21.1.2012

Upplausn í ríkisstjórn og á alþingi

Morgunblaðið

segir frá því á forsíðu sinni laugardaginn 21. janúar að daginn áður hafi alþingi hafnað með 31 atkvæði gegn 29 að vísa frá tillögu Bjarna Benediktssonar um afturköllun á landsdómsákærunni á hendur Geir H. Haarde. Í fréttinni segir meðal annars:

„Þráinn Bertelsson, þingmaður VG, segir að Alþingi hafi brugðist í þessu máli. „Oft hefur það verið reiknað út að þessi stjórn hangi á einu atkvæði og ég ætla ekki að bera ábyrgð á því að halda Ögmundi Jónassyni og Össuri Skarphéðinssyni í embætti,“ segir Þráinn. Þá telur hann fýsilegt að boðað verði til alþingiskosninga. „Mér er efst í huga núna að fá kosningar þannig að það komi í ljós hvort þjóðin kjósi yfir sig samtryggingu eða þá hugsun sem ríkir hjá okkur sem viljum draga lærdóm af hruninu.““

Kannski er það vegna þess að enginn tekur Þráinn hátíðlega að þessi orð hans vekja ekki þá athygli sem þeim ber. Hann segist ekki ætla að styðja ríkisstjórnina áfram vegna afstöðu Össurar og Ögmundar sem höfnuðu því að vísa tillögu Bjarna frá þinginu. Þráinn er einmitt þetta eina atkvæði sem gerir ríkisstjórninni kleift að segjast hafa meirihluta á bakvið sig.

Á Smugunni, vefmálgagni VG, var Steingrímur J. spurður um áhrif frávísunarmálsins á þingflokk VG? „Svona lagað hjálpar aldrei,“ svaraði hann eftir atkvæðagreiðsluna 20. janúar og síðan sagði Smugan:

„Geturðu skýrt það nánar? „Nei, ég læt þetta duga. Þetta er ekki hjálplegt. Þetta auðveldar ekki vinnu eða samstarf. Sérstaklega hef ég miklar áhyggjur af því hvernig hlutir þróast hér á þingi í kjölfar þessa,“ segir Steingrímur J. Sigfússon.“

Þegar Smugan spurði Jóhönnu Sigurðardóttur eftir atkvæðagreiðsluna sagðist hún ekki vita hvað við tæki hjá ríkisstjórninni. Um áhrif á framtíð ríkisstjórnarinnar svaraði hún: „„Ég hef ekki hugmynd um það. Ég vona ekki. Það eru mörg verk sem eru óunnin hér sem þarf að klára, þannig að ég vona ekki.“

Á Smugunni var einnig sagt frá því að mörgum þingmönnum hefði verið heitt í hamsi þegar niðurstaða atkvæðagreiðslunnar lá fyrir. Einn þingmaður hefði sagt „upphátt og raunar stundarhátt að þetta væri „handónýtt fokking þing“. Annar þingmaður gaf í skyn með hljóðum að niðurstaðan væri hlægileg, aðspurður um viðbrögð við niðurstöðunni“.

 „Ég bara lýsi forseta þingsins vanhæfan og mun gera allt sem í mínu valdi stendur til að safna undirskriftum til að losa okkur við hann,“ sagði Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, við Smuguna.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir þingforseti greiddi atkvæði gegn frávísun. Á vefsíðunni Eyjunni sem er höll undir Samfylkinguna sagði 21. janúar, að innan þingflokks Samfylkingarinnar hefðu verið mikil átök um málið. Mörður Árnason hefði lýst yfir því að hann myndi hætta að styðja ríkisstjórnina ef frávísunartillagan yrði felld.

Innan þingflokksins hefði Jóhönnu Sigurðardóttur ekki tekist „að dylja hótanir sínar í garð Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur forseta þingsins, um að Ásta myndi missa embættið ef hún greiddi ekki atkvæði eins og flokksforystan vildi“. Ásta Ragnheiður gerði það ekki. Þá segir á Eyjunni:

„Undarlegust urðu þó átökin um hvort kalla ætti inn varamann fyrir Sigmund Erni Rúnarsson, sem staddur er í Búrkína Fasó.

Forysta flokksins [Samfylkingarinnar] lagði mikla áherslu á að kallaður yrði inn varamaður fyrir Sigmund Erni. Gekk það svo langt að Sigmundi var lofað að flokkurinn myndi bæta honum hálfs mánaðar tekjutap sem hann yrði fyrir með því að varamaður tæki sæti hans.

Forysta þingflokksins [Oddný fjármálaráðherra og Magnús Orri Schram, fyrsti flutningsmaður frávísunartillögunnar] leit svo á að málið væri frágengið og varaþingmaðurinn, Logi Már Einarsson frá Akureyri, lenti samkvæmt fyrirmælum á Reykjavíkurflugvelli í gærmorgun.

En Ásta Ragnheiður hafði ekki sagt sitt síðasta orð, því að hún neitaði að hleypa varaþingmanninum að fyrr en hún hefði fengið skriflega staðfestingu frá Sigmundi Erni sjálfum um að það skyldi gert.

Sú staðfesting barst aldrei og varaþingmaðurinn hvarf aftur norður yfir heiðar án þess að taka sæti á þingi.“

Almennt gildir sú regla á alþingi að þingforseti gerir ekki athugasemd ef formaður þingflokks tilkynnir komu varamanns í stað þingsmanns sem er utan þings. Það sé í verkahring viðkomandi þingflokksformanns en ekki þingforseta að tryggja samþykki viðkomandi þingmanns. Þingflokksformenn grípa til þess neyðarráðs að kalla inn varamann þótt ekki náist í þingmann ef talið er að úrslit atkvæðagreiðslu séu tvísýn og um lykilmál er að ræða til dæmis fyrir líf ríkisstjórnar eða mikilvægt mál fyrir hana.

Samband forsætisráðherra og forseta alþingis er mikilvægur öxull í störfum alþingis, verði trúnaðarbrestur milli þessara forystumanna er voðinn vís. Fari Birgitta Jónsdóttir af stað með söfnun undirskrifta gegn Ástu Ragnheiði vaknar spurning um hvort Jóhanna skrifi undir listann. Andúð Birgittu og Jóhönnu á Ástu Ragnheiði kann að leiða til þess armur Jóhönnu innan Samfylkingarinnar og Hreyfingin efli samstarf sitt.

Á nýársdag sagði í sérstökum samfylkingardálki á Eyjunni, Orðinu á götunni, að fréttir milli jóla og nýárs af viðræðum stjórnarflokkanna og Hreyfingarinnar hlytu að vera Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur forseta alþingis nokkurt umhugsunarefni; Hreyfingin krefðist þess að skipt yrði um forseta alþingis. Hvergi hefði komið fram að forystumenn ríkisstjórnarinnar hefðu neitt á móti því að skipta um forseta alþingis.

Líkur á því að dagar Ástu Ragnheiðar sem þingforseta séu taldir jukust við atkvæðagreiðsluna 20. janúar. Ef til vill semja þær Jóhanna og Birgitta um að Birgitta taki við forsetaembættinu af Ástu Ragnheiði?

Það er ekki aðeins að bláþráðurinn sem enn heldur ríkisstjórninni á lífi hafi veikst eftir hina sögulegu atkvæðagreiðslu 20. janúar 2012. Óvissa ríkir um hvort meirihluti sé að baki forseta alþingis. Þingflokkar ríkisstjórnarinnar eru eins og rjúkandi rúst eftir átök síðustu daga innan þeirra.

Fyrir þremur árum 20. janúar 2009 tókst lögreglu að hindra að allt yrði á tjá og tundri innan þinghússins þegar aðför var gerð að því. Hinn 20. janúar 2012 er allt í uppnámi í þinghúsinu af því að þar ríkir stjórnleysi undir forystu óhæfs forsætisráðherra sem ýtir undir sundurlyndi meðal þingmanna og þjóðarinnar í stað þess að stuðla að sátt og samlyndi.

Uppfært 15.00 laugardag 21. janúar.

Mörður Árnason þingmaður birtir á vefsíðu sinni laugardaginn 21. janúar:

„Í „orðinu á götunni“ (aldrei skilið það dálksheiti á íslensku) á Eyjunni í dag er fjallað um meint tíðindi í þingflokki Samfylkingarinnar í gær. Þar er rætt um „tilfinningahita“ sem „lýsti sér meðal annars í yfirlýsingum Marðar Árnasonar um að hann myndi hætta að styðja ríkisstjórnina ef tillögu Bjarna yrði ekki vísað frá“.

Og þá er frá því að segja að slík yfirlýsing eða hótun er engin til og hefur aldrei verið – þetta er bara púra della. Kannski hefur einhver góðgjarn heimildamaður talið að málstaður hans eða hagsmunir væru af þeim gæðum að ekki munaði um ofurlítinn skáldskap í Eyjuslúðrinu? Umrótstímar og svona …

Efnislega er það sumsé þannig að ég styð ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur – og tel við hæfi eftir atburði gærdagsins að lýsa yfir sérstökum stuðningi við forsætisráðherra þeirrar stjórnar. Aðeins daufari er stuðningurinn við suma aðra ráðherra vissulega í bili – einsog gengur.“