17.10.2010

Eva Joly kveður - umhirða í Reykjavík

Á dögunum þáði ég boð Jóns Þórissonar og Evu Joly í Norræna húsið til að kveðja Evu, sem lét af störfum 13. október sem ráðgjafi við efnahagsbrotarannsókn eftir bankahrun. Ástæðan fyrir því, að mér var boðið til þessarar kveðjustundar var sú, að síðsumars 2009 komu þau Eva Joly og Jón heim til mín með frönskum sérfræðingi í efnahagsbrotamálum. Sátu þau góða stund hjá mér og ræddum við ýmis málefni og þó sérstaklega reynslu mína af Baugsmálinu og hvers mætti vænta í ljósi þess í þeim rannsóknum, sem þá voru að fara af stað og við framvindu hugsanlegra sakamála á grundvelli þeirra.

Strax eftir hrun bankanna vaknaði sú hugmynd innan Háskóla Íslands að bjóða Evu Joly hingað til lands til að flytja fyrirlestur um reynslu sína af rannsókn efnahagsbrota. Ég veit ekki, hvað varð um þá hugmynd. Eva Joly kom hins vegar hingað snemma í mars 2009 í þátt Egils Helgasonar og ekki liðu tveir sólarhringir frá honum, þar til Ragna Árnadóttir, þáverandi dómsmálaráðherra, réð hana til starfa sem ráðgjafa. Eva Joly flutti jafnframt fyrirlestur í Háskólanum í Reykjavík, sem sýndi mér, að ekki höfðu skapast tengsl milli hennar og Háskóla Íslands, að minnsta kosti ekki á þessum tíma.

Egill Helgason notaði Evu Joly til að slá sér upp á minn kostnað og Ólafs Þórs Haukssonar, sérstaks saksóknara, eins og ég sagði frá hér á síðunni á sínum tíma og ætla ekki að rifja upp að nýju. Var það liður í samfelldri viðleitni Egils til að nýta bankahrunið til að gera á hlut þeirra, sem hafa þátt hans ekki í hávegum sökum hlutdrægni.

Þrátt fyrir ráðgjafahlutverkið hér á landi, gaf Eva Joly sér tíma til að bjóða sig fram til ESB-þingsins fyrir franska græningja í júní 2009. Hún náði kjöri og árangur hennar varð á þann veg, að nú í ágúst samþykkti þing græningja og umhverfissinna í Frakklandi að bjóða hana fram til forseta í kosningunum árið 2012. Að sameinast á bak við hana var ekki átakalaust í þessum pólitísku röðum, því að hópur græningja eins og flokkar almennt í Frakklandi er klofinn í fylkingar eða brot, sem myndast gjarnan í kringum sterka stjórnmálamenn.

Strax eftir að Eva Joly hafði sagt af sér störfum ráðgjafa fyrir opinbera aðila, hellti hún sér í stjórnmálaafskipti. Hún sat blaðamannafund með Björk í Norræna húsinu og mótmælti fjárfestingu Magma í HS Orku, taldi þar meira að segja þörf á sakamálarannsókn ofan á allar lögfræðilegar athuganir af hálfu stjórnvalda. Sunnudaginn 17. október sat Eva Joly síðan fyrir svörum í Silfri Egils og sagði þar, að Íslendingar ættu að ganga í Evrópusambandið.

Rök hennar voru meðal annars þau, að með aðild Íslendinga ykjust líkur á því, að Norðmenn gerðu þriðju tilraun til að ganga í ESB. Líklegt er, að sókn já-manna í Noregi fái vind í seglinn, fari Íslendingar að ráði Evu Joly. Hitt er ekki rétt hjá henni, að Íslendingar hafi engin áhrif á ESB-löggjöf sem aðilar að EES. Þvert á móti hafa Íslendingar fjölmörg tækifæri til áhrifa. Þau hafa því miður ekki verið nýtt sem skyldi.

Þá taldi Eva Joly, að fjarlægð Íslands frá öðrum löndum nýttist til að verja rétt þjóðarinnar yfir auðlindum sjávar. Þetta er ekki sannfærandi sjónarmið. Aðild að ESB jafngilti því, að Ísland hætti að verða strandríki. ESB yrði strandríki fyrir hönd Íslendinga eins og Skota, Englendinga og Íra. Makrílviðræðurnar, sem nú eru á döfinni, minna á, hvað það felur í sér. Nú sitja fulltrúar fjögurra strandríkja við samningaborðið, Evrópusambandsins, Færeyja, Íslands og Noregs. Ákvæðu Íslendingar að ganga í ESB yrðu strandríkin þrjú, af því að Ísland dytti úr hópnum. Það lýsir litlum skilningi Evu Joly á þjóðerniskennd Íslendinga að álíta, að þeir sætti sig við að færa strandríkisréttinn til embættismanna í Brussel. Fjarlægð þeirra frá öðrum löndum mótar einmitt þessa kennd.

Mikið bil er á milli skoðana græningja á ESB-þinginu á ágæti Evrópusambandsins og Íslendinga. Aðeins um 17% Íslendinga bera traust til ESB samkvæmt nýrri könnun. ESB-græningjaþingmenn vilja hins vegar stefna að sambandsríki Evrópu og draga úr valdi og áhrifum ríkisstjórna aðildarríkjanna. Daniel Cohn Bendit, leiðtogi græningja á þingi ESB, stóð nýlega að því að stofna hóp þingmanna og annarra til að vinna hugmyndinni um sambandsríki Evrópu brautargengi.

Ég er ósammála Evu Joly um afstöðu hennar til aðildar Íslands að ESB. Hún hefur ekki haft erindi sem erfiði við að sannfæra Norðmenn,  gamla samlanda sína, um ágæti ESB-aðildar. Hvort forsetaframboð hennar í Frakklandi verður Norðmönnum hvati til að endurskoða ESB-afstöðu sína til ESB er ólíklegt. Norskur uppruni hennar kann hins vegar að reynast Evu Joly dragbítur í forsetakosningunum. Ég hef að minnsta kosti séð í frönskum blöðum, að ekki kunna allir að meta norskan hreim Evu Joly, þegar hún talar frönsku, sem hún hefur að sjálfsögðu fullkomlega á valdi sínu. Sjálf gerir hún sér vonir um, að hún fái yfir 10% atkvæða í forsetakosningunum. Takist henni að ná þeim árangri yrði í raun um stórsigur á kvarða græningja að ræða.

Í kveðjuhófi Evu Joly kynnti Jón Þórisson, arkitekt, aðstoðarmaður hennar hér á landi, að hann hefði með öðrum ákveðið að koma á fót stofnun með nafni Evu Joly. Skilst mér, að um fjölþjóðlega stofnun sé að ræða. Takist áform um stofnunina verður hún minnisvarði um framlag Evu Joly til viðbragða hér á landi eftir hrun.

Ekki eru allir á einu máli um ágæti þess, að Eva Joly hóf afskipti af íslenskum málefnum. Hvað sem því líður, hefur Eva Joly auðveldað sérstökum saksóknara og samstarfsfólki hans að stofna til nauðsynlegra tengsla við yfirvöld í öðrum löndum. Hvort ráð hennar duga að öðru leyti, kemur í ljós. Um hlut hennar verður deilt fyrir dómstólum, þegar verjendur ákærðra leita að formsatriðum til að reyna að bjarga skjólstæðingum sínum frá efnislegri meðferð mála þeirra fyrir dómstólum.

Umhirða í Reykjavík

Á dögunum nýtti ég mér póstþjónustu á vefsíðu Reykjavíkurborgar til að vekja á ýmsu, sem ég taldi, að mætti betur fara í umhirðu á þeim leiðum, sem ég þekki best af gönguferðum mínum. Ég fékk svar og sé, að við hefur verið brugðist, að minnsta kosti að nokkru leyti, Lífrænn úrgangur hefur verið fjarlægður en svo virðist sem verkaskipting sé á þann veg innan borgarkerfisins, að þeir, sem hirða hann, láti annað rusl liggja áfram.

Ég hef oft áður skrifað hér um þá ákvörðun að reisa Háskólann í Reykjavík milli Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar. Nú er hús skólans risið þar, að vísu minna en upphaflega var ráðgert en stórt samt. Þá hefur verið gert stórt stæði fyrir bíla og er frágangur þar allur til fyrirmyndar að því er virðist.

Hitt vekur undrun, hve lítil áhersla virðist lögð á að hirða drasl við göngustiginn milli skólalóðarinnar og Öskjuhlíðarinnar. Fólk úr skólanum fer yfir stíginn til að reykja og þar má sjá sígarettupakka og kaffimál, svo að eitthvað sé nefnt. Svipað má segja um næsta umhverfi Menntaskólans við Hamrahlíð auk þess sem nemendur úr honum raða sér gjarnan við norðurhlið Hamrahlíðarinnar, því að bannað er að reykja á skólalóðinni. Þegar lögin um reykingabann á framhaldsskólalóðum voru samþykkt, hafa kannski einhverjir ímyndað sér, að þar með myndu nemendurnir ekki reykja í nágrenni skólans. Svo er ekki.

Í Menntaskólanum í Reykjavík var málum þannig háttað fyrir tæpri hálfri öld, að séð var fyrir „reykhúsi“ í fjósinu. Sé ég ekki, að okkur hafi orðið sérstaklega meint af því, sem þangað fórum í frímínútum, engum til ama. Eitt er að banna reykingar innan dyra í opinberum byggingum annað að fæla reykingamenn af lóðum hins opinbera yfir að girðingum  við einkalóðir eða jafnvel inn á þær.

Skyldi engum hafa dottið í hug að efla mætti fjárhag nemendafélaga skóla með því að semja við þau um þau um umhirðu í á skólalóðum og í næsta nágrenni skóla? Eða íþróttafélaga með því að fela þeim að sjá um umhirðu á stöðum eins Öskjuhlíðinni?