3.11.2011

Forysta og ábyrgð Þjóðverja í ESB

Berlín IVÍ morgun, 3. nóvember, sat ég fund í Berlín þar sem áhrifamikill stuðningsmaður ríkisstjórnar Angelu Merkel, ræddi stöðu mála í Evrópu í hópi fólks úr viðskiptalífi borgarinnar. Af ræðunni og fyrirspurnum dreg ég þá ályktun að þýskir stjórnmálamenn ræði Evrópumálin á annan hátt en þeir hafi gert áratugum saman, þeir verða að rökstyðja grundvallargildi ESB-samstarfsins fyrir áheyrendum sínum. Þeir taka þau ekki endilega sem sjálfsagðan hlut, sérstaklega ekki evru-samstarfið. Nú er minnt á að í raun sé miklu meira í húfi en að bjarga Grikklandi frá gjaldþroti, framtíð evrunnar sé samtvinnuð framtíð Evrópusambandsins.

Þar sem ræðumaðurinn er þingmaður varð honum tíðrætt um skyldur þýska þingsins vegna allra ákvarðana varðandi björgunarsjóð evrunnar, EFSF, í samræmi við fyrirmæli þýska stjórnlagadómstólsins. Ræðumaður sagðist síður en svo andvígur því að þingmenn ræddu málið og veittu umboð sitt, það væri í anda lýðræðis og þingræðis. Á hinn bóginn kynni að verða erfitt að átta sig á því hvernig ætti að draga mörkin varðandi aðild þingsins, hvað ætti að fara fyrir það í heild, hvað fyrir fjárlaganefnd þess og hvort ef til vill ætti að koma á fót sérstakri þingnefnd allra þingflokka – jafnvel með fulltrúa Linke, það er gömlu kommúnistanna sagði hann á þann hátt að augljóst var samvinna við þá heyrði til undantekninga – til að verða kanslaranum eða fjármálaráðherranum til ráðgjafar í umboði flokkanna um viðkvæm mál sem krefðust skjótrar umsagnar og óhjákvæmilegt væri að afgreiða í trúnaði. Sagði ræðumaður að færi mál fyrir fjárlaganefndina yrði að virkja 200 manns á einn eða annan hátt. Að slíkt yrði gert í trúnaði væri borin von.

Ræðumaður var svipaðar skoðunar og flokksbróðir hans Wolfgang Schäuble fjármálaráðherra sem segir við blaðið Die Welt í morgun að hann hafi skilning á stöðu George Papandreous í Grikklandi, hann búi við gífurlega andstöðu, innan eigin flokks, á þingi og meðal almennings. Það sé erfitt fyrir hinn almenna Grikkja að skilja að hann verði að axla allar þær byrðar sem á hann séu lagðar. Á hinn bóginn virðist lystisnekkjunum og glæsihúsunum ekki að fækka. Með því að ákveða þjóðaratkvæðagreiðslu taki forsætisráðherrann mikla persónulega áhættu. Þeir eigi virðingu skilið sem gangi þannig á hólm við sjálfan sig.

Ljóst er að óttinn er mikill við það sem kann að gerast á Ítalíu falli evran í Grikklandi ef þannig má orða það. Lítil trú sýnist á því að Silvino Berlusconi forsætisráðherra hafi afl til að ráða við ástandið heima fyrir.

Kjarnaatriði fyrir ESB er, að mati ræðumannsins frá því í morgun, eins og allra annarra fylgismanna ESB í Þýskalandi, að Þjóðverjar og Frakkar standi saman. Að ekki verði brestur í samstarfi þeirra. Ræðumaðurinn sagðist af þessum sökum algjörlega andvígur því að skipta evru-svæðinu milli norðurs og suðurs. Yrði það gert hlyti Frakkland að fylgja norðurhlutanum en efnahagsleg tengsl landsins við suðurhluta Evrópu væru á þann veg að skiptingin gengi aldrei upp fyrir Frakka, það mætti því alls ekki til hennar koma.

Þjóðverjar hamra á því að aðhalds- og agastefna þeirra í efnahagsmálum verði að ráða ferðinni innan Seðlabanka Evrópu. Það hafi verið grundvallaratriði við upptöku evrunnar og frá stefnunni megi ekki hörfa. Evru-svæðið sé þrátt fyrir allt einnig á sinn hátt betur sett vegna skuldavanda en Bandaríkin og Japan eða Bretland þar sem annað viðhorf ríki og stjórnvöld prenti peninga ef þau telja það nauðsynlegt.

Bandaríkjamenn hafi kynnst því á tíma Roosevelts með „New Deal“ að prentun peninga dygði til að koma þeim út úr kreppu. Þjóðverjar hefðu hins vegar kynnst því að prentun peninga leiddi til óðaverðbólgu og hörmunga í stjórnarháttum sem aldrei mættu endurtaka sig. Það yrði að hafa þennan grundvallarmun á reynslu þjóða í huga þegar rætt væri um leiðir í efnahagsmálum. Þjóðverjar yrðu að standa gegn því að Seðlabanki Evrópu tæki til við að prenta evrur við núverandi aðstæður. Það yrði aðeins til að gera illt verra.

Þingmaðurinn lagði áherslu á nauðsyn þess að taka upp skatt á fjármagnsfærslur. Hann hefði leitt hugann mikið að þessu úrræði og teldi það gagnlegt í mörgu tilliti ekki síst því að setja hömlur á fésýslumenn sem teldu sér allt leyfilegt til að hagnast. Undirrót vandans á evru-svæðinu væri fjárstreymi á lágum vöxtum til landa í Suður-Evrópu sem hefðu ekki haft neina burði til að standa undir endurgreiðslum af því að hagkeri þeirra og framleiðsla væri í raun svo veikburða, ætti þetta ekki síst við um Grikkland. Af hálfu fésýslumanna hefði verið tekin of mikil áhætta og nú væri glímt um hve miklu af henni ætti að velta á herðar almennings. Sagði þingmaðurinn að kynnti hann hugmyndir sínar um skatt á fjármagnsfærslur á opinberum, almennum fundum væri þeim jafnan tekið með dynjandi lófataki.

Ræðumaður sagði ljóst að innan Evrópusambandsins væri ekki einhugur um slíkan skatt. Bretar væru á móti honum og yrði ekki unnt að taka hann upp almennt innan ESB yrði að minnsta kosti að koma honum á innan evru-svæðisins.

Af ræðunni og fyrirspurnum mátti draga þá ályktun að menn hefðu almennt gert það upp við sig að næðist ekki samkomulag innan ESB um fjármagnsfærsluskatt bæri að stefna að honum innan evru-svæðisins meðal ríkjanna 17 þar og finna yrði leiðir til að hvor hópur ESB-ríkja um sig gætu lifað í sátt og samlyndi innan svæðisins.

Í umræðum um lýðræðisleg áhrif á töku ákvarðana innan evru-svæðisins og hlut þjóðþinga annars vegar og ESB-þingsins hins vegar setti þingmaðurinn fram þá skoðun að ekki yrði unnt að tryggja lýðræðislega stjórn í sameiginlegum málum varðandi evruna en með því að styrkja ESB-þingið á kostnað þjóðþinganna.

Þeirri spurningu var varpað fram hvort ESB ætti ekki að staldra við og gera hlé á stækkun sambandsins, hvort ekki hefði verið farið of hratt og án þess að vanda nóg til undirbúnings af hálfu nýrra ríkja. Þingamaðurinn tók undir þá skoðun og nefndi að Króatía væri að komast inn í ESB og gat hann síðan nokkurra ríkja sem sent hefðu fulltrúa sína til að reka áróður fyrir eigin aðild. Taldi þingmaðurinn af og frá að verja ætti kröftum í stækkun með því að verða við óskum þeirra eins málum væri háttað. Hann nefndi ekki Ísland á nafn í svari sínu vegna stækkunar ESB.

Sérfróðir menn um fjármál þýska ríkisins sögðu mér þegar ég spurði þá um þessa áherslu í málflutningi þýskra stjórnmálamanna á ólíka afstöðu þeirra og Bandaríkjamann að þetta væri ekki nýtt, hins vegar væri nýtt að Þjóðverjar töluðu um þetta á þennan hátt sem sýndi aukið sjálfstraust þeirra og einarða afstöðu í að gef ekkert eftir á þessu sviði. Ég spurði um ákvörðun ný seðlabankastjóra Evrópu í dag um að lækka stýrivexti bankans, hvort hún gengi ekki gegn þessari þýsku agastefnu. Þeir sögðu ákvörðunina haf komið á óvart. Seðlabankinn væri hins vegar sjálfstæður.

Stjórnlagadómstóll Þýskalands hefur mælt fyrir um lýðræðislegt aðhald að ákvörðunum stjórnvalda í þágu evrunnar. Eins og áður sagði hefur ekki verið unnið úr því hvernig farið verður að fyrirmælum dómstólsins í framkvæmd. Sé þetta flókið viðfangsefni er hitt enn flóknara að stilla saman strengi evru-ríkjanna og ekki-evru-ríkjanna innan ESB. Ekkert verður þar gert gegn vilja Þjóðverja og Frakka, hvað verður gert með vilja þeirra er enn óljóst. Af hálfu forystuþjóðarinnar, Þjóðverja, er einfaldlega bent á að aðild að ESB feli í sér að taka upp evru. Þess vegna sé ekki unnt að láta eins og að það komi ekki-enn-evru-ríkjum á óvart að ákvarðanir sem evru-ríkin 17 hafi áhrif á ESB-ríkin 27. Það liggi í hlutarins eðli að svo sé. Hitt sé síðan annað mál hvernig framkvæmdin verði í því efni verði meðal annars að huga að stofnanakerfi Evrópusambandsins sjálfs, stofnunum á grundvelli ESB-sáttmála og stofnunum sem verði til vegna meira og skipulegra samstarfs evru-ríkjanna.

Sá lærdómur verður dreginn af skuldakreppunni og vandræðum Grikkja að gera beri mjög strangar kröfur til þess að ný evru-ríki uppfylli öll stöðugleika-skilyrði evru-svæðisins áður en þau verði aðilar að því. Grikkir fengu að taka upp evru af því að þangað má rekja upphaf lýðræðis, slík rök duga ekki framar. Nú verður farið í saumana á öllu, stóru sem smáu. Þetta er boðskapur þeirra sem fylgja fram þýskri stefnu í ríkisfjármálum.

Ráðamenn í Þýskalandi eru sannfærðir um að evran lifi og evru-samstarfið. Um það er engin spurning. Grikkland og Ítalía eru sett í sérflokk. Þar sé ekki nægur metnaður hjá stjórnvöldum og þjóðunum til að takast á við vandann sem við blasir. Annað megi segja um Spán, Portúragal og Írland, þar hafi stjórnvöld sýnt aðdáunarverða viðleitni til að vinna bug á vandanum. Írar hafi til dæmis heitið sjálfum sér því að hafa sig sigrast á efnahagsvanda sínum árið 2016, á hundrað ára lýðveldisafmæli sínu. Litið er sömu augum til Íslendinga, þeir hafi tekið á sínum málum strax og kreppan varð og nú „útskrifast“ frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þetta sé virðingavert.

Þýskir embættismenn hafa sömu afstöðu og þýskir ráðherrar. Ísland er velkomið í ESB. Það verður örugglega unnt að komast að einhverju samkomulagi. Lýðræðislegt er að Íslendingar greiði atkvæði um það. Á bakvið þessi orð er hins vegar veruleiki sem segir öllum sem hann skoða að Íslendingar geta varla fundið verri tíma en þennan til að leita eftir samningi við ESB því að engin veit í raun hvernig það verður þegar út úr núverandi kreppu er komið, þetta er ekki aðeins skuldakreppa á evru-svæðinu heldur einnig kreppa sem snertir sjálfan kjarna samstarfsins sem kann að bresta takist Þjóðverjum og Frökkum ekki að standa saman um að leiða sambandið og evruna inn á lygnari sjó.