20.2.2011

Icesave III til þjóðarinnar.

Eftir að alþingi samþykkti Icesave III lýsti ég þeirri skoðun, að engu skipti þótt tveir þriðju þingmanna veittu málinu stuðning. Það veitti enga tryggingu fyrir því að Ólafur Ragnar Grímsson myndi ekki hafna lögunum að nýju. Raunar taldi ég honum skylt að gera það þar sem þjóðin ætti rétt á hlutdeild í afgreiðslu þess, þar sem hún hefði falið alþingi að taka málið aftur til meðferðar þegar lögum um Icesave II var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslunni 6. mars 2010.

Í leiðara á Evrópuvaktinni 5. febrúar síðastliðinn sagði ég:

 „Yrði farin leið þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave yrði jafnframt til ný stjórnskipunarregla. Í henni fælist, að neitaði forseti Íslands að rita undir lög, þau yrðu borin undir þjóðina og felld, þingið tæki málið fyrir og afgreiddi með nýjum lögum um sama efni, skyldi því ekki endanlega lokið nema með nýrri þjóðaratkvæðagreiðslu. Að efni til er slík regla rökrétt og lýðræðisleg.“

 Af yfirlýsingu sem Ólafur Ragnar gaf 20. febrúar, þegar hann neitaði að skrifa undir Icesave III ræð ég að hann fallist á sjónarmiðið sem ég kynnti í þessum leiðara á Evrópuvaktinni, þótt hann nálgist niðurstöðuna á annan hátt.  Kjarninn í máli hans er að þjóðin hafi komið að málinu 6. mars 2010, þess vegna eigin hún að gera það að nýju. Ég er ekki sammála öllu í rökstuðningi Ólafs Ragnars. Niðurstöðunni fagna ég á hinn bóginn. Í yfirlýsingunni segir meðal annars:

 „Þegar meta skal hvort forseti staðfesti sem lög hið nýja frumvarp um Icesave er grundvallaratriði að horfa til þess að Alþingi og þjóðin hafa saman farið með löggjafarvaldið í þessu máli. Það Alþingi sem 16. febrúar afgreiddi málið er eins skipað og áður; þjóðin hefur ekki endurnýjað umboð þess í almennum kosningum.

Annar löggjafi málsins, Alþingi, er hinn sami og spurningin er því hvort sá löggjafi eigi einn að ljúka málinu án aðkomu hins löggjafans, þjóðarinnar, sem áður réði lokaniðurstöðu.“

Þessi orð má skilja á þann hátt, að á Bessastöðum hefði öðru vísi verið litið á málið ef þingkosningar hefðu farið fram eftir 6. mars 2010. Í sjálfu sér breytir það engu um þá staðreynd að þjóðin kom að því með þinginu þá að ákveða örlög laga um Icesave. Þjóðin er hin sama hvað sem þingkosningum líður. Á hinn bóginn verða þessi orð ekki skilin á annan veg en þann að ekki þýði fyrir það þing sem kosið var 25. apríl 2009 að setja oftar lög um Icesave ef þessi lög verða nú felld í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Vilji stjórnmálamenn fjalla frekar um Icesave-málið, felli þjóðin það í atkvæðagreiðslu, er óhjákvæmilegt að rjúfa þing og efna til kosninga að mati Ólafs Ragnars, sem sagði einnig í yfirlýsingu sinni:

 „Grundvallaratriðið sem hlýtur að ráða niðurstöðu forseta, hvað sem líður kostum hinna nýju samninga, er að þjóðin fór með löggjafarvald í Icesave málinu og ekki hefur tekist að skapa víðtæka sátt um að Alþingi ráði nú eitt niðurstöðu málsins.

Ég hef því ákveðið í samræmi við 26. grein stjórnarskrárinnar að vísa hinu nýja frumvarpi í þjóðaratkvæðagreiðslu.“

 

Ríkisstjórnin ræður ekki við að leysa þetta mál, jafnvel þótti hún njóti til þess stuðnings hluta þingflokks sjálfstæðismanna. Líklegt er að meirihluti þjóðarinnar sé sama sinnis og landsfundur Sjálfstæðisflokksins sumarið 2010, að ekki beri að sinna „löglausum kröfum“ Breta og Hollendinga.

Vilji ríkisstjórn og alþingi halda trúverðugleika gagnvart þjóðinni í málinu er óhjákvæmilegt að af kostgæfni verði búið þannig um hnúta að öll sjónarmið njóti sannmælis við undirbúning þjóðaratkvæðagreiðslu um það. Fráleitt er að samninganefndin sem stóð að Icesave III komi að því að kynna málið af hálfu ríkisstjórnar og alþingis. Hún er alls ekki óhlutdrægur aðili málsins.

Þeir stjórnmálamenn sem stóðu að samþykkt Icesave III hljóta að leggja sig  fram um að kynna málstað sinn. Varla velja þeir sama kost og Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon fyrir atkvæðagreiðsluna 6. mars 2010 að fara í fýlu og sitja heima með þeim orðum að ekkert sé að marka atkvæðagreiðsluna. Annað hefur komið á daginn.

Jóhanna Sigurðardóttir er söm við sig þegar hún lætur að því liggja að nú eigi að slá saman þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave III og kosningu til stjórnlagaþings. Jóhönnu væri mestur sómi af því að minnast ekki á stjórnlagaþingskosningarnar eins illa og að þeim var staðið af  ríkisstjórn hennar. Ákvörðun hæstaréttar um að ógilda kosningarnar ætti að duga Jóhönnu sem áminning um að hún eigi að vanda sig þegar mál eru lögð undir þjóðina freka en grípa til þess sem helst einkennir stjórnarhætti hennar að ráða ekki við skap sitt og láta ofsann bitna á þjóðinni í einni mynd eða annarri.

Ríkisstjórninni er ljóst hve illa hún stendur meðal þjóðarinnar. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, brást við neitun Ólafs Ragnars með því að segja fráleitt að líf ríkisstjórnarinnar væri undir í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave. Þá var Össur samur við sig þegar hann sagði engin rök fyrir því að Icesave og erfiðleikar við að landa því máli hefðu áhrif á umsóknarferli Íslands að Evrópusambandinu.

Þegar BBC World Service sagði frá samþykkt alþingis á Icesave III var sérstaklega tekið fram að þar með væri hindrun á aðildarleið Íslands inn í ESB rutt úr vegi. Að sjálfsögðu eru tengsl á milli Icesave og ESB-umsóknarinnar. Nægir í því sambandi að minna á ályktun leiðtogaráðs ESB frá 26. júlí 2010, þar sem vísað er til álits Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) á Icesave, sem var í anda ESB.

Allt frá upphafi hefur Samfylkingin verið áköfust meðal stjórnmálaflokka í stuðningi við samninga um Icesave. Þar ræður mestu að flokkurinn er einnig drifkrafturinn á bakvið ESB-aðildarumsóknina.

Ríkisstjórnin undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur er orðin svo löskuð vegna þess hve illa hún hefur haldið á málum sínum, stórum og smáum, að með réttu ætti niðurstaða Ólafs Ragnars í Icesave-málinu 20. febrúar að binda enda á feril hennar. Skapgerð Jóhönnu og þvermóðska ræður hins vegar mestu um að ríkisstjórnir lafir áfram. Enn skal spurt: Hvenær tekur einhver í þingflokki Samfylkingarinnar af skarið og segir við Jóhönnu:  Hingað og ekki lengra? Jóhanna hreyfir sig ekki fyrr en við henni verður stjakað. Tíminn til þess er fyrir löngu kominn.

Steingrímur J. Sigfússon hefur þrisvar sinnum verið gerður afturreka með Icesave-málið. Hvarvetna hefðu stjórnmálamenn sem mæta slíkri andstöðu dregið sig í hlé. Að þingflokkur vinstri-grænna hafist ekkert að gegn Steingrími J. kemur ekki á óvart, úr því að þingflokkurinn líður Svandísi Svavarsdóttur að sitja áfram þrátt fyrir valdníðslu hennar gagnvart Flóahreppi . Á það skal enn minnt að þingmenn vinstri-grænna höfðu forystu um að ákæra fjóra ráðherra fyrir embættisverk þeirra í aðdraganda bankahrunsins.

Í venjulegum spunaumræðum auðveldar það þeim Jóhönnu og Steingrími J. að halda í ráðherrastólana að þau geta bent á að hópur þingmanna úr Sjálfstæðisflokknum greiddi atkvæði með Icesave III. Þessir þingmenn flokksins greiða áfram atkvæði með Icesave III þegar lögin verða borin undir þjóðina.

Þingmönnunum kann að verða nokkur vandi á höndum að draga skil á milli stuðningsins við Icesave og andstöðu við ríkisstjórnina. Verði Icesave III hafnað af þjóðinni þurfa þessir þingmenn Sjálfstæðisflokksins ekki síður að taka skellinn en ríkisstjórninni. Beiti þeir sér hins vegar innan flokksins í þágu Icesave III mun það einungis stuðla að mikilli spennu meðal flokksmanna. Staða þingmannanna er því engan veginn auðveld, þótt þeir hafi allir stutt að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.

Þær raddir heyrðust víða að best væri að samþykkja Icesave III til að verða laus við málið. Samþykkt alþingis duði ekki til þess. Nú er óhjákvæmilegt að ræða allar hliðar Icesave á opinberum vettvangi og búa í haginn fyrir upplýsta  þjóðaratkvæðagreiðslu. Fyllsta ástæða er til að allur undirbúningur atkvæðagreiðslunnar verði kynntur á vandaðan hátt og framkvæmdin snurðulaus. Öllum er í fersku minni að ríkisstjórnin hélt þannig á kosningum til stjórnlagaþings að þær voru ógiltar. Slíkt má ekki endurtaka sig.