7.9.2011

Landsdómsmálið er dæmt til að klúðrast

Björn Valur Gíslason, þingmaður vinstri-grænna, tekur að sér að kynna hugsanir formanns flokksins síns og kjördæmisbróður, Steingríms J. Sigfússonar. Sé vegið að Steingrími J. og hann telur ekki sjálfur skynsamlegt að reiða hnefann á loft eða gera hróp að gagnrýnandanum tekur Björn Valur að sér skítverkið.

Þegar Steingrímur J. hafði greitt atkvæði með því að Geir H. Haarde skyldi dreginn fyrir landsdóm sagði hann í sjónvarpsviðtali að hann hefði gert það með „sorg í hjarta“. Mátti skilja það svo að flokksformaðurinn hefði verið neyddur til þess að lýsa fyrrverandi samstarfsmann á þingi sakamann.

Mánudaginn 5. september kom landsdómur saman og Andri Árnason, verjandi Geirs, krafðist frávísunar og færði fyrir henni mörg og haldgóð rök. Þá hafa fjölmargir sérfróðir menn lýst undrun yfir málshöfðuninni og í erlendum fjölmiðlum má lesa frásagnir fjölmiðlamanna sem bera þess skýr merki að þeir telja að um pólitískt mál sé að ræða en ekki refsimál þótt Steingrímur J. og félagar hafi kosið að færa það í þann búning á alþingi.

Þegar gagnrýni á ákæruna verður almennari og skýrist að vilji landsdómur taka mið af þeim kröfum sem hæstiréttur gerir til ákæra hlýtur málinu á hendur Geir að verða vísað frá dómi, kveður Björn Valur Gíslason sér hljóðs um málið og verður sér enn einu sinni til skammar í vörninni fyrir Steingrím J.

Björn Valur telur það til marks um að ráðgjafar Geirs séu að „tapa glórunni“ af því að þeir vilji ekki „takast á við ákærurnar“  heldur reyni „að ónýta málið á tæknilegum atriðum“.  Þetta er dæmalaus afstaða þingmanns sem stóð svo illa að málatilbúnaði þegar málið gegn Geir var til meðferðar á alþingi að við öllum blasir að pólitísku álitaefni var breytt í sakamál til að koma höggi á einstakling. Þegar Geir grípur til þeirra ráða í réttarsalnum sem lög leyfa telur þingmaðurinn að hann eða ráðgjafar hans hafi „tapað glórunni“.

Ekki tekur betra við þegar Björn Valur tekur til við að velta fyrir sér hvað gerist ef landsdómur verði við kröfu Geirs. Þingmaðurinn áttar sig ekki á ábyrgð sinni og annarra þingmanna gagnvart kjósendum sínum heldur telur að stjórnmálamenn verði ekki kallaðir til ábyrgðar nema landsdómur fjalli um mál þeirra.

Stjórnmálabarátta hefur verið hörð á Íslandi áratugum saman. Það er þó ekki fyrr enn tvíeykið Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon sest við völd sem nokkrum með þingmeirihluta á bakvið sig dettur í hug að ákæra ráðherra og stefna honum fyrir landsdóm. Þetta segir meira um það hverjir hafa „tapað glórunni“ í þessu máli en ávirðingar Björns Vals í garð lögmanna Geirs.

Björn Valur spyr komi til frávísunar: „Verður þá engin stjórnmálamaður látin axla ábyrgð á því sem hér gerðist? Samþykkjum við það þá að stjórnmálin séu saklaus af þeim ósköpum öllum? Höfum við þá lúffað enn á ný þegar kemur að því að gera þá sem leika aðalhlutverkin ábyrga.“ Þessi orð staðfesta hið pólitíska eðli ákærunnar á hendur Geir H. Haarde. Björn Valur lítur greinilega þannig á að hann sé að ná sér niðri á pólitískum andstæðingi með því að ákæra Geir. Afstaða hans er ekki reist á þeim grundvallaratriðum sem hafa verður í heiðri þegar til ákæru er gripið, það er að meiri líkur en minni séu á sakfellingu samkvæmt reglum refsiréttarins.

Hið furðulega er að saksóknari skuli hafa tekið að sér að flytja slíka pólitíska ákæru í refsimáli. Þegar skjalið sem saksóknarinn lagði fram sést að hann hefur gefist upp við að vinna málið á sjálfstæðum grunni með eðlilega starfshætti ákæranda í huga og lætur við það eitt sitja að endurprenta það sem frá alþingi kom.

Björn Valur finnur að því að Geir H. Haarde hafi rætt við erlenda fjölmiðla og lýst undrun sinni á ákvörðun alþingis um ákæruna. Geir ætti frekar að skammast sín fyrir að alþingi hafi samþykkt „hverja efnahags vitleysuna af annarri undir forystu sjálfstæðisflokksins árum og áratugum saman“. Björn Valur ætti að huga að því að meðal almennings var virðing alþingis mun meiri á þeim árum sem hann þarna nefnir heldur en núna þegar hann og félagar hans ráða yfir meirihluta á þingi. Aldrei hefur virðing alþingis mælst minni. Það skyldi þó ekki meðal annars vera vegna þess hvernig þeir Steingrímur J. stóðu að ákærunni á hendur Geir?

Ég hef haldið því fram að innan landsdóms sé sterk tilhneiging til að láta mál Geirs koma þar til efnisdóms, þetta sé í fyrsta sinn sem landsdómur komi saman og í honum sitji fólk sem örugglega telji hlutverk sitt frekar pólitískt en lögfræðilegt og þess vegna beri því að taka á málum í anda Björns Vals Gíslasonar. Spurning er hvort það sjónarmið má sín meira þegar til kastanna kemur í störfum dómaranna en hið lögfræðilega mat. Þar eiga hæstaréttardómarar og aðrir dómarar hlut að máli.

Björn Valur veltir því fyrir sér hvað gerist fari mál Geirs ekki í efnisdóm. Svarið við því er einfalt. Vinstri-grænir og stuðningsmenn þeirra í landsdómsmálinu sitja uppi með þá skömm að hafa breytt pólitísku álitamáli í sakamál. Steingrímur J. skapaði fordæmi og kann sjálfur að sitja undir rannsókn og ákæru á vegum alþingis, til dæmis vegna Icesave-málsins.  Þótt ekki sé tekið mið af öðru en orðum Ólafs Ragnars Grímssonar í RÚV 4. september  um þá sem stóðu að Icesave-samningunum,  þegar hann sagði góðar endurheimtur í þrotabúi Landsbankans „staðfesta að íslensk stjórnvöld hafi látið undan þrýstingi og beygt sig undir ofbeldi Breta og Hollendinga í Icesave“.  Má ekki stefna fjármálaráðherra sem stendur  þannig að málum fyrir landsdóm? Steingrímur J. hafði svo ekki þrek til að svara Ólafi Ragnari á þingi og skaut sér á bakvið þá tuggu að hann vildi ekki „munnhöggvast“ við forseta Íslands.

Þá má spyrja: Hvað gerist ef hið ólíklega yrði að landsdómur dæmdi Geir H. Haarde til refsingar? Málinu mætti skjóta til mannréttindadómstóls Evrópu. Þar yrði tekið á því öðrum tökum en einkenna vaðalinn í Birni Vali, ákæru alþingis eða vinnubrögð saksóknara þess. Í Strassborg mundu menn leggja lögfræðilegt mat á málið og til dæmis huga að jafn sjálfsögðum þætti og þeim hvort hinum ákærða hefði verið gefinn kostur á að skýra mál sitt á rannsóknarstigum málsins. Þá yrði einnig spurt hvernig mætti ákæra án þess heimfæra brot undir lagagrein. Loks myndu menn vilja skýringu á því hvernig saksóknari teldist koma óhlutdrægur að málinu þegar hann sat fimm sinnum fundi með þingnefndinni sem fjallaði um það og lagði meðal annars fyrir hana minnisblað.

Meirihluti alþingis undir stjórn Jóhönnu og Steingríms J. hélt illa á landsdómsmálinu gegn Geir H. Haarde. Verði landsdómur ekki við kröfunni um frávísun mun framhald málsins aðeins spilla áliti þjóðarinnar út á við þar sem ógjörningur er að skýra málshöfðunina fyrir annarra þjóða mönnum enda tekur enginn málsmetandi maður það að sér. Felli landsdómur dóm yfir Geir H. Haarde verður landsdómur sér að athlægi þegar tekið verður á málinu af mannréttindadómstóli Evrópu í Strassborg.