4.4.2011

Samþykkt Icesave III magnar ofríki Steingríms J.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, hefur stofnað til deilu við fjölmiðla með því að neita að afhenda þeim upplýsingar um kostnað við Icesave III samningana. Hann hefur sett á svið leikrit með þátttöku samflokksmanns síns Björns Vals Gíslasonar og Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, forseta alþingis, til að komast hjá því að svara spurningum um þennan kostnað fram yfir þjóðaratkvæðagreiðsluna  9. apríl nk.

Höfuðatriði málsins eru þessi: Fyrirspurnir berast til fjármálaráðuneytis frá Morgunblaði og RÚV um kostnað við gerð Icesave III. Þegar Steingrímur J. hefur engin efnisleg rök fyrir að neita að svara, felur hann Birni Vali að leggja fyrir sig munnlega fyrirspurn á alþingi. Eftir að hún kemur fram neitar Steingrímur J. að svara fjölmiðlum á undan Birni Vali. Þegar fyrirspurnin hefur verið sett á prentaða dagskrá þingsins kippir forseti alþingis henni þaðan á brott og boðar að hún komi aftur á dagskrá 11. apríl, það er eftir þjóðaratkvæðagreiðslu. Fjölmiðlar sitja án svara og þingheimur lætur sér þetta lynda enda samþykktu tveir þriðju þingmanna Icesave III, illu heilli.

Á öllum þeim árum sem ég sat í ríkisstjórn kom engum ráðherra leikflétta af þessu tagi til hugar í því skyni að skjóta sér undan því að svara fyrirspurn fjölmiðla eða á alþingi.  Ég tel að það hafi ekki aðeins þurft einbeittan vilja til að skjóta sér undan svari heldur klókan mann í laga- og regluflækjum til að búa til þessa fléttu. Ósvífnin í henni er svo dæmalaus, að hún sýnir enn og aftur að Steingrími J. Sigfússyni er ekkert heilagt telji hann ráðherravöldum sínum ógnað.

Telji ráðherra sér sæma að leggjast svona lágt til að skjóta sér undan lögboðinni skyldu að miðla upplýsingum til fjölmiðla og þar með almennings, vakna spurningar um hvaða ráðum hann beiti til að koma fram vilja sínum, þegar áhugi fjölmiðla beinist ekki að honum. Hvernig talar hann til samflokksmanna svo að ekki sé minnst á andstæðinga? Hverju er hótað? Hvaða blekkingum er beitt?

Í nýjasta hefti tímaritsins Þjóðmála er sagt frá því og í raun rakið frá degi til dags hvernig Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, hafði í hótunum og setti á svið leikrit til að eyðileggja auglýst og opið söluferli Sjóvár. Augljóst er að þetta hefði hann aldrei gert án vitundar og vilja Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, sem á hæpnum forsendum setti tæpa 12 milljarða króna af skattfé almennings í Sjóvá. Þegar Steingrímur J. er spurður um þessar opinberu fjármálasviptingar svarar hann út í hött.

Steingrímur J. svaraði einnig út í hött þegar hann var spurður um breytingartillögu á lögum um kjaradóm til að unnt yrði að hækka laun Más Guðmundssonar sumarið 2010. Tillögu sem Steingrímur J. flutti sjálfur.

Ósvífni á borð við þá sem Steingrímur J. sýnir þegar hann er spurður um Icesave III réð miklu um að Lilja Mósesdóttir og Atli Gíslason sögðu skilið við þingflokk vinstri-grænna.  Margrét Frímannsdóttir, sem var lykilmanneskja við stofnun Samfylkingarinnar, lýsir í endurminningum sínum hve Steingrímur J. sýndi henni mikinn hroka og óvild á lokadögum Alþýðubandalagsins.

Hér skal ekki fleira tíundað af þessu tagi, þótt af mörgu sé að taka.  Þó get ég ekki látið hjá líða að minnast þess þegar Steingrímur J. öskraði að mér þar sem ég stóð í ræðustól alþingis. „Étt‘ann sjálfur.“ Gekk hann þá ógnandi að ræðustólnum, starði á mig hatursaugum og lagði síðan hendur á Geir H. Haarde, forsætisráðherra, þar sem hann sat í stól sínum í þingsalnum. Maður sem hagar sér þannig á erfitt með að hemja heift sína og er tilbúinn að beita þeim ráðum sem hann telur sér henta til að ná sínu fram. Tvískinnungurinn er hins vegar aldrei langt undan eins og þegar hann hafði greitt atkvæði með því að ákæra Geir H. Haarde og senda hann fyrir landsdóm en sagði síðan í beinni útsendingu að hann hefði gert það með „sorg í hjarta“ eins og um nauðungarverk hefði verið að ræða.

Ofríkið gagnvart öðrum er aðeins önnur hlið stjórnmálamannsins Steingríms J. Sigfússonar. Hin er ekki betri sem snýr að sviksemi hans við þann málstað sem hann segist fylgja. Skýrast hefur þetta birst í stuðningi hans við ESB-aðildarumsókn Íslands. Þótt hann segist á móti aðild stígur hann aldrei neitt skref gegn henni sem fjármálaráðherra.

Þótt Steingrímur J. segðist vera á móti samningi um Icesave í stjórnarandstöðu hefur hann beitt sér fyrir þremur Icesave-samningum og aldrei hörfað frá þeirri línu sem hann og Svavar Gestsson mótuðu með Icesave I. Þá „nennti“ Svavar ekki að sitja lengur að viðræðum um málið. Steingrímur J. og Jóhanna ætluðu að lauma málinu í gegnum alþingi.

Steingrímur J. segist andvígur aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu (NATO) samt situr hann í ríkisstjórn sem samþykkti nýja grunnstefnu bandalagsins 19. nóvember 2010. Þá segist hann á móti því að NATO stjórni hernaði gegn Líbýu, samt situr hann í ríkisstjórn sem samþykkir slíkan hernað.

Steingrímur J. hefur komist upp með að hækka hér skatta í samræmi við stefnu sem hann og Svavar Gestsson boðuðu á strax á tíma Alþýðubandalagsins, samt er látið eins og þessar hækkanir og stöðnunin sem þeim fylgir sé vegna bankahrunsins. Nú vill hann Icesave til að fá enn nýja ástæðu til að hækka skatta.

Öll þessi pólitísku viðhorf blasa við þingmönnum og þjóðinni. Vegna þeirra vekur enn meiri undrun en ella að stjórnarandstöðuþingmenn og þó einkum þeir sem sitja á alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn skuli hafa hlaupið undir Icesave-okið með Steingrími J. í stað þess að láta það á herðar þeirra sem eiga að fjalla um réttmæti þess, dómstólunum.

Hvort sem menn vilja viðurkenna það ekki er augljóst að með því að segja já við Icesave-lögum Steingríms J. eru þeir að leggja blessun sína yfir forkastanlega stjórnarhætti. Steingrímur J. mun aðeins færast í aukana komist hann upp með Icesave III.  Hann telur sig hafa í fullu tré við þingheim eftir Icesave-atkvæðagreiðsluna þar eins og leikrit hans og Björns Vals til að leyna kostnaði við gerð Icesave III sýnir. Bregði þjóðin ekki fæti fyrir Icesave III lög Steingríms J. er það ekki aðeins ávísun á hærri skatta og óviðunandi skuldastöðu ríkissjóðs heldur einnig á enn frekara ofríki af hálfu stjórnmálamanns sem svífst einskis til að halda í völd sín.