18.7.2011

Þrengingar Murdochs - fjölmiðlaveldi Baugs

Forvitnilegt er huga að umræðum í Bretlandi um stöðu Murdoch-fjölmiðlaveldisins og nota þær sem kvarða á Fréttablaðið þungamiðju Baugsmiðlanna hér landi. Hér á landi er þess krafist að gert sé upp við banka, fjármálafursta og stjórnmálamenn. Hvergi er þess hins vegar getið að huga þurfi að fjölmiðlum, fjölmiðlamönnum og álitsgjöfum eftir bankahrunið. Uppgjör við fjölmiðla og helsta eiganda þeirra fer nú fram í Bretlandi og litið er sviðið allt, ef þannig má orða það, í ljósi atburða sem gerðust 2002. Það var einmitt upphafsár Baugsmálsins og sama ár hóf Baugur umsvif sín í fjölmiðlun. Baugsmálinu er lokið, Baugur er gjaldþrota en samt búum við áfram við Baugsmiðla, fjölmiðlamenn og álitsgjafa frá átakatímum Baugsmálsins sem láta eins og þeir séu „stikkfrí“ þegar rætt er um nauðsynlegt uppgjör. Þeir spilla enn fyrir heiðarlegum og gegnsæjum umræðum vegna augljósrar óvildar í garð einstaklinga.

Philip Sherwell, fréttaritari breska blaðsins The Sunday Telegraph í New York segir að brotthvarf Les Hintons  úr forstjórastóli Murdoch-fjölmiðlasamsteypunnar í Bandaríkjunum sé til marks um að ekki sé allt sem sýnist hjá Murdoch þar í landi. Les Hinton hefur verið nánasti samstarfsmaður fjölmiðlakóngsins í 52 ár.

Hinton var forstjóri News International, hins breska dótturfyrirtækis Murdochs, þegar brotist var inn í síma undir merkjum þess. Hann fluttist í forstjórastólinn hjá News Corp, dótturfyrirtækis Murdochs í Bandaríkjunum og varð útgefandi The Wall Street Journal þegar Murdoch keypti blaðið árið 2007. Þegar The Wall Street Journal sagði frá því að Hinton hefði valið þann kost að segja af sér stóð í frétt þess, að afsögnin væri „skýrasta merkið um að skjálftinn innan fjölmiðlafyrirtækisins teygði sig út fyrir Bretland“.

Í The Sunday Telegraph segir að fjárfestar í Bandaríkjunum hvetji nú Murdoch til að selja leifar dagblaða sinna í Bretlandi eftir að hann hætti útgáfu á News of the World hinn 10. júlí. Hann á enn The Sun, The Times og The Sunday Times í Bretlandi. Samsteypan tapar á The Times og The Sunday Times. Þess vegna munu margir bandarískir hluthafar í Murdoch-samsteypunni ekki harma að blöðin yrðu seld.

Philip Sherwell segir að nú sé lögð höfuðáhersla á varnir bandarískra fjölmiðlahagsmuna Murdochs þar sé um að ræða auk The Wall Street Journals, fréttaþjónustu Dow Jones, The New York Post, götublað í New York, og Fox News kabalsjónvarpsstöðina, sem sé fleinn í holdi vinstrisinna í Bandaríkjunum, þar á meðal stjórnar Baracks Obama, vegna þess hve hún verji málstað íhaldsmanna af mikilli hörku. Þá megi ekki gleyma því að News Corp eigi 27 bandarísk útvarpsleyfi og kvikmyndafyrirtækið 20th Century Fox sem hafi skapað meira en tvo þriðju af 2,5 milljarða dollara hagnaði News Corps árið 2010.

Nú hafa forystumenn demókrata í öldungadeild Bandaríkjaþings og þjóðkunnur fulltrúaþingmaður repúblíkana ritað Eric Holder, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, bréf og hvatt til þess að FBI, bandaríska alríkislögreglan og fjarskiptaeftirlit Bandaríkjanna rannsaki fyrirtækið. Kannað verði hvort rétt sé að blaðamenn News of the World hafi leitað eftir upplýsingum um símtöl í Bandaríkjunum og að breskir einkaspæjarar hafi fengið greitt fyrir upplýsingarnar.

Philip Sherwell segir að nú heyrist meira í andstæðingum Murdochs en áður í Bandaríkjunum, ekki síst þeim sem telja sig eiga pólitískra harma að hefna gagnvart honum. Hann vitnar í Eric Alterman, sem hann segir vera í fremstu röð vinstrisinnaðra álitsgjafa, hann hafi lýst andrúmsloftinu á þennan hátt:

„Litið er á Murdoch í senn sem farsælan slúðurbera og áhrifamikinn andstæðing ráðandi afla í fjölmiðlun og stjórnmálum. Hann er einnig valdamesti einstaklingurinn í öllum greinum fjölmiðlunar og einn hinna fáu sem hefur áhuga á að festa fé í fjölmiðlum.

Fáir blaðamenn vilja því gera á hans hlut og mesta andstaðan kemur frá fólki sem er á öndverðum hugmyndafræðilegum meiði. Nú finnst hins vegar blóðlykt og hann er talinn liggja vel við höggi og þá ganga menn fram á völlinn sem vilja skjóta hinn særða.“

Philip Sherwell segir að meðal stjórnmálamanna og álitsgjafa sé rætt um að beita þeirri aðferð að setja reglur um fjölmiðlaleyfi og eignarhald. Hann telur litlar líkur á að Bandaríkjaþing muni ráðast í að setja ný fjölmiðlalög vegna þessara vandræða Murdochs. Í höfuðstöðvum hans á  Avenue of the Americas í hjarta Manhattan átti menn sig hins vegar vel á því að ekki þurfi ný lög til að fyrirtækið fari á hliðina ef áhorfendur, auglýsendur og stórstirni snúist gegn því, eins og sé að gerast í Bretlandi.

Spennan í umræðum um framtíð Murdochs í Bretlandi jókst til mikilla muna sunnudaginn 17. júlí þegar Ed Miliband, leiðtogi Verkamannaflokksins og stjórnarandstöðunnar, krafðist þess að fjölmiðlaveldi Murdochs yrði splundrað.

Miliband hvatti til samstöðu þingmanna úr öllum flokkum um ný lög um eignarhald á fjölmiðlum sem miðuðu að því að takmarka hlut einstakra eigenda. Í samtali við breska blaðið The Observer sagði Miliband að núgildandi fjölmiðlalög væru úr sér gengin, þeim þyrfti að breyta til samræmis við nýja tíma og nýja tækni.

David Cameron, forsætisráðherra Breta, á í vök að verjast vegna þessa máls alls og enn hefur þrengt að honum eftir að Sir Paul Stephenson, lögreglustjóri í London, sagði af sér vegna ásakana í hans garð fyrir að hafa þegið ókeypis 12.000 punda dvöl á heilsuhæli sem megi tengja Neil Willis sem starfaði á ritstjórn News of the World, en Sir Paul réð Neil Wallis sem ráðgjafa. Í yfirlýsingu í tilefni af afsögn sinni sagði Sir Paul að Wallis hefði ekki hætt á News of the World 2007 eftir að upp komst um símainnbrot þá. Wallis var handtekinn fimmtudaginn 14. júlí en síðan sleppt gegn tryggingu.

Mánudaginn 18. júlí sagði John Yates, aðstoðarlögreglustjóri í London, af sér embætti en hann stóð að því að Nick Wallis var ráðinn til starfa sem almannatengslaráðgjafi fyrir lögregluna.

Andy Coulson, ritstjóri News of the World, varð að hætta eftir hneykslið 2007. David Cameron réð Coulson sem upplýsingafulltrúa sinn. Coulson sagði sig frá störfum í breska forsætisráðuneytinu í janúar 2011. Í afsagnaryfirlýsingu sinni gaf Sir Paul til kynna að tengsl Camerons við Coulson hefðu valdið forsætisráðherranum vandræðum. Hann hefði verið ráðinn til opinberra starfa þótt hann hefði farið frá News of the World vegna hlerunarhneykslis. Coulson var handtekinn á dögunum en sleppt gegn tryggingu.

David Cameron hefur verið spurður hver sé munurinn á því að hann hafi ráðið Coulson og lögreglustjórinn Wallis. Cameron segir að ekki sé unnt að bera þetta tvennt saman. Coulson hafi skilað góðu verki í ráðuneytinu, enginn hafi gagnrýnt störf hans þar. Hann hafi hins vegar ákveðið að segja af sér. Hjá lögreglunni snúist málið um það hvort staðið hafi verið nægilega vel að rannsókn máls.

Ed Miliband, formaður breska Verkamannaflokksins, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, segir sláandi að Sir Paul Stephenson hafi axlað ábyrgð og sagt af sér vegna þess að hann réð undirmann Coulsons i vinnu en forsætisráðherrann hafi ekki einu sinni beðist afsökunar á að hafa ráðið Coulson til starfa hjá sér.

Sumarleyfi breska þingsins átti að hefjast að kvöldi þriðjudags 19. júlí. Nú hefur verið ákveðið að þingið sitji einum degi lengur og hinn 20. júlí flytji David Cameron þingheimi skýrslu um þetta hneykslismál allt. Hinn 19. júlí sitja Rupert Murdoch, sonur hans James og fleiri núverandi og fyrrverandi stjórnendur Murdoch-veldisins fyrir svörum hjá breskri þingnefnd.

Ed Miliband heldur því fram að hneykslið megi allt rekja til þess skorts á ábyrgð sem leiddi á sínum tíma til bankahrunsins og misnotkunar þingmanna á starfsfé sínu. Að hans áliti stafar vandinn af því að sumt valdamikið fólk í samfélaginu telji sig „ósnertanlegt“ og það geti því farið sínu fram á eigin forsendum.

Þegar hugað er að efni þess sem um er að ræða blasir við að málið er tvíþætt. Í fyrsta lagi er talið að starfsmenn News of the World hafi gengið of langt við öflun frétta, blaðamenn eða útsendarar blaðsins hafi rofið friðhelgi fólks. Þetta hafi ekki aðeins verið gert með því að brjótast inn í síma fræga fólksins, konungsfjölskyldunnar og stjórnmálamanna heldur einnig almennings, einkum þeirra sem hafa átt um sárt að binda. Í öðru lagi er gagnrýnt hve greiða leið starfsmenn Murdochs og þá einkum þeir sem voru háttsettir hjá News of the World hafa átt að lögregluforingjum og hve mikinn feng stjórnmálamenn töldu af því að eiga samskipti við fyrrverandi stjórnendur innan blaðsins og í æðstu stjórn Murdoch-veldisins.

Í bók minni Rosabaugi yfir Íslandi fer ég í saumana á fjölmiðlaveldi Baugs. Þar er dregið fram að miðlunum var ótvírætt misbeitt í þágu eigenda sinna. Þrátt fyrir það, ef ekki þess vegna, lögðust stjórnarandstaða og forseti Íslands árið 2004 af öllum þunga á sveif með Baugsmönnum til að tryggja þeim óbeislað eignarhald á eins mörgum fjölmiðlum og þeir vildu – haustið 2008, eftir bankahrun, náðu þeir meira að segja undirtökunum í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins, þá var samkeppniseftirlitinu loks nóg boðið og brá fæti fyrir eignarhaldið.

Fjögur atriði má nefna til að lýsa því hvernig Baugsmenn og fjölmiðlamenn í þjónustu þeirra misnotuðu aðstöðu sína í þágu eigenda blaðsins:


  1.       Baugsmenn kaupa Fréttablaðið með leynd sumarið 2002.  Gunnar Smári Egilsson, ritstjóri blaðsins, hélt nafni hins nýja eiganda leyndu. Ekki var skýrt frá eignarhaldi Baugs á blaðinu fyrr en rétt fyrir þingkosningar í maí 2003.
  2.       Hinn 1. mars 2003 þegar enn hvíldi leynd yfir eignarhaldi Baugsmanna á Fréttablaðinu birti Reynir Traustason, núverandi ritstjóri DV,  glefsur úr fundargerðum stjórnar Baugs frá því snemma árs 2002. Þær áttu að sanna illan hug Davíðs Oddssonar í garð Baugs og ýta undir þá skoðun að lögreglurannsókn á Baugsmönnum væri ekki annað en pólitísk ofsókn. Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnandi Baugs og eigandi Fréttablaðsins, sagðist ekkert skilja í því að brot úr fundargerðum Baugs hefðu borist til Fréttablaðsins.
  3.      Hinn 1. júlí 2005 var Baugsmönnum birt ákæra. Þá hófu þeir í samvinnu lögmenn sína að skipuleggja hvernig unnt væri að birta almenningi ákæruna á þann veg að höggið yrði sem minnst fyrir þá sjálfa. Lögmenn Baugsmanna fóru yfir ákæruna og skrifuðu athugasemdir sínar. Blaðamönnum Fréttablaðsins var falið að ræða við Jóhannes Jónsson í Bónus og Jón Ásgeir, son hans, til að þeir fengju tækifæri til að lýsa málinu frá sínum bæjardyrum. Hannaður var „kálfur“ fyrir þetta efni til birtingar með Fréttablaðinu. Birtingin dróst um margar vikur á meðan leitað var samvinnu við breska blaðið The Guardian og blaðamann þess Ian Griffiths um að skrifa frétt um ákæruna. Hún birtist 12. ágúst 2005 í The Guardian og daginn eftir birtist „kálfurinn“ með Fréttablaðinu í þágu eigenda þess. Við birtinguna í Fréttablaðinu var séð til þess að sleppa þeim hluta ákærunnar þar sem sagt var frá því hvernig Jón Ásgeir notaði kredit-kort. Sigurjón M. Egilsson varði þessa misnotkun á Fréttablaðinu í leiðara blaðsins.
  4.   Hinn 24. september 2005 birti Fréttablaðið tölvubréf sem stolið var frá Jónínu Benediktsdóttur og áttu að mati blaðsins að sanna hinn pólitíska uppruna Baugsmálsins af því að þau sýndu að Styrmir Gunnarsson og Kjartan Gunnarsson ræddu við Jón Steinar Gunnlaugsson, þáv. hæstaréttarlögmann, í þann mund sem hann tók að sér að sinna lögmannsstörfum fyrir Jón Gerald Sullenberger „whistleblower“ eða uppljóstrara um framgöngu Baugsmanna í viðskiptum. Jón Gerald var sakfelldur í Baugsmálinu. Í lögum um sérstakan saksóknara er uppljóstrara veitt skjól sem ekki hefur áður verið í íslenskum sakamálalögum. Sigurjón M. Egilsson sá á ritstjórn Fréttablaðsins um milligöngu vegna hinna stolnu tölvubréfa.

Hið ótrúlega er að enn hneykslast menn á því að talað sé um Baugsmiðla þegar vísað er til Fréttablaðsins. Ekkert íslenskt blað hefur þjónað eigendum sínum á sambærilegan hátt og Fréttablaðið. Ef News of the World hefði gengið erinda eigenda sinna á sama hátt og Fréttablaðið hefur gert hefði blaðið ekki komið út í 168 ár áður en útgáfunni var hætt.

Fréttablaðinu hefur verið beitt í þágu eigenda sinna og þess málstaðar sem þeir telja best þjóna hagsmunum sínum allt frá sumrinu 2002. Í þessu skyni hefur blaðið jafnan barist gegn forystusveit Sjálfstæðisflokksins og í þágu Samfylkingarinnar. Fréttablaðið, Baugur og Samfylking gerðu bandalag vorið 2003 til að koma Davíð Oddssyni og Sjálfstæðisflokknum frá völdum. Blaðinu var einnig beitt í þágu Samfylkingarinnar í kosningunum 2007 og nú er styður það eindregið þá stefnu Samfylkingarinnar að koma Íslandi í Evrópusambandið.

Hið furðulega er að aldrei skuli hafa orðið jafnharðar umræður hér á landi um fjölmiðlaveldi Baugsmanna og áhrif þess og nú eru í Bretlandi um Murdoch-fjölmiðlana. Ef til vill er ástæðan sú sem nefnd hefur verið til sögunnar í Bretlandi að íslenskir fjölmiðlamenn telji starfsöryggi sitt að verulega leyti undir því komið að Baugsmenn haldi áfram að setja fjármuni í fjölmiðlarekstur.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur þykir mikils virði að eiga skjól hjá Fréttablaðinu. Flokkarnir sem að baki henni standa munu ekki gera neitt sem eigendur blaðsins telja ógna hagsmunum sínum og fjölmiðla sinna. Þá berast fréttir af því þegar þetta er skrifað að Jón Ásgeir og Reynir Traustason, ritstjóri og eigandi DV,  hafi nýlega hist á fundi og líklegt sé að Jón Ásgeir komi að því að halda DV  á floti þrátt fyrir tap á rekstrinum. 365, fjölmiðlafyrirtæki Baugs, keypti nýlega hlut í Birtíngi, tímaritaútgáfu Hreins Loftssonar. Hann hefur lengi verið einn lykilmanna í fjölmiðlarekstri Baugs. Þá má geta þess að Sigurjón M. Egilsson heldur úti umræðu- og álitsgjafaþætti á Bylgjunni undir handarjaðri Baugsveldisins.

Leyndarhyggja stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur er annáluð. Hún vill að viðskipti séu gerð á bakvið tjöldin. Sé óhjákvæmilegt að skýra frá þeim er þagað um peningahliðina eins og við söluna á Byr til Íslandsbanka. Þessi leynd yfir því gerist í viðskiptalífinu er þeim að skapi sem reika um rústir Baugsveldisins eða halda enn í leifar þess eins og fjölmiðlana.