25.5.2011

Rosabaugi dreift í bókabúðir
Í dag er bók minni Rosabaugur yfir Íslandi dreift í bókabúðir. Ég ákvað að ráðast í að skrifa hana eftir að ég hafði kynnt mér skýrslu rannsóknarnefndar alþingis og þó sérstaklega siðfræðikafla hennar og sá að ekki var minnst á Baugsmálið en á hinn bóginn býsnast yfir því að hér á landi hefði í aðdraganda hrunsins ráðið pólitísk stefna sem kenna mætti við „hugmyndafræði eftirlitsleysisins“. Þótti mér þessi kenning undarleg í ljósi alls þess sem gerðist á árunum 2002 til 2008 eða frá upphafi til loka Baugmálsins.
Rosabaugur_Kapa_HiRes

Frá því að hæstiréttur felldi dóm í Baugsmálinu 5. júní 2008 hafði ég verið þeirrar skoðunar að í raun væri óhjákvæmilegt að taka saman yfirlit yfir þetta margrædda mál. Ég taldi það ekki aðeins hafa snúist um lögreglurannsókn og málaferli heldur miklu meira. Það væri til marks um mikil umbrot í samfélaginu með átökum utan og innan réttarsalarins.  Með því að rekja sögu málsins mætti bregða ljósi á álita- og viðfangsefni sem hyrfu ekki þótt Baugsmálinu lyki.

Á meðan ég gegndi embætti dómsmálaráðherra ræddi ég um það við samstarfsmenn mína í ráðuneytinu að vegna framtíðarinnar yrði ómetanlegt fyrir ráðuneytið og þá sem kæmu að einhverju svipuðu að eiga greinargerð um þau atvik sem settu svip sinn á Baugsmálið. Lögfræðingar mundu huga að lögfræðilegum álitaefnum og um þau yrði deilt í réttarsalnum í ljósi þess hvernig dómarar hefðu tekið á málinu. Aðrar hliðar málsins væru ekki síður þess virði að geta kynnt sér þær en til þess yrði að taka saman sögu þess. Þá sá ég fyrir mér að ráðuneytið fengi einhvern til þess að skrifa skýrslu sem yrði í skjölum ráðuneytisins.

Ég bjó mig undir að hætta sem dómsmálaráðherra um áramótin 2008/2009. Um það höfðum við Geir H. Haarde rætt í maí 2007 þegar ákveðið var að ég sæti áfram sem dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Í lok janúar 2009 sleit Samfylkingin stjórnarsamstarfi við okkur sjálfstæðismenn og síðustu mánuði mína sat ég í stjórnarandstöðu á þingi í fyrsta sinn frá því ég náði þar kjöri vorið 1991.

Eftir kosningar 25. apríl 2009 réð ég tíma mínum sjálfum.  Þá ákvað ég að snúa mér að því að taka saman efni um Baugsmálið til að glöggva mig á gangi þess. Í heilt ár eða fram til þess að skýrsla rannsóknarnefndar alþingis birtist í apríl 2010 safnaði ég efni og velti fyrir mér hvernig ég ætti að nýta það.

Eins og áður sagði varð þögnin í skýrslu rannsóknarnefndar alþingis um þessa hörðu baráttu opinberra eftirlitsmanna við Baugsmenn til þess að ég ákvað að stíga næsta skref og raða efninu saman með bók í huga. Fyrstu drög að henni urðu til þegar við Rut dvöldumst í frönsku Ölpunum sumarið 2010. Á meðan hún tók þátt í tónlistarhátíð sat ég í matsal lítils fjallahótels og dró efnið saman í fjórtán kafla.

Undir lok ágúst sendi ég það sem ég taldi þá viðunandi handrit til stórs útgefanda. Spurði ég hvort hann hefði áhuga á að gefa út bók byggða á handritinu. Þegar ég lít til baka fagna ég því að hann skyldi strax hafna handritinu.  Hefði hann sagt já og sú útgáfa sem hann hafði í höndum hefði birst sem bók sæti ég í raun uppi með hálfunnið verk. Á nýliðnum vetri batnaði handritið við hverja yfirferð og á lokastigum þess fékk ég þau ráð frá mér reyndari mönnum að skipta því styttri kafla og nú eru þeir 64.

Vinur minn Jakob F. Ásgeirsson sem rekur bókafélagið Uglu féllst á ósk mína um að verða útgefandi bókarinnar. Við höfum unnið saman í nokkur ár eftir að hann hratt tímaritinu Þjóðmálum af stokkunum.

Þegar handritinu var hafnað í lok ágúst 2010 sagði útgefandinn að hann hefði ekki áhuga af því að þar birtist ekki neitt um Baugsmálið sem gerðist á bakvið tjöldin. Ég hef oft velt þessum orðum fyrir mér, þau drógu athygli mína að því að enn teldu menn að eitthvert leynimakk hefði verið í kringum Baugsmálið af hálfu stjórnvalda. Ég get ekki sagt frá neinu í bók minni sem gerðist á bakvið tjöldin og lýtur að Baugsmálinu, því að mér er ekki kunnugt um neitt slíkt.

Bók mín er reist á opinberum heimildum. Gildi hennar felst í því að þessar heimildir eru dregnar saman á einn stað og þá blasir við mynd af einstæðum stjórnmála-, viðskipta- og fjölmiðlaátökum vegna ákæru gegn ráðandi mönnum í viðskipta- og fjármálalífinu.  Staðreyndum er raðað saman og dregnar ályktanir.  

Hin stóra pólitíska mynd sem við blasir og reist er á staðreyndunum fellur ekki að því sem helst er hampað í opinberum umræðum. Á þann hátt er bókin til þess fallin að lýsa því sem er á bakvið tjöldin af því að margir forðast að ræða það fyrir opnum tjöldum.

 Bókina er unnt að kaupa á netinu í Bókaverslun Andríkis.