1.11.2011

Ábyrgð Þjóðverja - framtíð ESB - aðildarumsókn Íslands

Berlín II


Frétt RÚV í hádegi 1. nóvember um að Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur, hafi sagt við Jóhönnu Sigurðardóttur að hún „fagni komu“ Íslands í Evrópusambandið hlýtur að byggjast á óskhyggju ef ekki beinum rangfærslum spunaliðanna sem koma fram fyrir hönd Jóhönnu gagnvart RÚV nema hvoru tveggja sé. Auðvitað kann Jóhanna einnig að hafa misskilið orð danska forsætisráðherrans.

Danir taka við forsæti í ESB 1. janúar 2012 og sitja þar til 1. júlí 2012. Þeir munu ekki skuldbinda sig fyrirfram til að „opna alla kaflana“ eins og það heitir á ESB-máli í viðræðunum við Íslendinga, það er taka til við að ræða öll álitamál sem þarf að ræða til að átta sig á því hvort samningar takist við Íslendinga eða ekki.

Ef marka má viðræður mínar í dag, þriðjudaginn 1. nóvember, í Berlín við stjórnmálamenn og embættismenn sjá þeir enga ástæðu til að flýta ESB-viðræðunum við Íslendinga. Þingmaður sem ég hitti sagðist raunar sannfærður um að Íslendingar yrðu ekki aðilar að ESB í fyrirsjáanlegri framtíð. Hann sagðist ekki heldur sjá neina ástæðu til þess fyrir Íslendinga að gerast aðilar. „Hvers vegna?“ spurði hann „þegar ESB kemur svo vel fram við ykkur, Norðmenn og Svisslendinga.“ Taldi hann þjóðirnar allar vel settar í núverandi stöðu sinni gagnvart ESB – helst hallaði á Svisslendinga vegna þess álags sem evru-vandinn setti á svissneska frankann og væri að sliga útflutning þeirra og ferðaþjónustu.

Þegar spurt er hvað hafi valdið því að Íslendingar ákváðu að sækja um aðild og evran er nefnd sem ástæða brosa menn vandræðalega því að við öllum blasir, að aðstæður eru gjörbreyttar nú frá haustinu 2008. Þau rök haldi ekki lengur. Ákvörðun George Papandreous, forsætisráðherra Grikkja, 31. október um þjóðaatkvæðagreiðslu um skilmálana gagnvart Grikklandi vegna evru-aðstoðar eykur enn á óvissu um framtíð evrunnar.

Minnt er á Angela Merkel Þýskalandskanslari hafi heitið því að Grikkir héldu evrunni og ekki yrði hróflað við þátttöku þeirra í samstarfinu. Kanslarinn hafi lagt mikið undir til að ná þeim árangri sem náðist á evru-leiðtogafundunum tveimur í Brussel í síðustu viku. Henni hafi tekist að ná sínum fram. Í ályktun leiðtoganna skuldbindi þeir sig til að setja í stjórnarskrár landa sinna sambærilegt ákvæði og er í þýsku stjórnarskránni um hemil á ríkisútgjöld og skuldasöfnun. Þetta sýni að áhersla Þjóðverja á aga í ríkisfjármálum hafi náð fram að ganga. Þá sé einnig skýrt tekið fram að Seðlabanki Evrópu eigi að njóta sama sjálfstæðis og Seðlabanki Þýskalands naut á sínum tíma, hann eigi að starfa án pólitískra afskipta og innan ákveðins ramma þar sem sett séu skýr markmið.

Þá hafi einnig verið ákveðið að framvegis muni leiðtogar evru-ríkjanna hittast tvisvar á ári, þá verði reglulega efnt til funda fjármálaráðherra ríkjanna og sérfræðinga. Þetta boði í raun þáttaskil af því að til þessa hafi aðeins verið efnt til ráðherrafunda um evru-mál þegar einhver sérstök viðfangsefni krefjist slíkra funda. Nú verði samstarfið í mun fastari skorðum en áður og komið verði á fót „sekretariati“ í Brussel til að sinna umsýslu í kringum samstarfið. Þegar spurt er hvort þetta leiði ekki í raun til þess að ESB sé orðið tvískipt. Er svarið: Hvað er annað unnt að gera? Þetta gekk ekki lengur eins og það var. Þau ríki sem eru ekki í evru-samstarfinu en innan ESB verða að sætta sig við þetta, vandinn er sá að sumar ákvarðanir í evru-hópnum hafa bindandi áhrif í ESB öllu og það verður að finna leiðir til að ríki sætti sig við það. Framtíðin ein geti leitt í ljós hver hin varanlegu áhrif verði.

Á slíkum umbyltingartímum sé ekki ástæða fjölga aðildarríkjum ESB. Króatía bíði aðildar, Rúmeníu og Búlgaríu hafi verið hleypt of fljótt inn í ESB og Schengen eins og nú hafi komið í ljós. Það þurfi ef til vill að líta til Serbíu til að skapa pólitískt jafnvægi í landinu, annars liggi ekkert á að stækka ESB.

Af viðræðunum dreg ég þá ályktun að ESB þurfi á öðru að halda núna en að fá smáríki eins og Ísland inn í sinn hóp, ríki sem sé raunar fyrir í kjörstöðu gagnvart sambandinu.

Brýnasta verkefni þeirra sem vilji veg ESB sem mestan sé að finna nýja „sögu“ eða „narrative“ fyrir sambandið. Það er nýja aðferð til að skýra fyrir aðildarþjóðunum hvers vegna þeim sé fyrir bestu að halda samstarfi sínu áfram. Vissulega sé rétt og nauðsynlegt að halda því á loft að Evrópusambandið hafi stuðlað að friði í Evrópu. Nú sé hins vegar svo komið að allir líti á frið milli Evrópuríkja sem sjálfsagðan hlut, ekki sé spenna milli neinna ríkja í álfunni. Friðarhugsjónin dugi ekki lengur til að „selja“ almenningi sambandið.

Hvað vegi þyngst í huga fólks? Afkoma þess, velferð og frelsi til orðs og æðis. Það þurfi að sýna fólki og sanna að Evrópusambandið standi fyrir auðlegð sem breytt sé í velferð og frelsi. Það eigi að þróast í krafti lýðræðis og að betra sé að skapa auð á þann hátt og dreifa honum um samfélag manna en undir stjórnafari eins og ríki í Kína, ESB sé andstæða slíkra stjórnarhátta. Galdurinn sé að koma þessu til skila á trúverðugan hátt. Evru-vandinn spilli þessari ímynd og valdi því ekki aðeins fjárhagslegum erfiðleikum heldur einnig hugmyndafræðilegum og pólitískum.

Þegar ég lýsi þeirri skoðun minni að það styrki Angelu Merkel að henni sé skylt að hafa skýrt umboð frá þýska þinginu vegna allra ákvarðana vegna evrunnar, er tekið undir þá skoðun. Það veiti henni meiri styrk en ella inn á við og út á við. Það hafi komið í ljós á leiðtogafundunum í síðustu viku. Betra væri að fleiri hefðu þurft að hafa slíkt umboð eins og til dæmis George Papandreou. Á hinn bógin er mér bent á að slípa þurfi þessi samskipti Merkel við þingið, lýðræði taki tíma en til þess kunni að koma að hjá björgunarsjóði evrunnar verði menn að taka ákvarðanir með skömmum fyrirvara.

Í gær setti ég innan gæsalappa almenna niðurstöðu sem ég dró af fundi mínum með fimm vísindamönnum, henni er ekki ætlað að lýsa skoðun neins þeirra, heldur er samnefnari þess sem ég taldi mig verða vísari á fundinum með þeim, að í raun væru engin sérgreind og skýr rök fyrir aðild Íslands að ESB. Að þessi niðurstaða eigi rétt á sér hefur enn staðfestst eftir fundi mína hér í Berlín í dag.

Með það í huga er óskiljanlegt þegar íslenskir samfylkingarráðherrar koma af hverjum fundinum eftir öðrum og láta eins og viðmælendur þeirra bíði með öndina í hálsinum eftir því að Ísland gangi í Evrópusambandið. Málinu er alls ekki þannig háttað. ESB-viðræðurnar munu taka langan tíma. Innan ESB er enginn áhugi á að flýta þeim, vinveitt þjóð eins og Þjóðverjar mun ekki þrýsta á neinn til að flýta þeim. Hvern vilja íslensku ráðherrarnir blekkja með þessu tali? Þeir eru í ríkisstjórn sem er ekki einhuga um aðild, þeir halda þannig á málum gagnvart ESB að viðræðunum lýkur aldrei af því að þær krefjast aðlögunar. Ég hallast helst að því að þetta sé liður í sjálfsblekkingu Samfylkingarinnar. Það er dapurlegt leiðarljós..