28.9.2010

Pólitískt ofstæki að baki ákæru á hendur Geir

Í  dag, 28. september, tókst 33 þingmönnum að breyta pólitískum ágreiningi í sakamál með því að ákveða, að draga skuli Geir H. Haarde fyrir landsdóm vegna bankahrunsins. Þetta er einsdæmi í Íslandssögunni. Að stjórnmálamaður skuli dregin fyrir refsidóms vegna þess, sem gerðist haustið 2008, er með öllu fráleitt.

Það er rétt, sem Geir sagði í viðtali við Kristján Má Unnarsson á Stöð 2, að Steingrímur J. Sigfússon stendur á bakvið þennan málatilbúnað , sem stjórnast af pólitísku ofstæki. Hann og hans flokkur stóð einnig fyrir upphlaupum við alþingishúsið  í kringum áramótin 2008/09. Þeim lauk, eftir að Steingrímur J. varð ráðherra.  Vinstri-grænir, þingmenn Hreyfingarinnar og nokkrir þingmenn úr röðum Samfylkingar og Framsóknarflokksins stóðu að baki atkvæðunum 33, sem dugðu til að ákæra Geir.

Geir skýrði einnig frá því í sama samtali, að annað væri uppi á teningnum núna hjá Steingrími J. en eftir þingkosningar vorið 2007, þegar hann hefði viljað fá Geir til viðræðna við sig um myndun ríkisstjórnar í sumarbústað tengdaforeldra sinna. Þetta hef ég ekki heyrt Geir segja áður, hvorki á lokuðum fundum né í fjölmiðlum. Sýnir vel, hve mjög honum er misboðið vegna framgöngu Steingríms J., að hann skuli kjósa að upplýsa þetta baktjaldamakk að frumkvæði formanns vinstri-grænna nú.

Atli Gíslason hafði það hlutverk fyrir hönd Steingríms J. að búa þannig um hnúta, að unnt yrði að ákæra pólitíska andstæðinga. Hann valdi þá leið að búa til ákæru, án þess að gefa þeim, sem hann vildi ákæra, færi á að skýra mál sitt fyrir nefnd sinni. Strax og hann sendi til ríkissaksóknara mál fyrrverandi seðlabankastjóra, varð ljóst, að ekki vakti fyrir honum, að halda efnislega á málum. Saksóknarinn taldi tilhæfulaust að ákæra fyrrverandi seðlabankastjóra. Engu að síður spurðu fréttamenn Stöðvar 2 Geir, hvort honum þætti ekki súrt í brotið að verða ákærður en ekki seðlabankastjóri. Minntu spurningarnar á, að um gamlan Baugsmiðil er að ræða.

Atkvæðagreiðslan á þingi í dag verður til að veita nýja sýn á stjórnmálastarfið í fleiri skilningi en einum. Hún sýnir enn skýrar en áður, hvernig stjórnmálamaður Steingrímur J. Sigfússon er. Hann stendur nú fyrir framan sjónvarpsvélar með „sorg í hjarta“ að eigin sögn yfir atburði, sem hann gat forðað. Að láta eins og lögbundin nauðsyn sé að ákæra Geir H. Haarde og fleiri vegna pólitískra ágreiningsmála er fráleitt.

Þá sýnir atkvæðagreiðslan einnig tækifærismennsku Samfylkingarinnar, þar sem þingmenn greiða atkvæði eftir því, hver á í hlut, þegar um refsimál er að ræða. Þetta er dæmalaus afstaða og lítilmannleg.

Í atkvæðagreiðslunni endurtók sig sama og oft hefur gerst í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, að þingmenn stjórnarflokkanna greiða atkvæði af pólitískri hentisemi.  ESB-aðildarumsóknin hefur siglt sama byr í gegnum þingið. Þeir stóðu einnig á þennan veg að afgreiðslu Icesave-málsins.

Framsóknarflokkurinn er orðinn svo einkennilegt pólitískt fyrirbrigði að erfitt er að átta sig á því. Sigmundi Davíð tekst ekki að verja afstöðu nokkurra þingmanna Framsóknarflokksins með því að skýra afstöðu þeirra á þann veg, að lögbundin nauðsyn hafi knúið nokkra þingmenn flokksins til að leggjast á sveif með vinstri-grænum og þeim, sem vildu ákæra.

Þingflokkur sjálfstæðismanna komst að þeirri niðurstöðu, að ekki væri tilefni til að ákæra samkvæmt  meginreglu refsiréttarins um, að meiri líkur þyrftu að vera á refsingu en minni. Geir fagnaði því sérstaklega, að þingmenn flokksins hefðu ekki fallið í þá pólitísku freistni að greiða atkvæði um ákærur á hendur einstaklingum eftir flokkslínum. Hann sætti sig best við, að sitja einn fyrir hönd ríkisstjórnar sinnar frammi fyrir landsdómi. Hann væri viss um, að óhlutdrægir dómarar kæmust að annarri niðurstöðu en Atli Gíslason og félagar hans.

Ég hef oft áður lýst því, hve fráleitt er, að draga ráðherra fyrir landsdóm vegna pólitískra álitaefni á þeirri forsendu, að ekki hafi verið efnt til ríkisstjórnafunda eða skrifaðar fundargerðir. Þá felst dæmalaus þverstæða í því að ákæra forsætisráðherra vegna embættisstöðu hans við hrun banka en sami hópur manna láti undir höfuð leggjast að ákæra Björgvin G. Sigurðsson, ráðherra bankamála, vegna sama bankahruns.  Að þingmenn Samfylkingar standi fyrir þeim málalyktum sannar best, að um pólitíska ákæru á hendur fyrrverandi samstarfsmanni er að ræða.

Þóra Arnórsdóttir og Helgi Seljan voru alltof æst í Kastljósi, þegar Þóra ræddi annars vegar við Geir og Helgi hins vegar við þingmennina Ólínu Þorvarðadóttur, Samfylkingu, og Sigurð Kára Kristjánsson, Sjálfstæðisflokki. Þóra fór með gömlu rulluna um ábyrgð á hruninu og leyfði Geir varla að komast að til að skýra mál sitt. Helgi reyndi að leggja að jöfnu heilsteypta og vel ígrundaða afstöðu sjálfstæðismanna og hentistefnu Samfylkingarinnar.