20.6.2011

Engin samningsmarkmið gagnvart ESB - að boði Samfylkingarinnar

Hinn 13. júlí 2009, áður en alþingi samþykkti ályktun sem heimilaði ríkisstjórninni að sækja um aðild að ESB, skrifaði ég pistil á vefsíðu mína undir fyrirsögninni:  Bitlaust álit meirihluta utanríkismálanefndar um ESB. Þar rakti ég efni þessa álits sem greinilega var samið af embættismönnum utanríkisráðuneytisins til að auðvelda þeim sem mest samskipti við ESB og losa þá undan því að bera mál undir utanríkismálanefndina og alþingi á viðræðuferlinum.

Nauðsynlegt er að rifja þessa staðreynd upp núna þegar rýnivinnu í samskiptum embættismanna Íslands og ESB lýkur. Eftir aðeins sjö daga hefjast efnislegar viðræður um þau mál sem leiða þarf til lykta með einhvers konar samkomulagi eigi að takast að leggja aðildarmálið undir þjóðina í atkvæðagreiðslu.

Niðurlagsorð þessa pistils míns fyrir tæpum tveimur árum voru á þennan veg:

„Með vísan til álits síns leggur meirihluti utanríkismálanefndar til, að alþingi samþykki eftirfarandi tillögu:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að ESB og að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning. Við undirbúning viðræðna og skipulag þeirra skal ríkisstjórnin fylgja þeim sjónarmiðum um verklag og meginhagsmuni sem fram koma í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar.“

Ályktunin veitir ríkisstjórninni heimild til að sækja um aðild að ESB í fyrri setningunni og í hinni seinni kemur fram, að umsóknin sé ekki skilyrt, þar sem meirihlutinn segir í áliti sínu, að skilyrt umsókn sé ekki við hæfi.

Eftir að Árni Þór Sigurðsson, vinstri-grænn formaður utanríkismálanefndar, hefur staðið að þessu áliti og tillögunni, lætur hann eins og málið snúist um það eitt, að gera þjóðinni kleift að greiða atkvæði um aðildarsamning. Hið sanna er, að Árni Þór hefur blúndulagt leið Össurar og félaga til Brussel og lagt blessun sína yfir gagnrýnisverð vinnubrögð utanríkisráðuneytisins, sem taka of mikið mið af hagsmunum viðmælenda í Brussel.

Að Samfylkingin vilji standa að þessu stórmáli á þann veg, að ekkert komi ESB í vanda vegna krafna Íslendinga, kemur ekki á óvart. Samfylkingin virðist helst vilja ganga umræðulaust í Evrópusambandið og á sem skemmstum tíma, eins og krafan um tafarlausa afgreiðslu alþingis á málinu. Undrunarefnið er, að þingmaður vinstri-grænna skuli hafa forystu um jafn bitlitla stefnumörkun um aðild að ESB og við blasir og leggja sig svo mjög fram um flýta málinu.

Álit meirihlutans er enn til marks um undirgefni vinstri-grænna gagnvart Samfylkingunni.“

Ég fullyrði að ESB-aðildarferlið til þessa hafi verið á þá leið sem lýst er í hinum tilvitnuðu orðum. Nýjasta staðfestingin á því birtist fyrir fáeinum dögum þegar Jón Baldur Lorange, annar stjórnandi þáttarins ESB: Já eða nei á Útvarpi Sögu, sagði á vefsíðunni frá efni samtals við Stefán Hauk Jóhannesson, formann viðræðunefndar Íslands við ESB, í þættinum hinn 19. maí sl.

Stefán Haukur segir réttilega að engin fastmótuð samningsmarkmið liggi fyrir af Íslands hálfu í viðræðunum um efnistatriðin sem hefjast 27. júní nk.  Hann bætir því síðan við að það sé verkefni viðræðunefndarinnar undir forystu hans að semja þessi markmið. Stefán Haukur segir:

„Við [viðræðunefndin] erum í samningaviðræðum. Meirihlutaálit Alþingis leggur línurnar um það sem við eigum að setja fram sem markmið. Það er þáttur í okkar vinnu einmitt að útfæra þessi markmið og gera að samningsmarkmiðum og byggja undir þau með gögnum og rökum. Við þurfum að sannfæra ESB með okkar gögnum og rökum að það sé nauðsynlegt að taka tillit til okkar séraðstæðna. Og það er okkar samningsmarkmið.“

Ég orðaði það þannig 13. júlí 2009 að með áliti meirihluta utanríkisnefndar alþingis hefðu Árni Þór og félagar „blúndulagt leið Össurar og félaga til Brussel og lagt blessun sína yfir gagnrýnisverð vinnubrögð utanríkisráðuneytisins, sem taka of mikið mið af hagsmunum viðmælenda í Brussel“.  Réttmæti þessara orða hefur skýrst stig af stigi og staðfestist endanlega þegar formaður viðræðunefndarinnar telur utanríkismálanefnd þingsins hafa veitt sér umboð til að móta samningsmarkmiðin.

Því miður hefur viðræðuferlið leitt í ljós að undir forystu Árna Þórs Sigurðssonar hefur alþingi reynst algjörlega máttvana sem aðhaldsvettvangur á framkvæmdavaldið í ESB-málinu. Þá hefur stjórnarandstaðan ekki þrýst nægilega á upplýsingamiðlun um málið og ekki „tekið slaginn“ á þann hátt sem nauðsynlegt er til að brjótast inn fyrir þagnarmúrinn sem ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar hafa reist til að leyna raunverulegu eðli samskiptanna við ESB. Andvaraleysi stjórnarandstöðunna birtist hvað best á sameiginlegum fundi þingmanna ESB og alþingis sl.vor þegar fyrir lá sem sameiginleg tillaga, plagg sem var þannig úr garði gert að ákveðið var að leggja það til hliðar í stað þess að stofna til opinbers ágreinings eins og eðlilegt hefði verið.

Á Þorláksmessu, 23. desember 2008, olli Stefán Jóhann Stefánsson, þáverandi varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar, uppnámi innan flokksins með grein í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni: ESB-stefna Samfylkingar?  Þar rakti hann hvernig staðið hafði verið að stefnumótun flokksins í Evrópumálum á árunum 2002-2003.

Haustið 2003 markaði Samfylkingin stefnu sína í Evrópumálum með eftirfarandi samþykkt:

„Samfylkingin ákvað á stofnfundi sínum vorið 2000 að gera heildstæða úttekt um tengsl Íslands og Evrópusambandsins. Á grunni víðtækra upplýsinga tók síðan almennur flokksfélagi í Samfylkingunni ákvörðun í sögulegri kosningu haustið 2002 um að setja aðildarumsókn að Evrópusambandinu á stefnuskrá flokksins á grundvelli skilgreindra samningsmarkmiða. Í ljósi áhrifaleysis og einstakra milliríkjamála verður æ ljósara að erfitt verður að byggja á EES-samningnum til frambúðar.

Samfylkingin mun því stofna sérstakan 9 manna málefnahóp um Evrópumál sem m.a. skoði ávinning Íslands af aðild að Evrópusambandinu, skilgreini hver helstu samningsmarkmið eigi að vera við aðildarumsóknina, meti stöðu EFTA og EES-samningsins og greini áhrif evrunnar á íslenskt efnahagslíf.“

Stefán Jóhann sagðist hafa verið skipaður í þennan 9 manna málefnahóp til að skilgreina „helstu samningsmarkmið“ við umsókn um aðild að ESB. Í desember 2008 vissi hann ekki til þess að hópurinn hefði nokkru sinni komið saman. Stefán Jóhann sagði:

„Þjóðin veit því enn ekkert um hvað Samfylkingin vill semja, þ.e. hver stefna hennar sem flokks er þegar kæmi að því að semja.“

Sama dag og grein Stefán Jóhanns birtist í Morgunblaðinu var rætt við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, þáv. formann Samfylkingarinnar og utanríkisráðherra á Stöð 2. Hún sagði meðal annars:

„Ég er nú ekki sammála honum [Stefáni Jóhanni] því að það hefur verið mikil Evrópuumræða í flokknum árum saman raunar og fyrir síðustu kosningar þá var tekin heilmikil atrenna að þessum málum og m.a. var vinnuhópur sem að vann í því að móta samningsmarkmiðin og í honum voru fjölmargir einstaklingar sem að hafa mikla þekkingu á málaflokknum.“

Í stefnuskrá Samfylkingarinnar fyrir alþingiskosningarnar 2007 stóð samkvæmt heimasíðu flokksins:

„Samfylkingin vill að utanríkisstefna þjóðarinnar verði mótuð í ljósi þjóðarhagsmuna og sé sæmandi sjálfstæðri þjóð. Sótt verði um aðild að Evrópusambandinu og aðildarviðræður hafnar. Unnið verði að víðtækri samstöðu um samningsmarkmið og niðurstöður bornar um þjóðaratkvæði.“

Í stefnu fyrir kosningar 25. apríl 2009 minnist Samfylkingin ekki á samningsmarkmið gagnvart ESB heldur segir:

„Liður í því [að skapa þjóðarsátt um ábyrga efnahagsstjórn] er að hefja sem fyrst aðildarviðræður við Evrópusambandið og leggja að þeim loknum samningsniðurstöðu fyrir þjóðaratkvæði. Að viðræðum við ESB skal koma samráðshópur hagsmunaaðila, þar á meðal fulltrúar atvinnuveganna og launafólks, samtaka sveitarfélaga og umhverfis- og jafnréttissamtaka.“

 

 

Niðurstaða

Þegar þetta er tekið saman er niðurstaðan þessi:

Forystumenn Samfylkingarinnar létu undir höfuð leggjast að leita samstöðu innan eigin flokks um samningsmarkmið í aðildarviðræðum við ESB.

Samfylkingin lofaði því fyrir kosningar 2007 að vinna að víðtækri niðurstöðu um samningsmarkmið í viðræðum við ESB.

Samfylkingin vann ekki að neinni sátt um samningsmarkmið gagnvart ESB í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum frá því í maí 2007 til 1. febrúar 2009.

Fyrir kosningar 2009 nefndi Samfylkingin ekki samningsmarkmið í stefnu sinni en talaði þess í stað um „samráðshóp hagsmunaaðila“, enginn slíkur hópur hefur verið skipaður.

Vinstri-grænir samþykktu fyrir kosningar 2009 að mynda stjórn með Samfylkingunni og láta henni eftir að leiða ESB-málið á grundvelli umsóknar sem alþingi samþykkti.

Vinstri-grænir fengu formann utanríkismálanefndar alþingis með því skilyrði að stefna Samfylkingarinnar í málefnum ESB og NATO réði ferðinni.

Embættismenn utanríkisráðuneytisins sömdu bitlaust álit meirihluta utanríkismálanefndar alþingis um ESB-aðildarumsóknina með það fyrir augum að mótun samningsmarkmiða í ESB-virðræðunum yrði í þeirra höndum.

Enn hafa engin samningsmarkmið Íslands í viðræðum við ESB verið mörkuð. Alþingismenn láta það viðgangast að þau komi til sögunnar án þess að efni þeirra sé borið undir þá.

Samningsmarkmið Íslands verða mótuð af viðræðunefnd Íslands með hliðsjón af þeim vilja hennar og Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra að ekki skerist í odda milli nefndarinnar og fulltrúa ESB.

Þetta eru lýðræðislegir stjórnarhættir í anda embættismanna Evrópusambandsins.  Utanríkisráðuneyti Íslands hefur lagað sig fullkomlega að þeim.  Alþingi Íslendinga spilar með í anda hins áhrifalitla ESB-þings.