27.11.2011

ESB-sátt á landsfundi - hörmungar ríkisstjórnarinnar

 

ESB-sátt á landsfundi

Landsfundi Sjálfstæðisflokksins lauk fyrir einni viku. Á honum hugaði ég að því sem laut að afstöðunni til Evrópusambandsins. Ég blandaði mér ekki í formannskjörið á annan veg en að kjósa þann sem ég studdi. Ég óska Bjarna Benediktssyni til hamingju með endurkjörið og tel að Hanna Birna Kristjánsdóttir megi mjög vel við niðurstöðuna una. Hún ávann sér sess í huga allra landsfundarfulltrúa, sýndi og sannaði að þar er leiðtogi á ferð.

Við Friðrik Sophusson tókum höndum saman í utanríkismálanefnd landsfundarins og fengum þar samþykkta tillögu sem naut stuðnings manna án tillits til þess hvort þeir vilja ganga í Evrópusambandið eða ekki. Tillagan var um að hlé skyldi gert á ESB-aðildarviðræðunum og þær ekki hafnar að nýju fyrr en að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu. Eftir sögulega afgreiðslu á tillögu utanríkismálanefndar á landsfundinum sjálfum þar sem allar breytingartillögur voru kollfelldar var tillagan samþykkt óbreytt með öllum þorra atkvæða. Í ályktuninni er jafnframt áréttað að Sjálfstæðisflokkurinn telur hagsmunum þjóðarinnar betur borgið utan ESB en innan.

Eftir fundinn fékk ég tölvubréf frá einum fulltrúa sem hefur hallast að ESB-aðild þar sagði meðal annars:

„Ég vil lýsa yfir sérstakri ánægju minni með þína tillögu í ESB málum í dag og að það hafi náðst sú niðurstaða sem var í dag á landsfundinum.  Ég hef meiri efasemdir um aðildarviðræður okkar að ESB núna en áður ekki síst vegna erfiðleikanna í Evrópu og vonlausrar ríkisstjórnar hér heima. Ég tel að þessi aðferðafræði að stöðva viðræður, fresta þeim eða hvað við köllum það og láta svo þjóðina kjósa um hvort halda eigi áfram í tengslum við skýrari samningsmarkmið sé mjög færsæl. Svo er núverandi ríkisstjórn ekki treystandi til að leiða þetta mál og ég treysti ekki stefnufestu eða samningatækni núverandi ríkisstjórnar í að gæta að hagsmunum íslensku þjóðarinnar. Þess vegna á ekki að halda áfram viðræðum í núverandi mynd eins og sumir vilja innan flokksins. Núverandi ríkisstjórn er ekki treystandi til að fara með þetta mál, hvort sem menn eru aðildarsinnar eða ekki.

 

Ef Sjálfstæðisflokkurinn á áfram að vera stór og helst mun stærri, þá þurfa að rúmast innan hans mismunandi sjónarmið og sem flestir geti átt heima í flokknum. Það tókst í dag að mínu mati með skýrri stefnu, en mildara orðalagi um það hvernig skuli nálgast málin.  Ég tel að flokkurinn eigi að geta náð enn meira fylgi í næstu kosningum og að því þurfum við að stefna.“

Þetta viðhorf landsfundarfulltrúans stangast á við mat Gunnars Helga Kristinssonar, prófessors í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands. Gunnar Helgi sem hefur starfað fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og er hallur undir Samfylkinguna tók að sér að túlka niðurstöðu landsfundarins um ESB-málið á visir.is skömmu eftir að fundarmenn höfðu afgreitt málið sunnudaginn 20. nóvember. Á visir.is sagði:

„Evrópumálin eru óleyst og það þarf einhvernveginn að takast á við þau,“ segir Gunnar Helgi [Kristinsson] um niðurstöðu fundarins um að gera hlé á aðildarviðræðum og ekki ganga til þeirra að nýju, fyrr en að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þannig segir Gunnar Helgi að niðurstaðan sé augljóslega til málamynda, enda ekkert rannsakað hvort það sé yfirhöfuð hægt að gera hlé á samningaviðræðum eða til hvers og um hvað þjóðartkvæðagreiðslan ætti að vera.

„Flokknum hefur mistekist að búa til sannfærandi línu hvað þetta varðar,“ segir Gunnar Helgi sem segir málið ekki tilefni til klofnings innan þingflokksins, þó það sé augljóslega afar umdeilt þar.

Hann segir hinsvegar að flokkurinn mætti hafa áhyggjur af málinu, „enda margir bakhjarlar flokksins úr viðskiptalífinu, sem hafa aðra skoðun á þessu máli,“ segir Gunnar Helgi og undanskilur þá að sjálfsögðu sjávarútveginn í þessu mengi.“

Þegar vika er liðin frá því að fundinum lauk tekur enginn undir það sjónarmið Gunnars Helga að Sjálfstæðisflokknum hafi „mistekist“ að taka á ESB-málinu á landsfundinum. Ef Gunnar Helgi hefði hlustað á umræður um málið á fundinum  (hann getur gert það enn. þær eru á netinu) hefði honum orðið ljóst að þeir sem töluðu þar um ESB-tillöguna með vísan til viðskipatlífsins voru sáttir við það sem samþykkt var með afgerandi meirihluta á landsfundinum.

Að segja þessa niðurstöðu „til málamynda“ er fráleitt. Um var að ræða málamiðlun milli ólíkra sjónarmiða. Fráleitt er að pólitísk málamiðlun í ágreiningsmálum sé jafnan„til málamynda“.

Gunnar Helgi sagði á visir.is að niðurstaða landsfundarins væri„augljóslega til málamynda“ af því að ekki hefði verið rannsakað „hvort það sé yfirhöfuð hægt að gera hlé á samningaviðræðum“ við ESB.

Sé prófessorinn að vísa til þess að þetta hafi ekki verið rannsakað gagnvart ESB fer hann með fleipur. Á sínum tíma eða fyrir um það bil 20 árum gerðu Svisslendingar hlé á viðræðum sínum við ESB og stendur það enn. Maltverjar gerðu einnig hlé á viðræðum sínum við ESB og stóð það í um það bil tvö ár. Til hlésins var stofnað vegna stjórnarskipta í landinu.

Eftir för mína til Brussel og Berlínar þar sem ég hitti embættismenn, stjórnarerindreka og stjórnmálamenn er ég sannfærður um að það skapar Íslendingum ekki hin minnstu vandræði í þeim borgum að gera hlé á ESB-viðræðunum. Þvert á móti mundi það þykja eðlilegt í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa innan ESB frá því að aðildarumsóknin var samþykkt á alþingi. Auk þess skilja menn ekki til fulls hvernig unnt er að vinna að aðild að Evrópusambandinu þegar aðeins einn stjórnmálaflokkur í umsóknarríkinu styður aðild og ríkisstjórn er þverklofin.

Að prófessor í stjórnmálafræði ráðist á samþykkt stjórnmálaflokks sem hann er ósammála og gefi til kynna að flokkurinn sé ótrúverðugur vegna þess að einhverjar rannsóknir skorti að baki ályktunar hans er furðulegt. Sú krafa er almennt ekki gerð til ályktana stjórnmálaflokka að stjórnmálafræðilegar rannsóknir búi að baki þeim. Þá kröfu má hins vegar til prófessora í stjórnmálafræði.

Á vefsíðunni Smugunni var þetta haft eftir Gunnari Helga um niðurstöðu landsfundarins: „Þetta er ákveðin harðlína, sem er tekin frekar en að leita sátta innan flokksins.“ Þegar þetta er lesið og borið saman við bréf landsfundarfulltrúans sem ég vitnaði til hér að framan er ástæða til að spyrja: Í hvaða stjórnmálaheimi lifir prófessorinn?

 

 

Hörmungar ríkisstjórnarinnar

Hinn 25. nóvember kynnti Ögmundur Jónasson niðurstöðu athugana sinna og embættismanna innanríkisráðuneytisins vegna óska kínverska auðmannsins Huangs Nubos um að kaupa Grímsstaði á Fjöllum. Niðurstaðan var skýr, ráðherrann hefði ekki heimild til að veita Huang undanþágu frá landslögum, hann gæti ekki keypt jörðina.

Þegar niðurstaðan lá fyrir upphófst reiðilestur frá Samfylkingunni í garð vinstri-grænna. Þeir séu óalandi og óferjandi en samt, já, en samt verði þeir að sitja áfram í ríkisstjórn! Jóhanna  Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði að Ögmundur hefði hvorki talað sig né lagt málið fyrir ríkisstjórn áður en hann kynnti niðurstöðu sína fyrir Huang Nubo. Má skilja Jóhönnu á þann veg að þessi skortur á samráði leiði til þess að hún beri enga ábyrgð á ákvörðun Ögmundar.

Hvað sem þessum orðum Jóhönnu líður liggja fyrir skjallegar heimildir um að Ögmundur hafi kynnt ríkisstjórninni sjónarmið sín í máli Huangs með minnisblaði 2. september 2011. Til þess er vitnað í minnisblaði um málið sem Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, lagði fyrir ríkisstjórn og er dags. 9. nóvember 2011.

Af langri reynslu af setu í ríkisstjórn tel ég einsýnt að þessi minnisblöð og annað sem um óskir Huangs hefur verið rætt hafi gefið forsætisráðherra nægt tilefni til afskipta af máli Huangs hafi ráðherrann séð ástæðu til þess. Þá hefur Jóhanna Sigurðardóttir látið eins og með hennar forsæti í ríkisstjórn hafi orðið til nýir stjórnarhættir með meira samráði en áður milli ráðherra.

Þrátt fyrir  þetta allt telur Jóhanna sér fært að ráðast á Ögmund Jónasson fyrir málsmeðferðina eftir að hann kynnti neitun sína gagnvart Huang 25. nóvember. Hafi hún ekki viljað að ákvörðun Ögmundar næði fram að ganga hefði henni verið í lófa lagið að fresta afgreiðslu málsins á ríkisstjórnarfundi 25. nóvember. Í því efni skiptir engu hvað Ögmundur hafði látið berast til Huangs. Þá gat Jóhanna einfaldlega sett Ögmund af vegna þessa máls.

Framkoma forsætisráðherra er dæmalaus og hefur vakið athygli utan landsteina að stjórnandi ríkisstjórnar lýsi sig ósammála ráðherra í stjórninni í máli sem þessu og láti þess jafnframt getið að við ákvörðun ráðherrans verði ekki hróflað. Aðför Jóhönnu að Ögmundi er ætlað að styrkja stöðu hennar gagnvart reiðum þingmönnum Samfylkingarinnar.

Til að skeyta skapi sínu á þeim sem hún veit að þingmönnum Samfylkingarinnar þykir jafnvel ömurlegri ráðherra en Ögmundur ákvað Jóhanna að ganga enn og aftur í skrokk á Jóni Bjarnasyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Nú vegna vinnu á hans vegum við endurskoðun á lögum um fiskveiðistjórnun.

Birt höfðu verði vinnuskjöl starfhóps á vegum Jóns Bjarnasonar. Skjölin voru samin í ljósi þess að alþingi hafnaði í september frumvarpi um breytingar á lögunum um fiskveiðistjórnun. Hafði frumvarpið meðal annars fengið þá einkunn að það mundi kollvarpa rekstri sjávarútvegsfyrirtækja, eigið fé sjávarútvegsfyrirtækja mundi lækka um 181 milljarð yrði frumvarpið að lögum. Er líklega einsdæmi að stjórnarfrumvarp hafi fengið jafnslæma útreið á alþingi og þetta frumvarp Jóns. Höfðu stjórnarflokkarnir þó samþykkt að það yrði lagt fyrir þing. Honum verður því ekki einum kennt um þann óskapnað.

Jón kynnti ríkisstjórninni þessi vinnuskjöl þriðjudaginn 22. nóvember. Hann segir í yfirlýsingu 27. nóvember að hann hafi tilkynnt ríkisstjórninni að hann hyggðist kynna almenningi þessi vinnuskjöl í anda opinnar stjórnsýslu og þess gagnsæis sem mælt sé fyrir um í yfirlýstri stefnu ríkisstjórnarinnar.

Föstudaginn 25. nóvember var ákveðið að fela Katrínu Jakobsdóttur menntamálaráðherra og Guðbjarti Hannessyni velferðarráðherra að fara yfir vinnuskjölin. Að stjórnarflokkar feli varformanni annars flokksins og ráðherra sem var formaður í „sáttanefnd“ um fiskveiðistjórn að líta á skjölin ber ekki með sér að um vantraust á ráðherra málaflokksins sé að ræða. Þetta hefði að sjálfsögðu aldrei verið gert nema með samþykki ráðherrans sem ber stjórnskipulega ábyrgð á málaflokknum, Jóns Bjarnasonar. Spunaliðum Samfylkingarinnar þótti nokkru skipta að setja þetta í annað ljós og í fréttum RÚV sunnudaginn 27. nóvember var fullyrt að málið hefði verið „tekið af“ Jóni Bjarnasyni. Það verður hins vegar ekki gert nema hann sé sviptur ráðherraembætti.

Jóhanna Sigurðardóttir sagði við fréttamann RÚV:

 „Þetta vinnuskjal eða drög að frumvarpi er alfarið á ábyrgð Jóns Bjarnasonar. Jón hefur haldið allri ríkisstjórninni og þingflokkunum utan við þessa vinnu þrátt fyrir ítrekaðar óskir okkar um að koma að þessu máli og hunsað aðkomu annarra úr stjórnarliðinu að þessu verki. Þetta eru auðvitað vinnubrögð sjávarútvegsráðherra sem eru algjörlega óásættanleg og ekki boðleg í samskiptum flokkanna.

Ríkisstjórninni var kynnt þetta vinnuskjal síðast liðinn þriðjudag í fyrsta sinn og þá höfðum við ekki komið að þessu máli í þrjá mánuði og ófáanlegur til að kynna okkur með einum eða öðrum hætti á hvaða leið hann er. Nú þegar hann kynnir loksins ríkisstjórninni þetta á þriðjudaginn sýnist mér að ráðherrann sé kominn ansi fjarri stefnu flokkanna í sjávarútvegsmálum og ljóst að þetta frumvarp óbreytt verður aldrei lagt fram sem stjórnarfrumvarp.“

Að forsætisráðherra tali svona um ráðherra í eigin ríkisstjórn afhjúpar slíkan trúnaðarbrest innan stjórnarinnar að með ólíkindum er að forsætisráðherrann biðjist ekki lausnar fyrir ráðherrann. Jóhanna getur ekki á annan hátt tekið fiskveiðistjórnunarmál af Jóni Bjarnasyni. Hið einkennilega er þó að þetta snýst ekki um ágreining um fiskveiðistjórnun, ráðherra sem leggur vinnuskjöl fyrir ríkisstjórn gerir það til að kalla á málefnalegar umræður. Jóhanna getur ekki staðið á því að Jón Bjarnason fari á bakvið sig og ríkisstjórnina. Árásin á Jón Bjarnason snýst um það að Jóhanna vill tala sig í álit innan eigin þingflokks.

Ég er sammála Einari K. Guðfinnssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, sem segir: „Viðbrögð forsætisráðherra við kvótafrumvarpi Jóns Bjarnasonar er hefnd og pólitísk gíslataka af hálfu Samfylkingarinnar. Þetta endurspeglar þau átök sem allir landsmenn hafa séð að eru á milli stjórnarflokkanna í stórum málum.“

Hvað gerir fréttastofa RÚV við þessar aðstæður? Hún hefur samband við Gunnar Helga Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, ráðgjafa Jóhönnu Sigurðardóttur. Hann heldur áfram spuna gegn Jóni Bjarnasyni og segir að í „öllu venjulegu samhengi myndi ráðherra segja af sér,“ í stöðu Jóns „eftir að forræði yfir endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða var tekin af honum“.

Það velti á Jóni sjálfum hvað verði um hann. Hann væri „augljóslega í svolitlum vanda“ af því að hann hefði verið sviptur „forræði yfir endurskoðun á stjórn fiskveiða“ og þar með „hafi verið lýst miklu vantrausti á störf hans og málatilbúnað“.

Með þessum orðum gengur Gunnar Helgi mun lengra í túlkun sinni en ráða hefur mátt af fréttum. Hann gengur erinda þeirra innan Samfylkingarinnar sem vilja losna við Jón Bjarnason. Þá sagði á ruv.is 27. nóvember:

„Eitt af því sem kann að ráða því hvað gerist næst eru viðbrögð Jóns. „Er hann tilbúinn að fella ríkisstjórn? Það er í raun eitthvað sem enginn getur svarað nema hann sjálfur.“ Gunnar Helgi gerir þó ekki ráð fyrir að forsætisráðherra víki Jóni úr ríkisstjórn. „Miðað við það að forsætisráðherra er ekki búinn að gera það, er ekki líklegt að hann geri það nema Jón þverskallist við,“ til dæmis með því að krefjast yfirráða yfir málinu eða neiti að fylgja stefnu stjórnar í öðrum málum.

„Það sem við erum að sjá eru víbrur frá veikum undirstöðum,“ segir Gunnar Helgi um deilur stjórnarflokkanna síðustu daga um stjórn fiskveiða, kolefnisskatt og jarðakaup Huangs Nubos. Þó samstarf flokkanna hafi um sumt gengið vel sé staðan sú að ríkisstjórnin hafi aðeins eins atkvæðis meirihluta á Alþingi. Þetta hafi vissir ráðherrar getað notað til að móta sína eigin stefnu.“

Þessi orð Gunnars Helga um ríkisstjórnina og ábyrgð Jóns Bjarnasonar eru flutt til að skapa skjól fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur. Að sjálfsögðu ber hún ábyrgð á ríkisstjórninni en ekki Jón Bjarnason, hann ber hins vegar stjórnskipulega ábyrgð á sjávarútvegsmálum og þarf ekki að „þverkallast við“ til að eiga síðasta orðið um þau mál í ríkisstjórninni

Ríkisstjórnin situr af því að það er ekkert að marka orð forsætisráðherrans eða reiðiköst. Jóhanna heldur áfram að láta eins og hún beri ekki ábyrgð á gjörðum ráðherra í ríkisstjórn sinni eins lengi og þingflokkur Samfylkingarinnar veitir henni umboð til að sitja. Þingmenn Samfylkingarinnar hafa líf stjórnarinnar í hendi sér. Vinstri-grænir vita að þeir geta gert það sem þeim sýnist í stjórninni á meðan þeir hrófla ekki við ESB-aðildarviðræðunum, hinni heilögu kú Samfylkingarinnar. Að ríkisstjórn lifi á Íslandi af því að rætt er um aðild að ESB sem er í upplausn og þjóðin vill ekki sýnir best í hvílíkar ógöngur mál hafa ratað undir forystu Jóhönnu og Steingríms J.