20.11.2010

Söguleg þáttaskil í utanríkis- og öryggismálum Íslendinga

Enn eitt dæmið bætist í safnið um grunnhyggni íslenskra fjölmiðlamanna í dag, 20. nóvember 2010, þegar litið er á viðbrögðin við því að fyrsta „hreinræktaða“ vinstri stjórn Íslands hefur staðið að því að samþykkja nýja grunnstefnu NATO og eldflaugavarnir fyrir Evrópu og Norður-Ameríku. Að enginn fjölmiðla skuli sjá ástæðu til að vekja athygli á því að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur skuli standa að þessari niðurstöðu er aðeins til marks um, að þeir, sem þar starfa, vita ekkert um stórpólitískar deilur fortíðarinnar.

Hefði einhver þá spáð því að flokkur Steingríms J. Sigfússonar, Svavars Gestssonar, Ragnars Arnalds og Hjörleifs Guttormssonar stæði að ríkisstjórn Íslands, sem samþykkti gildi NATO fyrir öryggi aðildarríkjanna og nauðsyn eldflaugavarna, hefði sá hinn sami verið afskrifaður sem ruglukollur. Nú mætti telja alla álitsgjafa í þeim hópi, ef þeir átta sig ekki á hinum sögulegu þáttaskilum í afstöðu íslenskra stjórnmálaflokka til utanríkis- og öryggismálastefnunnar

„Eldflaugavarnir munu binda NATO-þjóðirnar nánar saman,“ sagði Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO), eftir leiðtogafundinn.

Dmitri Medvedev, forseti Rússlands, hitti NATO-leiðtogana í Lissabon. Það eitt var talið mikilvægt skref af beggja hálfu, því að samskiptin versnuðu mjög eftir innrás Rússa í Georgíu síðsumars 2008. Hitt markaði síðan söguleg þáttaskil að forseti Rússlands samþykkti samstarf við NATO um eldflaugavarnirnar.

Eftir innrásina í Georgíu hertu Rússar mjög á gagnrýni sinni á fyrirhugað eldflaugavarnakerfi undir forsjá Bandaríkjamanna. Setja átti stöðvar kerfisins upp í Tékklandi og Póllandi. Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, sagðist fallinn frá hugmyndum um þessar stöðvar sumarið 2009. Töldu þá margir að Bandaríkjamenn væru hættir við að koma þessu kerfi á fót.

Eldflaugavarnakerfi hafði verið á dagskrá í rúman aldarfjórðung eða frá því að Ronald Reagan, forseti Bandaríkjanna, kynnti hugmynd sína um slíkt kerfi,  sem síðan var uppnefnd „stjörnustríðsáætlun“ hans. Fór hún mjög fyrir brjóstið á mörgum. Hér á landi einkum þeim, sem þá voru í Alþýðubandalaginu og sögðust á móti NATO og veru bandaríska varnarliðsins í landinu.

Þegar þeir Reagan og Mikhaíl Gorbatsjov hittust á fundi í Höfða í október 1986, ræddu þeir meðal annars útrýmingu allra kjarnorkuvopna. Samkomulag um málið strandaði, þegar Reagan neitaði kröfu Gorbatsjovs um að hann félli frá áformum um eldflaugavarnakerfið. Fyrir fundinn og allar götur eftir hann hafa Rússar talið áform Bandaríkjamanna um þetta kerfi ögrun í sinn garð.

Innan NATO hafa verið skiptar skoðanir um nauðsyn eldflaugavarna. Ýmsir evrópskir leiðtogar hafa verið hikandi við að ljá máls á þessum vörnum af tilliti til Rússa. Sú afstaða hefur sætt gagnrýni þeirra sem telja með öllu óviðunandi að Rússar geti hlutast til um varnir NATO-ríkjanna með því einu að sýna þvermóðsku. Að þessu sinni tóku leiðtogarnir ákvörðun sína áður en þeir hittu Medvedev að máli í Lissabon.

Eftir fundinn með Rússlandsforseta sagði Anders Fogh Rasmussen að Rússar ætluðu að vinna með NATO að því að koma upp varnarkerfi gegn langdrægum eldflaugum. Hann sagði að ritað hefði verið undir samkomulag af beggja hálfu þess efnis, að hvorugur ógnaði lengur öryggi hins. „Í fyrsta sinn í sögunni munu að báðir aðilar vinna saman að því að treysta varnir sínar," sagði Rasmussen.  Þeir myndu skiptast á upplýsingum um ógnir í himinhvolfinu gegn skotmörkum í Evrópu og „hugsanlega“ vinna saman að því að skjóta  niður ógnandi eldflaugar.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands sagði: „Sú staðreynd að við ræðum sameiginlegar hættur við Rússa og leiðir til samstarfs um eldflaugavarnir er ótrúlega mikilvægt skref. Það gæti sannað að kalda stríðinu væri endanlega lokið.“

Guido Westerwelle, utanríkisráðherra Þýskalands, sem vill að öll bandarísk kjarnorkuvopn verði sem fyrst fjarlægð frá Þýskalandi, hreyfði þeirri tillögu á fundinum að tengja eldflaugavarnir við kjarnorkuvopn. Tillögunni var hins vegar harðlega mótmælt af kjarnorkuríkjum eins og Bandaríkjunum og Frakklandi. Í grunnstefnu (strategic concept) bandalagsins sem leiðtogarnir samþykktu segir, að NATO muni treysta á kjarnorkuvarnir, þar til öll kjarnorkuvopn verði upprætt, en það sé pólitískt markmið bandalagsins.

Í aðdraganda leiðtogafundarins létu Íslendingar að sér kveða og lögðu meðal annars áherslu á að í grunnstefnu NATO yrði sérstaklega vikið að norðurslóðum og öryggisgæslu þar. Í grunnstefnunni er hins vegar ekki að finna neina tilvísun til þessa heimshluta.

Á blaðamannafundi Anders Foghs Rasmussens í tengslum við leiðtogafundinn spurði Tryggvi Hjaltason, fulltrúi Samtaka um vestræna samvinnu og Varðbergs á kynningarfundum á Lissabon, um afstöðuna til norðurslóða. Fogh Rasmussen svaraði á þann veg að hann teldi ekki neina  öryggisvá „security risks“ á norðurslóðum. NATO mundi ekki hlutast til um málefni þar.

Þessi ummæli framkvæmdastjórans endurspegla þá staðreynd, að NATO-ríki eru ekki sammála um hvernig afskiptum bandalagsins af framvindu mála skuli háttað. Það eru einkum Kanadamenn sem hafa lagt áherslu á að ríkin á svæðinu eigi að leysa úr málum þar á eigin forsendum og án afskipta annarra. Þeir hafa til dæmis staðið fast gegn fastri áheyrnaraðild ESB að Norðurskautsráðinu.

Í sjálfu sér getur ekki verið kappsmál fyrir Íslendinga, án hervarna, að ýta undir eitthvað sem kann að verða túlkað sem hervæðing á Norðurslóðum. Hitt er hins vegar staðreynd að Norðmenn, Danir og Kanadamenn, svo að ekki sé minnst á Rússa, hafa lagt á ráðin um að auka herviðbúnað á norðurslóðum.

Þá herma fréttir frá Þýskalandi að ríkisstjórn landsins sé að endurskoða stefnu sína um hernaðarleg afskipti á norðurskautssvæðinu. Varnarmálaráðherra Þýskalands sat 10. nóvember í fyrsta sinn fund varnarmálaráðherra frá ríkjum í norðurhluta Evrópu, það er frá Norðurlöndum, Þýskalandi, Póllandi og Bretlandi auk Eystrasaltsríkjanna. Eftir fundinn sagði norski varnarmálaráðherrann, sem boðaði til hans í Ósló, að ríkin ætluðu að auka samstarf sitt meðal annars með sameiginlegum heræfingum á norðurslóðum.

Thomas Kossendey, aðstoðarráðherra í þýska varnarmálaráðuneytinu, hefur sagt, að Norður-Íshaf sé eitt mest ögrandi viðfangsefni fyrir herflota komandi ára og þar kunni að verða deilur um yfirráð. Breytingamiðstöð þýska hersins útilokar ekki að NATO þurfi að láta að sér kveða á Norður-Íshafi. Klaus Naumann, fyrrverandi þýskur hershöfðingi og formaður hermálanefndar NATO, sagði á fundi hér á landi 13. september sl., að NATO hlyti að láta meira að sér kveða á norðurslóðum, þegar fram líða stundir.

Þótt þagað sé um Norður-Íshaf í grunnstefnu NATO, hafa einstök ríki bandalagsins sívaxandi áhuga á hafinu. Í þessu efni verða Íslendingar að láta að sér kveða í krafti hnattstöðu sinnar Úr því að hvorki er lengur ágreiningur um afstöðuna til NATO innan ríkisstjórnarinnar né á íslenskum stjórnmálavettvangi almennt ætti að vera auðveldara en áður að takast á við verkefni í öryggismálum í samvinnu við bandalagið og aðildarríki þess.