25.9.2010

Rjúfa ber þing og efna til kosninga

Óvissan í íslenskum stjórmálum minnkar ekki við, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar og utanríkisráðherra, birtir opinberlega bréf, sem flytur efnislega ábyrgð á því, sem liggur til grundvallar tillögu um ákæru á hendur henni, á herðar Jóhönnu Sigurðardóttur, núverandi formanni Samfylkingarinnar og forsætisráðherra, og Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra.

Á sama tíma og Ingibjörg Sólrún vinnur að þessari málsvörn eru Jóhanna og Össur á þingi Sameinuðu þjóðanna eins og Ingibjörg Sólrún árið 2008, þegar hún veiktist og varð að draga sig algjörlega í hlé um tíma og náði ekki fullri heilsu, á meðan hún sat sem ráðherra til 1. febrúar, 2009. Ingibjörg Sólrún sumarið 2008 að því að fá Ísland kjörið í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Sú kosningabarátta bar ekki árangur. Hún er nú af sumum talin til marks um, að jafnt stjórnvöld sem stjórnendur fjármálafyrirtækja hafi ofmetnast í útrásinni.

Hið einkennilega er þó, að enginn hefur verið kallaður sérstaklega til pólitískrar refsiábyrgðar fyrir að halda áfram að verja fé og mannafla til að berjast fyrir sæti í öryggisráðinu, þótt sýnt þætti, að þar næðist ekki sett markmið. Á hinn bóginn keppast þingmenn ríkisstjórnarflokkanna með dyggum stuðningi framsóknarmanna nú við að undirbúa ákærur á hendur stjórnmálamönnum fyrir atburðarás undir forystu fjármálamanna, sem sýndu fáheyrðan glannaskap og græðgi.

Störf þingmannanefndar undir formennsku Atla Gíslasonar, vinstri-græns, sem lagt hefur fram tillögu um ákærur á hendur fjórum fyrrverandi ráðherrum, eru sama marki brennd og störf utanríkismálanefndar undir formennsku Árna Þórs Sigurðssonar, vinstri-græns, sem lagði til við alþingi, að það samþykkti umsókn um aðild að ESB. Í báðum tilvikum er um að ræða flokkspólitíska einstefnu. Hjá Atla af hálfu vinstri-grænna. Hjá Árna Þór af hálfu Samfylkingarinnar. Hvorugur nefndarformannanna hafði að leiðarljósi, hvað væri best til þess fallið að skapa sátt um farsæla lausn álitamálanna, sem fyrir nefndum þeirra lágu.

Vegna þess hvernig að málum var staðið undir formennsku Atla Gíslasonar blasir við upplausn innan Samfylkingarinnar. Þar skiptast flokksmenn og þingmenn í fylkingar með og á móti ráðherrum, fyrrverandi og núverandi. Þegar Jóhanna Sigurðardóttir reynir að bera klæði á vopnin í eigin flokki með því að gagnrýna vinnubrögð Atla. Hótar hann þingrofi og stjórnarslitum!

Vegna þess hvernig Árni Þór Sigurðsson lét Samfylkinguna ráða ferðinni í ESB-málinu, logar allt í átökum meðal vinstri-grænna. Þeir segjast vera á móti aðild að ESB á sama tíma og aðildarvélin, fjármögnuð frá Brussel, mylur í þeirra umboði af vaxandi þunga og krefst þess að fá til sín æ stærri bita íslenska stjórnkerfisins.

Nú hafa tveir þingmenn Framsóknarflokksins, Vigdís Hauksdóttir og Höskuldur Þórhallsson, boðað, að þau muni í upphafi þings, sem hefst 1. október, leggja fram tillögu til þingsályktunar, um að fela dómsmálaráðherra að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda eigi áfram viðræðuferli Íslands við Evrópusambandið. Verði þjóðaratkvæðagreiðslan haldin samhliða kosningum til stjórnlagaþings sem fara fram þann 27. nóvember 2010.

Fyrir því þingi, sem nú situr, liggur tillaga um að afturkalla ESB-aðildarumsóknina. Að hún komist til atkvæðagreiðslu í því upplausnarástandi, sem nú ríkir á þingi, er borin von. Eðlilegt er, að við upphaf nýs þings ræði þingmenn alla kosti til að bjarga þjóðinni úr þeim vanda, sem ríkisstjórnin skapaði með því að sækja fyrirhyggjulaust um ESB-aðild.

Eins og málum er komið, ætti nýtt þing að komast að þeirri niðurstöðu, að skynsamlegasta úrræðið til að koma skikki á störf alþingis og stjórn ríkisins væri að rjúfa þingið og efna til nýrra kosninga til þess. Kosningum til stjórnlagaþings yrði frestað og kosið til alþingis 27. nóvember 2010.

Þetta er hin eina ábyrga afstaða, sem þingmenn geta tekið í núverandi stöðu. Stjórnarsamstarfið er í molum, stjórnarflokkarnir í upplausn og allt rekur á reiðanum. Við slíkar aðstæður ber að leggja mál fyrir kjósendur og fela þeim þá ábyrgð að kjósa nýtt fólk til forystu.