6.3.2012

Leiðrétting orða leiðir ekki til sýknu

 

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari hefur kveðið upp dóm í máli sem Jón Ásgeir Jóhannesson í Baugi höfðaði gegn mér vegna villu í bók minni Rosabaugi yfir Íslandi. Blaðamenn hafa spurt mig um hvort ég muni áfrýja dómnum og hef ég svarað:

„Að sjálfsögðu mun ég áfrýja, annað kemur ekki til greina. Hvers vegna er ég t. d. dæmdur til að greiða fjölmiðlakóngi 200 þús. kr. til að birta dóminn?

Dómarinn segir: „Stefndi getur ekki byggt á því sjónarmiði að hann hafi með bókinni verið að svara árásum á sig.“ Hvar hef ég sagt þetta? Við þessa röngu fullyrðingu bætir síðan dómarinn: „Rangar fullyrðingar verða ekki réttlættar með því.“ Verða þær til að komast að réttri dómsniðurstöðu?

Ég hef leiðrétt það sem var rangt í bókinni og birt afsökun vegna þess. Ég varð við ósk  lögmanns Jóns Ásgeirs um leiðréttingu og afsökun. Heyrði ekkert frekar frá honum fyrr en ég fékk stefnu og nú er mér gert að greiða Jóni Ásgeiri 200 þús. kr. í miskabætur fyrir „ólögmæta meingerð gegn æru“ hans þrátt fyrir hina opinberu leiðréttingu.

Það er óhjákvæmilegt að fá niðurstöðu hæstaréttar um það hvort héraðsdómur sé réttur. Reynist svo hafa dómstólar mótað nýja og þrönga málfrelsisreglu sem felst í því að menn eiga ekki lengur leiðréttingu orða sinna heldur geta setið uppi með mörg hundruð þúsundir króna í kostnað vegna ritvillu.“

Jón Magnússon hrl. hefur tekið að sér að reka málið áfram fyrir mig og mun undirbúa áfrýjun næstu daga.

Í stefnu krafðist Gestur Jónsson hrl., lögmaður Jóns Ásgeirs, þess að ég yrði dæmdur til refsingar, til að greiða 1.000.000 í miskabætur og 300.000 kr. til að kosta birtingu dóms í málinu, það er forsendna og dómsorðs, í víðlesnu dagblaði. Loks krafðist hann málskostnaðar.

Í niðurstöðu sinni telur dómarinn „ekki alls kostar rétt“ að ekki sé réttarágreiningur í málinu, hann viðurkennir að ekki sé ágreiningur um málsatvik, röng ummæli hafi verið leiðrétt og ég beðist afsökunar. Hins vegar sé deilt um „afleiðingar þessa og hvort taka beri til greina kröfur um ómerkingu ummæla, refsingu o. fl. Verði því að dæma málið að efni til. Þá segir dómarinn:

„Í umræddri bók rekur stefnandi sögu Baugsmálsins. Bókin hefur það yfirbragð að þar sé sagt frá staðreyndum, atvikum sem hafi gerst. Í því ljósi verður að meta allar villur í frásögninni. Stefndi getur ekki byggt á því sjónarmiði að hann hafi með bókinni verið að svara árásum á sig. Rangar fullyrðingar verða ekki réttlættar með því.“

Dómarinn tekur ekki afstöðu til þess hvort í bókinni sé sagt frá staðreyndum heldur „yfirbragði“ frásagnarinnar. Af þessu „yfirbragði“ metur hann allar villur í frásögninni og bætir síðar við tveimur setningum sem ég vík að hér fyrir ofan.

Dómarinn  kemst eðlilega að þeirri niðurstöðu að það hafi verið rangt hjá mér að Jón Ásgeir hafi verið sakfelldur fyrir fjárdrátt. Hann segir: „Að lögum er munur á bókhaldsbroti [þarna hefði verið réttara að segja „meiriháttar bókhaldsbroti“], sem stefnandi var sakfelldur fyrir, og fjárdrætti. Almennir lesendur gera mun á þessu tvennu.“ Hann bendir síðan á að refsirammi fyrir fjárdrátt og bókhaldsbrot sé hinn sami en segir: „Þó má ætla að í huga almennings sé fjárdráttur yfirleitt talinn vera alvarlegra brot en bókhaldsbrot [hér er einnig slepp orðinu „meiriháttar“]. Þá fellst í ummælunum sú fullyrðing að stefnandi hafi verið sakfelldur fyrir fleiri brot en hann var í raun. Stefndi getur ekki borið fyrir sig að hann hafi ekki vitað betur, en niðurstaða dómsins var hverjum manni skýr. Felst því í þessum orðum aðdróttun í skilningi 235. gr. almennra hegningarlaga.“

Úr því að hverjum manni var niðurstaða dómsins yfir Jóni Ásgeiri skýr er ætlað að það hafi ekki farið fram hjá mér og síðan látið að því liggja að ég hafi vísvitandi verið með aðdróttun í garð Jóns Ásgeirs.

Í fyrstu ætlaði ég að láta við það sitja við ritun bókarinnar að birta þar útdrátt hæstaréttar frá 5. júní 2008 í Baugsmálinu. Ég sá hins vegar í hendi mér að aðeins þaulvanir menn við lestur dómsorða mundu átta sig á þeim texta og skilja hann. Illu heilli greip ég til þess ráðs að styðjast við endursögn af dóminum og gerði þá þessa dýrkeyptu klaufavillu sem ég leiðrétti strax og mér var bent á hana. Dómarinn gefur ekkert svigrúm til mistaka þótt leiðrétting mín sé til marks um þarna hafi mér fyrir slysni orðið á í messunni.

Lögmaður Jóns Ásgeirs gerði þá kröfu að þessi ummæli „… að því er varðaði ákæruliði 11-17 um meiriháttar bókhaldsbrot og rangfærslu staðfesti hæstiréttur niðurstöðu héraðsdóms frá 3. maí um sekt Jóns Ásgeirs…“ yrðu dæmd dauð og ómerk.

Um þennan kröfulið segir dómarinn í niðurstöðu sinni að ummælin séu villandi og: „Með þeim er gefið í skyn að stefnandi hafi verið sakfelldur fyrir brot samkvæmt öllum þessum ákæruliðum, þegar hann var einungis sakfelldur fyrir brot samkvæmt einum liðnum fyrir meiri háttar bókhaldsbrot. Í ummælunum felst því ærumeiðing samkvæmt 234. gr. almennra hegningarlaga.“

Að mínu áliti þarf mikið hugmyndaflug til að stefna út af þessum orðum. Þarna eru nefndir nokkrir ákæruliðir en skýrt tekið fram fyrir hvað var dæmt, það er sem sagt ærumeiðandi að nefna til sögunnar tölustafi um fleiri ákæruliði en þá sem leiddu til sakfellingar, þótt skýrt komi fram fyrir hvaða brot var sakfellt.

Um þessa þessa tvo þætti málsins „aðdróttunina“ og „ærumeiðinguna“  segir dómarinn: „  Í hvorugu framangreindra tilvika getur stefndi borið fyrir sig ákvæði stjórnarskrár eða mannréttindasáttmála um tjáningarfrelsi“. Hann segir hins vegar að við ákvörðun viðurlaga verði að líta til þess að ég hafi leiðrétt „ummælin á áberandi hátt og beðið stefnanda afsökunar á þeim“. Það leiði hins vegar ekki til þess að ég verði sýknaður af kröfum Jóns Ásgeirs.

Dómarinn dæmir leiðréttu ummælin um fjárdrátt dauð og ómerk eins og ég hafði sjálfur gert með opinberri leiðréttingu minni og sömu sögu er að segja um ummæli sem felast í því að ég nefni „ákæruliði 11-17“ og dæmir mig til að greiða Jóni Ásgeiri 200.000 kr. „til að kosta birtingu þessa dóms í opinberu blaði“. 

Vegna leiðréttingar minnar ákveður dómarinn mér ekki refsingu.

Dómarinn segir að í ummælum mínum um „fjárdrátt“ felist „ólögmæt meingerð gegn æru“ Jóns Ásgeirs og því verði „ekki hjá því komist“ að dæma honum 200.000 kr. í miskabætur með dráttarvöxtum frá 20. september 2011, slík meingerð felist hins vegar ekki í því að hafa nefnt „ákæruliði 11-17“.

Þá ber mér að greiða Jóni Ásgeiri  500.000 kr. í málskostnað og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Lágmarkskostnaður minni vegna þessarar villu er því 900.000 krónur samkvæmt dóminum. Eins og áður sagði hef ég í samráði við Jón Magnússon hrl., lögmann minn, ákveðið að áfrýja niðurstöðu dómarans til hæstaréttar.

Ég hef til þessa trúað því að allir ættu leiðréttingu orða sinna og yrðu ekki látnir sitja uppi með mörg hundruð þúsunda króna kostnað þrátt fyrir slíka leiðréttingu. Í þessu tilviki virðist leiðrétting eingöngu losa höfund ritvillu undan refsingu. Standa mismæli sem snerta æru Jóns Ásgeirs óhögguð þótt þau séu leiðrétt?  Er hæstiréttur þessarar skoðunar?