16.12.2011

Landsdómsákæruna ber að afturkalla

Söguleg þingsályktunartillaga hefur verið lögð fram á alþingi um að fallið skuli frá ákæru á hendur Geir H. Haarde. Allt í málaferlunum gegn Geir er nýmæli í íslenskri stjórnmála- og réttarsögu. Alþingi hafði aldrei áður stigið slíkt skref og að sjálfsögðu er unnt að taka málið til meðferðar á þingi hvenær sem þingmenn óska. Haldi meirihluti þingmanna fast við ákæruna þótt hún sé aðeins svipur hjá sjón miðað við hina upphaflegu ályktun sannast enn að um pólitísk málaferli er að ræða. Þau hafa að sjálfsögðu einnig pólitískar afleiðingar eins og vikið er að í þessum pistli.

Alþingi samþykkti að ákæra skyldi Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, vegna bankahrunsins. Saksóknari alþingis breytti ályktuninni í ákæruskjal. Landsdómur hefur vísað tveimur efnislegu þáttum skjalsins frá dómi.

Nú hefur Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, lagt fram tillögu til þingsályktunar um að fella úr gildi ályktun ályktun alþingis um málshöfðunina gegn Geir frá 28. september 2010 og fela saksóknara alþingis að afturkalla í heild ákæru útgefna með stefnu sem þingfest var fyrir landsdómi 7. júní 2011. Þar með álykti alþingi að falla frá málshöfðun á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrir landsdómi.

Í greinargerð tillögunnar segir  að frávísun landsdóms á tveimur fyrstu liðum ákærunnar breyti verulega efnislegu inntaki sakamálsins á hendur Geir. Í fyrstu liðum ákærunnar hafi verið vísað til þeirra ráðstafana varðandi aðdraganda fjármálaáfallsins sem gagnrýndar höfðu verið og lutu almennt að störfum ákærða sem forsætisráðherra á framangreindu tímabili á árinu 2008. Frávísun þeirra leiði til þess að þeir komi ekki til efnisúrlausnar í landsdómi. Eftir standi þá tilteknir ákæruliðir sem varði afmarkaðri aðgerðir, þ.e. eftirlit með tilteknum samráðshópi stjórnvalda, aðgerðum sem hafi átt að stuðla að minnkun bankakerfisins á árinu 2008 og flutningi svokallaðra Icesave-reikninga í dótturfélag í Bretlandi, og það að hafa ekki haldið ríkisstjórnarfundi. Allt séu þetta atriði sem telja verður að líta hafi átt til samhliða umfjöllun um hina frávísuðu ákæruliði, en ætla verði að umræddar ráðstafanir hefðu aldrei einar og sér leitt til þess að Alþingi hefði ákveðið að höfða sakamál á hendur fyrrverandi forsætisráðherra. Það hvernig eftirliti sé almennt háttað með nefndum stjórnvalda eða hvernig staðið sé að formlegum fundum ráðherra sé atriði sem eðlilegt sé að taka til endurskoðunar og megi t.d. setja um það samræmdar reglur, frekar en að landsdómur fjalli um þau í refsimáli. Með sama hætti verður vart talið að þeir ákæruliðir sem lúti að hvatningu forsætisráðherra til íslensku bankanna um minnkun efnahagsreikninga sinna eða flutning úr landi hafi fyrirsjáanlega getað haft slík áhrif á árinu 2008 að það hefði getað komið í veg fyrir fjármálaáfallið sem reið yfir haustið 2008. Segja megi því að frávísun veigamestu ákæruliðanna jafngildi því að meginforsendur séu brostnar fyrir þeirri málssókn sem Alþingi ákvað 28. september 2010.

Hér er hreyft málefnalegum rökum fyrir afturköllun ákærunnar á hendur Geir. Þau eru þess eðlis að hafni meirihluti þingmanna tillögunni stendur illur pólitískur hugur einn eftir.  Fleyg urðu orð Steingríms J. Sigfússonar eftir að hann ákvað að ákæra Geir að hann gerði það með „sorg í hjarta“ eins og honum væri nauðugur einn kostur.

Þingmenn vinstri-grænna (VG)  munu ekki leggja ályktun Bjarna lið ef þeir fara að tilmælum Björns Vals Gíslasonar, formanns þingflokks VG. Hann segir að þingsályktunartillagan  sé ígildi þess að afneita hruninu. Hún jafngildi því að setja skýrslu rannsóknarnefndar alþingis „í tætarann“. Málshöfðunin hafi verið ein af þeim aðferðum sem alþingi hafi ákveðið að beita til að gera upp við hrunið, komast að því sem gerðist, hvernig hefði mátt koma í veg fyrir það og hverjir bæru ábyrgð á því. Hann styðji engar tillögur um að reyna að forða mönnum undan því.

Þetta er dæmalaus málflutningur þegar til þess er litið að landsdómur á eftir að segja álit sitt á hvernig haga skuli eftirliti með nefndum stjórnvalda, hvort og hvernig forsætisráðherra skuli hvetja banka til að minnka efnahagsreikning sinn eða stofna útibú erlendis eða í hvaða tilvikum honum beri að kalla ríkisstjórnina saman. Er Björn Valur í raun og veru þeirrar skoðunar að niðurstaða landsdóms um þessi atriði leiði í ljós hvað gerðist þegar íslenska bankakerfið hrundi vegna þess að það gat ekki lengur fjármagnað sig á alþjóðlegum fjármálamörkuðum?

Heift VG leiddi til þess strax eftir að flokkurinn komst í ríkisstjórn að Svavar Gestsson og Steingrímur J. Sigfússon gerðu hina alræmdu Icesave-samninga til þess að geta sýnt og sannað að útgjöld vegna þeirra væru Sjálfstæðisflokknum að kenna. Síðan stóð VG að því með Samfylkingunni að flytja tillögu um aðildarumsókn að ESB í von um að kljúfa með því Sjálfstæðisflokkinn. Þegar það hefur ekki tekist en ESB hefur lent á skeri vegna yfirvofandi bankahruns innan þess má Steingrímur J. ekki heyra minnst á að gera hlé á aðildarviðræðunum við ESB af því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur sameinast um að það beri að gera slíkt hlé.

Hjörleifur Guttormsson, félagsmaður í VG, ritar grein í Morgunblaðið 16. desember vegna þeirrar afstöðu Steingríms J. að sjálfsagt sé að halda viðræðunum við ESB áfram. Hjörleifur segir meðal annars:

„Það sýnist orðið verkefni fyrir sálfræðinga að lesa í málflutning sem þennan frá formanni flokks sem allt frá stofnun hefur litið á það sem eina meginstoð í stefnu sinni að halda Íslandi utan við aðild að Evrópusambandinu."

Yrði kallað á sérfræðinga að tillögu Hjörleifs kæmi í ljós að innan forystusveitar VG ræður heilkenni sem breytir öllu sem fram kemur í óvild og hatur í garð sjálfstæðismanna.  Þetta hatur vegur þyngra en allar flokkssamþykktir innan VG.

Óvildin sem brýst fram í orðum Björns Vals verður ekki minni við að honum er ljóst að hatursáróður Steingríms J. í garð sjálfstæðismanna er hættur að bíta á þingflokk sjálfstæðismanna. Líta ber á tillögu Bjarna Benediktssonar sem uppreisn gegn hatrinu og illmælginni á alþingi sem stjórnað hefur verið af Steingrími J. með „sorg í hjarta“.

Í þessu ljósi ber einnig að skoða hina stórundarlegu framgöngu Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra í morgunútvarpi rásar 2 föstudaginn 16. desember. Jóhanna greiddi á sínum tíma atkvæði gegn ákæru á hendur Geir H. Haarde. Nú þegar meginþáttum ákærunnar hefur verið vísað frá landsdómi og ekki stendur annað eftir en innihaldslitlar leifar hinnar  upphaflegu málssóknar getur Jóhanna ekki fallist á að alþingi endurskoði afstöðu sína af því að það sé „fyrst og fremst óeðlilegt inngrip í mál sem sé í dómsferli. Hún segist hugsi yfir því að fela eigi saksóknara að fella niður ákæru í máli sem hafi verið dómtekið og sé komið úr höndum alþingis,“ svo að vitnað sé í ruv.is.

Saksóknari getur á öllum stigum máls ákveðið að falla frá ákæru og er raunar stórundarlegt að saksóknari alþingis hafi ekki sjálfur haft frumkvæði að slíkri niðurfellingu fyrir landsdómi eftir að ákæra hans er ekki orðið annað en skurnin utan af sjálfri sér. Skýring á því kann að vera að saksóknarinn telur sér hafa verið falið að vinna verk fyrir hönd alþingis samkvæmt ályktun þess, hann hafi því ekki sjálfstæðan vilja til að fella mál niður án ákvörðunar alþingis í þá veru. Einmitt þess vegna er tillaga Bjarna Benediktssonar eðlileg málsmeðferð á alþingi en ekki neitt inngrip í mál sem lifir sjálfstæðu lífi.

Í viðtalinu í morgunútvarpinu kom einnig fram að Jóhanna er ekkert að hugsa um lögfræðina í þessu máli. Jóhanna er að velta hinu sama fyrir sér og frá fyrsta degi sínum sem forsætisráðherra; hvernig hún geti komið sem þyngstu höggi á Sjálfstæðisflokkinn. Hún sagði svo að vitnað sé í ruv.is:

 „Að Sjálfstæðismenn ætlist til þess nú á lokadegi þingsins - athugum það að samkvæmt áætlun á þetta að vera lokadagur þingsins og við erum með upp undir 40 mál á dagskrá núna - að þeir ætlast til þess, og það er náttúrulega alveg ótrúlegur yfirgangur, að ætlast til þess að við bara afgreiðum þetta mál núna fyrir jólin. Að við afgreiðum það út úr þinginu, til samþykktar eða synjunar eða hvernig það nú fer. Hugsið ykkur, þetta er alveg ofboðslega viðkvæmt mál, þetta var mjög erfitt mál fyrir mjög marg. Nú er ætlast til þess að á einum degi, eða tveimur dögum, þá verði málið bara afgreitt á alþingi, það fái enga faglega umfjöllun inni í nefnd, sé ekki hægt að kalla til fólk og svo framvegis. Við erum undir stöðugri gagnrýni hjá þessum sömu aðilum, fyrir að leggja mál fram of seint, ætlast til þess að þessi og hin erfiðu mál séu afgreidd. Nú eru þeir að setja okkur í þessa stöðu, sem ég held að við höfum aldrei boðið þeim upp á, að afgreiða á einum degi svona stórt mál.“

Það er holur hljómur í þessum óttalegu kveinstöfum. Stóryrðin bera með sér Jóhanna býr ekki yfir neinum efnislegum rökum. Hið ógurlega við tillögu Bjarna er að hún stangast á við tímasetningar í starfsáætlun alþingis. Heyr á endemi! Forsætisráðherra sem kýs að skjóta sér á bak við þá áætlun sem er ekki annað en orð á blaði og viðmiðun sem auðvelt er að víkja til hliðar þegar mikilvæg mál eru borin upp á þingi er kominn út í horn. Reglur þingsins heimila slíkar tillögur án tillits til starfsáætlunar.  Að hún skuli standa í vegi fyrir því að forsætisráðherra telji sér fært að taka afstöðu til þess hvort halda eigi áfram sakamáli gegn þeim sat næstur á undan henni í embætti lýsir fádæma ósvífni og dæmalausu tillitsleysi.

Jóhanna fer með rangt mál þegar hún segir að aðeins gefist einn dagur til að afgreiða þetta stóra mál. Unnt er að skoða það yfir þá helgi sem í hönd fer og afgreiða mánudaginn 19. desember eða síðar fyrir jól. Jóhanna vill ekki taka á þessu máli af því að það kemur VG illa að um það sér rætt. Þingflokkur Samfylkingarinnar getur ekki heldur rætt málið vegna þess hve heitar tilfinningar eru í því. Innan þingflokksins skammast vafalaust margir sín fyrir að hafa lagt VG lið í hatursherferðinni á hendur Geir H. Haarde.

Íslensk stjórnmálasaga geymir dæmi um að í samskiptum flokka og forystumanna flokka gerast atvik sem móta afstöðu milli manna og flokka um langan aldur. Ákæran á hendur Geir H. Haarde er slíkt mál. Hún hefur rekið fleyg á milli flokka og manna á alþingi á þann veg að ekki grær um heilt nema fleygurinn sé fjarlægður. Líta ber á þingsályktunartillögu Bjarna Benediktssonar í þessu ljósi. Verði tillagan samþykkt skapast nýjar forsendur til samstarfs milli flokka í íslenskum stjórnmálum. Verði tillagan felld verður sett salt í sár sem breytist ef til vill í enn meiri meinsemd.

Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon eru að renna sitt skeið í íslenskum stjórnmálum. Þau hugsa aðeins um eigin hag og stjórnast af heift til þeirra sem héldu þeim utan veggja stjórnarráðsins lengur en þau þoldu. Þeim er sama um framtíðina. Innan þingflokka þeirra hlýtur þó að vera fólk sem lítur til framtíðarinnar og þess að í henni felast óþekkt tækifæri sem menn spilla aðeins með því að láta stjórnast af fortíðarheift. Viðbrögðin á þingi við tillögu Bjarna Benediktssonar verða mælikvarði á hvort fortíðin sem ekki verður breytt eða hin óráðna framtíð og tækifæri hennar ráða afstöðu manna.