31.12.2011

Við áramót - stjórnarskrá og ESB-aðild

Þegar litið er yfir árið 2011 og velt fyrir sér stóratburðum er af nógu að taka. Við Davíð Oddsson ræddum nokkra þeirra þætti mínum á ÍNN hinn 28. desember síðastliðinn eins og hér má sjá.

Angela Merkel Þýskalandskanslari hefur tekið forystu innan ESB til að bjarga evrunni enda lendir kostnaður við aðgerðir í þágu evrunnar að lokum á Þjóðverjum. Hún segir í áramótaávarpi sínu til þýsku þjóðarinnar að menn skuli jafnvel búa sig undir meiri ervu-erfiðleika á árinu 2012 en þeir kynntust á árinu 2011.

Við Íslendingar heyrum ekki slíka hreinskilni af vörum þeirra sem leiða þjóðina. Þeir láta eins og allt sem þeir gera sé til þess fallið að búa bjartari framtíð nú síðast á brottrekstur tveggja ráðherra og enn meiri óvissa um að ríkisstjórnin hafi meirihluta á bakvið sig á þingi að verða til þess að styrkja ríkisstjórnina. Ekki er nóg með að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra tali á þennan veg heldur nýtur hún stuðnings Gunnars Helga Kristinssonar, prófessors í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Hann er að vísu rágjafi Jóhönnu í hjáverkum en þess er ekki látið getið þegar rætt er við hann í fréttum RÚV. Þar kemur hann fram sem óhlutdrægur fræðimaður þótt í raun sé hann ekki annað en spunaliði Jóhönnu.

Þessi gengisfelling á umræðum um stjórnmál og stjórnarhætti er meðal þess sem ég tel alvarlegast í þjóðmálaumræðum á Íslandi. Hér skal minnst á tvö stórmál: endurskoðun stjórnarskrárinnar og ESB-aðildarviðræðurnar og stöðu þeirra um þessi áramót.

Af stjórnmálaviðburðum innan lands staldra ég við þingsetningardaginn þegar lögregla stóð ekki lengur heiðursvörð um þá sem gengu milli þinghúss og Dómkirkju heldur stóð í óeirðaklæðum við víggirðingu sem sett var til að halda reiðum almenningi frá þeim sem tóku þátt í athöfninni.  Í þinghúsinu flutti Ólafur Ragnar Grímsson síðan ræðu yfir þingmönnum þar sem hann tók þá á kné sér og útlistaði fyrir þeim hvað fælist í tillögum stjórnlagaráðs á þann veg að manni virtist sem hann teldi ríkisstjórn verða valdalausa ef tillögurnar yrðu að stjórnarskrá.

Ríkisstjórn Íslands hefur aldrei  hlotið aðra eins útreið hvorki frá forseta Íslands né almenningi við þingsetningu. Forherðing stjórnarherranna er slík að þetta hrín ekki á þeim frekar en þegar vatni er skvett á gæs.

Jóhanna Sigurðardóttir segir í áramótagrein í Fréttblaðinu 31. desember 2011:

„Þá hefur Stjórnlagaráð afhent Alþingi frumvarp að nýrri stjórnarskrá fyrir Ísland, þeirri fyrstu sem samin er frá grunni af þjóðinni sjálfri. Nú hvílir sú skylda á Alþingi að afgreiða frumvarpið með þeim hætti að ný stjórnarskrá geti tekið gildi á næsta kjörtímabili en áður en að því kemur er mikilvægt að þjóðin sjálf segi hug sinn til málsins í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Enginn veit enn hver er afstaða Jóhönnu til þess sem hún kallar frumvarp að nýrri stjórnarskrá. Málið liggur fyrir alþingi sem skýrsla frá forsætisnefnd þingsins og eru tillögur stjórnlagaráðs til meðferðar í einni af nefndum alþingis.  Hvað á forsætisráðherra við þegar hún segir að efnt skuli til „ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu“ um tillögur stjórnlagaráðs? Þarna er talað í véfréttarstíl um stjórnskipun ríkisins án þess að forsætisráðherra hafi fyrir því að nefna eitt einasta efnisatriði úr tillögum ráðs sem starfaði að gerð stjórnlagatillagna þrátt fyrir að hafa hlotið ólögmæta kosningu. Var ráðið skipað til starfa sinna í ögrunarskyni við hæstarétt.

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir réttilega að sér hafi verið vikið úr ríkisstjórn vegna andstöðu sinnar við ESB-aðildina. Vegna stjórnskipulegrar ábyrgðar hans á málefnum landbúnaðar og sjávarútvegs gat hann staðið á bremsunum gagnvart Össuri Skarphéðinssyni og þeim sem hann hefur falið að vinna að aðild Íslands. Össur sagði nýlega í Kastljósviðtali að eftirlit Jóns með gjörðum sínum efldi trúverðugleika aðildarviðræðnanna við ESB. Nú er sá öryggisventill horfinn úr ríkisstjórn. Steingrímur J. Sigfússon tekur við ráðherraembætti af Jóni. Enginn treystir neinu af því sem Steingrímur J. segir um samskipti Íslands út á við, síst af öllu hans eigin flokksmenn.

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, varð einnig að taka pokann sinn og hverfa úr ríkisstjórn. Hann lét sig hins vegar hafa það á fundi flokksstjórnar Samfylkingarinnar 30. desember að slá á mótmæli gegn breytingum á ríkisstjórninni og bjarga þar með Jóhönnu og klíku hennar að sögn Kristrúnar Heimisdóttur, aðstoðarmanns Árna Páls.

Með Árna Páli hverfur ötull fylgismaður ESB-aðildar úr ríkisstjórninni. Stuðningur hans við ríkisstjórnina kann hins vegar reistur á jafnveikum grunni og mat hans á því hvernig aðildarviðræðum Íslands yrði háttað féllist alþingi á tillögu Samfylkingarinnar um þær.

Á vefsíðu Samfylkingarinnar birtist 17. apríl 2009, viku fyrir þingkosningar, lýsing á skoðunum Árna Páls á því hvernig staðið yrð að aðild Íslands að ESB. Við brotthvarf hans úr ríkisstjórn og umræður um að með því styrki hann stöðu sína sem væntanlegur formaður Samfylkingarinnar skal minnt á pólitíska framsýni hans.

Hinn 17. apríl 2009 lýsti Árni Páll Árnason ESB-aðildarferlinu á þennan hátt:

 • Umsókn  í maí 2009.
 • Viðræður við ESB hefjast í byrjun júní 2009.
 • Samningar takast á innan við 12 mánuðum.
 • Samningur liggur fyrir snemma sumars 2010.
 • Alþingi leggur til við ríkisstjórn að samningurinn verði fullgiltur, að fengnu samþykki þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu.
 • Umræða um þingsályktunartillöguna á alþingi haustið 2010.
 • Efni samningsins kynnt almenningi á fundum á vegum ríkisstjórnar og hagsmunaaðila.
 • Þjóðaratkvæðagreiðsla snemma árs 2011.
 • Aðildarsamningur samþykktur.
 • Apríl 2011 frumvarp til laga um breytingu á stjórnskipunarlögum lagt fyrir alþingi. 
 • Sumar 2011 þingrof eftir staðfestingu stjórnarskrárbreytingar.
 • Haust 2011 þingkosningar .

 

Á vefsíðu Samfylkingarinnar segir 17. apríl 2009 að Árni Páll hafi tekið fram að í þessari bjartsýnu spá væri gert ráð fyrir að samningaviðræður hæfust strax í júní 2009 og stæðu skemur en nokkur dæmi eru um í tilviki annarra ríkja. Ekki væri heldur gert ráð fyrir málþófi í meðferð mála á alþingi. Hann taldi að e.t.v. væri raunsærra að spá þingrofi þegar þrjú og hálft ár væru liðin af kjörtímabilinu.

Já, svona lagði Samfylkingin ESB-málið fyrir kjósendur í apríl 2009. Hinn 16. júlí 2009 samþykkti alþingi að sækja um aðild að ESB. Hinar „eiginlegu samningaviðræður“ hófust undir lok júní 2011. Hinn 27. desember 2011 sögðu forystumenn í viðræðunefnd Íslands í grein í Fréttblaðinu:

„Enginn þarf að óttast að [ESB-]viðræðurnar einkennist af asa eða óðagoti. Þvert á móti ráða gæði starfsins hraðanum og viðræðum mun ekki ljúka fyrr en góður samningur liggur fyrir.“

Jóhanna Sigurðardóttir segir hins vegar í Fréttblaðinu 31. desember 2011:

„Aðildarviðræður Íslands við ESB verða einnig [eins og stjórnarskrármálið] leiddar til lykta og á sama tíma má vænta þess að ríki sambandsins muni koma sér saman um aukið efnahagssamstarf og traustari grundvöll evrunnar. Í lok kjörtímabils [apríl 2013] má því vænta þess að Íslendingar standi frammi fyrir afar skýrum valkostum sem ráðið geta miklu um framþróun hér á landi, bæði efnahagslega og félagslega.“

Breytingar á ríkisstjórn Íslands á gamlársdag 2011 verða til að veikja stjórnarsamstarfið enn frekar í stað þess að styrkja það eins og Jóhanna og spunaliðar hennar segja. Stjórnarskrármálið er í sama hnút og áður, ef ekki verri, eftir að hið ólögmæta stjórnlagaráð fékk málið í sínar hendur. Að alþingi skuli taka þátt í þeim leik eykur ekki traust manna til þess. Ekki stendur steinn yfir steini í áformum Samfylkingarinnar um ESB-aðild allt sem hingað til hefur verið sagt um tímasetningar hefur reynst rangt efnislegi þátturinn stendur ekki betur enda Evrópusambandið í upplausn, um það efni ræðir Angela Merkel af meiri hreinskilni en Jóhanna Sigurðardóttir.