9.11.2011

Fræðsla um ESB á að tryggja stuðning Íslendinga

Frankfurt I


Ríkisstjórn Íslands taldi nauðsynlegt að auka þekkingu Íslendinga á Evrópusambandinu. Hún sneri sér til stækkunardeildar Evrópusambandsins með tilmæli um að þetta yrði gert. Stækkunardeildin samþykkti að verða við tilmælunum og ákvað að verja 1,4 milljónum evra (nú um 220 m. ISK) á tveimur árum til þessa verkefnis. Var kynningarstarfið sett í útboð. Í ágúst 2011 var kynnt að tilboði Media Consulta í Berlín hefði verið tekið og á Íslandi yrði Athygli almannatengsl framkvæmdaraðili. Innan tíðar verður kynningarskrifstofa ESB opnuð í hjarta Reykjavíkur undir þessum formerkjum.

Þegar ég hafði á orði í Berlín að einhverjir á Íslandi teldu að með því að stofna til kynningarstarfs af þessu tagi bryti Evrópusambandið gegn íslenskum lögum var mér snarlega bent á að þetta væri gert að tilmælum ríkisstjórnar Íslands. Hún hefði snúið sér til ESB og farið þess á leit við framkvæmdastjórnina að hún tæki að sér að fræða Íslendinga um ESB. Vissu íslensk stjórnvöld ekki hvað væri heimilt eða óheimilt í þessu tilliti væri það vandamál annarra en þeirra sem hefðu tekið að sér að framkvæma verkefnið á grundvelli útboðs í krafti samnings milli ríkisstjórnarinnar og ESB.

Í kynningarefni Media Consulta (MC) kemur fram að fyrirtækið er í fremstu röð almannatengsla- og auglýsingafyrirtækja í Evópu og hefur markaðsforystu í þjónustu fyrir fyrirtæki, stofnanir og aðila sem starfa á sviði stjórnmála. Á heimsvísu er fyrirtækið 14 röðinni af 50 sambærilegum fyrirtækjum.

Í Þýskalandi og Evrópu er vöxtur MC eitt þeirra almannaskiptafyrirtækja sem vaxið hafa hraðast á undanförnum árum. Fyrirtækið var stofnað í Köln í Þýskalandi árið 1993 en hefur nú höfuðstöðvar í Berlín. Það hefur starfstengsl í öllum 27 aðildarríkjum ESB og í öllum mikilvægum fjármálamiðstöðvum heims.

MC hefur starfað mikið fyrir Evrópusambandið. Fyrirtækið hefur tekið að sér að kynna umsóknarlönd eða ný aðildarlönd innan Evrópusambandsins. Til að vinna því fylgi að nýjar þjóðir bætist í hóp þeirra sem eru fyrir innan ESB hefur verið talið nauðsynlegt að styrkja ímynd þessara nýju þjóða gagnvart þeim sem fyrir eru. MC hefur unnið að slíku kynningarstarfi meðal annars fyrir Króatíu sem er síðasta ríkið sem lokið hefur gerð aðildarsamnings við ESB.

Að því er Ísland varðar er ekki talið nauðsynlegt að efna til sérstakrar kynningar á landi og þjóð gagnvart aðildarþjóðum ESB. Ímynd Íslands er talin skýr í huga þeirra sem á annað borð hafa áhuga á að kynna sér aðrar eða framandi þjóðir. Þótt hún hafi vissulega skaðast í bankakreppunni og enn séu margir sem telji að Ísland hafi orðið gjaldþrota hafa hvorki íslensk stjórnvöld né ESB séð ástæðu til að ráða almannatengla til að bæta ímynd Íslands meðal íbúa ESB-þjóðanna.

Í stað kynningarherferðar á Íslandi út á við fór ríkisstjórn Íslands þess á leit við ESB að fjármagna kynningu á sambandinu inn á við, það er gagnvart Íslendingum sjálfum. Það er stækkunardeild ESB sem stendur að þessari kynningu en jafnan þegar skýrt er frá eðli hennar og efni út á við er lögð höfuðáhersla á að ekki sé um áróður fyrir aðild Íslands að ESB að ræða.

Þegar sagt var frá því í ágúst 2011 að samið hefði verið við MC og Athygli um kynningarverkefnið sagði 12. ágúst á vefsíðu Já Ísland, samtakanna sem berjast fyrir ESB-aðild Íslands:

„Skrifstofunni [sem MC og Athygli munu opna] er meðal annars [ætlað] að bæta og auka þekkingu og skilning Íslendinga á Evrópusambandinu og hvað felst í umsóknarferlinu. Þá verður einnig eitt af verkefnunum að kynna hver gætu orðið áhrifin á Ísland við inngöngu.

Ætla má að skrifstofan hafi höfuðstöðvar sínar í Reykjavík en verði með útibúi eða starfsemi á fleiri stöðum.

Það er vonum seinna og þess vegna fagnaðarefni að upplýsingaskrifstofa ESB taki til starfa. Upplýsingar og gott aðgengi að þeim er grundvöllur upplýstrar umræðu og forsenda yfirvegaðrar ákvörðunar.“

Þarna fer ekkert á milli mála. Fylgismenn ESB-aðildar telja að starfsemi skrifstofunnar muni þjóna málstað þeirra. Ef marka má ræður Ŝtefans Füles, stækkunarstjóra ESB, er hann sama sinnis og Já Ísland. Hann hefur margoft sagt að með kynningarstarfi á Íslandi muni takast að færa Íslendingum heim sanninn um Evrópusambandið. Stækkunarstjóri ESB talar ekki á þennan veg um 1,4 milljón evra fjárveitingu af sjóðum deildar sinnar innan framkvæmdastjórnarinnar nema af því að hann vill að peningarnir skili þeim árangri að Evrópusambandið stækki með aðild Íslands.

Almannatenglar taka að sér að vinna almenning á band þess sem þeir starfa fyrir. Þegar lesið er efni frá Media Consulta er augljóst að eigendur og stjórnendur fyrirtækisins telja að því og starfsmönnum þess verði einstaklega vel ágengt í störfum sínum og skili kaupendum þjónustunnar miklu fyrir það fé sem þeir láta af hendi.

Í mínum eyrum er ekki sannfærandi þegar látið er eins og skrifstofa ESB á Íslandi sem komið er á fót sem lið í umsóknarferli Íslands að ósk ríkisstjórnar Íslands til að fræða Íslendinga um ágæti ESB sé hlutlaus þátttakandi í því ferli sem um er að ræða. Eðli málsins samkvæmt er því ekki þannig háttað. Þar með er ekki sagt að farið verði með rangt mál í áróðursskyni á vegum MC eða Athygli á Íslandi.

Nýlega opnaði ESB-þingið mikla upplýsingaskrifstofu í Brussel sem heitir Parlamentarium. Var hún auglýst um alla borg og sagt að þar mætti kynnast ESB-þinginu á einstakan hátt með aðstoð nýjustu tækni. Sýningin verður örugglega ekki til að auka áhuga neins á að taka þátt í kosningum til ESB-þingsins.

Í sömu byggingu og íslenska sendiráðið gagnvart ESB hefur aðsetur, skammt frá Berlyamont-byggingunni, sem hýsir framkvæmdastjórn ESB, hefur verið komið á fót upplýsingamiðstöð um ESB, framkvæmdastjórnina og ráðherraráðið.

Þegar ég kíkti lítillega á þessar sýningar í Brussel á dögunum þótti mér sem þeim hefði verið komið á fót í friðþægingarskyni fyrir þá sem sitja í forystu ESB-þingsins eða annarra stofnana ESB. Þeir eru fullvissir um að áhugaleysi á ESB-þinginu eða þekkingarleysi á stofnunum ESB stafi af því að almenningur hafi ekki nægan aðgang að upplýsingum. Leiðin til að bæta úr því sé að opna stofur með bæklingum á mörgum tungumálum eða nýta upplýsingatæknina til að miðla þekkingu á mynd- og hljóðrænan hátt.

Að baki því að opnuð verði upplýsingaskrifstofa á vegum ESB býr öðrum þræði sú afstaða embættismanna ESB að þeir fríi sig ábyrgð á því að Íslendingar segi nei við aðild, þeir hafi lagt sitt af mörkum með skrifstofu til kynningar á ágæti ESB. Það sé ekki þeim að kenna að Íslendingar móttaki ekki boðskapinn.

Herman Van Rompuy, forseti leiðtogaráðs ESB, sagði eftir fund sinn með Jóhönnu Sigurðardóttur í Brussel þriðjudaginn 8. nóvember: „Meirihluti Íslendinga styður enn og aftur aðildarviðræðurnar. Öflugur stuðningur almennings skiptir sköpum fyrir stækkun ESB, bæði meðal umsóknarríkja og aðildarríkja.“

Þessi orð forsetans gefa tóninn fyrir markmið upplýsingaskrifstofunnar á Íslandi. Hún hefur umboð ef ekki fyrirmæli stækkunarstjórans og forseta leiðtogaráðsins um að snúa Íslendingum til fylgis við ESB-aðild.