10.11.2011

Leiðin inn á evru-svæðið er um Seðlabanka Evrópu

Frankfurt IISeðlabanki Evrópu (SE), á ensku European Central Bank (ECB), hefur aðsetur í 36 hæða byggingu í hjarta Frankfurt. Þótt húsið sé stórt rúmar það ekki alla starfsemi bankans. Hann starfar auk þess í tveimur stórhýsum í borginni. Nú er hins vegar unnið að því að reisa eina risabyggingu til að hýsa bankann og sést móta fyrir tveimur nýjum turnum í austurhluta borgarinnar verður annar 45 hæða en hinn 43 hæða. Þeir munu því setja framtíðarsvip á Frankfurt þar sem bönkum þykir skipta máli að reisa sem hæst hús. Hinn 300 m hái Commerzbank turn í Frankfurt var hæsta bygging í Evrópu frá 1997 til 2009 þegar Rússar reistu 302 m háan skýjakljúf í Moskvu.

Þegar komið er að aðalbyggingu SE um þessar mundir má sjá tjaldbúðir í litlum garði fyrir framan bankann í kringum risastórt blátt evru-merki umlukið gylltum stjörnum. Fyrir klukkan 10.00 að fimmtudagsmorgni var ekkert lífsmark í tjaldborginni, þó sá ég einn mann skríða út undir bert loft. Þarna hanga borðar með slagorðum gegn fjármálakerfinu. Mótmælendur hafa búið í tjöldunum sem voru heldur óhrjáleg í morgunnepjunni í nokkrar vikur. Litið er á þá sem samherja mótmælenda í Wall Street á Manhattan við St. Páls-kirkjuna í London, í Madrid, Aþenu og annars staðar.

Tveir öryggisverðir voru á vappi við aðaldyr bankans. Þær snúa ekki að tjaldbúðagarðinum heldur að Kaiserstrasse. Þegar inn er komið er öryggisgæsla og skriffinnska við að fá fund með fulltrúum bankans minni en þegar farið er til fundar við þingmenn á ESB-þinginu í Brussel. Bankinn býr við tölvuvætt innritunarkerfi á gestum en í Brussel þurfa gestgjafar sjálfir að fylla út eyðublöð með penna og afgreiðslufólk notar tölvur aðeins til að finna símanúmer þingmanna en ljósritar síðu í vegaréfi til að eiga eitthvað til sönnunar um gestinn. Þegar farið er á fund við þingmenn í Berlín er öryggisgæsla einnig meiri en í SE í Frankfurt. Í Berlín taka verðir af gesti vegabréfið og geyma það hjá sér á meðan rætt er við þingmanninn. Í Berlín og Brussel er farið í gegnum sambærilega öryggisleit og tíðkast á flugvöllum. Strangast er eftirlitið þegar farið er í höfuðstöðvar NATO í Brussel, því að þá er síminn tekinn af gestum við ysta öryggishlið, út við hraðbrautina, til að útiloka að nota megi hann til að taka myndir inni í höfuðstöðvunum. Verðir NATO eru einnig gefnari fyrir að sýna vald sitt en annars staðar þar sem ég hef verið í þessari ferð minni.

Ég læt þessa getið hér því að hvergi annars staðar en við SE-bankahúsið í Frankfurt hef ég orðið var við mótmælendur á ferð minni. Í bankanum telja menn ekki að undirrót þess vanda sem fólk mótmælir sé að finna í evrunni. Bankinn situr hins vegar uppi með að vera sýnilegt tákn evrunnar og samnefnari bankastarfsemi í Evrópu. Kenning sumra er að stjórnmálamenn hafi treyst um of á bankann við lausn efnahagsmála á evru-svæðinu í áranna rás og sitji nú uppi með vandamál sem séu pólitísk eðlis vegna skorts á aðgæslu eða ofurtrúar á mátt bankans. Hann hafi aldrei getað komið í stað skynsamlegra ákvarðana um ríkisfjármál, þau hafi verið og séu á verksviði stjórnmálamanna.

Seðlabanki Evrópu er ein af meginstofnunum Evrópusambandsins við hlið framkvæmdastjórnarinnar, ráðherraráðsins, ESB-þingsins og ESB-dómstólsins. Stjórn bankans er í höndum sex manna bankastjórnar og hinn 1. nóvember tók þriðji forseti hennar við embætti Mario Draghi frá Ítalíu, ber hann titilinn seðlabankastjóri Evrópu í fréttum af bankanum. Tvisvar í mánuði koma seðlabankastjórar evru-ríkjanna 17 saman til fundar í höfuðstöðvum hans. Þeir koma að mótun peningastefnu hans. Eitt fyrsta verk hins nýja seðlabankastjóra var að kynna lækkun á stýrivöxtum hans sem vakti undrun í Berlín þar sem menn óttast að bankinn fylgi ekki hinni ströngu aðhaldsstefnu sem hefur verið einkenni þýska seðlabankans, Bundesbank, frá stríðslokum.

Í Berlín sögðust opinberir embættismenn aldrei segja skoðun sína á ákvörðunum SE. Í Frankfurt segja starfsmenn SE aldrei skoðun sína á gjörðum stjórnmálamanna.

Seðlabanki Evrópu hefur síðan 1, janúar borið ábyrgð á peningastefnunni á evru-svæðinu. Evru-svæðið kom til sögunnar þegar ábyrgð á mótun peningastefnu var flutt frá seðlabönkum 11 ESB-ríkja til SE í janúar 1991. Grikkland varð aðili 2001, Slóvenía 2007, Kýpur og Malta 2008, Slóvakía 2009 og Eistland 2011. Bretar og Danir eru einu ESB-þjóðirnar sem ekki eru skuldbundnar til að taka upp evru. Öllum öðrum ríkjum ESB, það er 8 ríkjum, ber að taka upp evru þegar Seðlabanki Evrópu telur að þau uppfylli skilyrði til þess og bankinn ásamt framkvæmdastjórn ESB leggur til við ráðherraráð ESB að ríki verði samþykkt sem evru-ríki.

Svíar hafa skuldbundið sig til að taka upp evru. Tillaga um það var felld í þjóðaratkvæðagreiðslu í Svíþjóð í september 2003 þegar 56% þeirra sögðu nei en 42%, kosningaþátttaka var 81%. Svíar hafa engan áhuga á að fara inn á evru-svæðið. Eitt aðildarskilyrða að svæðinu er að viðkomandi ríkisstjórn ákveði að gerast aðili að gengissamstarfinu ERM II. Svíar hafa komist upp með það gagnvart Seðlabanka Evrópu að neita að ganga inn í ERM II. Ekki er litið á það sem fordæmi við ný aðildarríki að ESB. Þau verða að ganga inn í ERM II fyrr en síðar. Meginreglan er þó sú að ríki á val um tímasetningu.

The Exchange Rate Mechanism (ERM II), gengissamstarf kom til sögunnar 1. janúar 1999 sem arftaki ERM til að tryggja að sveiflur í gengi milli evru og gjaldmiðla annarra ESB-ríkja röskuðu ekki efnahagslegu jafnvægi á innri markaði ESB og til að auðvelda ekki-evru-ríkjum að búa sig undir aðild að evru-svæðinu. Án aðildar að ERM II komast ríki ekki inn á evru-svæðið. Taki ríkisstjórnir ekki ákvörðun um að fara inn í ERM II fullnægja þær ekki evru-skilyrðum. Eins og áður sagði hafa Svíar ákveðið að standa utan við ERM II. Ríki utan ESB eru ekki gjaldgeng í ERM II.

Ákvörðun um að standa utan við ERM II er eina sjálfstæða ákvörðunin sem ESB ríki utan evru-svæðisins geta tekið til að útiloka að Seðlabanki Evrópu telji þau hæf til að taka upp evru eins og þeim ber að gera samkvæmt aðildarskilmálum. Af þeim tólf ríkjum sem gengið hafa í ESB frá árinu 2004 hafa Pólland, Tékkland, Ungverjaland og Búlgaría auk Rúmeníu ekki gengið í ERM Hvert væntanlegt evru-ríki skal hafa tekið þátt í gengissamstarfinu undir merkjum ERM II án vandræða í tvö ár áður en það er gjaldgengt á evru svæðið.

Á vefsíðu SE er að finna ítarlegar upplýsingar um hann og hvernig bankinn kemur að málum meðal annars varðandi stækkun evru-svæðisins. Þá er það hlutverk bankans að leggja mat á efnahagslega stöðu viðkomandi ríkja og segja álit sitt á því hvort þau fullnægi evru-aðildarskilyrðum. Ríki geta orðið aðilar að ESB án þess að fullnægja þessum skilyrðum, í aðildinni felst hins vegar að ríkin skuldbinda sig til þess að laga sig að skilyrðunum, þar á meðal með því að taka þátt í ERM II. SE hefur einnig auga með ríkjum sem hafa verið formlega viðurkennd sem opinber umsóknarríki af ESB. Þannig eru regluleg samskipti við Seðlabanka Íslands af hálfu SE og fulltrúi bankans sat til dæmis nýlega ráðstefnu í Hörpu þar sem gerð var grein fyrir samstarfi Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Á vefsíðu bankans er Íslands þó ekki getið þegar rætt er um formleg umsóknarríki. Þar stendur aðeins: „Croatia, the Former Yugoslav Republic of Macedonia and Turkey are official candidates for accession to the EU.“

Líklega á ekki að leggja aðra merkingu í þögnina um Ísland á þessari síðu en að þess sé ekki gætt að uppfæra hana reglulega. Ástæðulaust er að álykta að ábyrgðarmenn síðunnar í bankanum telji óþarft að nefna Ísland í hópi „official candidates for accession to the EU“ – opinberra umsóknarríkja um aðild að ESB – vegna þess að þeir áliti að aldrei komi til aðildar.