26.10.2011

Hagsmunagæsla Íslands innan EES minnkar - heimavinnu skortir vegna ESB-viðræðna

Brussel VLíklegt er að milli 300 og 400 Íslendingar séu í Brussel, aðeins tveir þeirra starfa hjá Evrópusambandinu, annar síðan 1994, þegar Ísland gerðist aðili að evrópska efnahagssvæðinu (EES). Hinn starfar tímabundið, óbeint í umboði menntamálaráðuneytisins, og sinnir framkvæmd skóla- og rannsóknaráætlana. Tvær fastnefndir Íslands eru í borginni, hjá NATO annars vegar, gagnvart ESB hins vegar, hún annast einnig tvíhliða samskipti Íslands og Belgíu.

Íslendingar starfa í Brussel hjá stofnunum EFTA/EES, það er í EFTA-skrifstofunni sjálfri, hjá þróunarsjóði EES og Eftirlitsstofnun EFTA (ESA). Af þessum stofnunum er ESA þekktust á Íslandi en stofnunin hefur eftirlit með framkvæmd EES-samningsins og hefur komið að Icesave-málinu, sem er þar enn til meðferðar, og ýmsum öðrum málum sem skipta hagsmuni Íslands miklu.

EES sjóðnum er ætlað að stuðla að jafnvægi milli ríkra og fátækra ríkja innan Evrópusambandsins. Á árunum 2009-2014 veitir hann 988,5 milljónum evra til 15 ESB-ríkja (framlag Noregs er u.þ.b. 95% af fjárhæðinni). Þá hafa Norðmenn stofnað sérstakan þróunarsjóð sem þeir stjórna en er starfræktur í tengslum við EES-sjóðinn. Norski sjóðurinn veitir 800 miljónum evra til 12 ESB-ríkja.

Undanfarin misseri hefur fastanefnd Íslands gagnvart ESB dregist saman vegna sparnaðar, Tvíhliða tengslum við ESB á grundvelli EES-samningsins er sinnt verr en áður. Sérfræðingum ráðuneyta í Brussel hefur fækkað. Þetta leiðir til þess að eftirfylgni og hagsmunagæsla af Íslands hálfu minnkar. Skiptir þetta ekki síst máli í Schengen-málum þar sem EFTA kemur ekki nærri með sérfræðiaðstoð sína. Með því að halda ekki úti neinum embættismanni í Brussel til að gæta Schengen-hagsmuna er tekin stjórnsýsluleg áhætta auk þess sem þekking á málaflokknum innan íslenskrar stjórnsýslu minnkar.

Hreinir flokkspólitískir hagsmunir Samfylkingarinnar réðu því að ráðist var í það í fljótræði sumarið 2009 að sækja um aðild að ESB. Hvorki íslenska stjórnkerfið né íslenskir stjórnmálamenn voru undir aðildarviðræður búnir. Síðan hefur verið leitast við að breiða yfir hinna lélegu heimavinnu fyrir umsókn og ágreininginn innan ríkisstjórnarinnar um hvað í því fellst að sækja um með ýmsum brögðum. Smátt og smátt sjá menn í gegnum þessi leikbrögð en nú er svo komið að ESB og embættismannaveldi þess ræður ferðinni í aðildarviðræðunum.

Staðreynd er að íslenska stjórnkerfið megnar hvorki að gæta hagsmuna Íslands sem skyldi gagnvart ESB samkvæmt aðildinni að EES og Schengen og sinna jafnframt aðildarviðræðunum við ESB. Þetta stafar ekki af því að innan íslenskrar stjórnsýslu sé ekki hæft fólk til að sinna þessum málum, eins og Eiríkur Bergmann Einarsson, ESB-fræðingur á Bifröst, segir í nýlegri grein, heldur af því að vinnuálagið er svo mikið og kröfurnar þess eðlis að ekki er unnt með takmörkuðum manna og ónógum fjármunum að hafa þau tök á málum sem efni þeirra krefst hverju sinni.

Í Evrópunefnd sem sendi frá sér skýrslu í mars 2007 var það samdóma álit allra nefndarmanna, án tillits til afstöðu þeirra til ESB-aðildar, að kostir EES-samningsins hefðu ekki verið nýttir sem skyldi. Íslensk stjórnvöld hefðu ekki hagað hagsmunagæslu sinni á þann veg sem samningurinn heimilaði. Alþingi hefði ekki haldið uppi nægu eftirliti af sinni hálfu og stjórnmálaflokkar ekki nýtt þau tækifæri sem þeir hefðu til að huga að málefnum sem snertu Ísland sérstaklega. Það væri með öðrum orðum rangt að íslensk stjórnvöld gætu ekki beitt sér innan ESB ef þau vildu hafa áhrif á mótun reglna þar eða fengið samþykkta fyrirvara væru brýnir íslenskir hagsmunir í húfi.

Það lá í hlutarins eðli að utanríkisráðuneytið hugaði að framkvæmd tillagna nefndarinnar af því að ekki varð samstaða innan hennar um að skipa EES/ESB málum á sama hátt og Norðurlandamálum og setja þau undir sérstaka skrifstofu á vegum forsætisráðuneytisins.

Um vorið 2007 kom ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar til valda. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi formaður Samfylkingarinnar, varð utanríkisráðherra. Hún hafði engan áhuga á að vinna að framgangi mála innan ramma EES-samningsins, hugur hennar stefndi að ESB-aðild.

Í raun var ekkert gert með tillögurnar frá mars 2007. Sett var niður tvíhöfða Evrópunefnd undir formennsku Ágústs Ólafs Ágústssonar, varaformanns Samfylkingarinnar, og Illuga Gunnarssonar, nýkjörins þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Aldrei var að fullu ljóst hvað féllst í tillögum þeirrar nefndar enda ekki gott að átta sig á slíku þegar búið er til grátt svæði á milli aðildar og ekki-aðildar. Eitt er víst, hvorki var neitt gert til að auka hlut íslenska stjórnkerfisins í krafti EES-samningsins né styrkja eftirlitshlutverk alþingis.

Það hefur reynst mikil skammsýni að stórefla ekki hagsmunagæslu Íslands gagnvart ESB innan EES- og Schengen-samstarfsins og láta á það reyna í nokkur ár að minnsta kosti hverju yrði áorkað með því. Þá hefðu íslenskir stjórnmálamenn og embættismenn kynnst ESB betur og áttað sig á kostum þess og göllum. Þá hefði þeirri villu einnig verið eytt að Íslendingar hafi engin áhrif á lög og reglur ESB innan EES.

Þegar fylgst er með því hve mikla áherslu Norðmenn leggja á alla tvíhliða hagsmunagæslu af sinni hálfu gagnvart ESB innan EES-samstarfsins átta menn sig fljótt á því að tugir norskra starfsmanna innan ESB eru þar vegna þess að það þjónar hagsmunum Norðmanna þótt þeir séu ekki aðildar að ESB og ætli ekki að verða það í fyrirsjáanlegri framtíð.

Frá 2007 hefur hin sérkennilega þróun orðið að ESB-málefni setja meiri svip á stjórnmálaumræður á Íslandi en geta íslenskra stjórnkerfisins til að takast á við þessi málefni hefur stórminnkað. Eins og áður segir ræður ESB alfarið ferðinni í aðildarviðræðunum.

Jóhanna Sigurðardóttir lætur eins og hún fái einhverju um það ráðið að aðildarviðræðunum ljúki fyrir apríl 2013. Í Brussel brosa embættismenn góðlátlega þegar ártöl eru nefnd varðandi Ísland og segja: Stjórnmálamenn geta sagt sem þeir vilja til heimabrúks en önnur lögmál ráða hjá okkur. Við störfum í umboði 27 ríkja og förum eftir því sem þau segja.

Öllum kunnáttumönnum um ESB er ljóst að ríkin 27 hafa um annað að hugsa um þessar mundir en aðild Íslands, stjórnendur þeirra segjast ætla að bjarga Evrópusambandinu frá falli. Sir Mervyn King, seðlabankastjóri Bretlands, sagði 25. október að ráðstafanir núna til að bjarga evrunni og þar með ESB mundu duga í eitt í besta falli tvö ár. Það verður ekki samið um stækkun ESB á þeim tíma. Að nokkurri ríkisstjórn detti í hug að standa grátbiðjandi við aðildardyrnar á slíkum örlagatímum er með ólíkinum, sérstaklega þegar viðkomandi ríki hefur samning við ESB sem veitir því alla bestu kostina innan sambandsins en ver það fyrir ókostunum.

Þegar litið er á hlutverk stofnana EFTA í Brussel og EFTA-dómstólsins í Lúxemborg má fullyrða að þar túlka menn og úrskurða um málefni Íslands og annarra EES-ríkja af meiri skilningi en ef Ísland sæti innan ESB. Það er sérstakt rannsóknarefni að huga að þessum þætti aðilarmálsins.

Íslensk hagsmunagæsla er mun skilvirkari við núverandi aðstæður heldur en ef Ísland yrði aðili að ESB. Meiri líkur eru á skilningi á íslenskum sjónarmiðum í núverandi stofnanaumhverfi en innan ESB. Að íslensk stjórnvöld hafi ekki stuðlað að úttekt á þessu mikilvæga athugunarefni er aðeins til marks um lélega heimavinnu.

Eftir bankahrunið haustið 2008 vék öll vandvirkni í málatilbúnaði úr vegi þegar kom að umræðum um ESB-aðild. Þá hrópuðu menn: Krónan er bölvaldurinn, okkur verður ekki bjargað nema með evru! Þessi áróður var rekinn fram yfir kosningar 25. apríl 2009. (Hverjum dytti í hug að hann hefði áhrif núna?) Á síðustu dögum kosningabaráttunnar blandaði sendiherra ESB gagnvart Íslandi, sem þá var búsettur í Noregi, sér í baráttuna á einstaklega óviðfelldinn hátt en til stuðnings ESB-aðildarsinnum.

Hremmingarnar á evru-svæðinu valda því að ekki er eins mikið hamrað á evru-aðildinni eins og áður í ESB-umræðum á Íslandi. Hins vegar má segja það sama um þennan þátt ESB-málsins og allt annað: heimavinnuna skortir. Af hálfu íslenskra stjórnvalda hafa ekki verið lagðir fram neinir hlutlægir kostir í gjaldmiðilsmálum. Til eru margar leiðir til að skipta um gjaldmiðil. Það er hins vegar engin samstaða um það meðal hagfræðinga á Íslandi hvort eða hvenær eigi að gera það.

Hvers vegna gefa menn sér ekki tíma til að komast til botns í gjaldmiðilsmálinu? Af hverju leggur enginn áherslu á það sé kannað til hlítar og leitað sameiginlegrar niðurstöðu sem kynnt sé þjóðinni?

Hvernig sem á málið er litið ber umsókn um aðild Íslands öll merki fljótræðis. Þegar á reynir er síðan hvorki um að ræða næga burði til að takast á við málið í samræmi við mikilvægi þess auk þess sem ríkisstjórnin er klofin í málinu.

Við þessar aðstæður ber að gera hlé á viðræðunum við ESB. Það er til marks um ótrúlegt dómgreindarleysi og dregur aðeins úr áliti á hæfni íslenskra stjórnvalda að halda áfram eins og ekkert hafi í skorist. Það eitt veikir samningsstöðu Íslands og sýnir viðmælendunum frá ESB að bjóða megi íslensku viðræðunefndinni allt.