10.4.2012

Pólitískur rétttrúnaður í fréttum af ESB-viðræðum

Í Fréttablaðinu þriðjudaginn 10. apríl birtist enn ein yfirborðslega greinin um ESB-aðildarferlið. Hún er reist á ferð sem blaðamaður fór með hópi annarra íslenskra fjölmiðlamanna til að geta sagt frá þeim viðburði að fjórir samningskaflar í viðræðum Íslands og ESB voru opnaðir og tveimur þeirra var lokað „umsvifalaust“ eins og segir í greininni. Orðavalið sýnir að ekkert var um að ræða. Vegna aðildar sinnar að evrópska efnahagssvæðinu hafa íslensk stjórnvöld þegar lagað sig að stórum hluta ESB-lagabálksins.

Í blaðinu segir að þessi atburður hafi gerst „síðastliðinn föstudag“ sem vísar til föstudagsins langa. Þetta orðaval ber með sér að greinin eða fréttaskýringin hafi birst síðar en höfundur ráðgerði, föstudagurinn sem um ræðir er 30. mars.

Eftir að blaðamaðurinn hefur sagt frá opnun og lokun kaflanna hefst sama gamla upptalningin á því hve samningskaflarnir eru margir og svarað er lykilspurningunni: „Hvert er hins vegar ferlið á bak við opnun og lokun kaflanna og hvað ræður því hvenær og í hvaða röð þeir eru opnaðir?“

Þessari spurningu hefur verið svarað svo oft frá því að viðræðurnar við ESB hófust að undrun vekur að blaðamenn þurfi að bregða sér til Brussel til að afla sér efnis í enn eitt svarið. Í því er enn staðfest að framkvæmdastjórn og ráðherraráð ESB ráða efni og ferð viðræðnanna. Um það segir blaðamaðurinn:

„Til að viðræðurnar verði sem markvissastar er til fastmótað ferli sem dregur fram helstu núningsfleti milli samningsaðila. Þannig er reynt að að tryggja sem best að sem minnstur tími fari til spillis í viðræðunum.“

Áður en viðræðurnar hófust létu talsmenn þeirra meðal íslenskra stjórnmálamanna eins og þær mundu taka skamman tíma. Baldur Þórhallsson, prófessor og sérfræðingur Samfylkingarinnar, taldi að kosið yrði um aðildarsamning í þjóðaratkvæðagreiðslu sumarið 2010. Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, taldi öruggt að þessi atkvæðagreiðsla færi ekki fram síðar en vorið 2011. Viðræðunum er ekki lokið enn og enginn veit hvenær þeim lýkur þótt þær fari fram innan fastmótaðs ferlis sem eigi að tryggja að „sem minnstur tími fari til spillis í viðræðunum“.

Blaðamaður Fréttablaðsins sem fór með hópi íslenskra fjölmiðlamanna til Brussel til að verða vitni að því að kaflar voru opnaðir og þeim lokað sýnir ekki minnstu viðleitni til að skýra fyrir lesendum sínum ástæðurnar fyrir því að viðræðurnar hafa tekið miklu lengri tíma en talsmenn þeirra hér á landi töldu áður en þær hófust. Raunar er fjölmiðlamenn áhugalitlir um að upplýsa almenning um það hvað fór svona alvarlega úrskeiðis varðandi tímasetningarnar. Var íslenska sendinefndin illa undirbúin? Hefur ESB sýnt Íslendingum meiri óvild en vænst var þegar lagður var grunnur að umsókninni í samvinnu við Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar?

Blaðamaður Fréttablaðsins segir:

„Eins og staðan er núna, níu mánuðum eftir að efnislegar samningaviðræður hófust, hafa viðræður hafist í fimmtán köflum og samkomulag hefur náðst í tíu þeirra, eins og áður sagði. […] Næsta ríkjaráðstefna Íslands og ESB verður í júní og þar verður að teljast líklegt að fyrrnefndir fimm kaflar verði teknir til umræðu.

Ekki er talið líklegt að einhver hinna veigameiri málaflokka verði tekinn fyrir í júní, en þar má nefna sjávarútveg, landbúnað, umhverfismál og byggðamál.

Stefan Füle, stækkunarstjóri ESB, lét þau orð falla í samtali við íslenska fréttamenn í síðustu viku [innskot 30. mars] að hann vonaðist til þess að viðræður um alla kafla yrðu hafnar fyrir árslok, en ef það er stefnan má ætla að undirbúningur þeirra vegna verði hafinn hér á landi eða muni hefjast áður en langt er um liðið, svo að samningsaðstöður liggi ljósar fyrir í tæka tíð.“

Um árabil hafa forystumenn Samfylkingarinnar rétt nauðsyn þess að móta samningsmarkmið Íslands. Þarna gefur blaðamaður Fréttablaðsins til kynna að kannski verði Íslendingar ekki tilbúnir með „samningsaðstöður“ sínar.

Fréttaskýringin er skráð án þess að minnsta viðleitni sé gerð til þess að greina lesendum frá því sem efnislega ber á milli Íslands og ESB í hinum „veigameiri“ málaflokkum.

Frá því að blaðamaðurinn kom frá Brussel hefur þó skýrst að ekki er aðeins um að ræða ágreining vegna ólíkra meginsjónarmiða í sjávarútvegsmálum heldur setur ESB skilyrði um að Íslendingar lagi sig að kröfum sambandsins í makríldeilunni. Þá hefur Steingrímur J. Sigfússon áréttað kröfu sína um að menn sýni á spil sín í sjávarútvegsmálum. Hann segir í Morgunblaðinu 10. apríl:

„Mér finnst það óþolandi tilhugsun að samningskaflarnir sem varða stóru grundvallarhagsmunamálin okkar verði enn allir lokaðir þegar við förum að sigla inn í kosningar. Við verðum að knýja á um að þeir verði opnaðir þannig að við getum látið reyna á þá við samningaborðið og séum þá einhverju nær um það hvar við stöndum.“

Hvaða tímasetning felst í orðunum „að sigla inn í kosningar“? Þær verða í síðasta lagi eftir rúmt ár.

Stefán Haukur Jóhannesson, formaður íslensku viðræðunefndarinnar, býst ekki við því að ESB hafi lokið endurskoðun á sjávarútvegsstefnu sinni fyrr en á árinu 2014. ESB vill ekki sýna á spil sín fyrr en stefnan hefur verið mótuð.

Undarlegt er hve fjölmiðlamenn eru iðnir við að endurtaka sömu rolluna um opnun og lokun samningskafla í stað þess að skýra um hvað ágreiningur er eða kann að verða. Ástæðan fyrir því að ekki er kafað ofan í málið er einföld: fjölmiðlamenn elta aðeins „hin pólitísk réttu“ sjónarmið í málinu sem falla að hagsmunum viðræðunefnda ESB og Íslands. Talið um upplýsta og opna umræðu er er ekki einu sinni til heimabrúks.

Laugardaginn 7. apríl vakti Evrópuvaktin fyrst fjölmiðla athygli á því að Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingflokksformaður sjálfstæðismanna, hefði sagt á sameiginlegum fundi íslenskra og ESB-þingmanna í Reykjavík þriðjudaginn 3. apríl að hótanir ESB um viðskiptaþvinganir vegna makríldeilunnar ættu að leiða til þess að Íslendingar hættu ESB-viðræðunum, ekki væri unnt að halda þeim áfram í góðri trú undir hótun sem þessari.

Ragnheiður Elín Árnadóttir hafði nefnt þetta á fésbókarsíðu sinni fyrr sama laugardag og varð það til þess að Evrópuvaktin kynnti sér málið.  Sunnudaginn 8. apríl birtist viðtal við Ragnheiði Elínu um málið á mbl.is. Þess hefur hins vegar ekki orðið vart að aðrir fjölmiðlar en Morgunblaðið og Evrópuvaktin hafi sýnt þessu máli áhuga þótt það snerti þjóðarhag, makrílveiðar skila þjóðarbúinu 25 til 30 milljörðum króna, og sé viðkvæmt mál í samskiptum Íslands og ESB.

Hinn 10. apríl birti Evrópuvaktin frásögn blaðamanns The Guardian sem hélt til Senegal og þaðan út á fiskimið undan ströndum Vestur-Afríku með skipi Greenpeace, Arctic Sunrise. Blaðið tók fram neðan við greinina að Greenpeace hefði kostað ferð blaðamannsins til Senegal en ekki ráðið neinu um efni hennar.

Ég hef vakið máls á því að gefnu tilefni vegna efnistaka í Landanum, þætti sjónvarpsins, að hér ætti að gilda sama regla og hjá The Guardian, að þessi yrði getið færu menn í ferðir á kostnað Evrópusambandsins eða annarra aðila. Blaðamaður Fréttablaðsins lætur þess ekki getið hver hafi staðið fyrir hópferð íslenskra fjölmiðlamanna til Brussel í tengslum við að opnaðir voru fjórir kaflar og tveimur lokað „umsvifalaust“.

Við það er ekkert að athuga að Evrópustofa eða utanríkisráðuneytið styðji fjölmiðlamenn til að fara til Brussel í efnisöflun, hið undarlega er að efnið sé svona rýrt sem ferðin skilar. Þegar leitað hefur verið skýringa á því hvers vegna ummæli Ragnheiðar Elínar á þingmannafundinum 3. apríl komust ekki í hámæli fyrr en hún nefndi þau sjálf á fésbókarsíðu sinni er svarið að fundurinn hafi verið svo þurr, leiðinlegur og illa skipulagður að líklega hafi fjölmiðlamenn ekki haft þrek til að fylgjast með því sem þar gerðist.

Miðað við fréttir í Fréttablaðinu og á RÚV virðist þeim sem fóru til Brussel þykja spennandi að fylgjast með því þegar skipst er á að opna kafla og loka þeim. Hvað sem um aðildarviðræður Íslands og ESB má segja eru þær meira spennandi en hinar þurru opinberu tilkynningar segja. Meiru skiptir hins vegar að rýna á bakvið tjöldin, skýra og skilja það sem þar birtist. Þá átta menn sig einnig á því hvers vegna draumarnir um tímasetningarnar hafa ekki ræst og sjá að þeir voru aldrei á neinum rökum reistir. Alvarlegt er ef vitundin um það veldur hinni máttlausu fréttmennsku.