1.2.2011

Tveggja ára hrakfallasaga stjórnar Jóhönnu

Í dag, 1. febrúar 2011, eru rétt tvö ár síðan Ólafur Ragnar Grímsson gaf Jóhönnu Sigurðardóttur heimild til að mynda minnihlutastjórn með Steingrími J. Sigfússyni. Samfylkingu og vinstri-græna skorti hins vegar atkvæði á þingi til að verjast vantrausti. Hlupu framsóknarmenn undir bagga með þeim með því skilyrði að komið yrði á laggirnar stjórnlagaþingi sem hefði vald frá alþingi til að semja nýja stjórnarskrá.

Við sjálfstæðismenn snerumst af hörku gegn þessari stjórnlagaþingshugmynd  bæði í þingsalnum og í stjórnarskrárnefnd undir formennsku Valgerðar Sverrisdóttur. Meirihlutinn undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur stóð ömurlega að málinu og tapaði að lokum stríðinu um það í þinginu. Er í raun ótrúlegt að nokkrum heilvita stjórnmálamanni skyldi detta í hug að haga málatilbúnaði eins og þá var gert.

Að segja okkur sjálfstæðismenn andstæða breytingum á stjórnarskránni er fráleitt. Við töldum grundvöll til samkomulags á þessum tíma, ef vilji hefði verið til þess. Á hinn bóginn töldu andstæðingar okkar mestu skipta að útmála okkur sem andstæðinga breytinga. Þar með varð draumur þeirra um breytingar á stjórnarskrá að engu.

Stjórnarhættir ríkisstjórnarinnar voru ekki aðeins ömurlegir að þessu leyti hina fyrstu mánuði hennar. Aðförin að þremur seðlabankastjórum og framganga Jóhönnu Sigurðardóttur í því efni verður henni til ævarandi skammar og vaxandi þegar frá líður. Ekki síst í huga þeirra sem vissu hve Davíð Oddsson lét sér annt um pólitíska sálarheill hennar á fyrstu þremur árum hans sem forsætisráðherra, þegar Jóhanna sat í ríkisstjórn hans og átti í stöðugu stríði við flokksbræður sína, Jón Baldvin Hannibalsson, utanríkisráðherra, og Jón Sigurðsson, viðskiptaráðherra.

Á fyrstu mánuðum stjórnarsetu sinnar steig Steingrímur J. Sigfússon hið örlagaríka feilspor að fela Svavari Gestssyni, félaga sínum og fyrrverandi sendiherra, formennsku í samningefnd um Icesave-kröfur Breta og Hollendinga. Fyrir þeim félögum vakti að búa þannig um hnúta að unnt yrði að skella pólitísku skuldinni á Sjálfstæðisflokkinn. Þeim fór það hins vegar  illa úr hendi. Þegar niðurstaða Steingríms J. og Svavars var að lokum borin undir þjóðaratkvæðagreiðslu 6. mars 2010, eftir að Ólafur Ragnar, gamall flokksbróðir þeirra, hafði hafnað lögum Steingríms J. um samningana, voru 98% þeirra sem tóku afstöðu á móti meistaraverkinu sem átti uppruna sinn í samningum Svavars.

Eftir kosningar til þings 25. apríl 2009 gátu þau Jóhanna og Steingrímur J. myndað meirihlutastjórn, fyrstu „hreinu“ eða „tæru“ vinstri stjórnina. Sátu þau við dúkað borð í Norræna húsinu þegar þau kynntu stefnuyfirlýsingu sína til að árétta að samstarfið væri að norrænni fyrirmynd. Þeim var tíðrætt um nauðsyn þess að leysa skuldavanda heimilinna og slá um þau „skjaldborg“.

Jóhanna var föst í þeirri kreddu sem ég hafði kynnst í ríkisstjórn haustið 2008 að með einhvers konar löggjöf um greiðslu- eða skuldaaðlögun, þar er allsherjar kerfislausn yrði unnt að leysa skuldavandann. Nöldraði hún stöðugt yfir því á ríkisstjórnarfundum að ég flytti ekki frumvarp um það efni. Við blasti að þar væri ekki um einfalt mál að ræða og hélt ég meðal annars fram þeim rökum að nær væri fyrir ríkið, eftir að það hefði þjóðnýtt alla bankana að beita sér gagnvart stjórnendum þeirra og knýja þá til að semja á sanngjarnan hátt við skuldunauta sína. Yfir þessu fussaði Jóhanna bara og sveiaði. Þegar á reyndi kom síðan í ljós að kerfislausnin, sem var hennar ær og kýr, dugði ekki og eftir að há mótmælaalda reis við setningu alþingis 1. október 2010, sagði Jóhanna að hún vildi leita annarra leiða en greip þá til þess ráðs sem er einkenni stjórnarhátta hennar að skella skuldinni á stjórnarandstöðuna. Hún sýndi ekki nægan samstarfsvilja! Síðar þróuðust mál í átt frá kerfislausn til þess að lánastofnanir tækju á málum skuldunauta sinna.

Vorið 2009 fékk Steingrímur J. fyrrverandi ríkisskattstjóra, Indriða H. Þorláksson, til liðs við sig til að setja gamlar skattahugmyndir Alþýðubandalagsins og síðan vinstri-grænna í lagabúning. Gerð var aðför að því skattakerfi sem hafði reynst þjóðinni vel í rúma tvo áratugi og látið í veðri vaka að bankahrun hefði orðið vegna galla á því. Í skjóli þeirrar blekkingar hafa skattar síðan verið hækkaðir og nýir komið til sögunnar.

Ríkisstjórnin hefur ekki verið á einu máli um erlendar fjárfestingar. Hún kemur sér ekki saman um neina meginstefnu í atvinnumálum. Hún hefur grafið undan öllu öryggi í útgerð og rekstri sjávarútvegsins. Afleiðing af þessari stefnu er að á tveggja ára afmæli ríkisstjórnarinnar eru nýjar fjárfestingar í landinu hlutfallslega minni en þær hafa verið í 70 ár eða frá því á árum síðari heimsstyrjaldarinnar.

Á tveggja ára afmælinu eru 14.000 manns atvinnulausir í landinu. Árið 2009 fluttu 4.835 fleiri frá landinu en til þess. Aldrei áður höfðu jafn margir flutt frá landinu á einu ári. Næstflestir brottfluttir umfram aðflutta voru árið 1887 en þá fluttu 2.229 fleiri frá landinu en til þess. Árið 1887 var mannfækkun vegna búferlaflutninga þó helmingi meiri ef miðað er við miðársmannfjölda, eða 3,1% á móti 1,5%. Á árinu 2010 fluttu 2.134 fleiri af landinu en til þess. Alls eru brottfluttir umfram aðflutta á þessum tveimur árum 6.969. Hér er að mestu um að ræða fólk á besta aldri sem leitar sér starfa annars staðar.

Í baráttunni fyrir kosningarnar í apríl 2005 boðaði Samfylkingin aðild að Evrópusambandinu og sagði könnunarviðræður við það óhjákvæmilegar til að átta sig á því, hverju ESB vildi fórna til að Íslendingar gætu sætt sig við aðildarsamning í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá var einnig látið í veðri vaka að ESB-aðildarsinnum innan Samfylkingarinnar og í öðrum flokkum að skipta yrði um gjaldmiðil og eina leiðin til þess væri að ganga í ESB. Aðildarumsóknin ein mundi gjörbreyta öllu í íslensku efnahagslífi og rjúfa einangrun þjóðarinnar.

Vinstri-grænir sögðust andvígir ESB-aðild og Steingrímur J. talaði digurbarka um „101-elítu“ sem vildi í ESB en hefði engan skilning á sjónarmiðum meginþorra þjóðarinnar. Síðan stofnuðu þau Jóhanna ríkisstjórn með það að markmiði að sækja um aðild að ESB með því fororði Steingríms J. að hann væri á móti aðild! Hann flutti hins vegar dómsdagsræður um hættuna af því að ljúka ekki Icesave-málinu, án lausnar á þvi stefndi allt efnahagslíf þjóðarinnar til glötunar.

Með stuðningi fáeinna þingmanna úr öðrum flokkum samþykktu stjórnarliðar aðildarumsókn að ESB 16. júlí 2009. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, lét í veðri vaka að Ísland væri á hraðferð inn í ESB og ýtt var undir hugmyndir um að einhver efnahagsaðstoð frá ESB hengi á umsóknarspýtunni. Hvorugt hefur reynst rétt. Ísland er ekki á neinni hraðferð inn í ESB. Þvert á móti hefur enginn framkvæmdastjórnarmaður sambandsins látið svo lítið að koma til landsins frá því að leiðtogaráð ESB gaf grænt ljós á aðildarviðræðurnar 26. júlí 2010. Þótt formaður aðildarviðræðunefndar Íslands tali á þann veg í Brussel að 65% Íslendinga vilji ljúka aðildarviðræðum til að sjá hvað sé í boði frá ESB, eru ráðamenn ESB-ríkja og embættismenn tvístígandi. Fyrrverandi háttsettur embættismaður ESB sá ástæðu til þess í blaðaviðtali 29. janúar 2011 að minna Íslendinga á að þeir hefðu sótt um aðild að ESB, sambandið kæmist vel af án Íslands og liti ekki á umsóknina sem neina guðsgjöf.

Össur Skarphéðinsson hefur ekki viljað viðurkenna eðli viðræðnanna við ESB, það er kröfur þess um aðlögun. Um þetta er deilt á milli ráðherra í ríkisstjórninni. Utanríkisráðherra og ráðuneyti hans lætur eins og það geti farið sínu fram við meðferð og kynningu málaflokka á ábyrgð annarra ráðherra, einkum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Rannsóknarskýrsla nefndar sem alþingi setti á laggirnar haustið 2008 til að kanna orsakir bankahrunsins skilaði skýrslu 12. apríl 2010. Þar kemur fram að bankarnir voru rændir innan frá og þar var Jón Ásgeir Jóhannesson í Baugi stórtækastur en hann og faðir hans Jóhannes Jónsson höfðu barist til valda í íslensku viðskiptalífi frá 1989 og eirðu engu eða engum. Hið undarlega er að í rannsóknarskýrslunni, þar sem fundið er að eftirlitsleysi opinberra aðila, er ekki minnst einu orði á Baugsmálið svonefnda sem rekið var af réttvísinni gegn Jóni Ásgeiri frá 2002 til 2008. Þeir feðgar beittu sér mjög á pólitískum vettvangi einkum gegn Davíð Oddssyni og síðan mér. Markmið þeirra var að brjóta allt aðhald að rekstri sínum og umsvifum á bak aftur.

Þeir sem kynna sér starfsaðferðir Baugsmanna og fjármálamakk þeirra á bakvið tjöldin á árunum fram að hruni hljóta að velta fyrir sér hve langan aðdraganda það hafði að koma ákæruatriðum í Baugsmálinu til efnislegrar úrlausnar. Að ekki skuli lagt mat á þetta í siðferðis- eða stjórnsýslukafla rannsóknarskýrslunnar er ámælisvert, svo að ekki sé meira sagt.

Núverandi stjórnvöld fara með málefni banka og ráða yfir gjaldeyrishöftum til að hlutast til um viðskipti á allt annan hátt en unnt var á árunum fyrir hrun. Nú er jafnvel meiri leynd um bankastarfsemi og fjármálaumsvif en á árunum fyrir hrun. Afskipti Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra, af söluferli Sjóvár sem hann eyðilagði í krafti gjaldeyrishafta eru til marks um pólitíska íhlutun í viðskiptalífið sem á sér varla hliðstæðu á síðustu áratugum. Þegar Már var ráðinn bankastjóri Seðlabanka Íslands var sagt að hann yrði „faglegur“ bakastjóri. Hann er hins vegar pólitískari bankastjóri en þeir fyrrverandi ráðherrar eða stjórnmálamenn sem hafa gegnt embættinu, af því að hann kann sér ekki hóf og telur sig yfir stjórnmálamenn hafna.

Ríkisstjórnin hefur engin áform um að afnema gjaldeyrishöftin. Í upphafi árs 2011 ritaði Árni Páll Árnason blaðagrein þar sem hann stillti málum upp á þann hátt að annað hvort byggju Íslendingar við gjaldeyrishöft eða gengju í ESB til að taka upp evru. Boðaði hann  meiriháttar samráð um málið. Síðan hefur ekkert af því frést. Hvað veldur? Gerði Árni Páll þetta upp á sitt einsdæmi án stuðnings vinstri-grænna?

Jóhanna gafst ekki upp við stjórnlagaþingið þótt hún glutraði málinu niður í apríl 2009. Alþingi samþykkti lög um þjóðfund og stjórnlagaþing, þar sem 25 þingmenn yrðu kjörnir í persónukjöri. Kosningarnar fóru fram 27. nóvember 2010 um 36% kosningabærra manna kusu og völdu á milli 522 frambjóðenda. Þriðjudaginn 25. janúar 2011 gaf hæstiréttur það álit að kosningarnar væru ógildar vegna þess hve illa var staðið að framkvæmd þeirra.

Ekkert svipað hefur nokkru sinni gerst í sögu íslenskra stjórnmála eða stjórnsýslu. Ögmundur Jónasson sem bar ábyrgð á framkvæmd kosninganna lætur eins og ábyrgðin hvíli ekki síður á hæstarétti en sér! Stjórnlagaþingmenn sem landskjörstjórn svipti kjörbréfum sínum áður en hún sagði af sér 28. janúar 2011 láta eins og þeir hafa enn einhverju sérstöku hlutverki að gegna vegna endurskoðunar á stjórnarskránni.

Ríkisstjórnin gat ekki staðið að framkvæmd kosninga á gildan hátt, þótt kosningin snerist um hjartans mál Jóhönnu Sigurðardóttur. Stjórnarmeirihlutinn beitti sér fyrir umdeildi ákæru á hendur Geir H. Haarde fyrir landsdóm. Þar stóðu vinstri-grænir í stafni, Steingrímur J. greiddi atkvæði með ákærunni en sagðist vera með „sorg í hjarta“ að atkvæðagreiðslu lokinni. Tvöfeldnin birtist á öllum sviðum. Ákæran á hendur Geir er í anda þeirrar stefnu sem vinstri-grænir mótuðu í upphafi stjórnarsetu sinnar að skella skuldinni sem mest á Sjálfstæðisflokkinn. Spurning er hvort stjórnmálamenn sem ráða ekki við að skapa löglega umgjörð um kosningar standi á löglegan hátt að því að draga fyrrverandi forsætisráðherra fyrir landsdóm.

Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru í hrakfallasögu hinnar hreinræktuðu vinstri stjórnar. Látið er hjá líða að segja frá stöðugu karpi á milli stjórnarflokkanna og ræðum Jóhönnu þar sem hún skellir skuldinni á „íhaldið“ eða samstarfsflokkinn eftir því sem skap hennar leiðir hana þann daginn eða hinn.

Fyrsta vinstri stjórnin sprakk rétt fyrir jól 1958 eftir að Hermann Jónasson, forsætisráðherra, fór á þing Alþýðusambands Íslands til að biðja henni griða. Önnur vinstri stjórnin sprakk vorið 1974 þegar Ólafur Jóhannesson gekk fram af Birni Jónssyni, verkalýðsforingja og ráðherra, þegar hann lá á sjúkabeði. Þriðja vinstri stjórnin sat ekki nema í um það bil ár 1978 til 1979. Ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens sprakk árið 1983 þegar fjarað hafði undan henni vegna fráhvarfs Eggerts Haukdals og Alberts Guðmundssonar. Vinstri stjórn Steingríms Hermannssonar sat ekki í heilt kjörtímabil og var að lotum komin fyrir kosningar 1991, þótt vinnuveitendur og viðsemjendur þeirra gerðu þjóðarsáttarsamningana fyrir hana. Dauðastríð þessarar ríkisstjórnar hefur staðið í nokkra mánuði.

Nú eru kjarasamningar lausir en engin stefna af hálfu ríkisstjórnarinnar, önnur en sú að ögra útgerðarmönnum og hafa í heitingum í garð Samtaka atvinnulífsins með yfirgangi og frekju Jóhönnu Sigurðardóttur.

Hér hefur því oft verið haldið fram að Jóhönnu Sigurðardóttur beri að víkja. Hún veldur því ekki að gegna embætti forsætisráðherra. Að þingmenn Samfylkingarinnar skuli kjósa að halda áfram þrautagöngunni undir forsæti hennar sýnir að þeir eru ekki frekar starfi sínu vaxnir en hún.

Að Ögmundur Jónasson sitji áfram sem ráðherra eftir að hafa borið ábyrgð á kosningum sem síðan voru ógiltar af hæstarétti sýnir ekki annað en fullkomið virðingarleysi fyrir góðum stjórnarháttum.

Nú er Jóhanna tekin til við að kalla fulltrúa annarra flokka af borðinu til að geta kennt þeim um eitthvað í tengslum við stjórnlagaþingið. Hið eina sem fulltrúar annarra flokka eiga að segja við Jóhönnu er að hún skuli boða til kosninga, áður en nokkuð annað gerist.