29.12.2011

Fréttablaðið og meintir sakamenn

Fréttablaðið þjónaði á árunum 2002 til 2008 hagsmunum eigenda sinna Baugsmanna sem þá áttu í útistöðum við réttarvörslukerfið en töldu sig sæta pólitískum ofsóknum með misbeitingu þess. Nefna má þrjú tilvik um misnotkun blaðsins í þágu eigenda sinna:

  1. Í mars 2003 þegar Reynir Traustason, núverandi eigandi og ritstjóri DV, birti búta úr fundargerðum stjórnar Baugs til að „sanna“ að fyrirtækið sætti ofsóknum af hálfu Davíðs Oddssonar. Þetta var gert nokkrum vikum fyrir þingkosningar. Tilgangurinn var tvíþættur. Annars vegar að ýta undir þá skoðun að rannsókn efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra á Baugi væri í þágu óvinveittra stjórnarherra en ekki til að gæta laga og réttar. Hins vegar vildu Baugsmenn leggja Samfylkingunni lið.
  2. Í ágúst 2005 þegar gefið var út sérblað með Fréttablaðinu þar sem lögmenn Baugsmanna gáfu álit sitt á ákæru á hendur þeim og rætt var við feðgana Jóhannes í Bónus og Jón Ásgeir. Efni blaðsins beið fullunnið þar til tekist hafði að fá breska blaðið The Guardian til að birta niðrandi grein um ákæruna á hendur Baugsmönnum.
  3. Í september 2005 þegar Sigurjón M. Egilsson, núverandi þáttarstjórnandi á Bylgjunni, ritstýrði stolnum tölvubréfum Jónínu Benediktsdóttur inn í Fréttablaðið til að árétta samsæriskenninguna um pólitískar ofsóknir á hendur Baugsmönnum og misnotkun lögregluvalds gegn þeim.

Fyrir utan þessi dæmi má nefna markvissa viðleitni til að grafa undan trausti í garð lögreglu og ákæruvalds. Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri, Jón H. B. Snorrason, yfirmaður efnahagsbrotadeildar og Arnar Jensson aðstoðaryfirlögregluþjónn sættu einelti af hálfu Baugsmiðla.

Fréttablaðið hefur í raun aldrei gert upp við þennan kafla í sögu sinni. Leitast er við að beita þöggun gagnvart þeim sem benda á hann. Blaðið lýtur enn eigendavaldi og útgáfustjórn sem gætir hagsmuna Baugsmanna.

Þetta allt kemur í hugann þegar höfundur leiðara Fréttablaðsins 29. desember 2011, Þórður Snær Júlíusson, hneykslast á þeim sem vekja nú máls á því vegna starfa sérstaks saksóknara að fjölmiðlum beri að „að sýna þann siðferðisstyrk að leyfa mönnum að njóta sjálfsagðra mannréttinda þar til leyst hefur verið úr ágreiningi um sekt þeirra fyrir dómstólum“ eða telja fjölmiðla „veita sérstökum saksóknara lítið sem ekkert aðhald, annað en það að krefjast jafnvel enn meiri hörku gagnvart sakborningum“.

Þórður Snær segir:

„Meintir sakamenn og aðilar á þeirra vegum hafa ítrekað reynt að hafa óbein áhrif á fréttaskrif með ýmsum hætti á liðnum árum. Oftast eyða þeir reyndar mestu púðri í að upplýsa hversu léleg rannsóknarskýrslan sé, hversu illa gefnir rannsakendur þeirra séu og hversu illa gefinn fréttamaðurinn sé ef hann taki ekki undir með þeim. Það er að vissu leyti skiljanlegt að þessir aðilar hagi málflutningi sínum svona. Flestir þeirra hafa stórar hugmyndir um eigið ágæti, sumir virðast beinleiðis upplifa sig sem einhvers konar hálfguði, og sjálfsmynd þeirra er beintengd við það sem þeir gerðu á hinum fölsku uppgangstímum. Þeir hafa því lítinn áhuga á að sjá hana molna með því að tengjast raunveruleikanum.“

Í þessum orðum fer leiðarahöfundur Fréttablaðsins eins og köttur í kringum heitan graut. Veit hann ekki að blaðið þar sem hann starfar nú var misnotað í þágu eigenda sinna á meðan mál þeirra voru fyrir dómstólum? Áttar hann sig ekki á því að þar var gefið fordæmi um svæsnustu tilraun til að móta viðhorf dómara með því að virkja almenningsálit í þágu manna sem sakaðir voru um efnahagsbrot? Eða kýs hann að þegja um þetta af tilliti til húsbænda sinna?

Á meðan Þórður Snær eða aðrir leiðarahöfundar Fréttablaðsins gera ekki upp við fortíð blaðsins og misnotkun eru orð eins og þessi í leiðaranum 29. desember marklaus:

„En hlutverk fréttastofa fjölmiðla er einfalt: að segja fréttir. Þær reyna að gera það heiðarlega og með það fyrir augum að upplýsa lesendur, eða áhorfendur, sína. Það er meginhlutverk þeirra og við þá liggur trúnaður fréttastofu. Þær eiga að segja satt, ekki að gæta hagsmuna. Hvorki sakborninga né annarra.“

Á Fréttablaðinu voru öll þessi boðorð margsinnis brotin á tíma Baugsmálsins. Blaðið varð stundum eins og kafli í greinargerð verjenda Baugsmanna.

Í lok leiðarans 29. desember segir Þórður Snær:

„Á Íslandi áttu sér stað atburðir sem eru einstæðir. Umfang blekkingarinnar var hvergi meiri og afleiðingar hennar höfðu gríðarleg áhrif á allt samfélagið. Þetta kemur okkur öllum við og sakamálarannsóknir hrunsins eru því ekki einkamál sakborninga. Málflutningur lögmannanna og skjólstæðinga þeirra verður að skoðast í ljósi þess að hér er háð barátta á milli gerenda í viðskiptum, innan embættismannakerfisins eða í stjórnmálum fyrir bankahrun um hvernig sagan verði skrifuð. Tilraunir til að hafa áhrif á fréttaumfjöllun eru stór liður í þeirri baráttu. Allir ættu að hafa þetta í huga þegar þeir lesa gagnrýni þeirra á störf fjölmiðla.“

Það er mikill misskilningur hjá Þórði Snæ Júlíussyni ef hann heldur að embætti sérstaks saksóknara hafi verið stofnað með sérstökum lögum haustið 2008 af því að hann ætti að rita söguna.  Rannsóknir á vegum saksóknara eru ekki sagnfræðilegar, þær snúast um hvort farið hafi verið að lögum eða ekki. Allir eiga rétt á því að teljast saklausir þar til sekt þeirra er sönnuð. Á þá staðreynd finnst lögmönnum ástæða til að minna núna. Á tímum Baugsmálsins var skapað skjól fyrir grunaða og ákærða með árásum á þá sem mál þeirra rannsökuðu. Nú er varað við því að pendúllinn sveiflist of langt í hina áttina.

Vilji Þórður Snær kynnast því hvernig lögmenn geta staðið að því að beina umræðum um rannsóknir lögreglu að öðru en sakarefni skjólstæðinga sinna ætti hann að kynna sér Baugsmálið og viðleitni Fréttablaðsins til að láta úrslit þess ráðast annars staðar en í réttarsalnum.  

Andrúmsloftið í þjóðfélaginu er nú allt annað en á tíma Baugsmálsins. Þá tókst með samstilltu átaki undir forystu frá Bessastöðum og með áróðri Baugsmiðla að magna hér stuðning við athafna- og fésýslumenn sem kunnu sér ekkert hóf og stunduðu viðskipti sem nú sæta rannsókn sérstaks saksóknara. Andrúmsloft á ekki að ráða niðurstöðum dómara í sakamáli heldur mat þeirra á því hvort efni sé til að beita lögum á þann veg sem ákæruvald krefst. Á tíma Baugsmálsins var almenningsálitið mótað í þágu sakborninga nú óttast lögmenn að það sé mótað sakborningum í óhag.

Sama dag og Þórður Snær Júlíusson ritar þennan leiðara í Fréttablaðið birtist þar grein eftir Leif Runólfsson lögmann sem vekur athygli á því að fordæmi séu fyrir því í dómum hæstaréttar að fjölmiðlaumfjöllun sé metin sakborningi til refsilækkunar.  Óvægin fjölmiðlaumfjöllun geti orðið til þess að sakborningur fái refsilækkun. Fari það fyrst og fremst eftir mati dómsins og stöðu sakbornings í þjóðfélaginu.

Dómarar eiga að dæma eftir lögunum, heimili þau lækkun refsingar vegna þess að fjölmiðlar hafi farið illum orðum um sakborning leggja dómarar mat á þá málsástæðu eins og aðrar. Að lög mæli fyrir um að refsing sé þyngd vegna þess að fjömiðlar tali vel um sakborning er jafn óhugsandi og hitt að dómarar létti refsingu vegna þess að fjölmiðlar tali illa um ákæruvald og lögreglu.

Fjölmiðlar eiga fyrst og síðast að fjalla um sakamál á sama hátt og önnur mál með vísan til staðreynda og með virðingu fyrir þeim. Fréttablaðið hefur ekki tekið þannig á málum eigenda sinna. Boðar leiðarinn 29. desember að það verði gert?