4.11.2011

Snúist gegn „pólitískri rétthugsun“ um evruna í Berlín

Berlín V



Það er „pólitískt korrekt“ sem stjórnmálamenn, stjórnmálafræðingar, álitsgjafar eða aðrir skoðanamyndandi aðilar hafa komið sér saman um að eigi að gilda. Í því felst til dæmis að mæla gegn sögulegum hefðum eða jafnvel mannlegu eðli.

Í þýskum og frönskum stjórnmálum er „pólitískt korrekt“ að árétta í sífellu samstarf Frakka og Þjóðverja innan ESB og leggja áherslu á að þjóðirnar standi saman og leiði Evrópuverkefnið, sífellt meiri samruna Evrópuþjóðanna, undir merkjum ESB. Eins og áður hefur komið fram er því til dæmis haldið fram og litið á það sem óbreytanlega staðreynd af ráðandi öflum í stjórnmála- og fjármálalífi Þýskalands að Þjóðverjar og Frakkar standi heilshugar saman að öllum aðgerðum í nafni evrunnar.

Þrátt fyrir viðteknar yfirlýsingar um þetta gætir vaxandi efasemda meðal ýmissa í Þýskalandi um að það sé þýskum efnahag fyrir bestu að tengja hann við hinn franska. Viðhorf og saga þjóðanna gangi gegn því sem talið er „pólitískt korrekt“ í þessu efni. Meðal ýmissa Þjóðverja gætir til dæmis tortryggni í garð Seðlabanka Evrópu af því að þar verði þeir hvað eftir annað að lúta í lægra haldi við ákvarðanir sem teknar séu með 13 atkvæðum gegn fjórum (Þýskalands, Austurríkis, Hollands og Finnlands). Að baki þessum ákvörðunum standi Frakkar sem hafi „átt“ bankastjórann (Jean-Claude Trichet) undanfarin átta ár.

Það hafi síðan verið Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti og Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, sem hafi „plottað“ um að gera Ítalann Mario Draghi að eftirmanni Trichets. Hvorugur þessara manna hafi skilning á agareglum Þjóðverja í peningamálum né vilji fylgja þeim eins og best hafi komið fram í fyrstu ákvörðun Draghis 3. nóvember þegar hann lækkaði stýrivexti seðlabankans. Það hafi ekki verið í anda hins þýska aga heldur muni ýta undir verðbólgu.

Einn þeirra sem hefur risið gegn því sem er talið „pólitískt korrekt“ innan evru-samstarfsins og í Þýskalandi er Hans-Olaf Henkel (71 árs). Hann gaf fyrir rúmu ári út metsölubók Rettet unser Geld, Bjargið gjaldmiðli okkar. Þar mælir hann með því að Þjóðverjar segi sig úr evru-samstarfinu og myndi nýtt myntsamstarf með þjóðunum þremur sem standi þeim næst í peningamálum og fylgi sömu stefnu og þeir: Austurríkismönnum, Hollendingum og Finnum. Þeir segi með öðrum orðum skilið við Suður-Evrópulöndin og þar með Frakkland.

Þegar ég hitti hann að morgni föstudags 4. nóvember í skrifstofu hans í Friedrichstrasse, skammt frá Unter den Linden, í hjarta Berlínar bendir hann mér á nýjasta tölublað af vikublaðinu Die Zeit þar sem á þremur síðum er fjallað um óróann í þýskum stjórnmálum vegna þungrar undiröldu gegn stefnu hinna ráðandi afla í evru-málum. Hans-Olaf Henkel segir við mig: „Ef þið Íslendingar ætlið að fara inn í ESB gætið ykkar á evrunni. Hún er stórhættuleg.“ Þegar ég útskýri fyrir honum að evran hafi einmitt verið gulrótin haustið 2008 sem síðan knúði á um ESB-umsókn lætur hann í ljós skilning á því að menn hafi talið hana kannski veita eitthvert skjól þá, en sá tími sé löngu liðinn, það hljóti allir að sjá.

Hans-Olaf Enkel ítrekaði við mig sem hann hefur oft sagt opinberlega að hann sjái mest eftir því af öllu sem hann hafi gert á löngum ferli sínum í þýsku atvinnu- og fjármálalífi að hafa stutt og kynnt opinberlega í ræðu og riti upptöku evrunnar. Þetta séu mestu mistök sín. Hann hafi sem afsökun að hafa trúað því þá að þjóðir myndu virða Maastricht-sáttmálann. Þær hafi ekki gert það og þess vegna sé í raun óskiljanlegt með öllu að málsvarar evrunnar skuli nú tala eins og henni verði bjargað með einhverjum nýjum reglum. Það muni ekki gerast. Hvers vegna? Af því að kerfið sjálft, samstarfið allt, sé byggt á röngum forsendum. Það sé ekki unnt að samhæfa efnahags- og fjármálastarfsemi ríkja sem séu jafnólík og evru-ríkin. Hagsmunir ríkja í norðurhluta Evrópu og suðurhluta falli aldrei saman á þann veg að sameiginlegur gjaldmiðill þeirra verði lífvænlegur. Það sé borin von.

Þjóðverjar eigi að viðurkenna þetta. Þeir viti að Frakkar hafi búið við suðlægt efnahagskerfi og eigi samleið með suðlægum ríkjum. Það jafngildi hvorki uppbroti á ESB né hættu á stríði milli Frakka og Þjóðverja þótt þeir búi ekki við sömu mynt, allt tal um slíkt sé hluti af því sem sé tilbúningur, sagan kenni annað. Ólík mynt þjóða hafi aldrei leitt til ófriðar.

Vegna þessarar skoðunar sinnar er litið á Hans-Olaf Henkel sem um árabil var helsti forystumaður þýskra atvinnurekenda (BDI) og einnig forstjóri IBM í Þýskalandi sem einskonar byltingarsinna. Hann telur sig hins vegar eiga marga skoðanabræður og í Die Zeit er sagt frá niðurstöðu skoðanakönnunar fyrir stern sem sýnir að 54% Þjóðverja vilja þýska markið aftur, í austurhluta Þýskaland er þessi tala 67%. 18% í vesturhluta og 23% í austurhluta Þýskalands segjast mundu kjósa „D-mark flokk“ yrði hann í boði í kosningum, en þær verða næst í Þýskalandi 2013.

Eftir að hafa hitt Hans-Olaf Henkel og rætt við hann í klukkustund sé hann ekki fyrir mér sér byltingarmann þótt hann hafi skoðanir sem falla ekki að „pólitískri rétthugsun“ í þýskum stjórnmálum eða viðskiptalífi. Hann hefur hins vegar sannfæringu sem hann fylgir eftir. Hann sagðist hafa tekið þátt í mörgum umræðuþáttum í sjónvarpi. Á hinn bóginn væri sá ókostur við það að sér gæfist ekki kostur á að skýra sjónarmið sín nógu ítarlega vegna tímatakmarkana, það væri gjarnan blásið á þau af þeim sem fylgdu „pólitísku rétthugsuninni“ og hún ætti greiðari aðgang að almenningi en nýhugsun.

Til að bregðast við þessu sagðist hana hafa á eigin kostnað keypt sér þjónustu umboðsskrifstofu sem annaðist þjónustu fyrir listamenn, söngvara, hljóðfæraleikara og leikara. Með aðstoð hennar hefði hann skipulagt þrjá fundi Münster, Hamborg og sl. laugardag hér í Berlín, mátti sjá auglýsingar um fundinn víða um borgina. Hann sagðist tala í einn og hálfan tíma á fundunum og skýra mál sitt, það kostaði 22 evrur að sækja þá, 300 til 500 manns hefðu sótt þá og hlustað á sig fyrrverandi uppljómaðan evru-áhugamann flytja harða gagnrýni á evruna.

Hann sagði að ekki aðeins ráðandi öfl í stjórnmálum og viðskiptalífi fylgdu óbreyttri evru-stefnu heldur allir áhrifafjölmiðlar landsins. Sér hefði hins vegar tekist með fundunum þremur að draga athygli fjölmiðla að efnisatriðum í málflutningi sínum og það skilaði sér nú meðal annars í Die Zeit.

Hans-Olaf Henkel segist ekki ætla að beita sér fyrir því að nýr stjórnmálaflokkur komi til sögunnar, sjálfur hefur hann verið utan flokka en ætlar nú að taka höndum saman við menn innan flokks Frjálsra demókrata (FDP) sem vilja binda hendur flokksforystunnar í evru-málum í því skyni breyta þýskri evru-stefnu. Samkvæmt flokksreglum sé þetta hægt með söfnun undirskrifta. Takist þetta muni FDP breyta um stefnu. Takist þetta ekki muni hann velta fyrir sér öðrum pólitískum leiðum til að brjóta hina „pólitísku rétthugsun“ á bak aftur. Það sé óhjákvæmilegt til að bjarga fjárhag Þýskalands og Þjóðverja og meðal almennings vaxi skilningur á nauðsyn þess.

Hans-Olaf Henkel heldur sig við efnahagsleg rök í ræðum sínum og hvetur ekki til neinna pólitískra aðgerða. Die Zeit segir hins vegar að rökin hafi hljómgrunn og kæmi einhver þjóðþekktur til sögunnar og tæki undir þau með aðferðum hins æfða stjórnmálamanns mætti örugglega afla þeim mikils stuðnings meðal kjósenda.

Enginn vafi er á því að því meira sem Hans-Olaf Enkel verður ágengt því viðkvæmari verða stjórnmálamenn og forystumenn í viðskiptalífinu fyrir boðskap hans. Þetta heyrði ég á fundinum sem ég sat að morgni 3. nóvember. Þar minntist þingmaðurinn sem talaði á þá tillögu Henkels að skilja á milli Þjóðverja og Frakka í evru-samstarfinu eins og um fáránleika væri að ræða, þess vegna væri ekki unnt að skipta evru-svæðinu. Á sama veg talaði fundarstjórinn sem kom úr röðum fésýslumanna. Þeir hefðu ekki talað á þennan veg nema vegna þess að þeim stendur ekki á sama, þeir átta sig á að hin nýja rödd ábyrgs manns sem færir skýr rök fyrir máli sínu hefur áhrif.

Hans-Olaf Henkel sagði, Íslendingar, gætið ykkar á evrunni. Dæmið gengur ekki upp. Hann tekur ekki undir þá skoðun að skuldavandi á evru-svæðinu sé ekki evrunni að kenna, hún er sjálf undirrótin segir hann. Kerfið sjálft ber dauðan í sér.

Opinberir þýskir embættismenn fallast ekki á þetta. Þegar ég spyr þá hvort ekki sé rétt að franskir sósíalistar ætli ekki að leggja Nicolas Sarkozy lið við að breyta frönsku stjórnarskránni og setja þar „schuldenbremse“ eins og Þjóðverjar kalla „gullnu regluna“ það er bann við halla á ríkissjóði og skuldasöfnun umfram ákveðið mark, Frakkar geti því ekki staðið við það sem leiðtogar evru-ríkjanna hafa samþykkt að kröfu Þjóðverja, svara þeir: Jú, það er rétt sósíalistar hafa sagt að þeir ætli ekki að samþykkja tillögu Sarkozys um það – og leggja áherslu á orðin „tillögu Sarkozys“ – þeir hafa hins vegar ekki sagt að þeir séu á móti reglunni. Þeir munu samþykkja hana eftir forsetakosningarnar vorið 2012!

Því meira sem ég spyr um breytingarnar á ESB vegna aukins samstarfs evru-ríkjanna því betur skýrist hve mikil alvara er þar að baki af hálfu þýskra stjórnvalda og þau ætla ekki að láta ríki utan evru-svæðisins hindra sig. Öll ríki nema Bretar, Danir og Svíar, það er 24 af 27, hafi gengist undir að innleiða evru, þau ríki sem ekki hafi gert það verði að sætta sig við það sem evru-ríkin 17 ákveði og laga sig að þeim kröfum, hin verði að bíta í það súra epli að sitja ekki við evru-borðið, það sé þeirra ákvörðun og hana beri að virða en í henni felist ekki neinn réttur þessara ríkja til að leggja stein í götu annarra. Málið sé því ekki flókið.

Þegar komi að því að breyta sáttmála ESB hafi ríki mismunandi skoðanir, þær beri að virða, hins vegar geti evru-ríkin farið sínu fram og þau muni gera það. Til verði nýr kjarni innan ESB þar sem samstarf fjármálaráðherra og leiðtoga evru-ríkjanna verði ráðandi. Þetta sé óhjákvæmilegt.

Þegar spurt er hvort þetta flæki enn frekar stjórnkerfið í Brussel þar sem þrír takis nú á utan ESB-þingsins, ráðherraráðið, framkvæmdastjórnin og utanríkisþjónustuna. Er svarið jú, en við þetta verði einfaldlega ekki ráðið. Mál hafi vissulega þróast á annan veg að þessu leyti en menn hefðu vænst með Lissabon-sáttmálanum. Ef hann hefði verið samin með núverandi reynslu að baki hefði hann verið á annan veg.

Mjög hefur verið gagnrýnt hvernig utanríkisþjónusta ESB starfar undir forystu barónessu Ashton. Mér virðist sú gagnrýni hafa hljómgrunn í Berlín. Dæmið gangi ekki upp eins og að var stefnt. Það hafi ekki tekist að stilla saman strengi framkvæmdastjórnarinnar og einstakra ESB-ríkja á þann veg sem að var stefnt.

Hver er niðurstaða þessa Berlínardags? Að það yrðu mikil mistök fyrir Íslendinga að taka upp evru. Þar með færu þeir úr öskunni í eldinn. Að breytingarnar sem unnið er að innan ESB um þessar mundir séu þess eðlis að fráleitt sé að láta eins og mestu fyrir Íslendinga að hraða för sinni inn í ESB. Þetta er miklu frekar rétti tíminn til að hægja á, ígrunda mál og ræða þau í ljósi gjörbreyttra aðstæðna.