6.3.2011

Frá greiningardeild til forvirkra rannsóknarheimilda lögreglu


 

Snemma árs 2006 beitti ég mér fyrir breytingum á lögreglulögum. Í þeim fólst meðal annars að komið var á fót greiningardeild við embætti ríkislögreglustjóra. Í febrúar 2006, áður en frumvarp mitt um þetta efni hafði verið kynnt þingflokkum ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hófu þingmenn stjórnarandstöðunnar að gera hugmyndina um greiningardeild tortryggilega. Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar, reið á vaðið  laugardaginn 4. febrúar 2006 með aðstoð Baugssjónvarpsstöðvarinnir NFS, þar sem Róbert Marshall, síðar samflokksþingmaður Björgvins G. í suðurkjördæmi var meðal hæstráðenda.

Fréttin í NFS vakti áhuga Ögmundar Jónassonar, þingmanns vinstri-grænna, og mánudaginn 6. febrúar 2006 spurði hann mig um málið á alþingi undir dagskrárliðnum óundirbúnar fyrirspurnir. Í þingtíðindum má lesa eftirfarandi orðaskipti:

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Í fjölmiðlum hefur komið fram að hæstv. dómsmálaráðherra sem, eins og þingheimur þekkir, er annálaður áhugamaður um að komið verði á fót íslenskum her hafi hreyft hugmynd sem hefur yfirbragð þess að ráðherrann vilji einnig að á laggirnar verði sett nokkuð sem kalla mætti íslenska leyniþjónustu. Sjálfur kallar hæstv. ráðherra Björn Bjarnason það greiningardeild hjá embætti ríkislögreglustjóra sem hafi m.a. með landráð að gera.

Nú segir í 5. gr. lögreglulaga að starfrækt skuli lögreglurannsóknardeild sem rannsaki landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess og aðstoði lögreglustjóra við rannsókn alvarlegra brota. Þetta er reyndar fyrirkomulag sem hefur verið gagnrýnt, mönnum hefur þótt skorta á tengsl og aðhald, t.d. frá Alþingi, hvað þetta snertir.

Nú vil ég beina þeirri spurningu til hæstv. dómsmálaráðherra Björns Bjarnasonar hvað raunverulega vaki fyrir honum.

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Þetta mál mun koma til umræðu í þinginu þar sem þetta er hluti af frumvarpi til laga um breytingu á lögreglulögum sem ég mun flytja hér og snertir skiptingu landsins í lögregluumdæmi og stofnun sérstakrar rannsóknardeildar við sjö lögregluembætti í landinu, breytingu á lögregluumdæmi á höfuðborgarsvæðinu og einnig á Suðurnesjum. Hér er því um tæknilegt atriði að ræða varðandi deildir sem starfa innan ríkislögreglustjóraembættisins og einnig við lögregluembætti annars staðar ef ákvörðun verður tekin um að stofna slíkar deildir.

Varðandi efnisatriði málsins verður fjallað um það í lögum um meðferð sakamála um heimildir þeirra sem við þessar deildir munu starfa. Ég á von á að frumvarp um það efni, um meðferð sakamála og meðferð opinberra mála verði lagt fram til kynningar á þinginu í vor. Þingið mun því ræða þessi mál öll til hlítar áður en þingi lýkur.

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Nú er skírskotun í landráð í a.m.k. þremur lagabálkum, þar á meðal í lögum um lagagildi varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjamanna og um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir. Þar er landráð m.a. skilgreint, vísað í skemmdarverk, njósnir og brot á hvers konar lögum er varða leyndarmál íslenska ríkisins eða Bandaríkjamanna eða leyndarmál er varða varnir Íslands eða Bandaríkjanna. Síðan segir annars staðar í þessum lagabálki að stjórnvöld Íslands og Bandaríkjanna skuli gefa hvor öðrum skýrslur um árangur, hvers konar rannsóknir og saksóknar í þeim málum sem eru til umfjöllunar.

Nú vil ég beina þeirri spurningu til hæstv. dómsmálaráðherra: Finnst ráðherranum ekki eðlilegt að efla tengsl og aðhald af hálfu Alþingis Íslendinga? Að Alþingi Íslendinga sitji ekki skör neðar en Bandaríkjaher og bandarísk yfirvöld þegar um þessi alvarlegu mál er að tefla?

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Þau frumvörp sem ég er að ræða og verða rædd á þingi síðar þegar þau koma fram snerta ekki þann þátt málsins sem hv. þingmaður vakti máls á. Þar er um önnur lög að ræða, en að sjálfsögðu hefur Alþingi aðgang að upplýsingum og kemur að þessum málum og öllum ákvörðunum varðandi þá þætti sem verða til umræðu þegar þau frumvörp verða rædd og þá er hægt að fara nánar út í þau atriði sem hv. þingmaður vakti máls á en þau atriði sem hann nefndi sérstaklega í síðustu ræðu sinni snerta ekki það sem ég er að fjalla um hér.

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Snertir ekki það sem hæstv. dómsmálaráðherra er að fjalla um. — Ég er að vekja máls á atriðum sem ég tel mjög mikilvægt að Alþingi taki til skoðunar í tengslum við hugsanlegar breytingar á þessu fyrirkomulagi af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ég spyr einnig um hegningarlög. Þar er kveðið á um skilgreiningar á landráði m.a. á eftirfarandi hátt, með leyfi forseta:

„Geri maður samband við stjórn erlends ríkis til þess að stofna til fjandsamlegra tiltækja eða ófriðar við íslenska ríkið eða bandamenn þess, …“ Er ástæða til að taka hegningarlögin að þessu leyti til gagngerðrar endurskoðunar? Menn hafa þá horft á óvini ríkisins. Getur verið að óvinir og hugsanlegir brotamenn í þessum efnum sitji við stjórn ríkisins? Ég er t.d. að vísa í það þegar íslensk stjórnvöld skuldbundu íslensku þjóðina til árása á erlendar þjóðir og þá er ég að sjálfsögðu að vísa í Afganistan og Írak.

(Forseti (SP): Hv. þingmaður gæti orða sinna.)

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður fer um svo víðan völl að það er ómögulegt að elta hann í þeim leiðangri sem hann hefur hafið í þessum ræðustól.

Ég mun ekki flytja frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum og síst af öllu af því tilefni sem hann nefndi í ræðu sinni.

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. forseta þingsins: Fyrir hvað og af hvaða ástæðum forsetinn gerði athugasemd við orðalag mitt hér áðan?

Forseti (Sólveig Pétursdóttir):

Ef forseti telur ástæðu til hefur hún það fyrir reglu að biðja hv. þingmenn um að gæta orða sinna og haga orðum sínum á þann hátt að það sé hér til sóma. Forseti gat ekki betur heyrt en hv. þingmaður væri að tala um landráð í sambandi við stjórnvöld.

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég skal taka ábyrgð á mínum orðum.

(Forseti (SP): Forseti stjórnar hér þinghaldi og áminnir þingmenn ef hann telur þörf á.)

Fleiri en Ögmundur Jónasson tóku til máls um fyrirhugaða greiningardeild. Þeirra meðal Illugi Jökulsson, álitsgjafi. Í vikulegan pistli á NFS 28. febrúar 2006 býsnaðist hann yfir því, að stofna ætti greiningardeild hjá lögreglunni. Engin þörf væri á því, þar sem ógnin af hryðjuverkum væri bara ímyndun.

Illugi gaf sér, að ég hefði sagt, að greiningardeild væri nauðsynleg vegna hryðjuverkaógnar. Ég lagði hins vegar áherslu á skipulagða og alþjóðlega glæpastarfsemi. Velti ég því fyrir mér hér á síðunni hvort Illugi teldi einnig, að hún væri ekki að skjóta rótum hér á landi.

Í dagbókarfærslu 28. febrúar 2006 sagði ég:

„Staðreynd er, að sömu aðferðir lögreglu og beitt er gegn fíkniefnasölum gefast vel gagnvart skipulagðri og alþjóðlegri glæpastarfsemi og þær nýtast einnig gegn hryðjuverkum. Með því að leggja áherslu á greiningarþáttinn í starfi lögreglunnar er áréttað að hún skuli leggja mat á hættu á afbrotum en ekki aðeins rannsaka afbrot, sem hafa verið framin. Áhættugreining er lykilþáttur í árangursríku starfi lögreglu, hvað sem líður hryðjuverkaógn.

Ég var undrandi á því, að Illugi skyldi ekki hafa kynnt sér rökin að baki greiningardeildinni betur, úr því að hann kaus að flytja sérstakan pistil um málið. Illugi getur verið þeirrar skoðunar, að Íslendingum eða öðrum stafi engin ógn af hryðjuverkum - það eru einfaldlega engin rök gegn því, að lögð sé áhersla á greiningarþáttinn í störfum lögreglunnar.“

Greiningardeild ríkislögreglustjóra tók til starfa 1. janúar 2007, þegar nýskipan lögreglumála kom til sögunnar, það er fækkun lögregluumdæma og sameining þeirra. Hinn 1. júlí 2008  lagði ég fyrir ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar fyrstu opinberu útgáfu á mati deildarinnar á hættu af hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi hér á landi.

Með kynningu á skýrslunni hófst nýr áfangi í löggæslustarfi hér á landi. Með hættumatinu var athygli beint að brýnum viðfangsefnum lögreglu. Í matinu fólst leiðsögn um þau verkefni, sem hafa bæri í huga í daglegum löggæslustörfum og við mótun framtíðarstefnu. Skýrslan var staðfesting á hinu mikilvæga starfi greiningardeildar ríkislögreglustjóra.

Í skýrslunni var tekið fram, að við hættumat vegna hugsanlegra aðgerða hryðjuverkamanna á Íslandi bæri að hafa í huga, að lögregla á Íslandi byggi ekki yfir forvirkum rannsóknarheimildum innan þess málaflokks og mætti því ekki safna upplýsingum um einstaklinga eða lögaðila lægi ekki fyrir rökstuddur grunur um tiltekið afbrot. Möguleikar lögreglunnar hér til að fyrirbyggja hryðjuverk væru því ekki þeir sömu og annars staðar á Norðurlöndunum. Þessu fylgdi einnig að íslensk lögregla hefði mun takmarkaðri upplýsingar um mögulega ógn eða hættulega einstaklinga, sem kynnu að fremja hryðjuverk.

Í tilefni af fyrsta hættumati greiningardeildarinnar sneri Fréttablaðið sér til min og spurði um forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu. Ég svaraði á þennan veg 3. júlí 2008: „Ég hef oftar en einu sinni lýst þeirri skoðun minni, að tryggja þurfi lögreglu þessar heimildir hér á landi."

Í samstarfsflokknum, Samfylkingunni, var allt annað hljóð í strokknum, því að Lúðvík Bergvinsson, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, sagði við Fréttablaðið:

 „Á mannamáli heitir þetta öryggislögregla eða leyni­­þjónusta. Við þessar aðstæður þurfum við ekki að byggja upp enn eina deildina eða stofnunina. Það er fráleitt. Ég held að ég geti sagt það fyrir Samfylkinguna að öryggis­­lögregla eða leyniþjónusta er ekki á forgangslista hennar."

Í Fréttablaðinu segir í þessari sömu frétt, að á árinu 2007 hafi verið unnið frumvarp í dómsmálaráðuneytinu um íslenska öryggisþjónustu, sem væri að­­skilin frá lögreglu og hefði umræddar heimildir. Það væri enn hjá dómsmálaráðherra til frekari útfærslna og hefur fáum verið kynnt. Þetta var hárrétt hjá blaðinu. Ég lét ekki aðeins vinna frumvarp af þessu tagi heldur lagði mig einnig fram um að kynna það þingmönnum annarra flokka, utan og innan ríkisstjórnar, þar sem ég taldi nauðsynlegt að skapa eins víðtæka samstöðu um málið og kostur væri.

Hinn 2. mars 2011 birtist eftirfarandi tilkynning á vefsíðu innanríkisráðuneytisins:

„Aðgerðir innanríkisráðherra til að sporna við starfsemi skipulagðra glæpasamtaka á Íslandi var umfjöllunarefni umræðu utan dagskrár á Alþingi í dag. Ólöf Nordal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hóf umræðuna og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra var til andsvara.

Í máli Ólafar Nordal kom fram að lögreglu- og dómsmálayfirvöld hafi fylgst með tilraunum til að koma á fót hérlendis skipulagðri glæpastarfsemi og að Eurupol hefði skilgreint alþjóðlegu samtökin Hells Angels sem glæpasamtök sem þjóðfélaginu stafaði ógn af. Frumskylda ríkisins væri að vernda borgara og benti þingmaðurinn á að í mannfæð lögregluliðs hérlendis væri brýnt að nýta markvissar rannsóknaraðferðir. Spurði hún innanríkisráðherra hvort til greina kæmi að setja í lög heimildir til að beita forvirkum rannsóknaraðferðum og hvort ráðherra myndi berjast gegn því að hópar alþjóðlegra glæpahringja næðu að festa rætur hérlendis.

Ögmundur Jónasson þakkaði þingmanninum fyrir að taka málið upp og væri umræða um það því miður tímabær á Alþingi. Ráðherra sagði að samkvæmt upplýsingum lögreglu væru brot sem rakin væru til gengja orðin sýnilegri og alvarlegri, til dæmis mansal, peningaþvætti og vopnasmygl og þetta væri starfsemi sem Íslendingar væru sammála um að líða ekki. Hann sagði lögreglu hafa fylgst vel með þessum málum og gripið til aðgerða til að koma í veg fyrir að slíkir hópar festi rætur hérlendis. Brýnt væri að fara fram með sem víðtækustum hætti, auknar rannsóknarheimildir lögreglu væru eitt þeirra atriða sem kæmu til greina og væri nú í smíðum frumvarp í ráðuneytinu um að auka slíkar heimildir. Þeim yrði þó að beita af varfærni og aðeins að undangengnum dómsúrskurði. Hann sagði þjóðina þurfa að sýna samstöðu í þessu máli og standa einhuga að baki lögreglunni.“

Í fréttum kom fram að matið sem Ögmundur Jónasson studdist við í þessu efni var frá greiningardeild ríkislögreglustjóra. Hinn 3. mars 2011, daginn eftir umræðurnar á þingi, efndi Ögmundur til blaðamannafundar með Haraldi Johannessen, ríkislögreglustjóra, Sigríði Björk Guðjónsdóttur, lögreglustjóra á Suðurnesjum, Stefáni Eiríkssyni, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, og Snorra Olsen, ríkistollstjóra, þar sem kynnt var sameiginlegt átak gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Hinn 4. mars samþykkti síðan ríkisstjórnin 47 m. kr. aukafjárveitingu til að gera átak gegn skipulagri brotastarfsemi.

Hefði Samfylkingin ekki lagst gegn tillögum um forvirkar rannsóknarheimildir sumarið 2008, væri lögregla nú betur á vegi stödd í átökum við skipulagða glæpastarfsemi. Í frumvarpinu sem ég hafði í höndum á þeim tíma var að sjálfsögu gert ráð fyrir að engin rannsókn hæfist án heimildar dómara auk þess sem eftirlit alþingis yrði tryggt með því hvernig hinum forvirkum heimildum væri beitt.

Mikið vatn hefur einnig runnið til sjávar á þeim fimm árum sem eru liðin frá því að Ögmundur Jónasson greip fréttina um greiningardeild lögreglunnar á lofti til að ýta undir tortryggni í hennar garð.  Sumt breytist þó ekki eins og sjá má af samþykkt af stjórnar Ungra vinstri grænna sem birtist 6. mars 2011:

,,Með því að heimila njósnir um einstaklinga án þess að fyrir liggi rökstuddur grunur um saknæmt athæfi er ríkisvaldið komið út á næfurþunnan ís. Út frá grundvallar mannréttinda - og lýðræðissjónarmiðum verður að hafna öllum slíkum hugmyndum ... Ung vinstri græn minna Ögmund Jónasson, innanríkisráðherra, á orð sín þegar forveri hans í embætti hugðist koma slíkum heimildum á og skora jafnframt á hann að endurskoða hug sinn nú. Ung vinstri græn eru sannfærð um að vel sé hægt að efla lögreglulið landsins og starf þess án þess að gripið verði til jafn alvarlegra aðgerða og þess að heimila forvirkar rannsóknir á einstaklingum."