17.8.2011

Sjö röksemdum ESB-aðildarsinna svarað


Hið einkennilega við umræður aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu er að enginn stjórnmálamaður gengur fram fyrir skjöldu og lýsir því afdráttarlaust hvers vegna Íslendingar skuli stíga þetta örlagaríka skref. Eftir upphaf aðildarviðræðna kjósa stjórnmálamenn að láta hjá líða að færa rök fyrir aðildinni en halda fast í áróðurinn um „rétt“ fólks til að segja álit sitt á niðurstöðu í aðildarviðræðunum og hún skuli lögð undir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Í þessum áróðri er undan skilið að sameiginleg niðurstaða í viðræðum fulltrúa ESB og Íslands næst ekki nema allt falli í einn farveg, með öðrum orðum að Íslendingar lagi sig að kröfum ESB sem eru í eðli sínu einhliða enda um það að ræða að íslenskt stjórnkerfi og þjóðfélag lagi sig að ramma sem settur er 27 eða 28 ríkjum með Króatíu, sem væntanlega verður aðili að ESB árið 2013.

Að sjálfsögðu vita þeir sem standa í fararbroddi í viðræðunum við ESB að um einhliða ramma er að ræða af hálfu Evrópusambandsins. Til að komast hjá þeim skerjum sem eru á leiðinni er einfaldlega sagt að samið verði um sérlausnir fyrir Ísland. Þeirri leið til stuðnings er vitnað til þess að Finnar hafi fengið heimild til að greiða aukalega styrki úr eigin vasa til bænda á afskekktum norðurbyggðum enda samþykki framkvæmdastjórn ESB reglur um styrkina. Þá er bent á að Maltverjar megi nota smábáta til veiða á um 1.000 lestum á fiski innan 25 mílna frá Möltu.

Með þessum inngangi fagna ég því að aðildarsinni, Pétur J. Eiríksson hagfræðingur, skuli hafa ritað grein í Morgunblaðið 17. ágúst til að kynna rök aðildarsinna sem eru annars eðlis en þau að málið snúist um að „dílinn“ beri að leggja undir þjóðaratkvæðagreiðslu. Hér skal litið á rök Péturs, hann segir:

1. „Nú blasir við gamla sagan um aukna verðbólgu, háa vexti, höft og láglaunahagkerfi samfara lítilli framleiðni og tortryggni umheimsins. Aðildarsinnar vilja ekki gera þessa fortíð að framtíð og vilja því taka upp nýjan gjaldmiðil sem gæti gerst með aðild að ESB. Einangrunarsinnar mættu gjarnan færa fram aðra lausn ef til er.“

Ástæða er til að staldra þarna við tvennt.

Í fyrsta lagi er alrangt að kalla þá „einangrunarsinna“ sem eru andvígir aðild Íslands að ESB. Fyrir því er auðvelt að færa rök að Ísland yrði þá fyrst einangrað ef til aðildar að ESB kæmi. Stjórnkerfið tæki alfarið að snúast um það sem er að gerast í Brussel. Hvorki yrði mannafli, fé né tími aflögu til að leggja rækt við önnur alþjóðleg samskipti. Framkvæmdastjórn ESB og utanríkisráðherra ESB tækju að sér íslensk málefni út á við og slegið yrði slöku við þátttöku í NATO, Norðurlandaráði, Norðurskautsráðinu og jafnvel Sameinuðu þjóðunum. Réttur Íslands sem strandríkis samkvæmt hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna hyrfi til ESB. Tvíhliða samskipti við Bandaríkin, Kanada, Rússland og Kína mundu mæta afgangi og jafnvel einnig við Færeyjar, Grænland og Noreg sem yrðu áfram utan ESB. Íslendingar eru í EFTA, hafa gert EES-samninginn við ESB og auk þess gerst aðilar að Schengen-samstarfinu. Að kenna stuðning við þetta alþjóðasamstarf við einangrun er fráleitt.

Í öðru lagi er rangt að þeir sem vilja standa utan evru-lands hafi ekki boðað aðra lausn í gjaldmiðilsmálum en að ganga í ESB og taka upp evru. Bent hefur verið á upptöku Bandaríkjadollars og færð hafa verið skýr rök fyrir því að taka upp Kanadadollar. Þá ber að halda því til haga að síður en svo eru allir sammála um að kasta eigi krónunni fyrir róða.

Í öðru lagi segir Pétur J. Eiríksson:

2. „Aðildarsinnar vilja losa íslenskan landbúnað úr því kerfi stöðnunar sem nú lamar hann. Þeir sjá betra skjól fyrir hann í styrkjakerfi ESB, sem miðar að því að viðhalda byggðum í sveitum, en í framleiðslustyrkjum í anda Sovétríkjanna sem engu hafa skilað nema niðurníðslu í sveitum, einokun og tómum hillum í verslunum. Hvað vilja einangrunarsinnar gera?“

Af þessum orðum mætti draga þá ályktun að landbúnaður sé með miklum blóma í ESB-ríkjunum. Því fer víðs fjarri að þar uni bændir glaðir við sitt. Pétur ætti að færa rök fyrir því að framleiðslustyrkir til íslensks landbúnaðar hafi engu skilað „nema niðurníðslu í sveitum, einokun og tómum hillum í verslunum“. Þetta og að líkja íslensku landbúnaðarkerfi við Sovétríkin þar sem Stalín gekk að bændum dauðum í orðsins fyllstu merkingu með samyrkjubúunum er argasta níð og ekki framlag til málefnalegra umræðna. Er með ólíkindum að aðildarsinnar telji sig þurfa að seilast svo langt í rangfærslum til að fegra málstað sinn. Víst er að vilji menn umbætur í íslenskum landbúnaði er mun skynsamlegra að vinna að þeim á eigin forsendum í stað þess að fá formúluna frá Brussel. Hún á einfaldlega ekki við hér á landi en gengur hins vegar að íslenskum landbúnaði dauðum í núverandi mynd og þar með fæðuöryggi þjóðarinnar um aldir.

Í þriðja lagi segir Pétur J. Eiríksson:

3. „Aðildarsinnar vilja sjá matarverð færast í átt þess sem er í Evrópu. Það er ekki lögmál að verðlag sé hærra á Íslandi en annars staðar.“

Það er einfaldlega ekkert lögmál að matarverð sé hærra hér á landi en annars staðar. Hinn 29. júní 2011 birtist þessi frétt á Evópuvaktinni:

„Vorið 2009 var hlutfallslegt verðlag matvæla á Íslandi 4% hærra en að meðaltali í 27 aðildarríkjum Evrópusambandsins, að því er segir í frétt frá Hagstofu Íslands, 29. júní 2010. Sé þetta mikil breyting frá könnun, sem gerð var árið 2006, þegar verðlag matvæla hefði verið hæst á Íslandi, eða 61% hærra en í Evrópusambandinu.

Ein helsta röksemd þeirra, sem mæla með aðild Íslands að ESB, hefur verið sú, að með aðild stórlækki verðlag á matvælum hér á landi.

Hér fer tilkynning Hagsofu Íslands í heild:

“Niðurstöður úr evrópskri könnun á verði matvæla, áfengis og tóbaks, sem gerð var vorið 2009, hafa verið gefnar út og er að finna á vef Hagstofu Íslands. Í þeim ríkjum sem þátt tóku var hlutfallslegt verðlag matvæla á Íslandi 4% hærra en að meðaltali í 27 aðildarríkjum Evrópusambandsins. Það er mikil breyting frá fyrri könnun, sem gerð var árið 2006, en þá var verðlag hæst á Íslandi eða 61% hærra en í Evrópusambandinu. Breytingin skýrist fyrst og fremst af gengisbreytingum en í könnuninni er verð á sambærilegri körfu matvæla borið saman í evrum.

Í könnuninni nú var verðlag hæst í Noregi, 54% hærra en meðaltalið, í Danmörku 39% hærra og í Finnlandi 20% hærra. Í Svíþjóð var verðlag hið sama og á Íslandi. Samanburðurinn náði til Íslands auk 36 annarra Evrópuríkja, það er 27 núverandi aðildarríkja Evrópusambandsins, Noregs, Sviss, Albaníu, Bosníu Hersegóvínu, Króatíu, Makedóníu, Serbíu, Svartfjallalands og Tyrklands. Hagstofa Evrópusambandsins, Eurostat, hafði umsjón með könnuninni en Hagstofa Íslands sá um framkvæmd hennar á Íslandi. Í könnuninni er notað meðalverð og -gengi ársins 2009.““

Í fjórða lagi segir Pétur J. Eiríksson:

4. „Aðildarsinnar vilja aukið vöruval í verslunum og vilja losna við gamaldags hugsun um einokun og vernd. Það er heldur ekki lögmál að vöruval eigi að vera minna hér en annars staðar frekar en að íslenskir atvinnuvegir geti ekki keppt. Þeir vilja að neytendur geti pantað sér vörur erlendis frá án þess að opinberir embættismenn þurfi að skipta sér af eða að þörf sé á að greiða margvísleg aukagjöld.“

Það þarf nokkurt hugmyndaflug til að ímynda sér að það sé undir aðild að ESB komið hve mikið vöruval sé í íslenskum verslunum. Hugmyndaauðgi kaupmanna og áhugi viðskiptavina ræður hvernig vöruvali er háttað. Aðild að ESB kann hins vegar að þrengja svigrúm íslenskra kaupmanna frá því sem nú er. Hér eru seldar innfluttar vörur frá Bandaríkjunum sem framkvæmdastjórn ESB lítur hornauga vegna regluverks Evrópusambandsins. Afskipti opinberra embættismanna af því sem selt er í verslunum minnka síður en svo við aðild að ESB. Í raun er miklu auðveldara að draga úr þeim á einhliða hátt utan ESB heldur en þegar valdið verður í höndum framkvæmdastjórnarinnar í Brussel.

Í fimmta lagi segir Pétur J. Eiríksson:

5. „Aðildarsinnar vilja létta kostnaði af íslenskum útflytjendum með því að aflétt verði landamæraeftirliti með íslenskum vörum. Þeir vilja að Íslendingar njóti góðs af fjölmörgum viðskiptasamningum sem Evrópusambandið hefur gert við aðrar þjóðir.“

Ákvarðanir um kostnað sem fylgir útflutningi eða eftirliti með honum falla undir ríkisstjórn og alþingi og eru alls ekki bundnar við aðild Íslands að ESB. Fríverslunarbandalag Evrópu, EFTA, hefur gert fjölmarga fríverslunarsamninga auk þess sem Íslendingar hafa unnið að gerð tvíhliða samninga eins og t.d. við Kínverja. Þeim viðræðum lauk þegar íslenska ríkisstjórnin tók stefnu á aðild að ESB.

Í sjötta lagi segir Pétur J. Eiríksson:

6. „Aðildarsinnar vilja að Íslendingar geti lifað og verið eins og aðrar Evrópuþjóðir, notið sama frjálsræðis en þurfa ekki að vera settir undir höft, takmarkanir og aukin ríkisafskipti sem því miður virðast fara vaxandi í okkar samfélagi.“

Aðildarsinnar fengu ríkisstjórn sem sótti um aðild að ESB og greiddu fyrir það með því að sitja undir stjórnarháttum í þeim dúr sem Pétur lýsir í sjötta lið sínum. Þeir sem eru andvígir höftum, takmörkunum og auknum ríkisafskiptum eru að meirihluta einnig andvígir aðild að ESB. Spurningin sem Pétur þarf að svara snýst um hvort hann vilji halda áfram stuðningi við sjónarmið Samfylkingarinnar í ESB-málum og samstarf hennar við VG til að ná markmiðum sínum eða hvort hann vill vinna að því að málsvarar frelsis haldi um stjórnartaumana.

Í sjöunda lagi segir Pétur J. Eiríksson:

7. „Ég er einn þeirra sem telja margt jákvætt við röksemdir aðildarsinna og er orðinn leiður á þjóðsagnaspuna um Evrópusambandið. Það er til dæmis kominn tími til að grafa goðsögnina um að sambandið stefni í ofurríki og aukna miðstýringu. Ekkert aðildarlandanna stefnir að slíku. Ekkert. Þeir sem segja að vilji til að auka aga í ríkisfjármálum evruríkjanna feli í sér aukna miðstýringu sambandsins eru annaðhvort illa lesnir eða vilja ekki vita betur.“

Hefði Pétur frestað ritun greinar sinnar fram yfir 16. ágúst 2011 hefði hann orðið að breyta lokafullyrðingu sinni um að það sé „þjóðsagnaspuni“ og „goðsögn“ að ekkert aðildarlanda ESB stefni í „ofurríki og aukna miðstýringu“. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, komu saman í París þriðjudaginn 16. ágúst og ákváðu að bjarga evrunni með því sem á frönsku er nefnt gouvernement économique á evru-svæðinu, það er efnahagsríkisstjórn. Þar er um að ræða yfirþjóðlega stjórn í evru-ríkjunum í efnahags- og ríkisfjármálum. Verði þessi tillaga valdamestu þjóðarleiðtoga evru-ríkjanna að veruleika myndi miðstýring stóraukast og að lokum verða til „ofurríki“ innan ESB. Ísland ætti ekki annan kost en að ganga í þetta „ofurríki“ því að aðildarsinnar telja mestu skipta að komast í Evrulandið sem Herman Van Rompuy, forseti leiðtogaráðs ESB, nefnir svo en þau Merkel og Sarkozy vilja að hann stjórni fundum þeirra sem gegna forystu í ófjárráða ríkjum innan Evrulandsins.

Hér hef ég rætt sjö röksemdir Péturs J. Eiríkssonar hagfræðings og því miður ekki fundið eina sem mér finnst standast nánari skoðun. Hitt er síðan táknrænt og varla tilviljun þegar aðildarsinni sest niður til að ræða rökin fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu kýs hann að minnast ekki á sjávarútvegsmál. Þau eru hins vegar helsti þröskuldurinn á aðildarleiðinni.

Ég er þeirrar skoðunar að skynsamlegt sé að gera hlé á ESB-aðildarviðræðunum. Evrópusambandið hefur annað yfirbragð núna en sumarið 2009 þegar alþingi samþykkti aðildarumsóknina. Allar skoðanakannanir hafa síðan sýnt að meirihluti þjóðarinnar er á móti aðild. Þegar ég kynni þessa skoðun mína í samtölum fæ ég gjarnan svarið: „Já, en viltu ekki ljúka málinu og láta greiða atkvæði um það. Íslendingar munu aldrei samþykkja aðild.“

Við þessu á ég þetta svar: Það mun aldrei liggja fyrir sameiginleg niðurstaða í viðræðum fulltrúa Íslands og ESB nema íslensk stjórnvöld hafi gengið á bak orða sinna um gæslu íslenskra hagsmuna eins og þeir hafa verið kynntir, til dæmis í áliti meirihluta utanríkismálanefndar alþingis. Ég er á móti því að þannig verði gengið til verks. Að mínu áliti eru stjórnvöld þegar komin inn á þá braut eins og þögnin um það sem gerðist á fundi utanríkismálanefndar alþingis 16. ágúst sýnir. Þar átti að spyrja utanríkisráðherra um viðkvæmustu þætti viðræðnanna við ESB og allir kjósa að þegja um það sem hann sagði. Þetta er ekki gert vegna íslenskra hagsmuna heldur í þágu þeirra sem vilja halda leynd yfir því sem er að gerast í viðræðunum þar sem íslenska viðræðunefndin er skref fyrir skref að ganga að skilyrðum ESB. Að túlka reglur alþingis um trúnað á þann veg að þær leiði til þagnar um þróun í þessa átt er fráleitt.