6.5.2012

Huang Nubo vegur að íslenskum stjórnvöldum

Framkoma kínverska auðmannsins Huangs Nubos vegna ásælni hans í Grímsstaði á Fjöllum er á þann veg að hún ein ætti að vekja grunsemdir um heilindi hans og raunverulegan áhuga á að eiga gott samstarf við Íslendinga.

Huang Nubo á valdamikla vini innan Samfylkingarinnar sem hafa beitt sér mjög í hans þágu hvort sem þeir eru utan eða innan stjórnarráðsins. Þeir hafa farið með hann um landið, veitt honum lögfræðilega ráðgjöf, skipað sendiherra Íslands í Peking að taka þátt í áróðursfundum með Huang í Kína og síðan hannað nýja leikfléttu með honum eftir að íslensk lög stóðu í vegi fyrir kaupum hans á Grímsstöðum.

Eftir að Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra tók ákvörðun með vísan til íslenskra laga í nóvember 2011 hóf Huang Nubo að flytja óhróður um Íslendinga og íslensk stjórnvöld í Kína. Hann taldi sig beittan misrétti vegna þjóðernis síns og ranghugmynda um áform sín. Túlkaði hann meira að segja ákvörðun Ögmundar á þann veg að hann ýtti undir vænisýki Kínverja gagnvart Vesturlöndum og umheiminum almennt.

Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra sagði strax eftir ákvörðun Ögmundar að fundin yrði leið til að friða Huang og koma honum inn í landið. Nýlega sat Þórður Hilmarsson, forstöðumaður fjárfestingarstofu Íslandsstofu, ráðstefnu í Shanghai og skýrði frá því að tekist hefði að finna ívilnandi leið fyrir Huang í samvinnu við sveitarstjórnir á norðausturlandi. Þórði tókst greinilega að friða Huang því að auðmaðurinn talaði að nýju á vinsamlegan hátt til Íslendinga eftir reiðikastið í nóvember. Hann sagðist líka hafa náð undirtökunum í samskiptum við þá, næst ætlaði hann með danska sendiherranum í Kína í skíðaferð til Grænlands þar sem hann mundi síðan leggja útþenslu net sín.

Föstudaginn 4. maí 2012 ræddi ríkisstjórn Íslands drög að samkomulagi við Huang Nubo. Samkomulagið var gert án vitundar Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra. Í kínverskum fjölmiðlum hreykti Huang Nubo sér af því að hafa sniðgengið Ögmund og lét eins og þar með væri hann kominn á beinu brautina til Grímsstaða.

Eftir ríkisstjórnarfundinn kom hins vegar í ljós að ekkert samkomulag hafði verið gert. Ágreiningur var til dæmis um hvort Huang fengi Grímsstaði til leigu til 40 ára eða 99 ára. Spurningin virtist ekki snúast um verð, 800 milljónir króna sem sveitarfélögin ætla að taka að láni ef rétt er skilið og innheimta síðan frá Huang. Samfylkingarliðið fagnaði samkomulaginu. Var til dæmis látið í veðri vaka að það væri nú mikill munur á þessum viðskiptum eða því þegar kanadískur fjárfestir stofnaði „skúffufyrirtæki“ í Svíþjóð til að geta eignast hlut í HS Orku. Nú væri allt uppi á borðinu og ekki beitt neinum brögðum!

Síðast þegar um það var rætt að útlendingar vildu fá hér aðstöðu til 99 ára fór allt á annan endann meðal stjórnmálamanna og þjóðarinnar. Þetta var árið 1945. Bandaríkjamenn komu hingað með herlið árið 1941 og sömdu við Íslendinga um brottför þess í lok heimsstyrjaldarinnar síðari. Þegar henni lauk fóru þeir þess á leit að fá hér aðstöðu fyrir herstöðvar til 99 ára. Ólafur Thors, formaður Sjálfstæðisflokksins, var forsætisráðherra í nýsköpunarstjórninni með sósíalistum. Hann og ríkisstjórnin öll snerist gegn herstöðvabeiðninni. Fór svo að árið 1946 var Keflavíkursamningurinn svonefndi gerður um afnot Bandaríkjamanna af Keflavíkurflugvelli. Gerð samningsins varð til þess að sósíalistar/kommúnistar slitu ríkisstjórnarsamstarfinu.

Nú segir kínverskur fjárfestir, sem ekki getur látið að sér kveða í útlöndum nema með samþykki kommúnistastjórnarinnar í Kína, að hann hafi samið við Íslendinga um 99 ára leigu á Grímsstöðum á Fjöllum. Sér hafi tekist að leika á innanríkisráðherrann.

Laugardaginn 5. maí sagði Huang Nubo við kínverska fjölmiðla að samningur hans um land á Íslandi hefði verið samþykktur föstudaginn 4. maí eftir að háttsettir íslenskir embættismenn hefðu fundað um málið. Á fundinum hefði nefnd fulltrúa efnahags-, fjármála- og iðnaðarráðherra Íslands samþykkt að leigja Huang landið í stað þess að selja honum það.

Huang hafði fengið þessar góðu fréttir frá umboðsmanni fyrirtækis síns í Reykjavík um miðnætti föstudags 4. maí. Hann fullvissaði blaðamann China Daily um að hann mundi rita undir samning við Íslendinga um miðjan júní en „ræða þurfi nánar um einstök atriði samningsins“.

Huang sagði við kínverska blaðið að í öllu þessu ferli hefði hann lagt gott til mála með því að segja frá eigin reynslu við að hverfa frá störfum sem opinber embættismaður og gerast fésýslumaður á eigin vegum á þeim 30 árum sem breytingar hefðu orðið í Kína og frjálsræði aukist. Segir blaðið að Huang hafi unnið við deild kínverska kommúnistaflokksins og í mannvirkjaráðuneytinu á níunda áratugnum en sagt skilið við þessi störf í upphafi tíunda áratugarins þegar margir embættismenn hafi haslað sér völl í viðskiptalífinu í góðærinu.

„Í fylgd með mér er hópur manna sem hefur vegnað vel í viðskiptum eins og mér. Vesturlandamenn vita lítið um þessa breytingu. Saga mín auðveldar þeim að skilja Kína og það sem er að gerast hér,“ sagði Huang Nubo við China Daily 5. maí 2012.

Nú þegar Huang Nubo telur sig á grænni grein gagnvart Íslendingum slær hann um sig í Kína sem brautryðjandi í samskiptum við Vesturlönd. Sér hafi tekist eitthvað sem sé öðrum til fyrirmyndar. Þetta eitt varpar ljósi á pólitíska hlið þessa samstarfs Samfylkingarinnar og Huangs Nubos um að hann nái fótfestu á Grímsstöðum á Fjöllum.

Í fréttum segir að eitt hið fyrsta sem Huang þurfi að gera sé að leggja flugbraut á staðnum. Minni krafa hans um leigu til 99 ára á óskir Bandaríkjamanna eftir seinni heimsstyrjöldina minnir tal Huangs um nýjan flugvöll á Grímsstöðum á Fjöllum á óskir Þjóðverja fyrir þessa sömu heimsstyrjöld þegar þeir vildu að þýska flugfélagið Lufthansa fengi hér aðstöðu sem ekki var unnt án þess að leggja flugbrautir á borð við þær sem Bretar gerðu síðan í Reykjavík og Bandaríkjamenn við Keflavík á stríðsárunum.

Áður hefur komið í ljós að umboðsmenn Huangs Nubos á Íslandi hafa ekki sagt honum satt og rétt frá því sem hér er að gerast. Hann sagði eftir áfallið sem hann varð fyrir í nóvember 2011 að sér hefði ekki verið sagt rétt frá efni íslenskra laga. Ef tekið er mið af því sem íslenskir ráðamenn sögðu eftir ríkisstjórnarfundinn 4. maí hefur íslenskur umboðsmaður Huangs Nubos ekki sagt honum rétt frá því sem hér gerðist þann dag. Bjartsýni Huangs er ekki á rökum reist nema eitthvað sé að gerast í bakherbergjum Samfylkingarinnar.

Á ruv.is sagði eftir ríkisstjórnarfundinn 4. maí 2012 að deilt hefði verið um leiguna til Huangs Nubos á fundinum. Iðnaðarráðherra litist ágætlega á verkefnið en innanríkisráðherra ekki.

Talsmaður Huangs sagði í samtali við fréttastofu RÚV að ívilnanir í þágu umbjóðanda síns væru forsenda þess að hægt væri að ljúka formlega samningum um verkefnið. Með kaupum sveitarfélaga á norður- og austurlandi á 70% jarðarinnar og leigu til Huangs Nubos til 40 ára yrði „komist fram hjá lagalegum hindrunum um fjárfestingu útlendinga utan EES svæðisins,“ eins og segir í fréttinni. Oddný G. Harðardóttir starfandi iðnaðarráðherra væri fylgjandi þessari leið.

„Sjálfri lýst mér ágætlega á það en auðvitað þurfum við að skoða hvernig leigusamningurinn er uppbyggður og hvaða skilyrði eru þar sett og síðan verðum við auðvitað að fara yfir umhverfismálin og skipulagsmálin í því samhengi,“ sagði Oddný við RÚV að ríkisstjórnarfundi loknum.

Haft var eftir Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra:

„Grundvallarreglan í íslenskum lögum er sú að fjárfestingar af þessu tagi séu ekki heimilar. Hinsvegar er nefndin [um ívilnandi leyfi til fjárfestinga] að skoða lög sem heimila ívilnanir og frávik frá þessari grundvallarreglu. Og það er nokkuð sem við þurfum að skoða og gera málið upp í heild sinni þegar allar staðreyndir liggja fyrir. Það gera þær ekki ennþá.“

Ögmundur Jónasson lá ekki á skoðun sinni á málinu þegar hann sagði á vefsíðu sinni 4. maí 2012:

„Auðjöfurinn Huang Nubo sem er í forsvari fyrir kínversku fjárfestingasamsteypuna sem vill fá afnotarétt yfir Grímsstöðum á Fjöllum til að reisa þar 20 þúsund fermetra hótelhúsnæði  og gera flugvöll á svæðinu til að fljúga með túrista til að njóta einsemdarinnar í Herðubreiðarlindum, hrósar nú happi yfir því að innanríkisráðherra Íslands sé ekki í færum (lengur) til að eyðileggja áform sín.

Erlend ríki fylgjast með þessum tilraunum Kínverja að fá fótfestu á Íslandi. Þau líta flugvallardraumana öðrum augum en íslenskir sveitarstjórnarmenn við samningaborð Núbós. Þar hafa menn stórveldahagsmuni í huga, líka þegar menn segjast vilja kíkja upp í himintunglin, eða voru það Norðurljósin?

 

[...]

Það kemur okkur öllum við þegar eignarhaldi eða afnotarétti á landi okkar er ráðstafað út fyrir landsteinana. Kínverski auðmaðurinn hrósar happi yfir að vera laus við innanríkisráðherrann. En skyldi hann vera laus við íslenska þjóð? Ég held ekki. Almennt vilja Íslendingar ekki verða hráefnanýlenda fyrir erlenda auðmenn, jafnvel þótt stöku sveitarstjórnarmanni glepjist sýn. Þannig var það líka í Mið- Ameríku þegar bananaekrurnar voru seldar.

Ég held að erlendir auðkýfingar eigi að fara varlega í að hreykja sér á kostnað íslenskra stjórnmálamanna sem vilja sporna gegn því að vaðið sé á skítugum skónum inn á Ísland.“

Nú mun enn reyna á hvor hefur betur innan ríkisstjórnarinnar og stjórnarsamstarfsins Ögmundur Jónasson eða Huang Nubo.

Menn geta deilt um markmið Huangs Nubos, fjárfestis frá Kína, með því að sækjast eftir aðstöðu á Grímsstöðum á Fjöllum. Eitt er víst, honum hefur þegar tekist að beita félagslegri félagslegri leikfléttu til að ná markmiðum sínum. Þetta blasir við þegar sagt er frá samningi leikfléttu til að ná markmiðum sínum. Þetta blasir við þegar það er lesið sem hér er birt að ofan. Huang hefur tekist að beita þrýstingi á forráðamenn sveitarfélaga sem eru reiðubúnir til að leggja stórfé skattgreiðenda undir til að tryggja honum aðgang að Grímsstöðum á Fjöllum. Verðið virðist hið sama hvort heldur rætt sé um samning til 40 eða 99 ára.

Þá vefur Huang Nubo nefnd á vegum ríkisins um fingur sér og tekur fram fyrir hendur hennar með því að lýsa yfir niðurstöðu sem hvergi hefur verið birt opinberlega á Íslandi. Forstöðumaður fjárfestingarstofu fer til Shanghai og lýsir yfir að ívilnandi aðgerðir séu á döfinni í þágu Huangs áður en skýrt er frá efni þeirra opinberlega á Íslandi. Kínverskir fjölmiðlar setja þetta í samhengi við för forsætisráðherra Kína til Íslands.

Föstudaginn 4. maí sagði Huang Nubo við China Daily:

„Ég held að niðurstaðan [vegna Grímsstaða á Fjöllum] verði ekki langt frá því sem ég vonaðist eftir. Með því að leigja landið er ólíklegt að málinu verði hafnað, því innanríkisráðherrann hefur ekkert með málið að gera í þetta skipti.“

Þarna hreykir Huang Nubo sér af því að hafa leikið á innanríkisráðherra með fléttunni sem stofnað er til með þátttöku sveitarfélaganna. Hann veit að hann á hauka í horni þar sem ráðherrar Samfylkingarinnar sitja.

Erlendis velta menn því fyrir sér hvað fyrir kínverskum yfirvöldum vaki með heimildinni til Hugangs vegna fjárfestinga hér á landi. Í því efni líta menn á fasteignina og legu Íslands. Nærtækara er að líta á stjórnarhættina og þau ráð sem beitt er til að útiloka þá innan íslenska stjórnkerfisins sem taldir eru andvígir brölti Huangs.

Kínversk stjórnvöld leggja meiri áherslu en  stjórnvöld nokkurs annars ríkis á að ná tökum á upplýsingatækni til að útiloka skoðanir í netheimum sem þau telja sér hættuleg, miðla sjónarmiðum sem þeim falla í geð eða til að brjótast inn í tölvukerfi annarra og verjast slíkum árásum. Tugir ef ekki hundruð þúsunda manna starfa á þessu sviði í þágu ráðamanna í Kína.

Þessi áhersla Kínverja er í anda ákafa valdamanna þeirra við að beita „social engineering“, það er að koma ár sinni fyrir borð með því að beita andstæðinga sína sálrænum þrýstingi til að ná markmiðum sínum eða undirtökum í samskiptum við þá. Hæfileikinn til þessa skiptir höfuðmáli þar sem meira er í húfi að tapa ekki andlitinu en jafnvel lífinu. Sveiflukenndar yfirlýsingar Huangs Nubos í kínverskum fjölmiðlum ber að skoða í ljósi þess að hann vill umfram allt annað komast hjá því að tapa andlitinu í samskiptum við íslensk stjórnvöld og nú sérstaklega Ögmund Jónasson innanríkisráðherra.

Hugtakið „social engineering“ hefur hlotið aukið vægi eftir að upplýsingatæknin kom til sögunnar. Sé það sett í samhengi við öryggismál er það skilgreint á þann veg að leikið sé á fólk í því skyni að það grípi til aðgerða eða láti í té trúnaðarupplýsingar. Í netheimi snýst þetta til dæmis um að beita hvers kyns brögðum til að ná í lykilorð eða númer á bankareikningum og kreditkortum. Í fæstum tilvikum kemur til beinna tengsla milli þess sem beitir bragðinu og hins sem er fórnarlamb þess. Það er sameiginlegt með öllum aðferðum á þessu sviði að þær miða að því að hafa áhrif á hvaða ákvörðun er tekin. Í öllum mönnum megi finna „veikleika í forritinu“ og leikið sá á þá.

Sókn Huangs Nubos eftir Grímsstöðum á Fjöllum er skólabókardæmi um leikfléttu sem miðar að því að koma ár sinni fyrir borð í íslensku samfélagi og spila á Íslendinga með vísan til veikleika í forriti þjóðarsálarinnar.

Huang Nubo situr í Kína og gefur yfirlýsingar út og suður til að leika á íslensk stjórnvöld og almenning. Umboðsmenn hans á Íslandi innan og utan íslenska stjórnkerfisins standa þannig að málum að stjórnandi fléttunnar á aldrei sjálfur bein samskipti við þá sem ákvarðanir taka. Stór hópur þeirra sem bera ábyrgð á niðurstöðunni hér á landi vill ekki heldur horfast í augu við raunverulegar og augljósar staðreyndir þegar Kínverjar eiga í hlut.

Minnir þetta nokkurn á áhættuna sem menn taka með því að falla fyrir loforðum um gull og græna skóga sendi þeir bara bankanúmerið sitt og kennitölu sem svar við ósk frá Nígeríu?