24.12.2011

Heilagur Jósef

 

 

Hinn 20. mars 2011 birtist grein í Sunnudagsmogganum eftir Karmelnunnur undir fyrirsögninni Sæla, friður og göfugleiki. Með greininni birtist mynd af íkoni af heilögum Jóef, verndardýrlingi Karmelklausturs hinna óflekkuðu meyjar frá Jasna Gora og heilags Jósefs í Hafnarfirði.  Íkonið er málað af berfættri Karmelnunnu í Hafnarfirði í tilefni af sjötugasta stofnhátíð klaustursins og 25. stórhátíð í tilefni af komu fyrstu pólsku nunnanna til Íslands. Í greininni lýstu nunnurnar því sem lesa má úr íkoninu og fengu greinina birta hinn 20. mars af því að 19. mars er dagur heilags Jósefs.

Í greininni segir að heilagur Jósef eins og hann birtist í táknmynd íkonsins kalli fram ímynd persónunnar sjálfrar: sælu, frið og göfugleika – traustvekjandi „réttláts manns“ í biblíulegum skilningi. Þessum manni hafi Guð falið tvo mestu dýrgripi sína – Jesús og Maríu.

Ég birti mynd af íkoninu með þessum pistli. Myndin en er tekin af mér og því ekki nein listasmíð, þá er þess að geta að á íkoninu er enn hlíf úr plasti því að gullið í því er ekki að fullu þornað þegar myndin er tekin.  Það sem vakti athygli mína þegar ég skoðaði myndina eftir að ég tók hana í dag, aðfangadag 2011, er hve fjólublái liturinn birtist skær í henni. Um hann segir í skýringargrein Karmelnunnanna í Sunnudagsmogganum:

„Fjólublái liturinn á kufli Jósefs, sem gefur frá sér skæran ljóma, er táknmynd þess að vera íklæddur Kristi, og – á vissan hátt – virðist sem Hann skíni í gegnum kuflinn. Jesús einn er fjársjóður heilags Jósefs. Á sama hátt og Jesús býr í hjarta Jósefs að baki hinum fjólubláa kufli, þá má á táknrænan hátt minnast þess að í hinni fátæklegu, lítilmótlegu Heilagur JósefNasaret, gat maður gengið bak við fjólubláa fortjaldið, sem skilur milli Hins heilaga og Hins allrahelgasta (2M 26: 31-34), þar sem einungis æðstipresturinn, samkvæmt Gamla testamentinu, mátti inn ganga íklæddur fjólubláum kufli (2M 28:31). Það er ekki fyrr en Holdtekjan á sér stað að  mannleg vera er þess megnug að snerta Guð sinn, Immanuel, sem þýðir „Guð með oss“. (Mt 1:23).

Það er enn ein útgáfa af þessum lit, sem hér um ræðir: mjög óvenjulegur litblær, sem er einkennandi fyrir himin á norðurslóðum – einskonar lillafjólublár litur sem rennur saman við fjólubláa skugga fjallanna og snævar – enn ein táknmyndin um tilvist heilags Jósefs í þessu hálfgerða heimskautslandi, Íslandi. Ytri klæðnaður heilags Jósefs er einföld brún svunta, Brúni liturinn er táknrænn fyrir jörð, efni, fórn og fátækt. Sá litur einkenndi einmitt líf heilags Jósefs, manns sem vann hörðum höndum og helgaði sig algjörlega jarðneskri velferð og öryggi fjölskyldu sinnar.“

Karmelnunnan sem teiknaði íkonið setur heilagan Jósef í íslenskt landslag til að árétta að Ísland allt er umvafið ástríkri umhyggju hans. Appelsínuguli liturinn er táknmynd bæna Karmelnunna, hann smýgur í hvert smáatriði myndarinnar. Liturinn táknar einnig andlega hreinsun og brennandi eld kærleikans, sem baðar allt gullnum bjarma, jafnvel klettahamra Esjunnar. Heilagur Jósep stendur þarna á grunni klausturs Karmelnunna í Hafnarfirði, opin víðáttan umlykur bæinn þeirra.

Lítil pyngja hvílir á brjósti heilags Jósefs, líkt og hangir í kapellu nunnanna í Hafnarfirði. Þangað láta þær bænarefni sín sem þær bera fram sem árnaðarbænir til heilags Jósefs. Í greininni í Sunnudagsmogganum segir:

„Á þeirri stundu sem Jesúbarninu birtist miðinn úr bænapyngjunni, sem skreytt er ímynd klaustursins okkar, þá ber heilagur Jósef, sem skilur hjörtu manna á djúpvitran hátt, fram árnaðarbænir sínar til Jesú.“

Á íkoninu sem er á myndinni með þessum pistli er ekki mynd af Karmelklaustrinu á bænamiðanum heldur texti til heilla þeim sem þar eru nefndir.

Mér þessari upprifjun á aðfangadag sendi ég öllum lesendum pistla minna bestu óskir um gleðileg jól. Það er þjóðinni mikil blessun að hér skuli starfa Karmelnunnur og biðja fyrir land og þjóð af þeirri einlægni og sönnum kærleika sem birtist meðal annars í greininni sem ég hef nefnt og íkoninu af heilögum Jósef. Megi land og þjóð sem lengst njóta dvalar þeirra og bæna.