20.9.2010

Vinstri villa við beitingu stjórnarskrárákvæða


Hvort heldur rætt er um beitingu á 26. grein stjórnarskrárinnar, um synjunarvald forseta Íslands á lögum, eða landsdóm, kemur í ljós, að þeir, sem hafa skipað sér á vinstra kant stjórnmálanna, hafa gengið lengra í beitingu þessara ákvæða en borgaralegir stjórnmálamenn. Þá hafa ákvarðanir um notkun þessara úreltu lagaákvæða leitt til ágreinings meðal vinstri manna. Er líklegt, að vegna hans verði víðtækari samstaða en ella um að breyta þessum ákvæðum stjórnarskrárinnar.

Ólafur Ragnar Grímsson, sem á sínum tíma sagði skilið við Framsóknarflokkinn og reri á pólitísk mið til vinstri við hann, varð fyrstur forseta til að beita 26. grein stjórnarskrárinnar. Þetta gerði hann 2. júní árið 2004.

Ólafur Ragnar beitti hinu umdeilda forsetavaldi þó ekki fyrst í þágu alþýðunnar heldur Baugsmanna, sem heimtuðu frelsi til að sölsa undir sig smásölumarkað og fjölmiðlamarkað landsmanna. Valdbeiting Ólafs Ragnars leiddi til þess, að Baugsmenn gátu sölsað undir sig eins mikið af fjölmiðlamarkaðinum og þeir kusu. 

Ákvörðun Ólafs Ragnars var að öðrum þræði hefnd af hans hálfu í garð Davíðs Oddssonar. Ólafur Ragnar slóst þar í för með stjórnarandstöðunni, Samfylkingu og vinstri-grænum, sem skipuðu sér undir merki Baugsmanna í baráttunni fyrir frelsi þeirra til að ráðskast með fjölmiðla að eigin vild.

Þegar Ólafur Ragnar beitti neitunarvaldinu, var Sigurður G. Guðjónsson, forsvarsmaður forsetaframboðs hans 1996 og 2000, forstjóri Norðurljósa, eignarhaldsfyrirtækja Baugsmiðlanna. Baugsmenn losuðu sig við Sigurð G. um fjórum mánuðum, eftir að Ólafur Ragnar rétti þeim hjálparhönd.

Aðstaðan var önnur, þegar Ólafur Ragnar beitti neitunarvaldinu öðru sinni, í ársbyrjun 2010. Þá höfðu um 60.000 manns sent forsetaembættinu áskorun um, að þjóðin fengi að segja álit sitt á Icesave-lögum Steingríms J. Sigfússonar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ólafur Ragnar varð við þeirri kröfu. Þjóðaratkvæðagreiðslan um lögin fór fram 6. mars, 2010. 98% kjósenda, sem tók afstöðu, hafnaði Icesave-lögunum.

Þegar Ólafur Ragnar beitti neitunarvaldinu fyrra sinni, ræddi hann við Davíð Oddsson í síma og sagði honum í fáum orðum, hvað hann ætlaði að gera. Davíð taldi, að fyrir ákvörðun forseta hefði ríkisráðið átt að koma saman. Þar hefði forseti átt að gera grein fyrir afstöðu sinni.

Í seinna skiptið bar Steingrímur J. Icesave-lögin upp til staðfestingar við forseta á ríkisráðsfundi, 31. desember, 2009. Ólafur Ragnar lét ekki svo lítið á fundinum að skýra ráðherrum frá því, hvað hann ætlaði að gera. Hann tók sér umhugsunarfrest! Jóhanna Sigurðardóttir sætti sig við það og Steingrímur J. líka. Hann sagði að vísu nokkrum dögum síðar, að það hefðu verið mistök hjá sér. Forseti hefði átt að afgreiða málið í ríkisráðinu.

Í báðum þessum tilvikum gekk Ólafur Ragnar á svig við þá túlkun á 26. grein stjórnarskrárinnar, að forseta bæri að virða þingræði við ákvörðun sína. Hann hafnaði einnig þeirri lögfræðilegu skýringu, að vegna ábyrgðarleysis forseta á stjórnarathöfnum, þyrfti ráðherra að eiga aðild að beitingu 26. greinarinnar.

Engum borgaralega sinnuðum forseta hefði dottið í hug að feta þá braut við túlkun og beitingu á 26. grein stjórnarskrárinnar, sem Ólafur Ragnar hefur gert. Hann hefur hrifsað til sín völd, sem með öllu er óeðlilegt, að einn maður hafi og beiti án samráðs í ríkisráði. Ólafur Ragnar hefur endanlega breytt ríkisráðinu í tildur með framgöngu sinni.

Vinstri-grænir settust í ríkisstjórn 1. febrúar 2009, fyrstu hreinræktuðu vinstri stjórnina. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lagði grunn að þessari ríkisstjórn með því að krefjast þess af Geir H. Haarde, að hann viki sæti sem forsætisráðherra fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur. Hefði Geir gert það, hefði Samfylkingin setið áfram í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Geir hafnaði hins vegar þessum afarkostum og stóð allur þingflokkur sjálfstæðismanna að baki honum.

Tvö meginmál bjuggu að baki stjórnarmynduninni. Í fyrsta lagi, að Samfylkingin næði fram því stefnumarki sínu, að Ísland sækti um aðild að ESB. Í öðru lagi, að vinstri-grænir næðu sér niðri á Sjálfstæðisflokknum.

Nú hefur verið skýrt frá því, að fyrir myndun stjórnarinnar 1. febrúar 2009 hafi verið rætt um, að Svavar Gestsson yrði aðalsamningamaður Íslands við ESB. Af því varð ekki. Hann varð hins vegar aðalsamningamaður Íslands um Icesave. Ætlun hans og Steingríms J. var að búa þannig um hnúta, að örugglega yrði unnt að klína öllu Icesave-málinu á Sjálfstæðisflokkinn. Þau áform runnu út í sandinn, eftir að Ólafur Ragnar beitti neitunarvaldi sínu.

Næsta skipulega atlaga vinstri-grænna að sjálfstæðismönnum felst í þeirri tillögu Atla Gíslasonar, þingmanns vinstri-grænna, að draga þá Geir H. Haarde og Árna M. Mathiesen fyrir landsdóm. Atli treysti sér þó ekki að einblína á sjálfstæðisráðherra við gerð ákærunnar heldur ákvað að draga samfylkingarráðherrana Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttuir og Björgvin G. Sigurðsson undir ákæruhattinn.

Í tilefni af því, að Atli Gíslason og meðnefndarmenn hans ákváðu að dusta rykið af landsdómslögunum, sneri Morgunblaðið sér til Guðmundar Hálfdanarsonar, prófessors í sagnfræði í Háskóla Íslands. Í blaðinu sagði laugardaginn 18. september (feitletrun mín):

„Árið 1962 er ákveðið að semja ný lög um landsdóm vegna þess að ákvæði um hann eru í stjórnarskránni. Mönnum finnst að þess vegna verði þessi dómur að vera til. Lögunum er því breytt, fyrst og fremst til að gera reglurnar um skipan dómsins skiljanlegri og framkvæmanlegri.

Það er alveg greinilegt af umræðunum um frumvarpið árið 1962 að mönnum finnst þetta eiginlega vera úrelt. Bjarni Benediktsson, þáverandi dómsmálaráðherra, segir að þessir dómstólar, sem eru á þeim tíma til víðast hvar í Evrópu og sjálfsagt ennþá, séu upphaflega hugsaðir til að hafa hemil á þjóðhöfðingjanum. Í stjórnarskránni er það formlega séð forsetinn sem skipar framkvæmdavaldið. Þetta hafði verið virkt í Evrópu víðast hvar alveg fram undir lok 19. aldar. Þetta var því leið löggjafarvaldsins til að hafa hemil á framkvæmdavaldinu.

Bjarni segir síðan að nú sé framkvæmdavaldið komið undir löggjafarvaldið, meirihluti Alþingis skipi framkvæmdavaldið og því sé ekki nein sérstök þörf fyrir þetta lengur. Þetta er hins vegar í stjórnarskrá og því er landsdómur áfram skipaður.“

Guðmundur sagði að segja mætti að Bjarni og Ólafur Jóhannesson [prófessor í stjórnskipunarrétti og síðar formaður Framsóknarflokksins], sem samdi lögin um landsdóm og ráðherraábyrgð, hefðu litið landsdóm sömu augum og neitunarvald forseta. Þetta væri eins konar neyðarhemill sem þeir reiknuðu ekki með að yrði notaður.

Í umræðunum um landsdóm árið 1962 segir Bjarni að það séu tvær aðalleiðir til að dæma ráðherra. Annar vegar að það sé samþykkt vantraust á ráðherra á Alþingi og hann missi þar með embættið. Hins vegar ef þeir brjóta landslög þá fari málið fyrir almenna dómstóla. Guðmundur sagði að í umræðunum 1962 hefðu þingmenn ekki reynt að lýsa því hvernig þeir sæju fyrir sér að landsdómur kæmi til með að starfa.“

Ólafur Jóhannesson varð formaður Framsóknarflokksins. Ólafur Ragnar var þá í Framsóknarflokknum. Hann lenti í útistöðum við Ólaf Jóhannesson. Vegna ágreinings þeirra stofnaði Ólafur Ragnar Möðruvallahreyfinguna til vinstri við Framsóknarflokkinn. Síðar gekk Ólafur Ragnar í Alþýðubandalagið. Þar myndaði hann forystusveit með Steingrími J. og Svavari Gestssyni.

Eftir að Ólafur Ragnar lét undan þrýstingi almennings í Icesave-málinu og lausn þeirra Svavars og Steingríms J. á Icesave-deilunni var hafnað á eftirminnilegan hátt, hafa þeir félagar harðlega gagnrýnt beitingu Ólafs Ragnars á 26. grein stjórnarskrárinnar. Vilja þeir, að önnur úrræði verði sett í stjórnarskrána um leiðir til að vísa málum til þjóðaratkvæðagreiðslu. Má ætla, að víðtæk samstaða sé á alþingi um að afnema 26. greinina.

Beiting vinstri manna á landsdómsákvæði stjórnarskrárinnar verður að líkindum til þess, að það ákvæði verði einnig numið á brott í stjórnarskránni. Æ fleiri átta sig á því, að túlkun Atla Gíslasonar og þeirra, sem hallast að ákærumálstað hans, stenst ekki neinar kröfur, sem eðlilegt er að gera til ákæru.

Framganga Ólafs Ragnars undir merkjum 26. gr. stjórnarskrárinnar varð til griðrofa milli hans og Steingríms J. Sigfússonar. Framganga Atla Gíslasonar með stuðningi Steingríms J. til að breyta pólitískum andstæðingum í sakamenn hefur leitt til klofnings meðal stjórnarflokkanna, eftir að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði á alþingi 20. september, að hún hefði efasemdir um, að rétt væri að ákæra ráðherrana fjóra, sem meirihluti nefndar Atla vildi að yrðu dregnir fyrir landsdóm. Jóhanna sagði, að á þeim tíma sem ráðherrarnir sátu í embættum sínum hefðu þeir ekki getað komið í veg fyrir hrun fjármálakerfisins. Ítarlegri rannsókn hefði átt að fara fram á meintri vanrækslu þeirra gert hefði verið af nefnd Atla.

Þessi yfirlýsing Jóhönnu kom þingmönnum vinstri-grænna í opna skjöldu. Fyrir Jóhönnu vakir fyrst og síðast að gæta hagsmuna Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, sem gerði hana að forsætisráðherra. Ingibjörg Sólrún hefur gengið á fund framkvæmdastjórnar og þingflokks Samfylkingarinnar til að gagnrýna niðurstöðu Atla Gíslasonar.

Sama ástæða er fyrir ágreiningi meðal vinstri manna um landsdóminn og 26. greinina – um er að ræða valdbeitingu í pólitískum tilgangi.  Ólafur Ragnar hefur reynst óútreiknanlegur í ákvörðunum sínum og aðferð við notkun á 26. greininni. Verði farið að kröfu Atla Gíslasonar um ákærur fyrir landsdómi, yrði viðurkennd ný duttlungakennd aðferð við túlkun á stjórnlögum. Alþingi getur stöðvað ofríki Atla Gíslasonar með því að fella ályktun hans um ákærur. Alþingi verður hins vegar að breyta stjórnarskránni til að verjast duttlungum Ólafs Ragnars.

Óvarleg meðferð vinstrisinna á stjórnlögum lýðveldisins hefur skapað pólitíska upplausn í þeirra röðum og öryggisleysi um stjórnskipun ríkisins. Hvort tveggja skapar vanda og óvissu, sem verður að eyða með breytingum á stjórnarskrá.