17.10.2011

Verður sjálfstætt Skotland í ESB eða EFTA, EES og Schengen?

Brussel III



Skoskir þjóðernissinnar hafa nú meirihluta á þingi lands síns og ætla á þessu kjörtímabili að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu og spyrja kjósendur hvort þeir vilji slíta alveg sambandinu við Englendinga eða ekki. Þeir munu velja þann tíma fyrir atkvæðagreiðsluna sem þeir telja líklegastan til að skila þeirri niðurstöðu sem þeir vilja, það er að slíta sambandinu við Englendinga.

Við þá ákvörðun að segja skilið við England vakna ýmsar viðkvæmar spurningar. Hvað verður til dæmis um sambandið við bresku krúnuna? Skoskir þjóðernissinnar hafa ekki tekið afstöðu til þess, krúnan verður hin sama fyrir England og Skotland áfram þar til annað er ákveðið. Meðal þjóðernissinna er ágreiningur um þetta efni, þeir telja einfaldlega að best sé fyrir þá að takast á við hann síðar, eftir að sjálfstæði er fengið.

Hvað um aðild að ESB? Skoskir þjóðernissinnar eru hlynntir aðild Skotlands að ESB, þeir telja að hún muni auðvelda þeim að slíta sambandinu við Englendinga. Það sé of stórt skref að slíta bæði sambandi við England og ESB samtímis. Það verði hins vegar að semja við ESB að nýju fyrir sjálfstætt Skotland, það verði gert innan aðildar að ESB.

Fyrir Skota hefur sjávarútvegsstefna ESB haft hörmulegar afleiðingar. Þeir eru hins vegar bundnir af henni samkvæmt samningum sem Bretar gerðu árið 1973 og nú eru taldir til marks um hroðaleg mistök við alþjóðlega samningsgerð. Í London hafi ráðamenn aldrei haft neinn skilning á gildi fiskveiða og hafi ekki enn. Sá ráðherra sem fari með sjávarútvegsmál í Bretlandi hafi lága stöðu innan bresku ríkisstjórnarinnar og vegi ekki þungt. Öðru máli gegni um skoska sjávarútvegsráðherrann, telja megi hann hinn fjórða í virðingarröð ráðherra. Á ráðherrafundum ESB hafi hann hins vegar ekki málfrelsi nema hinn breski leyfi og sitji í orðsins fyllstu merkingu í aftari sætaröðinni við fundarborðið.

Þegar rætt er við skoska þjóðernissinna um ESB-aðildarviðræður Íslands er augljóst að þeir gera sér vonir um að Íslendingum takist að hrófla við sjávarútvegsstefnu ESB á þann veg að það gefi Skotum fordæmi til að taka upp sín sjávarútvegsmál á vettvangi ESB við endurnýjun á aðild eftir sjálfstæði Skotlands. Þeir benda þó ekki á annað en sérlausnir á borð við bann við því að Þjóðverjar kaupi lóðir undir sumarhús í Danmörku.

Sameiginlega sjávarútvegsstefnan er á hinn bóginn innmúruð í ESB á þann veg að sé einn steinn tekinn úr henni er vegið að öllu regluverkinu. Nú er að hefjast umsagnarferli um tillögur framkvæmdastjórnarinnar um nýja sjávarútvegsstefnu með framseljanlegum kvótum, banni við brottkasti og aukinni svæðisbundinni stjórnun. Hvað felst í hinum síðastnefnda veit í raun enginn enn þótt hugsunin sé sú að ríki með sameiginlega hagsmuni á sameiginlegu svæði geti innan ramma sem framkvæmdastjórn ESB setur komið sér saman um eitthvað án þess að leita samþykkis frá Brussel og ráðherraráði ESB til að framkvæma það. Þá er jafnframt gert ráð fyrir að árlegum ákvörðunum um kvóta verði hætt en hann mótaður til langs tíma með vaxtarmarkið og sjálfbærni að leiðarljósi. Þetta breytingarferli á sjávarútvegsstefnunni er talið að taki að minnsta kosti tvö ár.

Að Íslendingum takist á sama tíma að fá sérlausn innan þessa kerfis er ekki líklegt. Að hún felist í því að Íslendingar haldi rétti yfir 200 mílna lögsögunni er borin von. Þegar ég vakti máls á því var dregin upp mynd fyrir framan mig af Íslandi annars vegar og 200 mílna lögsögunni umhverfis Ísland hins vegar og sagt að ég hlyti að sjá hve fráleitt yrði að Ísland yrði hluti af ESB þar sem sameiginlegar ESB-reglur og lög giltu en ekki hafið umhverfis landið, það væri auðvitað óhugsandi.

Hinar sameiginlegu reglur ESB ná til fiskveiða, fiskurinn í sjónum, innan 200 mílnanna er framlag okkar Íslendinga til hinna sameiginlegu auðæfa ESB, ef við fáum ekki leyfi til að sitja einir að þessum auðæfum áfram, verður okkur bætt það með einhverju öðru. Er þetta ekki einfalt og auðskiljanlegt? Svo megi ekki gleyma reglunni um hlutfallslegan stöðugleika þótt hún sé hvergi fest í ESB-lög, þau gilda en annað ekki þegar í harðbakka slær.

Skotar verða að sætta sig við að búa við hina banvænu sjávarútvegsstefnu ESB. Hvað með aðrar auðlindir í hafinu? Olíu og gas? Skotar ætla sér að nýta þessar auðlindir, þær séu meiri en nokkurn hafi grunað til þessa. Þeir ætla að leggja fé í sjóð eins og Norðmenn. Með þessar orkulindir, virkjun vindorku og vatnsorku ætla Skotar að verða orkubú fyrir nágranna sína.

Vissulega verði þess vart innan ESB að menn vilji breyta þessum auðlindum í sameiginlega auðlind ESB eins og fisknum í sjónum. Komi til þess muni Skotar einfaldlega segja skilið við ESB, þeir láti ekki bjóða sér slíkt. Þeim finnist einnig nóg um þegar Günther Öttinger, orkumálastjóri ESB, vilji herða kröfur um vegna öryggis við olíu- og gasvinnslu svo mikið að í raun yrði ógerlegt að hefja nýja vinnslu í Norðursjó. Vissulega verði að gæta öryggis í þágu góðra nágrannaríkja en óþarfi sé að ganga eins langt og Öttinger vilji.

Hér skal engu spáð um sjálfstæði Skotlands. Hitt er ljóst að í samtímanum gerast svo margir sögulegir atburðir sem áður töldust óhugsandi að sjálfstætt Skotland kann að verða þátttakandi í samstarfi Norður-Evrópuþjóða fyrr en varir. Við mótun íslenskrar utanríkistefnu ber að taka mið af því að þetta kunni að gerast. Þótt skoskir þjóðernissinnar vilji ekki hrófla við ESB-aðild á sama tíma og þeir berjast fyrir sjálfstæði frá Englandi, ber alls ekki að útiloka að þeir sjái sér betur borgið til frambúðar í EFTA, EES og Schengen með Noregi og Íslandi.