2.11.2011

Evru-vandinn breytir þýskum stjórnmálum - Sjóræningjaflokkurinn vísar til Íslands

Berlín III



Ég hélt áfram að fræðast um afstöðu Þjóðverja til ESB-umsóknar okkar Íslendinga. Minni ég enn á að Guido Westerwelle, utanríkisráðherra Þjóðverja, sagði við Össur Skarphéðinsson á bókamessunni í Frankfurt að þýska stjórnin fagnaði því yrðu Íslendingar aðilar að ESB. Viðmælandi minn í dag sagðist einnig mundu fagna aðild Íslands, hann væri sannfærður um gildi Evrópusambandsins. Hann minnti á að CDU, kristilegi flokkurinn, flokkur Angelu Merkel, væri Evrópuflokkurinn í Þýskalandi. Það væri inngróið í þýskt stjórnmálalíf að Þýskaland væri í ESB og hefði þar forystu, Þýskaland utan ESB væri í raun óhugsandi. Þess vegna væri erfitt fyrir Þjóðverja almennt að ímynda sér að einhverjir efuðust um gildi þess að eiga aðild að ESB.

Þýskur utanríkisráðherra gæti ekki sagt annað við íslenskan starfsbróður en að hann fagnaði því ef Ísland gengi í ESB. Hins vegar yrði að viðurkenna að það þyrfti í raun mjög sterk og sannfærandi rök fyrir því að þjóð ákvæði að sækja um aðild að ESB á núverandi umbrotatímum.

Viðmælandi minn sagði að í fyrsta sinn nú frá því að hann hefði tekið að fjalla um stjórnmál eða sinna starfi tengdum þeim efaðist hann um að Þjóðverjar stæðu heilshugar að baki ráðamönnum sínum þegar þeir áréttuðu nauðsyn og gildi Evrópusamstarfsins. Ástæðan væri í raun einföld: Almenningur óttaðist að aðildin væri að snerta budduna hans. Til að sanna forystu sína innan ESB og þó einkum innan evru-svæðisins yrðu þýskir skattgreiðendur að borga með sér.

Hver skoðanakönnunin eftir aðra sýnir að meirihluti þýskra kjósenda er á móti því að leggja meira fé af mörkum til að bjarga skuldugum evru-ríkjum. Engu að síður hefur mikill meirhluti þingmanna samþykkt björgunaraðgerðirnar enda leggja stjórnarandstöðuflokkarnir sósíaldemókratar (SPD) og græningjarnir þeim lið. Nú sýna skoðanakannanir að SPD og græningjar njóta meiri stuðnings (42%) en flokkur Merkel CDU/CSU (31%).

Fyrir rúmum mánuði sýndi könnun á vegum FOCUS að 37% þýskra kjósenda útilokaði ekki að styðja „evru-krítískan“ flokk og við það hafa vaknað spurningar um hvort um sé að ræða tómarúm í þýskum stjórnmálum sem einhver leitist við að fylla. Frjálsir demókratar (FDP) samstarfsmenn Merkel í ríkisstjórn, flokkur fésýslumanna og fyrirtækja, reyndu smágælur við ESB-gagnrýni í nýlegum kosningum hér í Berlín en fengu aðeins 1,8% fylgi, sem hroðalega útreið.

Guido Westerwelle var formaður FDP þar til fyrir skömmu þegar hann hrökklaðist frá forystu hans við litla sæmd. Hann þótti standa sig vel í umræðum um atvinnumál og efnahagsmál en hefur reynst gjörsamlega misheppnaður sem utanríkisráðherra. Hann hafi lítinn skilning á því hvernig utanríkisráðherra eigi að haga sér og fari oft fram úr sjálfum sér í ræðum, til dæmis við setningu bókamessunnar í Frankfurt. Þar hafi hann talað mjög ógætilega um breytingar á sáttmálum ESB.

Þrátt fyrir stöðugleika í þýskum efnahagsmálum og landið sé þungamiðjan í evru-samstarfinu undir forystu Angelu Merkel er stjórnmálaástandið undarlegt um þessar mundir í landinu. Allt getur gerst, sagði viðmælandi minn. Hefði hann rætt við mig fyrir tveimur árum hefði hann fullyrt að ekki yrði til flokkur í Þýskalandi á borð við Sjóræningjaflokkinn (Piratenpartei). Meginstefna flokksins snýst um að ekki megi setja reglur sem takmarki frelsi fólks á netinu eða í netheimi. Eins og sænski systurflokkur sinn höfðar Sjóræningjaflokkurinn til kjósenda af yngri kynslóðinni sem vilja fá að nýta upplýsingatæknina án opinberra afskipta. Nýleg könnun sýndi 10% stuðning við flokkinn.

Í kosningum til sambandslandsþings í Berlín hlaut flokkurinn 8% atkvæða. Hann lagði fram lista með 15 frambjóðendum og náðu þeir allir kjöri. Hin einskæra undrun frambjóðenda yfir árangri þeirra varð ekki til þess að minnka fylgi við flokkinn.

Undir lok október 2011 var rætt við Matthias Schrade, talsmann Sjóræningjaflokksins í efnahagsmálum, í fjármálablaðinu Handelsblatt. Þótti það eitt til marks um að taka bæri flokkinn af meiri alvöru en áður hefur verið gert. Schrade var spurður um kreppuna á evru-svæðinu og svaraði:

„Ég tel að ekki verði komist hjá því að stofna til kjarna-Evrópu með löndum eins og Þýskalandi, Austurríki, Frakklandi og Benelux með evruna sem gjaldmiðil. Við þörfnumst einsleitrar efnahagsheildar en ekki svæðis þar sem hver stefnir í sína átt. Þá yrðum við hluti af mun stöðugra myntsambandi en nú er. Önnur lönd gætu auðvitað slegist í hópinn svo framarlega sem þau hefðu gripið til umbóta og náð tökum á efnahagsmálum sínum.“

Þegar Schrade var spurður hvort Grikkir ættu að yfirgefa evru-svæðið svaraði hann: „ekki aðeins Grikkland“.

Sjóræningjaflokkurinn í Nordreihn-Westphalen hefur barist fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um björgunaraðgerðir í þágu evrunnar og lagt fram tillögur sem kenndar eru við Ísland um lausn á vanda evru-svæðisins frekar en að fara núverandi leið þar sem bönkum er haldið á floti með ríkisaðstoð.

Þegar rætt er við fulltrúa gamalgrónu flokkanna í Þýskalandi er ljóst að þeir átta sig alls ekki á því hvaða fyrirbrigði Sjóræningjaflokkurinn er, óljóst er hvort hann er til hægri eða vinstri, einnig er með öllu óskýrt hvernig staðið er að stefnumótun á vettvangi hans. Eitt er víst að innan stóru flokkanna CDU/CSU og SPD er litið á sjóræningjana sem alvöru-þátttakendur í stjórnmálalífinu. Stuðningur við flokkinn og hrun FDP sýni að ekki sé lengur sami stöðugleiki í stjórnmálum Þýskalands og áður.

Á sínum tíma var litið á græningja sem tímabundið fyrirbrigði í þýskum stjórnmálum. Það er ekki gert lengur. Þá er ekki heldur litið á þá sem vinstrisinna miklu frekar er talið að þeir séu að fylla tómarúmið eftir að fylgið hrynur af FDP, vel efnað og menntað fólk. Almennt eru græningjar taldir miklir Evrópusinnar þótt það kunni að breytast fari ESB-samstarfið að snerta budduna þeirra. Þeim sé að vísu sama þótt kjarnorkuverum sé lokað og það hækki útgjöld þeirra með hærra raforkuverði, þá muni minna um að borga það til bjarga framtíð mannkyns en leggja fé til óreiðuþjóða á evru-svæðinu.Meðal jafnaðarmanna spá menn því að græningjar færist til hægri eftir því sem meðalaldur flokksmanna hækkar.

Angela Merkel stefnir nú markvisst með CDU inn á miðjuna sem frekar hefur færst til vinstri í þýskum stjórnmálum. Nýjasta dæmið því til stuðnings er hugmynd hennar um lágmarkslaun sem mælist misjafnlega vel fyrir meðal stuðningsmanna flokksins. Þá er það talið sögulegt að Merkel skuli hafa beitt sér fyrir afnámi herskyldu. Hvaða áhrif öll þessi skref til vinstri hefur á kjarnafylgi CDU er óvíst. Flokkurinn kann að halda um 33% fylgi en tapa sérstöðu sinni með því að halda fram skýrri stefnu.

CSU, systurflokkur CDU í Bæjaralandi, er gagnrýnni á allar neyðaraðgerðir í þágu evrunnar en CDU. Hann er hins vegar flokkur íhlutunar af hálfu ríkisins þótt hann sé á margan hátt róttækari en CDU. Kosið verður til sambandslandsþings í Bæjaralandi á næsta ári og því er jafnvel spáð að það gerist sem lengi hefur verið talið óhugsandi að CSU tapi hreinum meirihluta í Bæjaralandi. Mestu um þær spár ræður að SPD á mjög vinsælan borgarstjóra nú í München sem kann að verða sigursæll í þingkosningunum.

Lengst til vinstri eru die Linke, vinstrisinnar, að uppistöðu gamlir kommúnista frá A-Þýsklandi sem þykja með ósamstarfshæfir vegna andstöðu við allt og alla, þar á meðal NATO og ESB. Minna þeir á vinstri-græna á Íslandi þótt vafasamt sé að þeir myndu nokkru sinni hafa fórnað stefnumálum sínum á þann hátt sem Steingrímur J. hefur gert fyrir fjármálaráðherrastólinn.

Þýsk stjórnmál einkennast ekki af sama stöðugleika og áður. Evrópuhugsjónin sem birtist í framkvæmd í Evrópusambandinu og evru-samstarfinu hefur verið þungamiðja alls þýsks stjórnmálalífs undanfarna áratugi. Þessi hugsjón er að verða léttvægari núna þegar flokkarnir leita leiða til að ná til kjósenda sinna. Það er alls ekki ólíklegt að fram komi flokkur sem gangi á svig við hugsjónina með því að krefjast róttækra breytinga á ESB með vísan til kreppunnar á evru-svæðinu.