19.12.2010

Umskipti í stjórnmálum - ríkisstjórnin rúin öllu trausti

Davíð Oddsson var forsætisráðherra í ríkisstjórn með Alþýðuflokknum 1991 til 1995. Þá var Jón Baldvin Hannibalsson formaður Alþýðuflokksins. Jóhanna Sigurðardóttir sat sem félagsmálaráðherra í þessari ríkisstjórn eins lengi og hún þoldi þar við vegna þess sem hún taldi ofríki Jóns Baldvins og Jóns Sigurðssonar, flokksbróður þeirra og viðskiptaráðherra. Jóhanna sat í ríkisstjórnin fram yfir 50 ára lýðveldisfund alþingis á Þingvöllum sumarið 1994. Hún vildi sitja í fremstu röð á hátíðarfundinum. Síðan hvarf hún úr Alþýðuflokknum, stofnaði Þjóðvaka í kringum sjálfa sig fyrir kosningar 1995 og náði kjöri á þing.

Davíð hefur fátt sagt opinberlega um samskipti sín við Jóhönnu. Við sem sátum með þeim á þingi í stuðningsflokkum ríkisstjórnarinnar komumst ekki hjá því að fylgjast með stöðugri viðleitni til að „hafa Jóhönnu góða“. Davíð gegndi hlutverki sáttasemjara innan Alþýðuflokksins. Hann sat yfir Jóhönnu milli ríkisstjórnarfunda til að róa hana og vinda ofan af tortryggni hennar í garð Jónanna. Davíð lýsir reynslu sinni í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins sem birtist 18. desember. Hann segir meðal annars:

„Hún [Jóhanna Sigurðardóttir] hafði aldrei neinn minnsta áhuga á málum annarra ráðherra eða ríkisstjórnarinnar sem heildar. Hún einblíndi undantekningarlaust á eigin mál og þá nánast aðeins á hvað kæmi í hlut „hennar ráðuneytis“ við deilingu sameiginlegra framlaga. Ef sérfræðingar myndu skoða feril hennar á þingi á meðan hún sat sem almennur ráðherra í ríkisstjórn myndu þeir sjá að hún tók aldrei undir eitt hornið með öðrum ráðherrum, hvorki í eigin flokki né annarra stjórnarflokka. Það skipti engu máli hversu þungum árásum einstakir samráðherrar hennar sátu undir eða ríkisstjórnin í heild, ef hennar mál voru ekki til umræðu lyfti hún ekki litla fingri til stuðnings félögum sínum. Yfir þessu var iðulega fussað og sveiað á milli einstakra ráðherra, en lengra gekk það ekki, því forysta hennar eigin flokks þorði ekki að taka slaginn við þennan einfara í ríkisstjórninni vegna ímyndaðrar sterkrar stöðu hans meðal „grasrótar“ eða kjósenda. Hótanir um brotthlaup frá ríkisstjórnarborði og úrsögn úr flokki lágu jafnan í loftinu á meðan á þessari ömurlegu og árvissu kúgun á ríkisfé stóð.“

Ég sat í ríkisstjórn með Jóhönnu frá því í maí 2007 til 1. febrúar 2009. Lýsing Davíðs á starfsháttum hennar og viðhorfi hæfir framgöngu hennar í þeirri ríkisstjórn. Ég tel Jóhönnu lítt færa um að gegna embætti forsætisráðherra. Skapgerð hennar eða skapbrestir birtust strax á fyrstu forsætisráðherradögum hennar, þegar hún beitti Davíð Oddsson og aðra bankastjóra Seðlabanka Íslands ótrúlegu ofríki fyrir utan að sýna þeim dónaskap. Þvermóðska hennar birtist auk þess vel á vorþinginu 2009 þegar hún skildi ekki fyrr en í fulla hnefana að hún næði ekki frumvarpi sínu um breytingu á stjórnarskránni í gegn vegna andstöðu okkar sjálfstæðismanna.

Það ber vott um skammsýni ef ekki beinlínis skemmdarfýsn hvernig unnið hefur verið að því undanfarna mánuði að umbylta stjórnarráði Íslands. Nýleg skýrsla nefndar á vegum Jóhönnu um frekari breytingar á stjórnarráðinu og starfsháttum ríkisstjórnar gengur til sömu átta. Hin brenglaða útlistun á skýrslu rannsóknarnefndar alþingis um stjórnsýslulega þætti í tengslum við bankahrunið leiðir undir forystu Jóhönnu til óréttmætrar og illa ígrundaðar aðfarar að stjórnarráðinu og starfsmönnum.

Vilji menn kynnast upphafi hinnar brengluðu útlistunar á stjórnsýsluþætti skýrslu rannsóknarnefndarinnar ættu þeir að lesa stutta grein í nýjasta hefti tímaritsins Þjóðmála eftir Bergþór Ólason sem ber fyrirsögnina: Ríkisútvarpið og rannsóknarskýrslan.

Þráseta Jóhönnu sem forsætisráðherra eftir að augljóst er að hvorki hún né ríkisstjórn hennar ræður við stjórn landsmála er í samræmi við skapgerð hennar. Ef Samfylkingin tekur ekki af skarið og ýtir Jóhönnu til hliðar heldur stjórnleysið undir forystu hennar áfram að valda þjóðinni miklum skaða í öllu tilliti.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri-grænna og fjármálaráðherra, hælir sér af því í samtölum á bakvið Jóhönnu að hann hafi í raun tögl og hagldir innan ríkisstjórnarinnar. Hið „góða“ sem frá ríkisstjórninni komi sé sér að þakka, hinu hafi hann ekki getað aftrað.

Þau Jóhanna og Steingrímur J. hafa nú setið tæpa 23 mánuði við völd. Niðurstaða í netkönnun MMR frá dögunum 7. til 9. desember með þátttöku 850 manns á aldrinum 18 til 67 ára sem sagt var frá í Fréttablaðinu laugardaginn 18. desember bendir til þess að þáttaskil hafi orðið í afstöðu fólks til ríkisstjórnarinnar og í trausti á flokkum þeirra, Samfylkingu og vinstri-grænum (VG).

MMR hefur gert sambærilega könnun þrisvar sinnum í apríl 2009, í febrúar 2010 og nú í desember. Í könnun MMR er spurt hvaða flokki fólk treysti best til að leiða þrettán mismunandi málaflokka: endurreisn atvinnulífsins, efnahagsmál almennt, mennta- og skólamál, heilbrigðismál, atvinnuleysi, rannsókn á tildrögum bankahrunsins, umhverfismál, nýtingu náttúruauðlinda (s.s. fiskveiðar, vatn og orka), skattamál, innflytjendamál, lög og reglu almennt, samninga um aðild að ESB, samninga við Breta og Hollendinga um Icesave-skuldbindingar.

Í stuttu máli má segja, að könnunin sýni að í desember 2010 treysta svarendur Sjálfstæðisflokknum best til að leiða 11 af 13 málaflokkum sem nefndir eru hér að ofan. Í apríl 2010 treysti meirihluti svarenda stjórnarflokkunum (Samfylkingu og VG) best til að leiða alla málaflokkana 13. Var samanlagt hlutfall þeirra sem treystu flokkunum tveimur meira en 50% í öllum tilvikum. Í nýju könnuninni ná flokkarnir sameiginlega aldrei þessu hlutfalli, meðaltals sameiginlegur stuðningur er nú um 33% var 58% í apríl 2009.

Samfylkingunni er aldrei treyst best til að stjórna málaflokki, þannig treysta 33,5% Sjálfstæðisflokknum best fyrir samningum við ESB en 28,9% Samfylkingu og er það langhæsta hlutfall hennar, næst er hún í því í heilbrigðismálum, þar sem 23,8% treysta henni en 31,9% Sjálfstæðisflokknum.

Í tveimur tilvikum er VG treyst best til að stjórna málaflokkum, umhverfismálum 33,7% VG, 26,2% Sjálfstæðisflokkur, 12,2% Samfylking og rannsókn á tildrögum bankahruns 21% VG, 20% Sjálfstæðisflokkur, 18,1% Hreyfingin, 11% Samfylking, 7% Framsóknarflokkur, 22,9% annar flokkur, það er enginn nafngreindur flokkur nýtur mesta traustsins til að rannsaka tildrög bankahrunsins.

Endurreisn atvinnulífsins 46,7% Sjálfstæðisflokkur, 17,5% Samfylking, 9,1% Framsóknarflokkur, 7,3% VG.

Efnahagsmál almennt 41,4% Sjálfstæðisflokkur, 17,6% Samfylking, 11% Framsóknarflokkur, 10,5% VG.

Atvinnuleysi 43,3% Sjálfstæðisflokkur, 17,5% Samfylking, 10,7% VG, 8,8% Framsóknarflokkur.

Mennta- og skólamál 35% Sjálfstæðisflokkur, 21,4% VG, 17,4% Samfylking, 7,8% Framsóknarflokkur.

Nýting náttúruauðlinda 29.5% Sjálfstæðisflokkur, 25,2% VG, Samfylkingin 13,8%, 9,5% Framsóknarflokkur.

Skattamál 46,9% Sjálfstæðisflokkur, 15,4% Samfylking, 10,8% VG, 8% Framsóknarflokkur.

Lög og regla 37,4% Sjálfstæðisflokkur, 18,6% Samfylking, 13,6% VG, 7,6% Framsóknarflokkur.

Innflytjendamál 30,6% Sjálfstæðisflokkur, 20,3% Samfylking, 16,6% VG, 8,9% Framsóknarflokkur.

Icesave 32,1% Sjálfstæðisflokkur, 17,1% Samfylking, 15,2% Framsóknarflokkur, 12,4% VG.

Aðildarviðræður við ESB 33,5% Sjálfstæðisflokkur, 28,9% Samfylking, 9,7% VG, 9,5% Framsóknarflokkur.

Traust í garð Hreyfingarinnar er í kringum 7%,.  Í niðurstöðunum  er dálkur sem heitir Annar flokkur og er traust til hans um 15% að meðaltali mest þegar spurt er um rannsókn á bankahruninu, þá treysta 22,9% honum eins og áður er lýst.

Í könnuninni var einnig spurt um stuðning við stjórnmálaflokkanna:

Sjálfstæðisflokkur 40,4%, 26 þingmenn nú 16 (30,8% apríl 2009, 36,4% febrúar 2010).

Samfylking 20,9% 13 þingmenn nú 20 (31,9% apríl 2009, 23,1% febrúar 2010).

Vinstri-grænir 16,4% 10 þingmenn nú 15 (27,7% apríl 2009, 26,5% febrúar 2010).

Framsóknarflokkur 14,7% 9 þingmenn nú 9 (9,6% apríl 2009, 14% febrúar 2010).

Hreyfingin 7,6% 5 þingmenn nú 3 – fylgi hefur ekki verið mælt áður af MMR.

Samkvæmt þessu fengju stjórnaflokkarnir, Samfylking og VG, samtals 23 þingmenn í stað 35 nú og 37,3% atkvæða. Stærstu stjórnarandstöðuflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, fengju samtals 35 þingmenn samkvæmt þessu í stað 25 núna, og 55.1% atkvæða.

Umskiptin í stjórnmálunum hafa orðið algjör á síðustu 23 mánuðum ef marka má þessa könnun. Jóhönnu og Steingrími J. hefur gjörsamlega mistekist að vinna á farsælan hátt úr traustinu sem þau nutu í þingkosningunum 25. apríl 2009.

Hve lengi neitar Jóhanna að horfast í augu við þá staðreynd að stjórn hennar er trausti rúin? Reynslan kennir að hún sitji þar til þingmenn Samfylkingar þora að stjaka við henni. Þá hótar hún þeim kosningum sem Samfylkingin óttast ógurlega. Forsætisráðherrastóllinn en ekki Samfylkingin er eina pólitíska skjól Jóhönnu. Hún sleppir stólnum ekki fyrr en í fulla hnefana, því að ekki býður Jóhanna sig fram til þings að nýju.