Seðlabankinn, Samherji og evrurnar
Augljóst er hvert stefnir undir stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar. Efnahags- og atvinnulífið færist sífellt í meiri fjötra. Fram til 9. apríl létu stjórnarherrarnir í veðri vaka að þrengingarnar mætti rekja til þess að Icesave-málið væri óleyst. Það drægi úr áhuga erlendra fyrirtækja, einkum evrópskra, á því að festa fé í atvinnustarfsemi á Íslandi. Að sjálfsögðu voru þetta ósannindi eins og annað sem frá ríkisstjórninni kemur.
Seðlabanki Íslands tók virkan þátt í því með ríkisstjórninni að hræða þjóðina frá því að hafna Icesave-lögunum. Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, sagði á ársfundi bankans tveimur dögum fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna:
„Þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave-samninginn um næstu helgi gæti auðvitað sett strik í þennan reikning. Verði niðurstaðan já munu haftaafnám og lántökur ríkissjóðs ganga fram eins og áformað er. Ef Icesave-samningnum verður hafnað eru hins vegar vísbendingar um að stóru bandarísku matsfyrirtækin tvö ákveði að setja lánshæfismat ríkissjóðs niður í spákaupmennskuflokk. Þá verður þyngra fyrir fæti varðandi erlenda lántöku ríkissjóðs og framgangur áætlunar um afnám gjaldeyrishafta myndi af þeim sökum ganga hægar. Óvissa er hins vegar um hversu sterk og langvinn þessi áhrif yrðu.“
Ekkert af þessu hefur gengið eftir annað en dauðahald seðlabankans í gjaldeyrishöftin. Bankinn notar þau og misnotar til að hlutast til um það sem lýtur duttlungum bankastjóra hverju sinni eins og sannaðist í afskiptum Más af sölu Sjóvár á síðasta ári. Þá kalla höftin á afturhvarf og afskiptasemi af ákvörðunum stjórnenda fyrirtækja, sem enginn hefur ímyndað sér að gætu komið að nýju til sögunnar á Íslandi.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, lýsir því á vefsíðu fyrtirtækisins 28. apríl hve mikinn tíma og mannafla það kostaði Samherja og Ice Fresh Seafood, sölufélag fyrirtækisins, að fá að nýta eigin gjaldeyri til að kosta för starfsmanna á árlega sjávarútvegssýningu í Brussel.
Þorsteinn Már segir, að um langt árabil hafi Ice Fresh Seafood og Samherji tekið erlenda mynt út af reikningum sínum fyrir starfsmenn sem fari á Brussel-sýninguna. Nú sé öldin önnur og þegar þegar fyrirtækin hafi óskað eftir að taka jafngildi 7.400 evra (1,2 m. ISK) út af eigin reikningi í farareyri handa starfsmönnum Ice Fresh Seafood, sem velti 150.000.000 evrum árlega eða 26 milljörðum íslenskra króna, hafi komið í ljós að í landinu sé virkt og öflugt gjaldeyriseftirlit.
Fjármálastjóri Ice Fresh Seafood óskaði árangurslaust eftir að fá að taka 7.400 evrur úr tveimur íslenskum bönkum. Fyrirtækjunum var boðið að selja eigin evrur og leggja andvirðið í íslenskum krónum inn á reikning starfsmanna, en einungis ef þeir áttu launareikning í viðkomandi útibúi! Starfsmennirnir máttu síðan hver og einn fara í bankann og kaupa sér evrur fyrir andvirðið gegn framvísun farseðils. Fjármálastjóranum hugnaðist ekki þessi leið og sótti að lokum formlega um undanþágu til Seðlabanka Íslands vegna 7.400 evra með tilheyrandi bréfaskriftum.
Þorsteinn Már segir að umsóknarferlið hafi spannað tvo vinnudaga og ekki hafi „færri en 13 starfsmenn fjögurra fyrirtæka og stofnanna“ komið að verkefninu. Hann telur að varlega áætlað hafi þeir samtals notað meira en 15 vinnustundir til að fá heimild fyrir að taka út eigin evrur til eigin nota. Tvö formleg bréf voru skrifuð auk fjölda tölvupósta og tuga símtala. Að lokum rituðu Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóra, og Þuríður Árnadóttir, staðgengill forstöðumanns galdeyriseftirlitsins, bréf þar sem segir:
„Að virtri beiðni ... þ.m.t. tilgangi hennar, þeirrar fjárhæðar sem um er að ræða, þeim hagsmunum sem eru í húfi, þeim gögnum sem beiðninni fylgdu og þeim sjónarmiðum sem lögð eru til grundvallar af hálfu [seðla]bankans við mat á henni, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga um gjaldeyrismál, er það niðurstaða Seðlabankans að fallast á beiðnina og er félögunum [Samherja og Ice Fresh Seafood] saman veitt heimild til úttektar á gjaldeyrisreikningi að fjárhæð 7.270 evrur og 150 sterlingspund.“
Þorsteinn Már segir í lok frásagnar sinnar:
„Að undanförnu hefur verið fjallað nokkuð um starfsumhverfi fyrirtækja á Íslandi. Er óeðlilegt í því sambandi að maður spyrji sig: Er hagkvæmt að reka alþjóðlegt sölu- og markaðsfyrirtæki á Íslandi ef það tekur tvo daga að taka út farareyri af reikningi fyrirtækis, handa starfsmönnum þess?“
Svarið við spurningu Þorsteins Más er að sjálfsögðu: Nei!
Á Íslandi situr hins vegar ríkisstjórn sem lítur þannig á, ef marka má orð efnahags- og viðskiptaráðherra hennar, Árna Páls Árnasonar, að annað hvort gangi Ísland í Evrópusambandið og taki upp nýja mynt eða þeir stjórnarhættir verði áfram í landinu að stjórnendur Seðlabanka Íslands sitji við að rýna í umsóknir um gjaldeyri eða að telja aflandskrónur til að tryggja efnahag þjóðarinnar og styrkja undirstöður atvinnulífsins.
Baunateljarar Seðlabanka Íslands munu ekki skapa störf fyrir aðra en sjálfa sig. Steingrímur J. Sigfússon segir að það sé ekki hlutverk ríkisstjórnarinnar að skapa störf, hún hefur nóg með sjálfa sig. Hvað hefur Jóhanna Sigurðardóttir sagt um ný störf?
Jóhanna varð forsætisráðherra 1. febrúar 2009 með þau orð á vörunum að nú yrðu hendur látnar standa fram úr ermum.
Í mars 2009 lofaði Jóhanna 4000 ársverkum, á næstu misserum.
Í apríl 2009 lofaði Jóhanna 6000 störfum (þar af 2000 í orkufrekum iðnaði).
Í október 2010 lofaði Jóhanna 3000-5000 störfum, á næsta ári.
Í mars 2011 lofaði Jóhanna 2300 ársverkum, fljótlega.
Nú blasa við allsherjarverkföll vegna þess að Jóhanna og Steingrímur J. ráða ekki við hlutverk sitt þegar kemur að kjaraviðræðum frekar en í Icesave-málinu. Í seðlabankanum sitja menn sveittir yfir galdeyrisumsóknum og velta fyrir sér til hvers fordæmið vegna Samherja kunni að leiða. Ætli þeir fari þess ekki á leit við alþingi að reglurnar verði hertar svo að alls ekki sé heimild til að svara beiðnum á borð við þá sem hér hefur verið lýst játandi?