14.12.2011

Greinargerð Jóns Magnússonar vegna stefnu Jóns Ásgeirs gegn mér

Lagt fram í Héraðsdómi  Reykjavíkur 22.11.2011.

 

GREINARGERÐ

Stefnda

í héraðsdómsmálinu  nr.      /2011

 Jón Ásgeir Jóhannesson

 gegn

Björn Bjarnason

 

 

 

Málflutningsumboð:

Jón Magnússon hrl. Skeifunni 11, Reykjavík flytur mál þetta fyrir stefnda skv. málflutningsumboði.

 

 

Dómkröfur:

Þess er krafist að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda skv. mati dómsins , auk álags á málskostnað sbr. 2.mgr. 131.gr. l. nr. 91/1991 um meðferð einkamála,  skv. mati dómsins allt að viðbættum 25.5% virðisaukaskatti á málflutningsþóknun, en stefndi er ekki virðisaukaskattsskyldur.

 

 

Ég legg fram:

Nr.  12  Greinargerð þessa.

 

 

Málavextir:

Fá sakamál hafa á síðari árum vakið eins mikla athygli og svokallað Baugsmál, en rannsókn þess hófst í framhaldi af kæru Jóns Geralds Sullenberger á hendur forsvarsmönnum Baugs í ágúst 2002. 

 

Rannsókn  á meintum brotum forsvarsmanna Baugs var viðamikil enda umfang málsins mjög mikið. Málsmeðferð Baugsmálsins svonefnda stóð síðan allt til þess að Hæstiréttur kvað upp dóm í málinu þ. 5.6.2008.  Umbjóðandi minn var dóms- og kirkjumálaráðherra frá 23.5.2003 til 1.2.2009 eða megin hluta þess tíma sem rannsókn og málsmeðferð Baugsmálsins stóð yfir.

 

Meðan á rannsókn og málsmeðferð Baugsmálsins stóð mátti umbjóðandi minn þola margvísleg hnjóðsyrði af hálfu þeirra sem fengu réttarstöðu grunaðra í málinu og margra vildarvina þeirra.

 

Umbjóðanda mínum var borið á brýn að annarlegar hvatir hans og þáverandi forsætisráðherra lægju að baki rannsókn og ákærum í málinu. Forsvarsmenn Baugs töluðu um aðförina að Baugi og látið var í veðri vaka að rannsóknin á Baugsmálinu stafaði af hatri þáverandi forsætisráðherra, dómsmálaráðherra og nokkurra flokksfélaga þeirra á forsvarsmönnum Baugs. Gefið var í skyn að um pólitískar ofsóknir á hendur fyrirsvarsmönnum Baugs væri að ræða, þannig að ætla mátti af þessum málflutningi, að lögregla og ákæruvald gengju pólitískra erinda en ekki faglegra í málinu.

 

Embættis síns vegna kaus umbjóðandi minn að svara sem minnstu af þeim hatursáróðri sem að honum var beint og staðlausum fullyrðingum um að hann sem dómsmálaráðherra hefði bein eða óbein afskipti af rannsókn og málsmeðferð  Baugsmálsins.  Um árabil mátti því umbjóðandi minn sæta því að á hann væri ráðist í ræðu og riti og hann sakaður um margvísleg annarleg sjónarmið varðandi Baugsmálið.

 

Baugur og tengd félög voru stærstu viðskiptaaðilarnir á markaði á þeim tíma sem rannsókn og málsmeðferð í Baugsmálinu stóð og þess sáust merki víða að „auðhringurinn“ Baugur ætlaði sér að ná sínu fram með því að beita aðstöðu sinni og fjármunum til að knýja á um að rannsókn málsins yrði hætt og einnig til að hafa áhrif á almenning og dómstóla með virkum áróðri og einhliða endurtekningum um  það að um annarleg sjónarmið væru þess valdandi að Baugsmál væru yfirhöfuð rannsökuð.  Reynt var að gera þann einstakling sem stjórnaði rannsókninni tortryggilegan auk þeirra stjórnmálamanna sem vikið er að hér að framan.  

 

Forsvarsmenn Baugs gerðu margt til að koma höggi á umbjóðanda minn m.a. styrktu þeir sérstaklega þá frambjóðendur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir alþingiskosningar 2007,  sem þeir töldu líklega til að geta skaðað framgang umbjóðanda míns í prófkjörinu. Sú aðför tókst ekki nema að hluta.  Þá var gripið til þess ráðs af þeim forsvarsmanni Baugs sem mestra alþýðuhylli nýtur,  að auglýsa í fjölmiðlum daginn fyrir kjördag í alþingiskosningum 2007, áskorun til kjósenda að kjósa Sjálfstæðisflokkinn en strika yfir nafn umbjóðanda míns. Allt var það gert á þeim forsendum að umbjóðandi minn hefði beitt sér með óeðlilegum hætti varðandi meðferð Baugsmálsins.  Þessi áskorun bar ekki tilætlaðan árangur en sýndi vel þann hug sem forsvarsmenn Baugs bera til umbjóðanda míns sem skýrist meðal annars af því að hann fór ekki að vilja þeirra og blandaði sér ekki í rannsókn lögreglu eða málsmeðferð Baugsmálsins fyrir dómi.

 

Eftir að Hæstiréttur Íslands kvað upp dóm í Baugsmálinu yfir nokkrum forsvarsmönnum Baugs þ. 5. júní 2008 og Jóni Gerald Sullenberger mátti vera ljóst að full ástæða hafði verið til að rannsaka málið. Rannsóknin leiddi í ljós afbrot af hálfu helstu fyrirsvarsmanna Baugs á þeim tíma sem rannsóknin tók til.  Umbjóðandi minn hafði eins og áður sagði talið eðlilegt embættis síns vegna að hafa sem allra fæst orð um málið utan þess að svara af gefnu tilefni fyrirspurnum frá alþingismönnum og fjölmiðlum.

 

Umbjóðandi minn taldi nauðsynlegt í framhaldi af því hvernig forsvarsmenn Baugs höfðu ítrekað reynt að afflytja atriði sem varðaði hið svonefnda Baugsmál, að taka saman stutta heildstæða sögu Baugsmálsins út frá eigin reynslu og þekkingu á því  máli. Umbjóðandi minn var ekki að bera af sér sakir með því að vinna sögu Baugsmálsins heldur fyrst og fremst að halda til haga mikilvægum atriðum sem málið varðaði. Ekki síst vegna þess að „auðhringurinn“ Baugur hafði beitt sér af fullu afli á ýmsan hátt til að túlka dóm Hæstaréttar í málinu á sinn hátt.  

 

Umbjóðandi minn ákvað því að skrifa bók um Baugsmálið og fara yfir með skipulögðum hætti hvernig fjallað var um málið af fjölmiðlum og ýmsum álitsgjöfum.  Umbjóðandi minn vann þetta verk eftir bestu samvisku með það að leiðarljósi að skýra rétt frá öllum atriðum og greina hlutlægt frá staðreyndum málsins. Tilgangur hans var ekki að brjóta málaferlin í Baugsmálinu til mergjar eða ræða lögfræðileg álitamál heldur umgjörð málaferlanna í hinni þjóðfélagslegu umræðu.

 

Bókin var síðan gefin út undir heitinu:  „Rosabaugur yfir Íslandi“  en í yfir fyrirsögn „Saga Baugsmálsins“.  Bókin kom út vorið 2011og fékk góðar viðtökur og seldist betur en almennt gerist með bækur um þjóðfélagsmál. Þeir sem hafa fjallað um bókina telja hana almennt nauðsynlegt framlag til umræðu og upplýsingamiðlunar í lýðræðisþjóðfélagi.

 

Skömmu eftir útkomu bókarinnar eða þ. 8. júní 2011 sendi lögmaður stefnanda umbjóðanda mínum bréf  dskj. nr. 5. Í bréfi lögmanns stefnanda er vísað til þess að rangt sé greint frá ákveðnum atriðum sem snerti stefnanda á bls. 368 í bókinni. Í bréfinu skorar lögmaður stefnanda á umbjóðanda minn að leiðrétta villurnar og biðja stefnanda afsökunar á rangfærslunum. Þá var þess einnig krafist að það sem óselt væri af bókinni yrði innkallað  og bókinni ekki dreift frekar fyrr en leiðrétting hefði átt sér stað. Í bréfinu segir ennfremur að stefnandi áskilji sér rétt til að fylgja kröfum sínum eftir verði ekki við þeim brugðist.

 

Umbjóðandi minn brást strax við athugasemdum í bréfi lögmanns stefnanda sbr. dskj. nr. 5 og sendi frá sér yfirlýsingu sem m.a. birtist í Morgunblaðinu þ. 11. júní 2011  sbr. dskj. nr. 6. eða 3 dögum eftir dagsetningu bréfs lögmanns stefnanda. Í bréfinu biður umbjóðandi minn afsökunar á því að hafa farið rangt með þau atriði á bls. 368 í bókinni sem lögmaður stefnanda gerði athugasemdir við.

 

Umbjóðandi minn birti einnig sambærilega afsökun á mistökunum á vefsíðu sinni þ.10.6.2011 sbr. dskj. 8 eða 2 dögum eftir dagsetningu bréfs lögmanns stefnanda.

 

Þessu til viðbótar sendi umbjóðandi minn  bréf til lögmanns stefnanda dags. 14.6.2011 sbr. dskj. nr. 7. Í því bréfi var vísað til umrædds bréfs lögmanns stefnanda frá 8. júní  og vakinn athygli á þeirri leiðréttingu sem gerð hafði verið á vefsíðu umbjóðanda míns og  þeirri  yfirlýsingu í Morgunblaðinu sem áður er á minnst. Er jafnframt bent á að með þessu hafi verið orðið við tilmælum í bréfi lögmanns stefnanda sbr.dskj. nr. 5 varðandi leiðréttingu á því sem missagt var og stefnandi beðinn velvirðingar  á því. Þá vekur umbjóðandi minn einnig athygli lögmannsins á röngum og meiðandi ummælum stefnanda í garð umbjóðanda míns í tengslum við mál þetta. Loks bendir hann lögmanninum á að snúa sér til útgefanda bókarinnar varðandi innköllun hennar.

 

Á þeim tíma sem umbjóðandi minn birti afsökunarbeiðni sína var verið að undirbúa 2. prentun bókarinnar þar sem fyrsta upplag var uppselt hjá útgefanda enda kom 2 prentun bókarinnar út nokkrum dögum síðar og þá höfðu þau atriði sem lögmaður stefnanda gerði athugasemd við sbr. dskj. nr. 5 verið leiðrétt.

 

Af framansögðu má sjá að umbjóðandi minn brást við bréfi lögmanns stefnanda með því að viðurkenna að um mistök hefði verið að ræða í umfjöllun um nánar tilgreind ummæli á bls. 368 í bókinni „Rosabaugur yfir Íslandi“  auk þess sem hann birti leiðréttingu og afsökunarbeiðni á vefsíðu sinni og í Morgunblaðinu. Þessu til viðbótar sendi hann lögmanni stefnanda bréf til þess sérstaklega að gera honum grein fyrir leiðréttingum sínum í samræmi við þær óskir sem settar voru fram í bréfi hans sbr dskj. nr. 5. 

 

Bréfi umbjóðanda míns sbr. dskj. nr. 7 svaraði lögmaður stefnanda aldrei og gerði aldrei athugasemdir við umbjóðanda minn. Nokkrum mánuðum síðar lét hins vegar lögmaður stefnanda birta umbjóðanda mínum stefnu í máli þessu.  Kom sú stefnubirting umbjóðanda mínum verulega á óvart, enda taldi hann að brugðist hefði verið við á fullnægjandi hátt og á þann hátt sem á hans valdi var og engar athugasemdir höfðu verið við það gerðar af hálfu stefnanda eða lögmanns hans. Eins og áður segir var innköllun bókarinnar ekki á valdi umbjóðanda míns. Þar fyrir utan má efast um að krafa um innköllun hafi verið réttlætanleg í ljósi þess hvers eðlis mistökin voru og þeirra aðgerða sem þegar hafði verið gripið til. Að krafist sé innköllunar á bók vegna mistaka sem flokka má undir ritvillu er sérkennilegt svo ekki sé meira sagt.

 

Að öllu athuguðu lá  auk þess ljóst fyrir að enginn réttarágreiningur var í málinu.

 

 

Málsástæður og lagarök:

I.                Krafa um ómerkingu ummæla

Sýknukröfu sína byggir umbjóðandi minn á því að hann hafi dregið opinberlega til baka þau ummæli sem lögmaður stefnanda gerði athugasemd við í bréfi sínu sbr. dskj. nr. 5, og beðið stefnanda opinberlega afsökunar á þeim mistökum sem urðu að þessu leyti við útgáfu og 1. prentun bókarinnar „Rosabaugur yfir Íslandi.“ sbr. dskj. nr. 6,7 og 8.  Af þeim sökum er engin forsenda fyrir að ómerkja ummælin með dómi þar sem umbjóðandi minn varð við kröfu lögmanns stefnanda sbr.dskj.nr.5 og dró til baka þau ummæli sem þar er vísað til. Þetta eru sömu ummælin og vísað er til í stefnu undir töluliðunum 1 b og 1 c. Enginn réttarágreiningur er um þessi ummæli og þau höfðu verið dregin til baka og stefnandi beðinn afsökunar svo sem lögmaður stefnanda krafðist.

 

Í bréfi lögmanns stefnanda sbr. dskj. nr. 5 segir:  „Skjólstæðingur minn áskilur sér rétt til þess að fylgja kröfum sínum eftir verði ekki við þeim brugðist“.  Þessi ummæli verða ekki skilin með öðrum hætti en þeim að verði brugðist við þeim kröfum sem settar eru fram í tilvitnuðu skjali séu ágreiningsmál aðila úr sögunni. Með hliðsjón af framansögðu verður því að telja að mál þetta sé höfðað af tilefnislausu.

 

Varðandi ummælin í tl. 1. a í stefnu sem stefnandi gerir kröfu til að verði dæmd dauð og ómerk,  þá er ekki ágreiningur um það að ummælin eru röng og umbjóðandi minn hefur dregið þau til baka með yfirlýsingu sinni sbr. dskj. nr. 6,7 og 8. Þar sem ummælin hafa verið dregin til baka er engin réttarágreiningur með aðilum eins og komið hefur fram.

 

Í þessu sambandi er einnig bent á að í yfirlýsingu umbjóðanda míns er sérstaklega tiltekið varðandi stefnanda „hann hlaut engan dóm samkvæmt 19. ákærulið eins og skilja má af texta mínum á bls.368.“  en með því er vísað til  1.prentun bókarinnar „Rosabaugur yfir Íslandi“. 

 

Ástæða þess að ummæli á bls. 367 voru ekki leiðrétt í 2. prentun bókarinnar er sú að athygli umbjóðanda míns var ekki vakin á þessum ummælum eða gerð athugasemd við þau. Þannig var t.a.m. engin athugasemd gerð við þau í bréfi lögmanns stefnanda sbr. dskj. nr. 5 eins og áður segir. Af þeim sökum kannaði  umbjóðandi minn ekki þessi ummæli  við undirbúning annarrar prentunar. Hins vegar leiðir af  yfirlýsingu umbjóðanda míns að öllum má ljóst vera að stefnandi var ekki ákærður skv. 19 ákærulið og ummælin hafa því í raun verið dregin til baka og beðist velvirðingar á þeim áður en stefna var gefin út í málinu sbr. dskj. nr. 7.

 

Umbjóðandi minn byggir einnig á því að hann hafi brugðist við um leið og athygli hans var vakin á þeim mistökum sem höfðu orðið varðandi ummæli um stefnanda og beðið stefnanda afsökunar og leiðrétt ummælin strax og honum var bent á að hann færi ekki rétt með. Umbjóðandi minn bendir í því sambandi á að hann hafi að öllu leyti dregið röng ummæli til baka áður en stefna var birt í málinu líka hvað varðar tl.1 a.

 

Af  hálfu stefnanda var ekki beint athugasemdum til umbjóðanda míns vegna máls þessa eftir að hann hafði orðið við kröfu lögmanns stefnanda um leiðréttingu og sent lögmanni stefnanda bréfið sbr dskj. nr. 7. Þannig gerði lögmaður stefnanda ekki athugasemdir við leiðréttingu og yfirlýsingu umbjóðanda míns og mátti umbjóðandi minn því ætla að ekki væru gerðar athugasemdir við viðbrögð hans við þeim tilmælum sem sett voru fram og málinu væri lokið. Umbjóðandi minn var því í góðri trú hvað þetta varðaði þangað til stefna var birt fyrir honum, en þessi tilhæfulausa málshöfðun kom umbjóðanda mínum verulega á óvart. Er einsdæmi að meiðyrðamál sé höfðað og þess krafist að ummæli séu dæmd dauð og ómerk þegar þau ummæli hafa verið dregin til baka og beðist afsökunar á mistökunum.

 

Þau ummæli sem krafist er að dæmd verði dauð og ómerk og mál þetta snýst um eru á engan hátt þess eðlis að þau meiði æru stefnanda eða geti orðið virðingu hans til hnekkis. Hafa verður í huga í þessu sambandi að stefnandi var ákærður í sakamáli og var dæmdur í Hæstarétti fyrir meiri háttar bókhaldsbrot en sama refsing liggur við slíkum brotum og fjársvikum. Við frásögn af dómum eins og þeim sem hér ræðir um og umbjóðandi minn fjallar um í bók sinni, þá skiptir mestu máli hvaða sakir eru bornar á menn og fyrir hvað þeir eru dæmdir. Það hefur ekki sérstaka þýðingu hvort viðkomandi einstaklingur var dæmdur samkvæmt ákærulið sem merktur er númer 1 eða 15. Aðalatriðið er að viðkomandi einstaklingur var ákærður og fékk dóm. Dómsorðið er það sem fyrst og fremst skiptir máli við mat á málinu og stöðu stefnanda í því tilviki í framhaldi af dóminum.

 

Því má raunar halda fram að almennt hafi lesendur bókarinnar ekki velt fyrir sér hvort stefnandi hafi verið dæmdur fyrir meiri háttar bókhaldsbrot eða fjárdrátt fyrr en hann kaus sjálfur að draga athygli að villunni í bókinni. Enginn gagnrýnandi bókarinnar hnaut um þessa villu og lásu sumir hana þó hvorki með gleði né velvilja sbr. gagnrýni Páls Baldvins Baldvinssonar í Fréttatímanum. Er sjálfstætt rannsóknarefni hvort hinum almenna lesanda bókar á borð við „Rosabaug yfir Íslandi“ þyki öllu skipta hvort þjóðkunnur athafnamaður sé dæmdur fyrir meiri háttar bókhaldsbrot eða fjárdrátt og sá bitamunur ráði úrslitum um æru þess sem um er fjallað. Hér skal dregið í efa að svo sé og því haldið fram að stefnandi hafi gert úlfalda úr mýflugu þótt sjálfsagt hafi verið að leiðrétta umrædda villu eins og umbjóðandi minn gerði auk þess að biðjast afsökunar á henni.

 

Varðandi ummæli í tl. 1 a. í stefnu þar sem segir: „Var frávísun 19.liðar, þar sem Jón Ásgeir var borinn sökum felld úr gildi.“ Þá verður ekki talið að í þessum orðum felist meiðandi ummæli í garð stefnanda.  Vissulega er viðurkennt að rangt var farið með að stefnandi hefði verið borinn sökum í 19 lið ákærunnar, en miðað við ummælin sem slík þá er hvergi sagt að stefnandi, Jón Ásgeir hafi verið dæmdur skv. 19 lið ákærunnar.  Þá verður öllum lesendum það ljóst sem lesa bókina í heild að stefnandi var ekki dæmdur skv. 19. lið ákærunnar. Jafnframt kemur það ótvírætt fram eftir leiðréttingu í 2. prentun bókarinnar að stefnandi var einungis dæmdur fyrir meiri háttar bókhaldsbrot en ekki fjársvik og stefnandi var ekki ákærður samkvæmt þeim lið. Eða eins og segir í hinum leiðrétta texta í 2. prentun bókarinnar: „Var Jón Ásgeir því dæmdur fyrir meiri háttar bókhaldsbrot í 3. mánaða skilorðsbundið fangelsi.“  Orðið „því“ í hinum leiðrétta texta tekur af öll tvímæli um að Jón Ásgeir var ekki dæmdur fyrir annað en í honum segir.

 

Við lestur bókarinnar í heild bæði fyrir og eftir þá leiðréttingu sem gerð var að beiðni lögmanns stefnanda, gátu lesendur gert sér góða grein fyrir þeim sökum sem á stefnanda voru bornar, hvaða dóm hann fékk og af hvaða ákæruatriðum  hann var sýknaður.  Þó stefnandi telji sér henta að tína til þessi ákveðnu ummæli sem krafist er ómerkingar á og krefjast refsingar yfir umbjóðanda mínum þá hafa ummælin ekki lifað sjálfstæðu lífi heldur verður að skoða þau í því samhengi sem þau eru sett fram og það sem fram kemur í bókinni í heild.

 

Í bók sinni „Rosabaugur yfir Íslandi“ fjallar umbjóðandi minn um Baugsmálið svokallaða auk ýmissa annarra hluta sem gerðust í þjóðfélaginu í aðdraganda málsins og meðan á rannsókn og dómsmeðferð þess stóð.  Við lestur bókarinnar kemur glöggt fram hvað það er sem stefnandi var dæmdur fyrir og hvaða ákæruatriði það voru sem hann var sýknaður af.  Það er meginatriðið en ekki þau smávægilegu mistök í efnismeðferð sem eru viðurkennd af umbjóðanda mínum og beðist hefur verið velvirðingar á.  Þannig liggur fyrir við lestur bókarinnar að stefnandi var dæmdur fyrir meiri háttar bókhaldsbrot samkvæmt 15 tl. ákærunnar þó hann væri ákærður samkvæmt fleiri liðum sem vörðuðu ýmis önnur brot. Í raun kemur leiðrétting á þessum ummælum sjálfkrafa í ljós við lestur bókarinnar, enda má lesendum vera ljóst af lestri hennar hvað það var sem stefnandi var sakfelldur fyrir.

 

Þegar bókin „Rosabaugur yfir Íslandi“ er metin í heild og það skoðað hvort um meiðandi ummæli í garð stefnanda eða meiðandi aðdróttanir í hans garð hafi verið að ræða, þá fer því fjarri að svo hafi verið. Þvert á móti gefur bókin glögga og heilstæða mynd af því með hvaða hætti staðið var að rannsókn Baugsmálsins, umræðunni í þjóðfélaginu um málið og hver niðurstaða þess varð. Þau ummæli sem hér um ræðir eru  minni háttar hnökrar á efnismeðferð, sem almennt einkenna prentvillur,  en ekki atriði sem varða ærumeiðingum í garð stefnanda umfram það sem hann hefur kallað yfir sig með háttsemi sinni og þegar er á almanna vitorði.

 

Af hálfu umbjóðanda míns er af ofangreindum ástæðum á því byggt að jafnvel þó að umbjóðandi minn hefði ekki  leiðrétt eða beðist velvirðingar á þeim ummælum sem lögmaður stefnanda krafði að hann gerði svo og umstefndum ummælum á bls. 367 og 368 í bókinni  þá hefði það ekki haft í för með sér að hann yrði dæmdur fyrir meiðandi eða lítilsvirðandi ummæli eða aðdróttanir í garð stefnanda þar sem meginatriðið varðandi sakargiftir, sakfellingu og tildæmda refsingu stefnanda koma glögglega fram við lestur bókarinnar. Í þessu sambandi verður einnig að hafa í huga að það snertir ávallt æru manna að verða dæmdir fyrir refsiverða háttsemi, sérstaklega almannapersónur sem hafa verið jafn áberandi í íslensku þjóðlífi og stefnandi.  Dómurinn er opinber og aðgengilegur fyrir þá sem vilja kynna sér hann. Þá var gríðarlega mikið um dóminn  og háttsemi stefnanda fjallað í fjölmiðlum. Þannig breytir frásögn umbjóðanda míns engu um æru eða æruleysi stefnanda í málinu jafnvel þó hann hefði ekki gert þær leiðréttingar sem hann gerði.

 

 

II.              Refsikrafa

Af hálfu stefnanda er þess krafist að umbjóðandi minn verði dæmdur til refsingar vegna þeirra ummæla sem krafist er ómerkingar á sbr. tl. 1 a-c í stefnu og telur stefnandi það varða við 234.gr. og 235.gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Stefnandi byggir á því að lagaskilyrði séu fyrir hendi til að dæma umbjóðanda minn til refsingar þar sem framsetning ummælanna og rangindi séu með þeim hætti.  Ekki er með neinum hætti sýnt fram á réttmæti þessara fullyrðinga af hálfu stefnanda.

 

Þá segir í stefnu að umbjóðanda mínum hafi verið gefinn kostur á að leiðrétta rangfærslur sínar opinberlega og stöðva frekari dreifingu bókarinnar og hafi umbjóðandi minn ekki orðið við þeirri áskorun nema að takmörkuðu leyti og textaleiðrétting í 2. prentun bókarinnar hafi verið ófullkomin svo sem nánar er greint í stefnu. Þessar staðhæfingar í stefnu eru  rangar.

 

Fyrir liggur í málinu sbr. dskj. 6, 7 og 8 að opinber leiðrétting af hálfu umbjóðanda míns var birt í Morgunblaðinu og á vefsíðu hans sbr. það sem áður segir. Jafnframt sendi  umbjóðandi minn bréf  til lögmanns stefnanda, þar sem hann leiðréttir þau ummæli sem lögmaður stefnanda krafðist í bréfi sínu að yrðu leiðrétt. Jafnframt bað umbjóðandi minn stefnanda afsökunar vegna þessa. Í bréfi sínu sbr. dskj. nr. 5 fór lögmaður stefnanda ekki fram á leiðréttingu fleiri ummæla en þeirra sem umbjóðandi minn leiðrétti og bað stefnanda afsökunar á.  Lögmaður stefnanda gerði enga athugasemd við afgreiðslu umbjóðanda míns á málinu.

 

Af framangreindu er ljóst að umbjóðanda mínum var umhugað að halla ekki réttu máli jafnvel þó í litlu væri og varðaði aukaatriði, en lagði sig fram um að gæta þess að rétt væri farið með.  Þess fer víðs fjarri að umbjóðandi minn hafi viljað valda stefnanda frekari ærumeiðingum en leiddi af umræddri sakfellingu vegna háttsemi stefnanda sjálfs.  

Yfirlýsing umbjóðanda míns og skjót viðbrögð  við að leiðrétta missagnir sýna ótvírætt að ekki var um brotavilja að ræða hjá umbjóðanda mínum.   

 

Forsenda þess að refsing verði dæmd samkvæmt þeim greinum almennra hegningarlaga sem vísað er til í stefnu er að uppfyllt séu þau huglægu skilyrði að um ásetning  hafi verið að ræða sbr. 18.gr. almennra hegningarlaga.  Þau huglægu skilyrði eru ekki fyrir hendi. Ljóst er að umbjóðandi minn hafði hvorki áhuga né vilja til að bera stefnanda röngum sökum. Þvert á móti var það markmið umbjóðanda míns að greina satt og rétt frá  því sem greint er frá í bókinni.  Eins og áður er vikið að voru ákveðin mistök gerð, sem þó eru minni háttar þegar umfjöllun um stefnanda í bókinni „Rosabaugur yfir Íslandi“ er virt í heild og sýna að vilji höfundar stóð ekki til að meiða æru stefnanda eða móðga hann. Með viðbrögðum sínum við erindrekstri lögmanns stefnanda tók umbjóðandi minn af öll tvímæli um huglæga afstöðu sína.  Strax og tilvitnað bréf barst frá lögmanni stefnanda þá brást umbjóðandi minn við og leiðrétti þau ummæli og biðst afsökunar á þeim.  Huglæg refsiskilyrði eru því ekki fyrir hendi í málinu og ber þegar af þeirri ástæðu að sýkna umbjóðanda minn af refsikröfu í málinu.

 

Samkvæmt 234 gr. almennra hegningarlaga er það refsivert þegar æra manns er meidd  með móðgun í orðum eða athöfnum eða slík móðgun er borin út. Umbjóðandi minn braut ekki gegn ákvæðum þessarar lagagreinar. Í fyrsta lagi var enginn ásetningur af hálfu umbjóðanda míns að meiða eða móðga stefnanda eða bera slíkt út. Þá eru þau ummæli sem um er fjallað í máli þessu í bókinni ekki þess eðlis að þau geti verið meiðandi eða móðgandi fyrir stefnanda þegar umfjöllun umbjóðanda míns í bókinni er virt í heild, hvað þá heldur þegar ummælin hafa verið leiðrétt og stefnandi beðinn afsökunar.

 

Samkvæmt 235. gr. almennra hegningarlaga getur það  verið saknæmt ef maður dróttar einhverju að manni sem verða mundi virðingu hans til hnekkis eða ber slíka aðdróttun út. Af hálfu umbjóðanda míns var ekki sett fram nein aðdróttun gagnvart stefnanda eða hún borin út.  Þær málsástæður sem bent er á í næstu málsgrein hér að framan varðandi umfjöllun um 234.gr. almennra hegningarlaga eiga einnig við um ákvæði 235.gr. sömu laga og er vísað til þeirra.

 

Af hálfu stefnanda er látið nægja að vísa til 234.gr. og 235.gr. almennra hegningarlaga en í engu getið hvaða ummæli geti fallið undir hvort refsiákvæði fyrir sig. Á það skortir því að málatilbúnaður stefnanda sé nægjanlega glöggur hvað þessi atriði varða. Til viðbótar því sem áður er komið fram, þá verður umbjóðanda mínum ekki dæmd refsing á grunni jafn óskýrrar kröfugerðar.

 

Auk hinna huglægu skilyrða sem vikið er að hér að framan verður að hafa í huga ákvæði íslenskra laga um tjáningarfrelsi, sem nánar verður vikið að síðar. Hér skal  á það bent að í engu tilviki hefur umbjóðandi minn farið yfir  mörk tjáningarfrelsisins í umfjöllun sinni um stefnanda máls þessa.  Jafnvel þó að framsetning í þremur afmörkuðum tilvikum hafi ekki verið eins nákvæm og æskilegt hefði verið og umbjóðandi minn hefði kosið þá fór umbjóðandi minn samt ekki yfir þau mörk sem ákvæði laga og dómafordæmi hafa sett opinberri umfjöllun í lýðfrjálsu landi. Í því sambandi skal minnt á að stefnandi erum umsvifamikil almannapersóna í íslensku þjóðlífi og Baugsmálið var eitt umtalaðasta seinni tíma sem lauk með sakfellingu stefnanda.

 

Refsikrafa stefnanda er illa rökstudd og engin huglæg refsiskilyrði eru fyrir hendi í máli þessu  en af því leiðir að ekki er hægt  að dæma umbjóðanda minn til refsingar.

 

III.            Krafa um miskabætur

Krafa stefnanda um miskabætur byggir á því að umbjóðandi minn hafi með grófum hætti haldið fram röngum og villandi staðhæfingum um að hann hafi verið sakfelldur í refsimáli fyrir ákæruliði sem hann hafi verið sýknaður af  og jafnvel ekki ákærður fyrir.

Þá er því haldið fram að fallist dómurinn á ómerkingu ummæla svo sem krafist er í stefnu að þá hafi umbjóðandi minn framið ólögmæta meingerð gagnvart æru stefnanda og persónu.

 

Meginatriðið er það að umbjóðandi minn greinir réttilega frá því í bók sinni að stefnandi hlaut refsidóm  og til hvaða refsingar hann var dæmdur. Það er aðalatriðið í málinu. Miski stefnanda vegna umfjöllunar í bókinni er engin. Hvort stefnandi var dæmdur samkvæmt ákveðnum köflum eða kafla ákærunnar en ekki öðrum skiptir engu fyrir almenna umræðu um málið eða stöðu stefnanda.  Hvernig er unnt að færa rök fyrir því að það ráði úrslitum um æru stefnanda að það standi ranglega á einum stað á í 432 bls. bók að hann hafi verið ákærður samkvæmt 19. tl. en síðan tekið af skarið í sömu bók  og sagt að hann hafi ekki verið dæmdur fyrir fjárdrátt

 

Aðalatriðið er hvort sem stefnanda líkar það betur eða verr, að stefnandi var dæmdur fyrir refsivert athæfi þ.e. fyrir meiri háttar bókhaldsbrot. Af því leiddi t.d. að stefnandi gat ekki setið í stjórn hlutafélaga samkvæmt 1.mgr. 66.gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög svo dæmi sé nefnt. Þessi atriði komu til opinberrar og almennrar umræðu þegar dómur Hæstaréttar í svokölluðu Baugsmáli féll, auk þess sem fjölmiðlar hafa ítarlega fjallað um hvað stefnandi var sakfelldur fyrir.  Þau atriði lágu því ljós fyrir og hafa verið rædd ítarlega í almennri umræðu í þjóðfélaginu. 

 

Jafnvel þó að dómurinn féllist á að ómerkja ummæli sem þegar hafa verið dregin til baka og leiðrétt af hálfu umbjóðanda míns, þá breytir það ekki stöðu stefnanda og því að hann hefur hlotið refsidóm. Það er aðalatriðið í málinu hvað varðar æru og/eða æruleysi stefnanda.  Þá liggur fyrir og skal ítrekað að þegar bók umbjóðanda míns er lesin í heild þá kemur glögglega  fram hvað það er sem stefnandi er sakfelldur fyrir. Jafnframt má vera ljóst að þeir hnökrar sem stefnandi bendir á og umbjóðandi minn leiðrétti strax eru ekki þess eðlis að þeir skaði æru stefnanda  umfram þann skaða sem æra hans hefur hlotið vegna sakfellingar fyrir refsivert athæfi.

 

Þá er bótafjárhæðin sem krafist er af hálfu stefnanda gjörsamlega fráleit og ekki í neinu samræmi við miskabætur sem dæmdar hafa verið af Hæstarétti Íslands. Er bótafjárhæðinni  því einnig mótmælt á þeim forsendum.   

 

 

IV.             Krafa um birtingu dóms.

Þá er þess krafist af hálfu stefnanda að verði  umbjóðandi minn dæmdur sekur um ærumeiðandi aðdróttun sbr. 235 gr. almennra hegningarlaga að umbjóðandi minn verði dæmdur til greiðslu hæfilegrar fjárhæðar til stefnanda til að standa straum af birtingu dóms í útbreiddu dagblaði sbr. 2.mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga.

 

Í þessu sambandi skal á það minnt að umbjóðandi minn hefur þegar leiðrétt þau ummæli sem lögmaður stefnanda fór fram á að yrðu leiðrétt áður en stefna var gefin út í málinu. Þá liggur einnig fyrir að leiðrétting umbjóðanda míns birtist í víðlesnu dagblaði og auk þess víðar. Þá ber einnig að minna á í þessu sambandi að af hálfu stefnanda var ekki gerð nein athugasemd við leiðréttingu umbjóðanda míns. Bréfi umbjóðanda míns til lögmanns stefnanda var aldrei svarað eða gerð athugasemd við efni þess fyrr en með stefnu í máli þessu. 

 

Þá er einnig mótmælt þeirri fjárhæð  sem gerð er krafa um að verði dæmd. Sú fjárhæð er allt of há og viðmið stefnanda varðandi gjaldskrá auglýsinga standast engin rök. Auk heldur þykja dómar í málum sem þessum jafnan fréttaefni þannig að af sjálfu leiðir að fjölmiðlar munu fjalla um niðurstöðu dómsins þegar hún liggur fyrir.

 

V.              Umbjóðandi minn fór ekki út fyrir eðlileg mörk tjáningarfrelsisins.

Löggjafinn og dómstólar hafa veitt  verulegt svigrúm til almennrar umfjöllunar um menn og málefni. Rétturinn til tjáningar og miðlunar upplýsinga er varinn af 73.gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og einnig af 10.gr. mannréttindalaga nr. 62/1994 sbr. einnig Mannréttindasáttmála Evrópu. Rétturinn til að taka við og miðla upplýsingum og fjalla um mikilvæg þjóðmál er afar mikilvægur í lýðræðissamfélagi.

 

Rétturinn til að taka við og miðla upplýsingum í lýðræðissamfélagi takmarkast af þeim undantekningum sem fram koma í 2.mgr. 10.gr. laga nr. 62/1994. Ítrekuð dómafordæmi Mannréttindadómstóls Evrópu  áskilja að undanþágur frá meginreglunni um tjáningarfrelsi skuli túlka afar þröngt. Allar takmarkanir á tjáningarfrelsi þarf að rökstyðja og réttlæta með sannfærandi hætti. Þannig má ekki skv. 2.mgr. 10.gr. laganna takmarka tjáningarfrelsi einungis ef nauðsyn ber til, en orðið nauðsyn hefur verið skýrt af hálfu Mannréttindadómstóls Evrópu  sem „knýjandi þjóðfélagsleg nauðsyn“ 

 

Hlutur fjölmiðla og höfunda ritverka og réttur þeirra samkvæmt tjáningarfrelsisákvæðum stjórnarskrár og Mannréttindasáttmálans  er að taka við og miðla upplýsingum án þess að eiga það á hættu að þurfa að sæta refsingum eða fjárkröfum af hálfu auðmanna eða annarra  jafnvel þó að minni háttar missagnir verði í rituðum texta ef meginatriði í framsetningunni og ritsmíðinni í heild er sett fram með eðlilegum og réttmætum hætti þannig að hún teljist hlutlæg lýsing á því meginefni sem um ræðir.

 

Í bók sinni „Rosabaugur yfir Íslandi“ fór umbjóðandi minn hvergi yfir mörk þess tjáningarfrelsis sem honum er fengið samkvæmt ofangreindu ákvæði stjórnarskrár og mannréttindalaga. Öll atriði sem máli skipta koma vel og hlutlægt fram í bók hans, og það á einnig við um atriði sem varða stefnanda þegar verkið er metið heilstætt.  Á því er byggt að jafnvel þó að umbjóðandi minn hefði ekki beðist afsökunar á þeim staðhæfingum sem lögmaður stefnanda fór fram á,  hefði hann samt ekki farið út fyrir mörk tjáningarfrelsisins, þar sem í öllum aðalatriðum er greint rétt frá þeim málefnum sem varða stefnanda.   

 

Þá verður einnig að hafa í huga að stefnandi er þjóðfrægur maður sem hefur m.a. rekið helsta fjölmiðlaveldi á Íslandi og komið að rekstri fyrirtækja í fjölmörgum atvinnugreinum innan lands sem utan. Um stefnanda hefur mikið verið fjallað í fjölmiðlum bæði vegna annarra mála og varðandi þau mál  sem bók umbjóðanda míns fjallar um. Þau atriði sem koma fram í bókinni eru vel þekkt úr þjóðfélagsumræðunni. Þá verður einnig að hafa það í huga að töluverður stjórnmálalegur styr hefur verið í kring um stefnanda og ber hann fulla ábyrgð á þeirri umræðu sem hann hefur iðulega átt upptökin af. Fyrir liggur að þeir sem blanda sér í opinbera umræðu með þeim hætti sem stefnandi hefur gert, hvort heldur er stjórnmálalegs eðlis eða af öðrum sökum, og varðar skoðanamyndun í lýðræðislegu samfélagi verða að sætta sig við á tíðum óvægna umfjöllun. Loks skal áréttað að með  því að stefna umbjóðanda mínum hefur stefnandi dregið athygli að því fyrir hvað hann hlaut dóm í Baugsmálinu og gert að aðalatriði þátt málsins sem er aukaatriði í bók umbjóðanda míns eins og mistök hans bera með sér. Hafi umbjóðandi minn ætlað að beina athygli lesenda sinna að þessum þætti Baugsmálsins hefðu efnistök hans í  „Rosabaugi yfir Íslandi“  orðið allt önnur.

 

Umbjóðandi minn hefur kappkostað að koma fram af fullri kurteisi gagnvart stefnanda og viljað láta hann njóta vafans í hvívetna þar sem orði hefur verið á hann hallað. Það lá hins vegar fyrir eftir dóm Hæstaréttar í Baugsmálinu, að enginn vafi lék á því að stefnandi hafði gerst sekur um afbrot.  Ekkert í ummælum umbjóðanda míns eða umfjöllun í bók hans gat því skaðað æru stefnanda meira en orðið var þegar bókin kom út vegna umrædds refsidóms. Í því sambandi breytir engu þó að misfarið hafi verið með ákveðin atriði hvað stefnanda varðar í bókinni og varðar  ummæli sem umbjóðandi minn hefur þegar beðist velvirðingar á

 

Málshöfðun í máli þessu var gjörsamlega tilefnislaus enda lá fyrir að umbjóðandi minn leiðrétti tafarlaust þær missagnir sem réttilega var bent á. Það að stefnandi skuli engu að síður höfða mál á hendur umbjóðanda mínum án þess að réttarágreiningur liggi fyrir felur í sér tilraun til að koma í veg fyrir lýðræðislega, opna og gagnrýna umræðu um stefnanda og viðskiptaumsvif hans á undanförnum árum. Önnur mál en þetta sýna að stefnanda er ljúft að stefna mönnum fyrir dómstóla í þeim eina tilgangi að því er virðist að þagga niður í þeim eða nota þá til að fæla aðra frá að fjalla um sig. Slík tilraun til þöggunar í skjóli dómstóla má jafnvel kenna við misnotkun á réttarkerfinu ekki síst þegar að henni stendur maður sem árum saman hefur staðið á bakvið stærsta fjölmiðlaveldi á einni hendi í landinu, veldi sem hann hefur nýtt sér til framdráttar til dæmis í Baugsmálinu.

 

Eini mögulegi tilgangurinn með tilefnislausu dómsmáli á hendur fyrrverandi dómsmálaráðherra er að senda þau skilaboð út í þjóðfélagið að þeir sem leyfa sér að ræða um háttsemi stefnanda geti átt málshöfðun á hættu.  Það sýnir ótvírætt hvað stefnandi er tilbúinn að ganga langt til að takmarka eðlilega umræðu um málefni sem snúa að honum og viðskiptaháttum hans og þjóðfélagsáhrifum.

 

Í bréfi sínu til lögmanns stefnanda bendir umbjóðandi minn á ummæli stefnanda á vefmiðlinum Eyjunni  þ. 10. júní 2011 þar sem stefnandi heldur því fram að umbjóðandi minn hafi skrifað bók sína vitandi vits um að hann væri að fara með rangt mál. Jafnframt segir þar að þetta sýni best innræti umbjóðanda míns og hversu langt hann sé tilbúinn að ganga.  Þessi ummæli stefnanda er ærumeiðing af hans hálfu í garð umbjóðanda míns auk ýmissa annarra ummæla sem stefnandi hefur viðhaft gagnvart umbjóðanda mínum.

 

Í ofangreindum ummælum heldur stefnandi því fram að umbjóðandi minn halli vísvitandi réttu máli þ.e. bregður honum um ósannindi.  Eðlilegt hefði verið að umbjóðandi minn gagnstefndi stefnanda vegna þessara ærumeiðandi ummæla í hans garð. En þar sem  umbjóðandi minn hefur engan áhuga á að troða illsakir við stefnanda lét hann það hjá líða. Sýnir þetta að reginmunur er á hugarfari því sem stefnandi ber til umbjóðanda míns í samanburði við þjóðfélagsumfjöllun umbjóðanda míns  um Baugsmálið í bók sinni „Rosabaugur yfir Íslandi“ sem m.a. snýr að stefnanda sem lykilaðila í því máli.

 

       VI.Málskostnaðarkrafa.

Þess er krafist að stefnandi verði dæmdur til að greiða umbjóðanda mínum málskostnað auk álags á málskostnað sbr. 2.mgr. 131.gr. l. nr. 91/1991 um meðferð einkamála,  skv. mati dómsins að viðbættum 25.5% virðisaukaskatti á málflutningsþóknun þar sem stefndi er ekki virðisaukaskattsskyldur. Þess er krafist að hvernig sem úrslit málsins verða að þá verði umbjóðanda mínum tildæmdur málskostnaður  úr hendi stefnanda auk álags á málskostnað,  þar sem stefnandi höfðaði mál þetta að þarflausu og án tilefnis af hálfu umbjóðanda míns. Í því sambandi byggir umbjóðandi minn á 1.mgr. tl. a  131.gr. og 2.mgr.  laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. 

 

Sakir stefnanda að þessu leyti eru miklar sbr. 2.mgr. 131.gr. laga um meðferð einkamála þar sem að umbjóðandi minn brást strax við þeim kröfum sem lögmaður stefnanda setti fram. Engin athugasemd var sett fram af lögmanni stefnanda í framhaldi af viðbrögðum umbjóðanda míns við kröfum hans, og enginn réttarágreiningur er í málinu, eins og bent er á hér að framan.

 

Með málatilbúnaði sínum og málshöfðun er stefnandi að höfða mál að þarflausu og valda dómstólum óþarfa vinnu og umbjóðanda mínum ama og leiðindum, auk þess sem málshöfðun stefnanda er til þess fallin að reyna að varpa rýrð á verk umbjóðanda míns og bókina „Rosabaugur yfir Íslandi“.  Auk þess bendir margt til þess m.a. með vísan til ofangreindra ummæla stefnanda á  vefmiðlinum Eyjunni um umbjóðanda minn, að um meinbægni sé að ræða af hálfu stefnanda í garð umbjóðanda míns og það sé í raun ástæða málshöfðunar þessarar.

 

 

VII.         Lög sem vísað er til.

Af hálfu stefnda er vísað til 73.gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Lög um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994 10.gr. Þá er vísað til laga nr. 19/1940 almennra hegningarlaga einkum 18.,234, 235 og 241.gr. Þá er einnig vísað til skaðabótalaga nr. 50/1993  26.gr. sbr. 13.gr. laga nr. 37/1999.  Einnig er af hálfu stefnda vísað til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 einkum 129.gr., 130.gr. og  131.gr. 1.mgr. a og 2. mgr. Þá er vísað til laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988

 

VIII.       Skýrslutökur fyrir dómi.

Stefndi áskilur sér rétt til að koma fyrir dóminn og gefa aðilaskýrslu og telur eðlilegt að stefnandi geri það líka. Þá áskilur stefndi sér rétt til að kalla vitni til skýrslutöku fyrir dóminum gefist tilefni til við ákvörðun um aðalmeðferð.

 

 

       IX: Fyrirvari:

Af hálfu stefnda er áskilinn réttur til að koma að  frekari málsútlistunum og skýringum á síðari stigum málsins og hafa uppi nýjar málsástæður gefist tilefni til þess frá stefnanda og koma að frekari gögnum gerist þess þörf. Með greindum fyrirvara er málið lagt í dóm.

 

 

Reykjavík 16.11.2011.

 

 

 

Jón Magnússon hrl.