. Skógræktin hefur ekki heldur, ef ,marka má yfirlýsingu afréttareigenda á Almenningum, fjarlægt gamlar girðingardræsur, leifar girðingarinnar frá 1928 eða 1929.

Mér finnst þess virði að halda þessu deilumáli til haga hér á síðunni. Bændur undir Eyjafjöllum hafa rétt til afnota af Almenningum. Í því felst vottur af opinberri yfirgangsstefnu að ætla að svipta þá þeim rétti einhliða og að því er virðist einkum með stóryrðum.

 

Tvískinnungur í ráðningarmálum

Í síðasta pistli gagnrýndi ég áform Steingríms J. Sigfússonar um að ráða ráðuneytisstjóra í nýju risa-ráðuneyti án þess að auglýsa stöðuna lausa til umsóknar. Steingrímur J. segist ætla að ráða ráðuneytisstjórann „í samkomulagi“. Það er algjörlega ný aðferð við ráðningar ráðuneytisstjóra og sýnir hún að Steingrímur J. beitir geðþóttavaldi í baktjaldamakki.

Jóhanna Sigurðardóttir skipaði sem forsætisráðherra nefnd í desember 2009 til að gera tillögur um endurskoðun á lögum um Stjórnarráð Íslands. Í nefndinni sátu meðal annarra tveir kennarar við Háskóla Íslands: Gunnar Helgi Kristinsson prófessor, Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir stjórnsýslufræðingur. Nefndin skilaði skýrslu í desember 2010. Þar segir meðal annars:

 „Nefndin telur að setja skuli ákvæði um hæfnismatsnefnd eða ráðningarnefnd í lög þegar um er að ræða ráðuneytisstjóra, skrifstofustjóra og forstöðumenn stofnana. Þá ætti í reglugerð að setja leiðbeinandi reglur fyrir störf þeirra þannig að ljóst sé að þær vinni eftir skýrum ramma.

Nefndin telur jafnframt að til að tryggja að ráðningar ráðuneytisstjóra og forstöðumanna ríkisstofnana verði minna umdeildar eigi ráðherra að bera ráðningu þeirra upp í ríkisstjórn til samþykktar.“

Hér fer ekkert á milli mála. Þegar álit þessarar nefndar var birt létu ráðherrar eins og í því fælist forskrift að góðum stjórnarháttum sem þeir mundu að sjálfsögðu fylgja. Það væri mikill munur á opnum, vönduðum og skilvirkum vinnubrögðum undir forystu Jóhönnu og á pukrinu, klíkuskapnum og annars konar misnotkun við val manna í opinber embætti í landinu áður en hún varð forsætisráðherra.

Það liggur ekki aðeins fyrir álit þessarar nefndar með helstu ráðgjafa ríkisstjórnarinnar um góða stjórnarhætti innan borðs heldur hefur stjórnlagaráð sem stjórnarmeirihlutinn á þingi eltir eins og þægur rakki sagt álit sitt á skipan manna í embætti. Þorvaldur Gylfason prófessor segir um niðurstöður ráðsins í nýjasta hefti Skírnis (bls. 237):

„Í önnur háttsett embætti, svo sem störf ráðuneytisstjóra og forstjóra mikilvægra ríkisstofnana, skipar ráðherra að fenginni tillögu sjálfstæðrar nefndar. Kveðið er á um [í tillögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá] að velji ráðherra ekki einn af þeim sem nefndin telur hæasta verði Alþingi að samþykkja skipan hans með tveim þriðju atkvæða.“

Hið merkilega er að vegna yfirlýsinga Steingríms J. um að hann ætli að ráða ráðuneytisstjóra án auglýsingar og „í samkomulagi“ heyrist hvorki hósti né stuna frá þeim sem lagt hafa fram tillögu um allt aðra skipan mála í nýrri stjórnarskrá. Ætli hefði mátt að þeir teldu svo miklu skipta að taka til hendi í anda hins nýja anda sem svífur yfir vötnum þessara tillagna að þeir risu gegn baktjaldamakki Steingríms J.

Þess verður ekki vart að neinn stjórnlagaráðsmaður geri það frekar en háskólakennararnir sem sömdu skýrsluna og vitnað er til hér að ofan. Verðfallið á þessum tillögum öllum sem birtist í þögn tillögusmiðanna þegar vegið er af ásetningi gegn nýrri stefnu við opinberar ráðningar er augljóst. Ráðherrar fara fram með meira offorsi en lög heimila eins og sannaðist í jafnréttisdóminum yfir Jóhönnu Sigurðardóttur eða gera beinlínis gys að öllum sérfræðingaálitunum eins Steingrímur J. ætlar að gera við ráðningu ráðuneytisstjórans.