7.11.2011

ESB-rökin fyrir aðild Íslands finnast ekki í Berlín - hvað um Reykjavík?

Berlín VI



Eftir að hafa í þrjár vikur setið fundi með stjórnmálamönnum, stjórnarerindrekum og embættismönnum í Brussel og Berlín og rætt um stöðu Evrópusambandsins, úrslausnarefnin á evru-svæðinu og aðildarumsókn Íslands eru sjónarmið ESB-aðildarsinna á Íslandi fjær því í mínum huga að samrýmast bláköldum staðreyndum en áður.

Hér þykir mönnum ekki mikið til þeirra raka koma að óhjákvæmilegt sé að leiða viðræður fulltrúa Íslands og ESB til lykta svo að kosið verði um niðurstöðuna. Hana geti menn í raun séð fyrir því að skilyrði ESB séu skýrt og ótvíræð. Alþingi Íslendinga hljóti að hafa gert sér grein fyrir þegar um var sótt. Í Þýskalandi fagna menn því að hins vegar skilyrt sé að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um málið að lokum. Aldrei hafi verið efnt til slíkrar atkvæðagreiðslu í Þýskalandi.

Ég sé að nokkuð er látið með grein sem Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur og álitsgjafi Fréttablaðsins, ritar í blaðið mánudaginn 7. nóvember þar sem hann veitist að Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Bjarna Benediktssyni, formannsframbjóðendum í Sjálfstæðisflokknum. Um þá skoðun að telja ekki skynsamlegt að halda áfram aðildarviðræðum við ESB segir Guðmundur Andri: „Það er auðvitað skiljanlegt sjónarmið hjá öfgamönnunum til hægri sem telja Evrópusambandið vera kommúnistasamsæri og vinstri sem líta á það sem auðvaldssamsæri.“

Ef ég hefi lagt þann kafla greinar Guðmundar Andra í þýskri þýðingu fyrir viðmælendur mína í Berlín í dag hefðu þeir örugglega talið að um grín og gaman væri að ræða en ekki fúlustu alvöru. Þegar Guðmundur Andri kallar þá „þvergirðinga“ sem eru andvígir ESB-aðild notar hann orð sem á erlendri tungu myndi notað um útlendingahatara og þjóðernissinna.

Allir sem kynna sér málatilbúnaðinn að baki umsókn Íslands að ESB átta sig á því að þar réðu tveir þættir úrslitum: Samfylkingin sneri upp á handlegg vinstri-grænna (VG) og sagði: Þið fáið ekki ráðherrasæti nema þið samþykkið aðildarumsókn! Í öðru lagi var evran nefnd til sögunnar, án hennar yrði íslenskt efnahagslíf í eilífri rúst.

Í orðum Guðmundar Andra er ekki að finna eina einustu röksemd fyrir því að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið. Síðast í dag spurðu menn úr Piratenpartei, Sjóræningjaflokknum sem fékk alla 15 frambjóðendur sína kjörna á sambandslandsþingið í Berlín fyrir skömmu: Hvaða rök sérðu fyrir því að Ísland gangi í ESB? Þegar ég sagðist ekki sjá nein kom í ljós að við vorum sammála.

Guðmundur Andri fellur í sömu gryfju og aðrir ESB-aðildarsinnar. Hann telur nauðsynlegt að halda áfram viðræðum af því að þjóðin vilji það. Með því að ýta Samfylkingunni til hliðar í þingkosningum yrði aðildarferlinu sjálfkrafa lokið. Þingkosningar kæmu í stað þjóðaratkvæðagreiðslu. Hver sá sem vill hvorki hafa yfir sér óvissu í aðildarmálum né Samfylkinguna getur slegið tvær flugur í þingkosningum.

Í dag hitti ég þingmann í Bundestag, þýska sambandsþinginu, sem sagði flokk sinn ekki hlynntan aðild Íslands að ESB. Flokkurinn segði það þó ekki opinberlega af því að hann vildi ekki fá á sig þann stimpil að sýna þeim dónaskap sem bankaði á dyr ESB. Gerði hann það kynni hann að sæta ákúrum fyrir að vera heimóttalegur eða jafnvel fjandsamlegur í garð útlendinga. Slíkt vildu menn að sjálfsögðu forðast.

Þingmaðurinn hefur líklega verið með í huga að verða ekki fyrir svipuðum svívirðingum og Guðmundur Andri dembir yfir andstæðinga sína.

Áróðursmennirnir fyrir viðræðum, viðræðnanna vegna með það að markmiði að einhvern tíma fáist niðurstaða sem leggja megi fyrir þjóðina geta ekki sagt hvenær pakkinn komi frá Brussel. Einmitt þess vegna láta Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson eins og Danir muni vinna stórvirki við að „opna“ kafla, stofna til viðræðna um fleiri mál milli Íslendinga og fulltrúa ESB, frá 1. janúar til 1. júlí 2012. Danir hafa hins vegar ekki gefið neitt loforð um að „opna“ alla kaflana. ESB-menn segjast ekki vilja ræða um sjávarútvegsmál fyrr en að ný ESB-stefna hafi verið mótuð, líklega á árinu 2013.

Hvernig væri að Guðmundur Andri kynnti lesendum sínum hvað hann vill bíða lengi eftir pakkanum frá Brussel? Telur hann þolinmæði þjóðarinnar í þessu sé takmarkalausa?

Vonbrigði ESB-aðildarsinna yfir því að ekki sé ágreiningur milli formannsframbjóðenda í Sjálfstæðisflokknum eru mikil. Forystumaður þeirra innan Sjálfstæðisflokksins sér meira að segja ástæðu til að taka fram að ekki séu allir andstæðingar ESB „asnar“. Umburðarlyndið er mikið fyrir skoðunum annarra.

Hvenær skyldu ESB-aðildarsinnarnir taka til við að ræða hvað mælir með því að Íslendingar stigi skrefið inn í ESB? Að þeir geri það ekki er skiljanlegt. Þeir vita ekkert hvernig ESB verður þegar viðræðum kann að ljúka. Þeir hafa tapað rökunum um evruna. Þeir eiga aðeins Samfylkinguna eftir. Telja þeir að hún hafi burði til að koma Íslandi inn í ESB?