8.8.2011

Lof aðildarsinna um evruna - aðild án raka

Þrír samfylkingarmenn á Íslandi hafa undanfarið gengið fram fyrir skjöldu, varið evruna og leitast við að fegra málstaðinn um að Íslendingum sé fyrir bestu að ganga í ESB. Össur Skarphéðinsson kýs þó að slá  marklítinn varnagla um tiltekt á mörkuðum um leið og hann ítrekar aðildarvilja sinn.

Á sama tíma og málsvarar ESB-aðildar innan Samfylkingarinnar vilja gera hlut evrunnar og ESB sem bestan án þess að fyrir því sé innstæða er vegið að andstæðingum ESB-aðildar á röngum forsendum og þeir meðal annars sakaðir um andstöðu við þjóðaratkvæðagreiðslur.

Að þessu er vikið í pistlinum.

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, hóf að lofa evruna  í Le Monde í Frakklandi 4. ágúst. Hann taldi að það yrði „óendanlega“ gott fyrir Íslendinga að komast í evru-hópinn. Hann las evrópskum stjórnmálamönnum einnig  pistilinn, það væri ekki við evruna að sakast heldur stjórnmálamennina. Þeim yrði að takast efnahagsstjórnin betur.

Aðalsteinn Leifsson, lektor við Háskólann í Reykjavík og formaður stjórnar fjármálaeftirlitsins í umboði Árna Páls, lét síðan í sér heyra í RÚV laugardaginn 6. ágúst. Hann sagði tvær leiðir færar fyrir ESB. Annars vegar að draga úr samstarfinu og láta ríkin leysa sín fjárhagsvandræði sjálf. Hins vegar að dýpka samstarfið. Taldi hann raunhæft að „dýpka samstarfið“  með því að draga úr völdum einstakra þjóðþinga við töku ákvarðana um fjármál og efnahagsmál og færa valdið til Brussel.

Aðalsteinn sagði „allar yfirlýsingar forsvarsmanna Evrópusambandsins til þessa bendi til að menn ætli að snúa bökum saman“. Hins vegar hefði reglum um evru-samstarfið  ekki verið fylgt eftir og menn væru nú að súpa seyðið af því.  

Þá sagði Aðalsteinn og báru orð hans ekki með sér að mikil samstaða væri á evru-svæðinu:

„En núna þegar þessi krísa kemur upp, þá virðast menn ætla að taka þetta skref [dýpka samstarfið]. En það skref verður aldrei án mjög mikillar pólitískrar umræðu og andstöðu í sumum ríkjanna. Evrópusambandið var stofnað til þess að takast á við krísur og erfiðleika og þegar maður skoðar sögu Evrópusambandsins þá sér maður að það er akkurat það sem að menn eru bestir í.“

Hafi stjórnendur ESB og Seðlabanka Evrópu ætlað að sanna snilli sína við stjórn á krísu með ákvörðunum sömu helgi og Aðalsteinn bar lof á hæfileika þeirra til þess hlýtur hann að hafa orðið fyrir vonbrigðum vegna viðbragða á mörkuðum mánudaginn 8. ágúst. Verðfall varð um heim allan þrátt fyrir neyðaraðstoð Seðlabanka Evrópu.

Hitt er síðan annað mál að fyrir því eru rök að málsvarar samrunaþróunarinnar í Evrópu nýti sér vandræði til að knýja á um nýtt skref til yfirþjóðlegrar stjórnar á kostnað þess valds sem verið hefur í höndum einstakra ríkja.  Aðalsteinn vonar að þetta verði gert núna. ESB-aðildarsinnar á Íslandi nýttu sér bankahrunið til að knýja fram samþykki á alþingi á aðildarumsókn með þeim rökum að Íslendingar yrðu betur settir innan ESB en utan.  Þeir verða að halda merki evrunnar og ágæti hennar hátt á loft til að þau rök haldi.

„Svarta mánudaginn“ 8. ágúst birtist þriðji ESB-sinnaði samfylkingarmaðurinn, sjálfur Össur Skarphéðinsson, í Bylgjunni. Hann fagnaði því ESB-ríkin ættu nú loks „stefnumót við veruleikann“ í fjármálum. Það væri „ algerlega nauðsynlegt að evrópsku ríkin hreinsi til í sínum fjármálum,“ eins og hann orðaði það.

Þá spurði fréttamaður Bylgjunnar: „En er þá eitthvað fyrir Íslendinga á evrusvæðið að gera?“ Össur svaraði:

„Fyrir framtíð Íslands og Evrópu eru þessar framkvæmdir sem nú er ráðist í óhjákvæmilegar. Og ég tel að evran komi miklu sterkari út úr því en hún er í dag og það eru góðar fréttir ekki bara fyrir Evrópu og heiminn heldur ekki síst fyrir Ísland sem er að velta fyrir sér að gerast aðili að myntbandalaginu því ef við yrðum aðilar að ESB eigum við kost á því að taka upp evruna það er í augum margra eftirsóknarvert að því gefnu að það sé búið að taka til á fjármagnsmörkuðum Evrópu.“

Í orðum Össurar birtist von og ótti. Hann lifir í von um að Seðlabanka Evrópu og embættismönnum í Brussel takist að bjarga evrunni og samstarfinu um hana. Vonina lét hann í ljós áður en fréttir um verðfall á mörkuðum komust til skila. Óttinn birtist í skilyrði varðandi  ESB-aðild Íslands. Össur vill að tekið verði til á fjármálamörkuðum Evrópu áður en Íslendingar gangi í  ESB og myntbandalagið.

Hvað felst í þessum fyrirvara? Hann er í raun marklítill. Vandinn á evru-svæðinu  er ekki skortur á tiltekt á mörkuðum. Vandinn felst í skorti á pólitískri forystu og togstreitu milli evru-ríkja og innan þeirra.  

Þótt fyrirvari Össurar sé í raun marklítill býr utanríkisráðherra, stjórnandi ESB-aðildarviðræðnanna,  sér til stöðu sem kann að auðvelda honum að gera hlé á ESB-viðræðunum.  Honum er ljóst að við blasir öngstræti. Gömlu rökin duga ekki lengur. Þá kann hann að hafa pólitísk markmið heima fyrir í huga. Frá því hefur verið sagt að Össur sé tekinn til við að þreifa fyrir sér um samstarf við aðra flokka en VG eins og hann gerði haustið 2008 þegar hann sat í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum.  Hann áttar sig á því að hann kemst ekkert áfram í slíkum viðræðum nema hann hverfi frá kröfu sinni um framhald  ESB-aðildarviðræðnanna.  

Þótt ESB-aðildarsinnar Samfylkingarinnar séu sannfærðir um að snillingum við stjórn evru-samstarfsins takist að nýta krísuna um þessar mundir til að neyða þjóðir til nánara yfirþjóðlegra samstarfs en áður vita þeir að tal þeirra um ágæti þess að Íslendingar gangi í myntbandalagið um evruna nýtur sífellt minnar fylgis.

Sé tekið mið af afstöðu Norðmanna til ESB, sem ræðst af raunsæju mati þeirra á þróun efnahagsmála á evru-svæðinu, er ekki undarlegt að ESB-aðildarsinnar á Íslandi leggi kapp á að mála stöðuna innan ESB björtum blekkingarlitum. Trúverðugleiki þeirra sjálfra er þeim minna virði en spuni í þágu ESB-málstaðarins.

Fyrir fáeinum dögum birtist skoðanakönnun frá Noregi sem sýnir að 71,1% Norðmanna eru andvígir aðild að Evrópusambandinu, 18,7% vilja aðild og 10,2% taka ekki afstöðu. Helmingur þeirra sem svaraði var spurður eftir að ódæðisverkin voru framin 22. júlí í Ósló og Úteyju. Fyrir ódæðisverkin sögðust 17,1% að þeir vildu aðild að ESB, 73.4% að þeir væru á móti. Eftir 22. júlí sögðust 68,8% á móti en 20,1% með aðild að ESB. Heildarniðurstaðan er því 71,1% á móti, 18,7% með.

Tal ESB-aðildarsinna á Íslandi um evruna og að allt reddist henni í vil er í ætt við málflutninginn um að Íslendingar eigi „rétt“ til að greiða atkvæði um ESB-aðildarsamning.  Málið snúist í raun um þennan „rétt“ en ekki efni hugsanlegs samnings. Það sé skylda þeirra sem ræða við ESB að koma með eitthvað í höndunum sem unnt sé að leggja undir atkvæði. Þessi röksemdafærsla var endurtekin enn einu sinni í Fréttablaðinu 8. ágúst en þar sagði Magnús Þorlákur Lúðvíksson blaðamaður:

„Með því að hylja aðra hliðina er sá sem talar í raun að móta afstöðu þeirra sem hlusta með falsi. Hægt er að kalla slíka hegðun hugmyndafræðilega forsjárhyggju því sá sem talar þykist þess umkominn að taka ákvörðun fyrir alla hina.

Hugmyndafræðileg forsjárhyggja leynist því miður víða í íslenskri stjórnmálaumræðu. Nærtækasta dæmið er sennilega sú algenga skoðun að fráleitt sé að eiga í aðildarviðræðum við ESB enda ekkert þangað að sækja. Það er vitaskuld fráleitt að gefa landsmönnum tækifæri til að segja sitt um málið í þjóðaratkvæðagreiðslu með skýrum valkostum.

Hvatning mín er því þessi: Leyfum þeim sem svona tala ekki að komast upp með það. Bendum á hina huldu hlið þegar hún kemur ekki fram. Biðjum um kostina þegar einungis gallarnir eru taldir upp og öfugt. Treystum fólki til að ákveða sig sjálft.“

Það er einkennilegt að blaðamaður sem segist skrifa grein til að ávíta þá sem „hylja aðara hliðina“ skuli grípa til þess ráðs sjálfur.  Hefði Magnús Þorlákur viljað segja alla söguna hefði hann átt að geta þess að það lá fyrir tillaga um að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort umsóknarskrefið skyldi stigið áður en alþingi samþykkti ályktun um aðildarviðræður við ESB–meirihluti þingheims hafnaði þessari tillögu. Síðan hafa flutningsmenn hennar og málsvarar setið undir gagnrýni eins og þeirri sem Magnús Þorlákur birtir og vitnað er til hér fyrir ofan. Hann segir að þeir séu á móti þjóðaratkvæðagreiðslum!

Þessi þráður í umræðum um ESB-aðildarumsóknina er einhver besta vísbendingin um að aðildarsinnar hafi í raun ekkert efnislegt til málanna að leggja – ESB-umsóknin snýst í þeirra huga um að fá að segja já eða nei um samning en þeir vilja ekki ræða hvað þarf að gerast til þess að samningur náist.  Æskilegt hefði til dæmis verið að  Magnús Þorlákur hefði bent lesendum sínum á kostina við ESB-aðild fyrir Íslendinga.

Í lokin skulu nefndir þrír ókostir við aðild Íslands að ESB:

  1. Verði náð tökum á vanda evrunnar með því að „dýpka“ samstarf ríkjanna þýðir það að alþingi á ekki lengur síðasta orð um ríkisfjármál og efnahagsstefnu Íslendinga.
  2. Íslendingar afsala sér ráðum yfir 200 mílna lögsögu umhverfis land sitt, á um 750 þúsund ferkílómetra svæði.
  3. Vegið er að fæðuöryggi þjóðarinnar með atlögu að íslenskum landbúnaði.

Ekkert samkomulag næst við ESB nema kröfur frá Brussel um þessi þrjú atriði séu samþykktar. Þessa staðreynd vilja ESB-aðildarsinnar hylja. Þeir kjósa þess í stað að tönnlast á „réttinum“ til að kjósa eins og einhver sé á móti honum.