2.12.2010

Svört skýrsla Buiters um evruna - spáði bankahruni hér

Áhugi fjárfesta á spænskum ríkisskuldabréfum var nægur fimmtudaginn 2. desember til að ríkið næði því markmiði sínu að ná í rúma tvo milljarði evra að láni. Vaxtakjörin voru ekki heldur óheyrilega há, svo að mönnum létti í Madrid og í raun öllum höfuðborgum evru-svæðisins. Misheppnað útboð eða ávöxtunarkrafa upp úr öllu valdi hefði stofnað lífi evrunnar í enn meiri hættu en áður. Tvennt er talið hafa ráðið mestu um þennan árangur á Spáni: áform ríkisstjórnar sósíalista um að selja hlut í ríkislottóinu og í risastóru flugþjónustufyrirtæki og líkurnar sem taldar eru á því að Seðlabanki Evrópu dæli peningum inn á evru-svæðið með kaupum á ríkisskuldabréfum.

Hagfræðingar eru að sjálfsögðu ekki á einu máli um, hvað gerist næst á evru-svæðinu. Hér verður fjallað um það með vísan til manns, Willems Buiters, sem er meðal annars gjörkunnugur aðstæðum hér á landi. Þá rifja ég einnig upp, hve menn töldu brýnt strax eftir bankahrunið fyrir tveimur árum, að Ísland sækti strax um aðild að ESB.

Atburðirnir á evru-svæðinu núna minna mjög á það sem gerðist hér á landi fyrir tveimur árum. Vegna þeirra aðgerða sem gripið var til hér þá erum við í skjóli fyrir hinni miklu spennu í Evrópu. Þá telja margir sérfræðingar, að við séum miklu betur sett utan evru-svæðisins en innan við núverandi aðstæður.

Willem Buiter, hagfræðingur, prófessor í Bretlandi og Bandaríkjunum, var í fréttum hér á landi vegna bankahrunsins. Hann skrifaði meðal annars skýrslu fyrir Landsbankann vorið 2008 með Anne Sibert, hagfræðiprófessor, sem nú á sæti í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands. Skýrslan var svört og lofaði ekki góðu um framtíð íslenska bankakerfisins en lítið eða ekkert var gert með hana. Bankamenn óttuðust að hún vekti hræðslu. Þegar hún var kynnt fyrir embættismönnum var svigrúmið til aðgerða orðið lítið sem ekkert. Hér má nálgast skýrsluna http://www.nber.org/~wbuiter/iceland.pdf í endanlegri gerð höfunda, það er eftir bankahrunið.

Hinn 8. október 2008 um sömu mundir og alþingi samþykkti neyðarlögin og tók að sér bankana en skildi leifar gömlu bankanna eftir í höndum skilanefnda og kröfuhafa skrifaði Buiter grein á vefsíðu The Financial Times þar sem hann sagði að Íslendingar ættu að láta bankana róa frekar en hlaða skuldum á komandi kynslóðir. „Á heildina litið er gjaldþrot ríkis verra fyrir íbúa lands en afleiðingar af gjaldþroti banka,“ sagði í greininni. Eftir að ríkið eignaðist bankana taldi hann ekkert óeðlilegt við það, að lánardrottnar þeirra færu í biðröð og það réðist af eignum þrotabúanna, hvað þeir fengju í sinn hlut.

Buiter taldi aðild að ESB og upptöku evru einu leiðina fyrir smáríki á borð við Ísland til að geta staðið að baki alþjóðlegum bankarekstri. Í þeirri stöðu mundi enginn íslenskur banki verða uppiskroppa með fjármagn. Úr því að þetta skref hefði ekki verið tekið hefðu íslensk stjórnvöld ekki átt að leyfa alþjóðlega bankastarfsemi í landinu. Hann taldi að ekkert bankakerfi væri lífvænlegt nema að baki því stæði seðlabanki sem gæti verið lánveitandi til þrautavara. Hvort bönkunum hefði mátt bjarga innan evru-svæðisins hefði þó ráðist af því, hvort þeir væru almennt séð færir um að standa á eigin fótum eða ekki.

Í ársbyrjun 2009 kom Buiter hingað til lands og flutti þá meðal annars fyrirlestur í Háskóla Íslands um gjaldmiðilsmál. Þá var rætt við hann í fjölmiðlum og sagði hann að íslenskt bankakerfi hefði hrunið fyrr eða síðar óháð því hvort alþjóðleg fjármálakreppa hefði skollið á eða ekki. Bankakerfið hefði verið orðið ofvaxið íslensku efnahagskerfi.

Síðan hefur skýrst enn betur, að innanmein íslensku bankanna var meira en svo að þeir hefðu lifað af með innspýtingu frá Seðlabanka Evrópu eða öðrum. Hið sama er að koma í ljós. þegar litið er til bankanna, sem fengu evru-stuðning haustið 2008. Þeir eru margir komnir að fótum fram og þeirri skoðun vex fylgi meðal hagfræðinga að „íslenska leiðin“ frá haustinu 2008 sé skynsamlegri fyrir skattgreiðendur en evru-leiðin, það er að dæla skattfé almennings inn í bankana. Hefur þetta meðal annars leitt til þess að halli á fjárlögum Írlands nemur 32% og átti hann stóran þátt í því að ESB, Seðlabanki Evrópu og fjármálaráðherrar evru-ríkjanna kröfðust þess að Írar óskuðu eftir fjárstuðningi frá ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Nú hefur Willem Buiter sent frá sér skýrslu um stöðu skuldamála á evru-svæðinu.  Hann skrifar ekki lengur sem prófessor heldur sem aðalhagfræðingur bandaríska risabankans Citigroup. Hann hóf starf í bankanum fyrr á þessu ári.  

Í skýrslu sinni kemst Buiter að þeirri meginniðurstöðu að skuldavandinn eigi aðeins eftir að versna og heimurinn verði líklega vitni að fyrsta ríkisgjaldþroti frá 1948, þegar Vestur-Þýskaland komst í þrot. Skýrsluna má lesa hér: http://www.nber.org/~wbuiter/sdcupdate.pdf

Skýrslan er dagsett 29. nóvember og þar er tekið mið af neyðaraðstoðinni við Íra, sem kynnt var 28. nóvember. Hann segir þó of snemmt að leggja endanlegt mat á stöðuna en fjármálakreppan muni breiðast um Evrópu og brátt ná til Bandaríkjanna og Japans. Enn hafi menn aðeins kynnst upphafsþættinum. Mikil hætta sé á greiðsluþroti einhvers ríkis í Vestur-Evrópu, einkum í hópi jaðarríkja á evrusvæðinu.

Willem Buiter kemst að þeirri niðurstöðu að Grikkland og Írlands séu í raun gjaldþrota en evrópskir stjórnmálamenn hafi frestað því að horfast í augu við staðreyndir með því að stofna til fjöldaaðstoðar, sem hafi gert ríkjunum kleift að fá risalán til að fleyta efnahagslífinu áfram um tíma.

Hann telur eins og fjöldi annarra hagfræðinga að allt bendi til þess, að Portúgalir verði innan skamms að leita á náðir ESB og AGS.

Í skýrslu sinni metur Willem Buiter vanda Spánar á þann veg að hann sé miklu meiri en hingað til hefur verið talið á fjármálamörkuðum. Hann segir að almennt telji menn að skipa eigi Spáni efnahagslega í flokk með Ítalíu, en að hans mati stendur Spánn nær Írlandi eða Portúgal í þessu tilliti.

Hann telur að spánska bankakerfið búi við miklu stærri útlánatöp til byggingafyrirtækja og húseigenda en fram komi í reikningum bankanna. Hann minnir á hve mikið fé írska ríkið hefur sett í bankakerfið, án þess að fast land sé undir fótum.

Þegar markaðurinn áttar sig á staðreyndum telur William Buiter að Spánverjar þurfi aðstoð annarra. ESB ráði hins vegar ekki yfir þeim styrk sem dugi til að hjálpa þeim. Honum finnst líklegt að Seðlabanki Evrópu taki til við að prenta peninga og feta í fótspor seðlabanka Bandaríkjanna, sem tilkynnti í nóvember að hann ætlaði að kaupa bandarísk ríkisskuldabréf fyrir 600 milljarða dollara. Prentun peninga verði eina úrræðið á evru-svæðinu, þegar neyðarsjóður þess ræður ekki við vandann á Spáni.

Eftir hrun bankanna hér á landi hneyksluðust margir á því, að viðvörunarorð Buiters hefðu ekki leitt til þess að menn gripu til þeirra ráðstafana sem dygðu til að hindra hrunið. Hið sama munu vafalaust margir segja, ef allt fer á þann veg, sem hann segir varðandi evruna,og rétt reynist að innan evru-svæðisins séu menn aðeins að ýta vanda á undan sér en ekki leysa hann, þeir treysti að prentvélar Seðlabanka Evrópu vinni þá út úr vandanum.

Sú ályktun Buiters að Ísland með risavöxnu bankakerfi gæti ekki tryggt sér öryggi nema innan ESB varð til þess að þeim óx ásmegin í málflutningi á opinberum vettvangi sem vildu Ísland inn í Evópusambandið. Hún hafði vafalaust áhrif innan Samfylkingarinnar og ýtti undir óþol manna þar eftir að komast inn í Evrópusambandið.

Jóhanna Sigurðardóttir myndaði ríkisstjórn með Steingrími J. Sigfússyni 1. febrúar 2009. Nokkrum dögum síðar, 7. febrúar, ritaði Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og sendiherra, grein í Morgunblaðið. Þar sagði meðal annars, að tafarlaust ætti að sækja um aðild að Evrópusambandinu og myntsamstarfi ESB um evru, það væri „lykillinn að lausnum á bráðavanda íslensku þjóðarinnar nú þegar.“ Aðildarumsóknin ein hefði „jákvæð áhrif í stöðunni“, eyddi óvissu og efldi traust: „Í ljósi neyðarástands mundi Ísland óska eftir flýtimeðferð.“ Þegar báðir aðilar hefðu fengið samningsumboð væri „unnt að ljúka samningum við EES-ríkið Ísland á hálfu ári. Fáeinum mánuðum síðar gæti Ísland verið komið inn í anddyri peningamálasamstarfsins (exchange rate mechanism –II). Þar með væri krónan orðin bundin evrunni á umsömdu gengi.“ Þá sagði Jón Baldvin. „Dr. Willem Buiter mælti með því í ræðu sinni í hátíðarsal háskólans [19. janúar 2009] að Íslendingar leituðu til vinveittra Norðurlandaþjóða um myntsamstarf á umræddum millibilstíma, uns upptaka evru yrði raunhæfur kostur.“

Ekkert af því sem Jón Baldvin sagði í grein sinni í febrúar 2009 hefur gengið eftir annað en það að alþingi samþykkti um sex mánuðum síðar aðildarumsókn að ESB, án þess að neitt af því hafi síðan ræst, sem hann telur að gerast myndi varðandi krónuna og efnahagslífið. Þegar Ögmundur Jónasson, dómsmálaráðherra, vakti máls á því á dögunum, að flýta bæri afgreiðslu á umsókn Íslands að ESB, ruku utanríkisráðuneytið og ESB upp á nef sér og Baldur Þórhallsson, prófessor og varaþingmaður Samfylkingarinnar, sagði berum orðum, að hugmyndir Ögmundar um viðræður við ESB byggðust á svo mikilli vanþekkingu, að ekki væri unnt að ræða þær.

Hér skal enginn dómur lagður á spá Buiters um þróun mála á evru-svæðinu og neikvæð áhrif hennar í Japan og Bandaríkin. Spáin er svört ekki síður en spá Buiters um íslenska bankakerfið á sínum tíma. Skýrslan um Ísland hafði mikil áhrif á skoðanamyndun eftir hrun, svo að ekki sé minnst á önnur skrif Buiters um Ísland á þessum tíma og komu hans hingað til lands. Málflutningur hans átti líklega meiri þátt en áður er talið í því að Samfylkingin ákvað að segja skilið við Sjálfstæðisflokkinn og taka upp samstarf við vinstri-græna sem byggðist meðal annars á umsókn um aðild að ESB.

Allir vita um framhaldið bæði hér á landi og innan ESB og á evru-svæðinu. Hvort Buiter er jafnglámskyggn á framvindu evru-vandans og á hrun íslensku bankanna kemur í ljós. Hitt er ljóst að Íslendingar eru síst betur settir í desember 2010 en þeir voru í febrúar 2009, þrátt fyrir að hafa verið í meira en eitt ár umsækjendur að ESB. Í því sambandi minnir hin nýja skýrsla Buiters á flumbrugang íslenskra stjórnvalda í tengslum við ESB-umsóknina og blekkingariðjuna sem þá var stunduð. Framhaldið hefur verið í sama anda, því að enn er reynt að blekkja almenning með ESB-talinu.

Willem Buiter minnist því miður ekki á Ísland í nýjustu skýrslu sinni. Hún sýnir hins vegar hver fráleitt er fyrir Íslendinga eða nokkra aðra þjóð að velta fyrir sér aðild að evrunni og þar með ESB um þessar mundir. Hún sýnir einnig hve réttmæt ákvörðunin með neyðarlögunum var, þegar erlendu lánardrottnanir voru látnir sitja uppi með kröfur sínar gagnvart leifunum af gömlu bönkunum. Hið dapurlega er framkvæmdin síðan. Sleifarlag slitastjórna, leynd yfir ráðstöfunum á opinberum eignum, dauðahald í gjaldeyrishaftakerfið og hörmuleg ríkisstjórn, sem hefði fyrir löngu átt segja af sér.