Í tilefni af kynningu á ESB-viðræðunum
Í dag, miðvikudag 6. apríl, hlustaði ég á fyrirlestur Stefáns Hauks Jóhannessonar, formanns viðræðunefndar Íslands gagnvart ESB, í Rótarýklúbbi Reykjavíkur. Hann gerði grein fyrir stöðu aðildarmálsins frá sínum sjónarhóli. Eins og við var að búast snerist fyrirlesturinn nær einvörðungu um tæknileg atriði. Hvorki var um lýsingu á hinum pólitíska veruleika málsins hér á landi né stöðunni innan Evrópusambandsins að ræða.
Eftir fyrirlesturinn velti ég fyrir mér hvaða tilgangi kynning af þessu tagi þjónar. Stefán Haukur sagði að ræða sín væri flutt til að stuðla að upplýstri umræðu. Ekkert af því sem hann sagði var í raun til þess fallið að upplýsa nokkurn skapaðan hlut sem ekki liggur ljós fyrir lesi menn vefsíðu utanríkisráðuneytisins um skipan viðræðunefndar, rýniferlið, málaflokkana og svo framvegis.
Málflutningur Stefáns Hauks bar hins vegar með sér að hann lítur á það sem hlutverk sitt að ná niðurstöðu og leggja „samning“ fyrir þjóðina til atkvæðagreiðslu. Kristján Ragnarsson, fyrrverandi forystumaður hjá LÍÚ, spurði lykilspurningar á fundinum, þegar hann vildi vita, hvort ekki gæti komið til þess að svo mikið bæri á milli íslensku viðræðunefndarinnar og ESB, að ekki yrði unnt að ljúka samningi. Þess vegna yrði ekkert lagt fyrir þjóðina.
Af viðbrögðum Stefáns Hauks mátti helst ætla, að hann hefði aldrei velt þessum kosti fyrir sér, sem þó er raunhæfur þegar til þess er litið að ríkisstjórnin er klofin í málinu. Jón Bjarnason ber sem ráðherra ábyrgð á tveimur meginþáttum viðræðnanna, það er sjávarútvegsmálum og landbúnaðarmálum. Hann er á móti aðild og þar með að samið verði við ESB.
Helst var að skilja á Stefáni Hauki að ágreiningur innan ríkisstjórnarinnar væri eitthvað sem ekki snerti hann, því að hann starfaði í pólitísku umboði utanríkisráðherra sem færi að íslenskri stjórnskipan með forræði mála gagnvart öðrum þjóðum. Þá hefði viðræðunefndin umboð frá meirihluta utanríkismálanefndar sem hefði gefið „gagnmerkt“ álit um hvert skyldi stefna í viðræðunum.
Ætíð þegar hann nefndi ágreiningsefni milli Íslands og ESB lét hann eins og það hlyti að verða unnt að finna leið til samninga. Nóg væri að kafa ofan í lausnir annarra þjóða til að finna fordæmi sem mætti nota til að brúa bil Íslands og ESB. Að vísu mátti skilja á honum að hann teldi nauðsynlegt að fara aftur til utanríkismálnefndar og fá hana til að breyta umboði sínu til dæmis varðandi rétt Íslands sem strandríkis á Norður-Atlantshafi af því að krafa um þann rétt samrýmdist ekki skilyrðum ESB.
Stefán Haukur leyndi ekki þeirri skoðun við alla framsetningu sína að hann telur sjálfsagt og eðlilegt að Ísland og ESB nái saman um ágreiningsmál sín. Hann túlkar niðurstöður skoðanakannana þannig að hann hafi umboð þjóðarinnar til að ljúka samningi. Þjóðin vilji að það verði gert og samningurinn borinn undir hana.
Enginn sem hlustaði á Stefán Hauk gat varist þeirri hugsun að hann vildi Ísland inn í ESB. Hann liti á það sem verkefni sitt að búa þannig um hnúta að þjóðin féllist á þá niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Ég varð fyrir vonbrigðum með þessa kynningu vegna þess að hún var án allra tengsla við raunveruleikann hér og landi og innan Evrópusambandsins. Hún tók ekkert mið af ágreiningi innan ríkisstjórnarinnar og á engan hátt var leitast við að lýsa hinum miklu umbrotum sem eru innan Evrópusambandsins. Fyrir því má færa rök að það sé annars konar Evrópusamband nú en það sem var sumarið 2009, þegar sótt var um aðild.
Eins og við er að búast, þegar við völd situr ríkisstjórn undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur þar sem alla pólitíska forystu skortir og hver höndin er upp á móti annarri við ríkisstjórnarborðið, innan stjórnarflokkanna og milli þeirra, forðast embættismaður að tala um annað en tæknileg atriði með persónulegum innskotum. Að þannig skuli háttað máli sem snertir hagsmuni þjóðarinnar jafnmikið og ESB-aðildin er mjög alvarlegt.
Verði haldið áfram á sömu braut endar ESB-málið í sömu ógöngum og Icesave-málið þar sem ekki hefur verið um aðra pólitíska forystu að ræða en þá sem snýr að því að skáka andstæðingum innan lands. Ráðherrar í ríkisstjórn Íslands hafa aldrei tekið Icesave-slaginn á erlendum vettvangi. Þeir leggja auk þess allt á sig sem þeir mega til að ekki sé látið reyna á rétt Íslendinga gagnvart kröfum Breta og Hollendinga.
Afstaða utanríkisráðherra í garð ESB einkennist af því að gera sambandinu til hæfis en ekki árétta íslensk sjónarmið. Stefán Haukur minntist til dæmis ekki einu orði á makríldeiluna og hótanir ESB um refsingar verði ekki farið að vilja þess í því máli. Um áramótin lét hann eins og Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB, hefði verið með vinarhót þegar hún boðaði refsiaðgerðir gegn Íslendingum.
Eftir að hafa hlustað á fyrirlestur Stefáns Hauks Jóhannessonar styrktist sú skoðun mín, að það eigi að gera hlé á viðræðunum við ESB og ekki taka þær upp að nýju fyrr en ítarleg pólitísk umræða hefur farið fram um málið. Að hafa það í þeim tæknilega embættisfarvegi sem Stefán Haukur lýsti er óskynsamlegt svo að ekki sé sagt þjóðhættulegt við núverandi aðstæður.