13.3.2012

Sarkozy, skjaldborgin, undirgefni Össurar


 

Almennt hafa Íslendingar líklega takmarkaðan áhuga á frönskum stjórnmálum. Telja þau of fjarlæg til að þau skipti þá máli. Hvað sem því líður hafa tengsl Frakka og Íslendinga verið margvísleg í áranna og jafnvel aldanna rás eins og frásagnir af ferðum franskra sjómanna við landið sýna. Nú er unnið að því að leggja rækt við sýnileika þessa sambands með endursmíði húsa á Fáskrúðsfirði sem tengist dvöl franskra sjómanna þar.

Tilraunir Samfylkingarinnar og meðreiðarsveina hennar í minnihlutahópum í öðrum stjórnmálaflokkum til að troða Íslandi inn í Evrópusambandið auka á nauðsyn þess að kynna sér það sem er efst á baugi í stjórnmálum ESB-ríkjanna, ekki síst hinna stærstu, Þýskalands og Frakklands.

Nú er gullið tækifæri til að rýna  í frönsk stjórnmál þegar tekist er á um valdamesta embætti landsins, forsetaembættið. Forseti Frakklands hefur raunveruleg pólitísk völd og Nicolas Sarkozy hefur beitt þeim óspart árin fimm sem hann hefur setið í Elysée-höll, embættisbústað franska forsetans í hjarta Parísar. Fyrri umferð kosninganna verður 22. apríl og hin seinni 6. maí ef enginn fær hreinan meirihluta í fyrri umferðinni.

Sumum Íslendingum finnst þeir vafalaust hafa sérstök tengsl við einn frambjóðandanna, Evu Joly, sem kom hingað fyrir þremur árum og lagði á ráðin um hvernig staðið skyldi að sérstakri saksókn eftir bankahrunið. Ýmsum þótti og þykir nóg um þau ráð. Eitt er víst að Joly hefur hvorki tekist að nýta afskipti af íslenskum málum né almennt öðru sér til framdráttar í kosningabaráttunni. Stuðningsmenn hennar óttast að hún nái ekki 5% markinu sem hún verður að gera til að franskir skattgreiðendur taki þátt í kostnaði við framboð hennar. Án þess stuðnings verða græningjar og umhverfisverndarsinnar skuldum vafnir að kosningum loknum. Í ESB-málum er Joly talsmaður þess að til verði sambandsríki í Evrópu.

Marine Le Pen er hin konan sem býður sig fram. Hún er á öndverðum meiði við Joly á flestum ef ekki öllum sviðum. Að baki henni stendur Þjóðfylkingin, þjóðernissinnaður hægri flokkur sem laut forystu föður hennar árum saman. Nicolas Sarkozy leggur sig einkum fram um að ná inn í raðir þeirra sem líklegir eru annars til að kjósa Le Pen.

François Hollande er frambjóðandi sósíalista. Þar til um miðjan maí 2011 reiknuðu flestir með því að Dominique Strauss-Kahn, forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, yrði forsetaefni sósíalista. Sá draumur varð að engu 14. maí á Sofitel-hóteli á Manhattan í New York vegna ásakana á hendur Strauss-Kahn um kynferðislegt ofbeldi. Hann lét af forstjórastarfi við sjóðinn og hefur síðan mátt hafa sig allan við verjast vegna ásakana um ósæmileg samskipti við konur.  Hollande hefur haft forskot í skoðanakönnunum fram undir þetta. Sunnudaginn 11. mars efndi Sarkozy til mikils fjöldafundar og snerist gegn óbreyttu Schengen-samstarfi og vildi breyta reglum um innri markað ESB.

Auk þeirra sem hér hafa verið nefndir eru fleiri frambjóðendur til forseta í Frakklandi. Því er almennt spáð að í annarri umferð forsetakosninganna berjist Hollande og Sarkozy. Nýjasta könnun sýnir að Nicolas Sarkozy fengi 28,5% í fyrri umferð kosninganna en François Hollande 27%.

Patrick Buisson, 62 ára, sérfræðingur í skoðanakönnunum starfar fyrir Nicolas Sarkozy og leggur dag hvern á ráðin um kosningabaráttu hans. Blaðamaður Le Monde ræddi við hann um kosningabaráttuna og birti viðtalið þriðjudaginn 13. mars. Fyrst er Buisson spurður hvort Sarkozy hafi þegar tapað kosningunum.

Buisson segir fjölmiðla segja það sem þá langi til að trúa. Það væri betra ef þið lýstu því sem sé að gerast á líðandi stundu. Frá 1965 hafi ekki verið meiri þátttaka í seinni umferð forsetakosninga en hinni fyrri. Allt bendi til þess að Sarkozy eigi meira inni hjá þeim kjósa ekki í fyrri umferðinni en Hollande og þess vegna sé ekki unnt að túlka kannanir á þann veg að Sarkozy hafi nú þegar tapað.

Le Monde minnir Buisson á að hann hafi í margar vikur spáð illa fyrir Hollande og fylgi hans mundi minnka. Hann segir að Hollande hafi notið 35% til 39% stuðnings samkvæmt könnunum þegar prófkjöri sósíalista lauk, mánudaginn 12. mars hafi birst könnun sem sýni 27% stuðning við Hollande. Menn geti túlkað einstakar tölur eins og þeim sýnist en allir fræðimenn á þessu sviði segi að það séu ekki einstakar tölur sem gildi í kosningabaráttu heldur hvernig straumarnir liggi. Kvikmyndin segi söguna en ekki einstakir rammar í henni. Vegur Hollandes hafi minnkað síðan í nóvember. Fylgi Sarkozys hafi hins vegar aukist eftir að hann hóf baráttu sína fyrir alvöru.

Le Monde spyr: Hvernig skýrir þú hægrivæðingu Sarkozys? Buisson segir að hugtakið „hægrivæðing“ sé til marks um brenglað hugarástand sumra álitsgjafa. Felist „hægrivæðing“ í því að taka málstað þeirra Frakka sem búi við verstu og viðkvæmustu félagslegu aðstæður sé búið að snúa gömlum stjórnmálakenningum á haus, það sýni aðeins að flokkur sósíalista sé orðinn vettvangur hinna nýju ráðandi afla.

Hið sögulega við sigur Sarkozys í forsetakosningunum 2007 hafi verið að honum hafi tekist hið sama og Charles de Gaulle árið 1958 að sameina að baki sér launþega og fólk úr alþýðustétt og hefðbunda hægrimenn.

Buisson spyr hvort Nicolas Sarkozy „hægrivæðist“ með því að slá skjaldborg um hagsmuni Frakklands og þeirra sem verst séu settir í frönsku samfélagi. Hann sé greinilega frambjóðandi sem vilji Evrópu með landamærum. Hann sé því frambjóðandi þeirra sem eigi undir högg að sækja vegna frjálsrar farar og viðskipta yfir landamæri: hindrunarlausra fjármagnsfærslna, óþjóðhollrar samkeppni, félagslegra undirboða, brottflutnings á störfum, innflytjendaflóðs.

„Skjaldborg er það sem er efst í huga þeirra Frakka sem eiga helst undir högg að sækja. Með skjaldborg [landamærum] er unnt að verja hina fátækustu. Sérréttindahóparnir þurfi ekki á ríkinu að halda til að reisa skjaldborg um sig. Enginn þarf að kaupa hana fyrir þá. Þeir búa í góðu hverfunum. Börn þeirra ganga í bestu skólana. Staða þeirra raskast ekkert vegna alþjóðavæðingarinnar og þeir hafa aðstöðu til að njóta hins besta af henni,“ segir Patrick Buisson.

Þau viðhorf sem koma fram í þessum orðum ráðgjafa Sarkozys hafa orðið til þess síðustu daga að honum hefur tekist að snúa viðhorfi kjósenda sér í vil. Skoðanir Sarkozys eru ekki þess eðlis að þær efli traust kjósenda á Evrópusambandinu, þvert á móti. Í þessu efni höfðar hann til þeirrar skoðunar Frakka að of mikið vald hafi verið fært til embættismanna ESB í Brussel.

Angela Merkel Þýskalandskanslari og Nicolas Sarkozy telja að þeim hafi tekist að bjarga evrunni með samvinnu sinni og tillögum, meðal annars að ríkisfjármálasamningnum. Hollande er ósammála efni samningsins og segist ætla að beita sér fyrir breytingum á honum verði hann kjörinn forseti. Nú er spurning hvort Hollande reynir að ná forskotinu af Sarkozy með því að ganga lengra en hann í gagnrýni á Evrópusambandið og ofríki í nafni þess gegn sjálfstæði Frakka.

Þessi stefna sigurstranglegustu forsetaframbjóðendanna í Frakklandi er í hróplegu ósamræmi við þá undirgefni sem stjórnarherrar á Íslandi sýna valdamönnum í Brussel. Hún birtist meðal annars á alþingi þriðjudaginn 13. mars þegar rædd var tillaga Vigdísar Hauksdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu vegna ESB-viðræðnanna samhliða forsetakosningunum hér á landi 30. júní 2012.

Á mbl.is má 13. mars lesa frásögn af umræðunum á þingi tillöguna. Vigdís Hauksdóttir spurði Jón Bjarnason, fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðaráðherra, hvort það væri embættismannakerfi ESB eða utanríkisráðherra Íslands sem réði för í ESB-aðildarferlinu. Jón sagði fullkomlega ljóst að gengið væri inn í verklag Evrópusambandsins þegar sótt væri um aðild að því. ESB stýrði því för eftir að umsókn Íslands hefði verið samþykkt, rétt eins annarra landa sem sótt hefðu um aðild.

Vigdís sagði að svar Jóns sýndi að ESB réði öllu ferlinu. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra segði þjóðinni því ósatt þegar hann léti eins hann mótaði viðræðurnar eða viðræðuferlið. „Ég held að það sé tímabært að utanríkisráðherra farið að segja þjóðinni satt og rétt frá,“ sagði Vigdís í frétt mbl.is og bætti við: „Halda mætti því fram að hann hefði gert sig sekan um afglöp í starfi.“ Jón Bjarnason tók ekki undir þessi orð. Össur ynni að ferlinu af einlægni og reyndi hratt og vel að verða við kröfum ESB.

Í öðru áhrifamesta ESB-ríkinu takast forsetaframbjóðendur á um breytingar á Evrópusambandinu. Hvorki Sarkozy né Hollande ætla að bjóða Frökkum óbreytt Evrópusamband að loknum forsetakosningunum. Hér á landi láta ráðherrar eins og ekkert sé sjálfsagðara að duttlungar eins stjórnmálaflokks ráði því að haldið sé áfram viðræðum að alþjóðasamtökum sem kunna að taka stakkaskiptum fyrr en síðar.

Firringin í ESB-aðildarviðræðunum magnast með hverju skrefi sem stigið er undir forystu Össurar enda er hann að vinna í þágu ESB en ekki Íslendinga eins og Jón Bjarnason segir án þess að vilja gagnrýna hann fyrir það!