14.7.2012

Úrræðaleysi vegna gjaldeyrishafta - hrakfarir í stjórnarskrármáli

Núverandi ríkisstjórn leysir ekki íslensku þjóðina úr gjaldeyrishöftum. Vinstri-grænir vilja hafa höftin. Þau gefa þeim færi á að ráðskast með fjármuni og eignir einstaklinga og fyrirtækja eða siga lögreglunni á þá eins og seðlabankinn hefur ítrekað gert undir forystu Más Guðmundssonar. Samfylkingin vill hafa höftin af því að í skjóli þeirra geta ESB-aðildarsinnar þar og annars staðar sagt að þeir ráði yfir töfraleið úr höftum – að ganga í ESB.

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi ráðherra, sendiherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, situr í ESB-viðræðunefnd Össurar Skarphéðinssonar. Hann notar höftin í pistli í Fréttablaðinu 14. júlí sem rök fyrir ESB-aðild, síðasta hálmstráið. Hann segir í lok hugleiðinga sinna:

„Andstæðingar Evrópusambandsaðildar þurfa að svara hvernig þeir hyggjast tryggja pólitíska og efnahagslega hagsmuni Íslands í alþjóðasamfélaginu til lengri tíma. Á að einangra landið? Ef ekki, hver er þá lausnin? Þögnin um þetta er dýpri en hljóðlaus málsvörn Samfylkingarinnar fyrir aðild.“

Tvennt verkur athygli í þessum orðum. Í fyrsta lagi að Samfylkingin haldi ekki uppi neinni málsvörn fyrir ESB-aðild en Þorsteini renni blóðið til skyldunnar vegna setu í ESB-viðræðunefndinni. Í öðru lagi að það jafngildi að einangra Ísland að ganga ekki í ESB. Þorsteinn stóð að því fyrir 20 árum að samþykkja aðild að EES af því að hann og stuðningsmenn EES-aðildar á alþingi töldu aðild að ESB ekki álitlegan kost. Engum datt þá í hug að aðild að EES mundi einangra Ísland. Umræðurnar snerust um hið gagnstæða, að landið yrði of opið og tengt öðrum ríkjum. Aðildin að EES kallaði meðal annars bankaregluverkið yfir þjóðina sem leiddi til hruns hér haustið 2008 og er enn höfuðverkur innan ESB eins og vandræði evru-ríkjanna sýna.

Val Íslendinga stendur ekki á milli ESB-aðildar og einangrunar. Að halda því fram er máttlaus hræðsluáróður.Aðild að ESB sviptir Íslendinga hins vegar svigrúmi til krefjandi tvíhliða samskipta við ríki í Ameríku og Asíu – allar leiðir til umheimsins yrðu í gegnum síu framkvæmdastjórnar ESB í Brussel. Í þeim skilningi einangraðist Ísland við ESB-aðild.

Það herðir sjálfstæðisvitund fámennrar þjóðar og opnar henni víðsýni og tækifæri standi hún vörð um eigið fullveldi. Viðræðunefnd Íslands hefur ekki fengið neitt umboð til að svipta þjóðina fullveldinu. Hvernig væri að nefndarmenn skýrðu þjóðinni frá því hvaða aðferð þeir ætli að beita til að komast að niðurstöðu í aðildarviðræðum við ESB án slíks umboðs? Eða hvaða umboð til ESB-aðildarviðræðna þeir telji sig  hafa að óbreyttu fullveldi þjóðarinnar í samræmi við stjórnarskrá lýðveldisins?

Ráðalaus ríkisstjórn í gjaldmiðlamálum

Þorsteinn Pálsson krefst þess af andstæðingum ESB-aðildar sem ríkisstjórn og viðræðunefndum hefur ekki tekist – að móta stefnu í gjaldmiðlamálum í ESB-viðræðunum. Þegar alþingi samþykkti aðildarumsóknina 16. júlí 2009 fyrir réttum þremur árum tók meirihluti utanríkismálanefndar alþingis afstöðu til gjaldmiðilsmála í áliti sínu: Þessu áliti hefur síðan verið lýst sem grundvallarskjali fyrir stefnu Íslands gagnvart ESB. Í álitinu segir meðal annars:

„Að viðræður um gjaldmiðilsmál verði forgangsverkefni í samningaviðræðunum og að leitað verði eftir samkomulagi við ESB og Seðlabanka Evrópu um stuðning við krónuna sem fyrst þannig að Ísland geti við fyrsta mögulega tækifæri hafið þátttöku í samstarfi ESB á sviði efnahags- og peningamála (ERM II) og

- að tryggt verði í samræmi við fyrri fordæmi að mikil skuldsetning ríkissjóðs komi ekki í veg fyrir að Ísland geti tekið upp evruna þegar þar að kemur enda liggi þá fyrir raunhæf áætlun um lækkun skulda.“

Áður en þeir sem sitja í viðræðunefnd Íslands við ESB kalla eftir afstöðu andstæðinga aðildar til gjaldmiðilsmála væri gott að þeir gerðu þjóðinni, í anda gagnsæis og upplýstrar umræðu, grein fyrir stöðu gjaldmiðilsmálsins í viðræðunum. Alþingi fól nefndinni þetta sem „forgangsverkefni“ og „sem fyrst“ átti að fá stuðning Seðlabanka Evrópu við krónuna. Nú eru liðin þrjú ár án þess að nokkuð bóli á niðurstöðu.

Jóhanna Sigurðardóttir sagði á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar 28. janúar 2012:

„Aðildarumsókn okkar um ESB og sú umræða og hagsmunamat sem nú fer fram vegna samningaviðræðnanna færir okkur einnig framávið í þessum efnum. Ekki síst á þetta við um þá skoðun sem fram þarf að fara varðandi framtíðarskipan gjaldmiðlamála hér á landi.

Á næstu dögum eða vikum er væntanleg skýrsla Seðlabanka Íslands um helstu kosti Íslands í þessu stóra hagsmunamáli þjóðarinnar.“

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sagði á alþingi þriðjudaginn 21. febrúar 2012 að sá hópur í ESB-aðildarviðræðunum sem fjallar um gjaldmiðilsmál undir formennsku Más Guðmundssonar seðlabankastjóra myndi á „næstu dögum, jafnvel í þessari viku“ leggja fram „drög að samningsafstöðu“ um myntsamstarf við Evrópusambandið.  Sagði Össur að gjaldmiðilsnefndin mundi móta fyrir Íslands hönd „þær kröfur sem við munum leggja fram og verða síðan teknar til skoðunar í samninganefndinni og síðan í ráðherranefnd og jafnvel í ríkisstjórninni. Ef ágreiningur er um það, sem ég á ekki von á, verður það væntanlega rætt í þinginu. Í öllu falli verður það kynnt þinginu“.

Skýrsla Seðlabanka Íslands sem Jóhanna boðaði 28. janúar 2012 og „drögin að samningsafstöðu“ í gjaldmiðilsmálum sem Össur boðaði 21. febrúar 2012 hafa ekki séð dagsins ljós. Kemur úr hörðustu átt að gagnrýna andstæðinga ESB-aðildar fyrir að hafa ekki boðað stefnu í gjaldmiðilsmálum þegar ríkisstjórn og ESB-aðildarsinnum hefur ekki sjálfum tekist að gera það. Sé málið svo einfalt að dugi að ganga í ESB ætti að kynna þjóðinni þá stefnu. Málið er hins vegar flóknara og þegar Štefan Füle, stækkunarstjóri ESB, kom hingað til lands í júní bauðst hann til að lána seðlabankanum og ríkisstjórninni sérfræðinga til að vinna að gerð tillagna um gjaldmiðilsmál sem síðar yrðu lagðar til grundvallar í viðræðunum við ESB.

Hvort sem menn eru fylgjandi aðild að ESB eða ekki er óhjákvæmilegt að finna leið út úr höftunum. Í nýjasta hefti Þjóðmála ritar Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, stórmerka grein um þetta viðfangsefni þar sem hann færir rök fyrir því að menn mikli fyrir sér vanda sem rekja megi til „snjóhengjunnar“ svonefndu það er óttans við að erlendir skuldabréfaeigendur muni flýta sér að losa sig við eignir hér á landi við afnám haftanna. Hann bendir á að þeir sem vilji halda í höftin af pólitískum ástæðum, stjórnarflokkarnir, telji sig hafa ávinning af því mála þessa mynd sem dekksta. Raunveruleikinn kunni að vera annar.

Hrakfarir Jóhönnu í stjórnarskrármáli

Jóhanna Sigurðardóttir hefur frá því að hún varð forsætisráðherra 1. febrúar 2009 þráð að breyta stjórnarskránni. Henni mistókst það hrapallega fyrir kosningar 25. apríl 2009. Henni mistókst að láta kjósa stjórnlagaþing. Henni mistókst að standa þannig að afgreiðslu alþingis á tillögum stjórnlagaráðs að hún hafi komið málinu á beinu brautina.

Jóhönnu var svo mikið í mun að halda í kröfu stjórnlagaráðs um að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur þess að hún samþykkti skoðanakönnun sem þjóðaratkvæðagreiðslu. Jóhanna gleymdi að fara að lögum um þjóðaratkvæðagreiðslu. Innanríkisráðuneytið veit ekki hvenær atkvæðagreiðslan, sem kostar 250 milljónir króna, á að fara fram.

Að Jóhanna veldi þann kost að vinna að stjórnarskrármálinu í ágreiningi milli stjórnmálaflokkanna varð Ólafi Ragnari Grímssyni hvati til að bjóða sig fram til forseta í fimmta sinn í óþökk Jóhönnu.

Þess eru engin dæmi að forsætisráðherra nokkurs lýðræðisríkis hafi haldið jafnilla á tillögu um breytingar á stjórnarskrá. Jóhanna lætur ekki segjast. Þingflokkur Samfylkingarinnar styður hana og vinstri-grænir líka. Stjórnarskrármálið snertir tilverugrundvöll ríkisstjórnarinnar eins og ESB-aðildarumsóknin. Færi ríkisstjórnin frá yrðu þessi tvö vandræðamál úr sögunni í núverandi mynd. Að ríkisstjórn vilji lifa fyrir málstað af þessu tagi segir allt sem segja þarf um hversu óhæf hún er.