26.9.2011

Stefnt vegna ritvillu– St. Pétursborg

 


Þriðjudaginn 20. september kom stefnuvottur heim til mín og afhenti mér bréf sem Gestur Jónsson hrl. ritaði undir í nafni Jóns Ásgeirs Jóhannessonar (JÁJ) Baugsmanns þar sem mér er stefnt vegna ritvillu í bók minni Rosabaugur yfir Íslandi sem út kom í maí og seldist mest bóka í Eymundsson þar til 1. prentun hennar var uppseld. Seldist bókin upp um svipað leyti og ég birti yfirlýsingu með afsökun til Jóns Ásgeirs vegna ritvillu á bls. 368 í bókinni þar sem sagt er að hann hafi hlotið 3ja mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir „fjárdrátt“ en hann var dæmdur fyrir „meiriháttar bókhaldsbrot“.  Samhliða yfirlýsingu minni og afsökun sá ég til þess að leiðrétta þessa villu í 2. prentun bókarinnar.

Eftir að ég hef birt leiðréttingu mína á netinu, í Morgunblaðinu og 2. prentun bókarinnar hef ég gert það sem í mínu valdi er til að takmarka „tjónið“ sem kann að hafa orðið fyrir vegna mistakanna. Ég set orðið „tjón“ innan gæslappa því að JÁJ var sannarlega sakfelldur fyrir brot þar sem refsirammi er hinn sami hvort heldur er um fjárdrátt eða meiriháttar bókhaldsbrot að ræða. Að það hafi verið ásetningur minn að bera JÁJ röngum sökum er fráleitt. Brotið sem leiddi til sakfellingar yfir JÁJ hafði sömu takmarkanir í för með sér fyrir hann og brotið sem nefnt er í villunni í 1. prentun bókarinnar. Að því leyti magnaði missögnin ekki sekt hans að lögum.

Þegar ég skrifaði bók mína og sá hvernig lögmenn og aðstoðarmenn JÁJ fóru í saumana á öllu sem ég sagði og skrifaði í tengslum við JÁJ, Baugsmenn og Baugsmiðla blasti við að þeir sem koma við sögu í bókinni mundu leggjast yfir hana í leit að misfellum. Ásetningur að baki villunni var enginn. Megi menn ekki, án þess að eiga milljón króna skaðabótakröfu yfir höfði sér, gera í raun saklausa villu í umfjöllun um gríðarflókin efnahagsbrot í bók sem snýst ekki um lögfræðilega greiningu á þeim brotum, villu sem þeir gera allt sem þeir geta til að leiðrétta um leið og hún verður þeim ljós, mun enginn maður þora að taka til máls um flókin efnahagsbrot að minnsta kosti ekki ef ákveðnir einstaklingar eiga í hlut.

Einn af þráðunum í bók minni snýst um þann þátt Baugsmálsins að á þriðja milljarð króna var að sögn Baugsmanna varið til að verjast ákærunni. Þetta er ótrúlega há upphæð á alla mælikvarða og sýnir að ekkert var til sparað. Ég tel að fjárfestingin hafi ekki aðeins miðað að því að verjast í réttarsalnum heldur hafi tilgangur hennar einnig verið sá að fæla aðra eftirlitsaðila en lögregluna frá afskiptum af Baugsmönnum og umsvifum þeirra. Stefnan gegn mér er af sömu rót runnin.

Í raun er ekki um neinn réttarágreining milli mín og stefnanda að ræða, því að ég hef ómerkt  gagnrýnisverða orðið og beðist afsökunar. Tilgangurinn með stefnunni er öðrum þræði að fæla aðra frá því að skrifa um Baugsmenn. Þeir vita að frá mörgu öðru er að segja um framgöngu þeirra en ég rek í bók minni. Hún snertir aðeins framhliðina ef svo má segja, því að hún byggist á opinberum gögnum. Bakhliðin er eftir. Það sem menn segja þegar við þá er rætt og trúnaði heitið við heimildarmenn.

Af neikvæðum, ómálefnalegum viðbrögðum fámenns hóps við bókinni sem eru úr öllum takti við hin almennu viðbrögð má álykta að þeir sem helst stóðu við hlið Baugsmanna á tíma Baugsmálsins eða unnu á miðlum þeirra vilji draga úr áhuga á að lesendur kynni sér efni bókarinnar.  Við þessu er að sjálfsögðu ekkert að segja enda leiðist vafalaust sumum hvað sagan geymir um hlut þeirra.

St. Pétursborg

Áður en við héldum til St. Pétursborgar hafði ég óljósa hugmynd um borgina en það var ekki fyrr en ég hafði tækifæri til að dveljast þar í fáeina daga með hópi Íslendinga undir frábærri leiðsögn Péturs Óla Péturssonar að ég áttaði mig á því að St. Pétursborg er í hópi merkustu borga Evrópu – ekki aðeins borgin sjálf heldur hallir og aðrar minjar í næsta nágrenni hennar sem bera rússneska keisaradæminu ekki síður stórbrotið vitni en borgin sjálf.

Þegar ég kom fyrst til Sovétríkjanna árið 1977 í fylgdarliði Geirs Hallgrímssonar forsætisráðherra í fyrstu opinberu heimsókn af því tagi sátum við kvöldverð í Kreml. Við hlið mér sat embættismaður sem sagður var með góð tengsl inn í hinn leynilega valdakjarna Sovétríkjanna. Þegar við sátum þarna í glæsilegum salarkynnum með gullsleginn borðbúnað fyrir framan okkur og endalausar raðir af kristalsglösum spurði sessunautur minn: Björn, hvernig getur þú haldið því fram við sem stjórnum Sovétríkjunum séum barbarar sem vilji eyða öllu hinu gamla? Sérðu ekki hér í kvöld, hve vel við virðum hið gamla úr sögu okkar?

Veislan var vissulega með keisaralegum brag og áður höfðum við fengið að skoða safn með munum frá keisaratímanum.  Ég taldi mig þó vita að þessi íburður allur gæfi ekki rétta mynd af Sovétríkjunum þótt ég skyldi stolt hans yfir glæsileikanum. Þá áttaði ég mig á því hve saga keisaradæmisins skipti Rússa miklu þótt kommúnistar sætu við völd.

Heimsóknin til St. Pétursborgar er einmitt eftirminnileg vegna þess að kommúnistar réðust aldrei til atlögu við minjar keisaradæmisins í borginni. Þótt hún hafi drabbast niður, byggingar hafi verið að hruni komnar og kirkjum breytt í söfn eða skemmur, má nú færa þetta allt í sína glæsilegu fornu mynd og það gefur borginni sérstakt yfirbragð að þar eru háhýsi bönnuð og nýbyggingar verður að reisa með samræmt útlit borgarinnar að leiðarljósi.

Árið 1974 var reist minnismerki í borginni um 900 daga umsátur nasista um hana og þar má fá örlitla nasasjón af hörmungunum sem borgarbúar máttu þola í síðari heimsstyrjöldinni. Er óskiljanlegt að tekist hafi að verja borgina fyrir sókn Hitlers svo mögnuð var hún og svo miklu harðræði voru borgarbúar beittir.  Anna Reid sendi í ár frá sér bókina Leningrad um umsátrið um borgina og lífið íbúa hennar í dagana 900. Af ritdómum má ráða að þar sé að finna persónulegar lýsingar sem ekki hafa áður birst af þessari grimmdarlegustu tilraun sögunnar til að svelta og pína borg til uppgjafar. Höfundurinn hafi komist í einkaskjöl sem áður hafi ekki verið rannsökuð og harmleikurinn í borginni hafi jafnvel verið meiri en menn gerðu sér áður í hugarlund, hafa þó margir skrifað um hann þar á meðal bandaríski blaðamaðurinn Harrison Salisbury.

Þegar Pétur mikli Rússakeisari réðist í að reisa borg á þessum eyjum í mynni fljótsins Nevu árið 1703 vakti fyrir honum að styrkja vígstöðu sína gagnvart Svíum og opna Rússum aðra sjóðleið vestur á bóginn en um Arkangelsk. Honum tókst það með því að beita valdi sínu til hins ýtrasta. Hann lagði til dæmis á stein-toll, allir sem komu til borgarinnar urðu að hafa með sér grjót eða steina til bygginga því að þá var ekki að finna á þessum slóðum. Þegar hann skorti steinsmiði bannaði hann steinsmíði alls staðar í Rússlandi og knúði þá sem kunnu til þeirra verka til að taka til starfa í Pétursborg. Borgin ber alræði keisaranna glöggt vitni og viðleitni þeirra til að vera ekki minni menn en þjóðhöfðingjar vestar í álfunni.

Sjón er sögu ríkari. Mannlífið er mikið og fjölbreytt í miðborg St. Pétursborgar, verslanir jafnvel stærri og glæsilegri en í öðrum stórborgum. Áður en ég hélt af stað var ég varaður við vegna öryggisleysis á götum borgarinnar. Ég fann ekki fyrir því. Mikið átak hefur verið gert til að hrekja sígauna á brott frá borginni en þeir settu til skamms tíma mikinn svip á hana. Þá mun lögreglan hafa verið hvött til þess að gæta laga og réttar á lögmætan hátt. Sagt var að gott væri að eins dollara seðil í vasanum til að rétta lögreglumanni ef hann tæki mann fyrir að ganga yfir götu á röngum stað eða á rauðu ljósi. Á þetta reyndi aldrei og minnist ég þess ekki að hafa séð lögreglumenn fyrir utan þá sem sýndu nokkra þvermóðsku þegar þeir neituðu rútunni okkar um heimild til að aka í gegnum langa röð fólks sem gekk til stuðnings einhverjum málstað.

Ferðamaður verður ekki var við annað en iðandi mannlíf í miðborg St. Pétursborgar.  Á leið út úr henni má sjá risavaxnar blokkir í íbúðahverfum enda búa nær 100% borgarbúa í fjölbýlishúsum af einni eða annarri gerð. Verst eru húsin sögð sem reist voru á Brezhnev-tímanum.

Bílaeign borgarbúa hefur margfaldast miðað við það sem ætlað var við gerð skipulags og í íbúahverfum er gífurlegur skortur á bílastæðum. Mátti sjá bifreiðum lagt hvar sem auðan blett var að finna. Þá þótti mér merkilegt að sjá allar bensínstöðvarnar þegar við ókum til og frá borginni einkum í áttina að Helsinki. Bensínverð er um helmingi lægra en hér á landi.

Hvað verður um Rússland? Þessari spurningu verður ekki svarað hér. Á götum St. Pétursborgar mátti sá risaskilti með myndum af Vladimir Putin forsætisráðherra. Nú er komið í ljós að þau boðuðu þann atburð sem varð laugardaginn 24. september þegar Putin og Dimitri Medvedev, forseti Rússlands, ákváðu að eiga stólaskipti. Putin getur setið á forsetastóli til ársins 2024 nái hann kjöri næsta vor sem allir telja víst.

Þjóðfélagsumbætur einkenna ekki stjórnarhætti Putins. Líklegra er að ríki stöðnun sem síðan leiðir til afturfarar. Þá er vaxandi hætta á að stjórnarhættir harðni og svigrúm borgaranna til orðs og æðis þrengist. Haldist orkuverð hátt mun Rússland hagnast, ríkisvaldið hefur í hendi sér hve mikið af tekjunum rennur til almennings. Hinir ríku verða ríkari, hvort þeim fjölgi er ólíklegt. Viðfangsefni stjórnvalda eru ógnvænleg. Rússum fækkar og borgarlífið í St. Pétursborg gefur að sögn alls ekki rétta mynd af frumstæðum aðstæðum í stærstum hluta landsins.